John Mearsheimer um mannfallstölur í Úkraínustríðinu

5. janúar, 2025

Prófessor John Mearsheimer, einn fremsti sérfræðingur í heimi í alþjóðatengslum, sem er þekktur fyrir að sérhæfa sig í raunsæisstefnu í alþjóðastjórnmálum (realisma), mætti í sitt fyrsta viðtal á nýju ári í hlaðvarpinu Judging Freedom hjá Andrew Napolitano.

Hann var m.a. spurður um Norður-Kóreska hermenn og mannfall í Úkraínustríðinu.

Það var mjög fróðlegt að heyra það sem Mearsheimer hafði að segja um þessi mál. En hann hrekur með rökum og sönnunargögnum þessa ósönnuðu stríðsáróðursmýtu sem hefur verið haldið fram í öllum helstu meginstraumsfjölmiðlum á Vesturlöndunum að rússneski herinn hafi orðið fyrir talsvert meira mannfalli í stríðinu heldur en úkraínski herinn.

Andrew Napolitano

Hefur þér tekist að staðfesta þessar sögusagnir um hvort að norður-kóreskir hermenn séu að berjast á víglínunni í Úkraínustríðinu?

John Mearsheimer

Mér hefur ekki tekist að átta mig almennilega á því. Það er erfitt að fullyrða um þessi mál, vegna þess að Vesturlönd og Úkraína hafa hagsmuni af því að spinna upp þessa sögu um að Norður-Kóreumenn séu beinir þátttakendur í stríðinu. Það er gert í því skyni að láta Rússa líta illa út, og til að skapa meiri stuðning við Úkraínu. Ég legg ekki mikla trú á hvorki svona vestrænan né úkraínskan stríðsáróður.

Andrew Napolitano

En samkvæmt þessum áróðri sem við höfum fengið að heyra í vestrænum og úkraínskum fjölmiðlum eru Úkraínumenn nú þegar að stráfella Norður-Kóreumenn í Kúrsk.

John Mearsheimer

Já, en í hvert skipti sem er verið að tala um mannfallstölur—það sem Úkraínumenn segja og það sem Vesturlönd segja um mannfall í Úkraínustríðinu—um hversu margir rússneskir hermenn hafa fallið eða hversu mörgum Norður-Kóreumönnum hefur verið slátrað o.s.frv., þá vitum við að þessar tölur eru alltaf stórlega ýktar.

Það er í raun alveg merkilegt hversu mikið Úkraínumenn hafa dragið úr sínu eigin mannfalli á sama tíma og þeir ýkja tölurnar alveg stórlega fyrir mannfall Rússa, sem þeir hafa reynt að hámarka alveg upp úr öllu valdi.

En ef eitthvað er, þá eru það Úkraínumenn sem hafa orðið fyrir mun meira mannfalli heldur en Rússar. Það eru allskonar vísbendingar og sönnunargögn sem benda til þess.

Núna nýlega hafa verið birtar margar greinar sem fjalla um það hvernig Rússar og Úkraínumenn hafa verið að skiptast á líkum dauðra hermanna. Þ.e. líkum hermanna sem eru í haldi hins aðilans [svipað og hvernig stríðandi fylkingar skiptast reglulega á stríðsföngum]. En þegar hermenn deyja á víglínunni og lík þeirra falla í hendur óvinarins, þá skila Úkraínumenn líkum rússneskra hermanna til baka til Rússlands, á móti því að Rússar skila til baka líkum úkraínskra hermanna sem eru í þeirra höndum aftur til Úkraínu.

Í síðustu þrjú skipti sem að slík skipti hafa átt sér stað, þá voru 10 lík úkraínskra hermanna á móti einum rússneskum. Þegar þú skoðar tölurnar fyrir öll þessi skipti frá upphafi, og leggur allt saman, þá er hlutfallið 8,5 á móti 1. Með öðrum orðum hafa verið 8,5 dauðir úkraínskir hermenn fyrir hvern og einn dauðan rússneskan hermann.

Þetta segir okkur að það eru mun fleiri Úkraínumenn sem hafa fallið á víglínunni heldur en Rússar. Sérstaklega þar sem Rússar hafa gríðarlegt forskot í stórskotaliði [artillery] og lofthernaði [air power], þá kemur þetta í raun ekki á óvart.

En—aftur—ef þú hlustar á þennan stríðsáróður kem kemur frá Úkraínu, sem er síðan endurtekinn gagnrýnislaust í dagblöðum eins og The Wall Street Journal og The New York Times [og einnig í fjölmiðlum á Íslandi eins og á RÚV, Vísi og Mbl], þá er dregin upp alveg þveröfug mynd af raunveruleikanum. Okkur er talin trú um að það séu frekar Rússar sem eru að missa 8,5 hermenn á móti hverjum Úkraínumanni sem fellur í stríðinu.

Andrew Napolitano

Sú tala sem ég hef fengið að heyra frá aðilum sem hafa komið í viðtal hér á þessari rás, aðilar eins og Larry Johnson [fyrrum starfsmaður CIA], Alistair Crooke [breskur diplómati], Scott Ritter [vopnaeftirlitsmaður og hernaðarsérfræðingur], og Douglas MacGregor [fyrrum herforingi í bandaríska hernum], þeir segja að Úkraína hafi misst hátt í 600.000 hermenn, sem er alveg gríðarlega mikið af ungum mönnum. Þá er verið að tala um hermenn sem hafa fallið [killed], ekki særðir.

John Mearsheimer

Það kæmi mér ekki á óvart ef þessar tölur eru réttar. Ég hef áður bent á að Úkraínumenn segja sjálfir að um 80% af öllu mannfalli í þessu stríði er út af stórskotaliði [artillery]. Og þar sem flestir fjölmiðlar (sem hafa flutt fréttir af þessu) hafa verið á sama máli um að forskot Rússa þegar kemur að stórskotaliði er frá 5 á móti 1, upp í 10 á móti 1, [sem þýðir að Rússar eru með 5 til 10 sinnum fleiri fallbyssur og skjóta 5 til 10 sinnum fleiri sprengikúlum á dag heldur en Úkraínumenn], þá þýðir það að mannfall Úkraínumanna hlýtur að vera talsvert hærra, ef ekki margfalt hærra, heldur en hjá Rússum. 

Þannig að mér sýnist að þessar tölur séu ekki fjarri lagi. Mannfall Úkraínu hefur verið gríðarlegt í þessu stríði. Við getum séð það bara út frá þessari tölfræði um stórskotaliðið, bæði að vitað er að stórskotalið veldur mestu mannfalli á vígvellinum, og að Rússar hafa verið að nota stórskotalið í margfalt meiri mæli heldur en Úkraínumenn.

Hafið þetta síðan í huga samhliða því sem ég minntist á áðan, að það eru mun fleiri lík úkraínskra hermanna heldur en Rússa í þessum skiptum sem hafa átt sér stað á milli þeirra [en það eru tölur sem vitum um með vissu, hafa verið staðfestar, en eru ekki eintómar getgátur eins og allt hitt].

Þannig að—það er ekki ólíklegt að 600.000 úkraínskir hermenn hafa fallið í þessu stríði. Sem er alveg skelfilega há og óhugnanleg tala.

Þýðandi: Tjörvi Schiöth. Viðtalið í fullri lengd má nálgast hér