Hvað nú – Katrín?

10. mars, 2019 Þorvaldur Þorvaldsson


Albaniuvaldi
Þorvaldur Þorvaldsson

Sæl Katrín.

Nú er allnokkuð liðið frá því þú lýstir stuðningi við valdarán í Venesúela og ekki hefur bólað á svari frá þér við fyrra bréfi mínu um málið. Þú sagðir reyndar einhvers staðar á þá leið að ríkisstjórn Íslands styddi ekki ofbeldis- eða hernaðaraðgerðir til að fylgja málinu eftir. Nú er hins vegar fulltúi ykkar Trumps farinn að kalla eftir auknu ofbeldi og þar á meðal hernaðaríhlutun. Er það þá ekki tilefni til að endurskoða afstöðuna til hans?

Ögranir Juan Guaido og tilraunir hans til að efna til glundroða virðast vera að renna út í sandinn. Hann er útsendari Bandaríkjanna og hefur þá stefnuskrá að afhenda bandarískum auðhringum olíuna á silfurfati. Mikið flóknara er það ekki. Ef þú hefur í raun haldið að málið snérist um að seðja hungur alþýðunnar og bæta kjör hennar, ættir þú að krefjast þess á alþjóðavettvangi að efnahagsþvingunum gegn landinu verði aflétt. Þær eiga stærstan þátt í vanda fólksins í Venesúela. Ég get fullvissað þig um að 20 milljónirnar sem sendar voru úr íslenska ríkiskassanum fóru ekki í að metta svanga munna, heldur í hernaðinn gegn þjóð Venesúela.

Allur ykkar málatilbúnaður er byggður á lygi. Lygi um hungursneyð í Venesúela. Lygi um orsakir þess vanda sem þjóðin stendur frammi fyrir. Lygi um meinta meinbugi á forsetakosningum s.l. vor. Þögn um þær umbætur sem orðið hafa undanfarin 20 ár þrátt fyrir stöðug skemmdarverk og valdaránstilraunir yfirstéttarinnar, sem enn fær of mikið svigrúm til að grafa undan samfélaginu. Þess vegna er 80% þjóðarinnar í Venesúela á móti íhlutun ykkar Trumps og mun berjast gegn henni, jafnvel þótt komi til hernaðar.

Það er kannski erfitt að skipta um skoðun og viðurkenna að sú fyrri hafi verið röng og jafnvel glæpsamleg. Ef þér er annt um lýðræðisleg skoðanaskipti hvet ég þig þó til að vera til staðar í stjórnarráðshúsinu á laugardaginn kl. 14 og taka við orðsendingu frá Vinum Venesúela, sem ætla að mótmæla árásunum á Venesúela og lýsa yfir stuðningi við fullveldi landsins. Það er það minnsta sem ærlegir lýðræðis- og fullveldissinnar geta gert.

Þorvaldur Þorvaldsson, trésmiður.