Human Rights Watch: Áróður í nafni mannréttinda?

25. nóvember, 2019


Mannréttindavaktin, Human Rights Watch, eru fjársterk alþjóðleg samtök með höfuðstöðvar í New York. Þau fylgjast með mannréttindabrotum og hafa mikil áhrif á alþjóðamálin og eru mikið notuð sem heimild fyrir fréttum á Íslandi eins og um allan heim. En samtökin eru ekki og hafa aldrei verið hlutlæg, heldur eru hönnuð sérstaklega til að gagnrýna ákveðna aðila en fara silkihönskum um aðra. Í átökum eins og t.d. Líbíustríði og Sýrlandsstríði eða Venesúela og Bólivíu árið 2019 hefur einhliða málflutningur þeirra beinlínis þjónað kröfunni um „valdaskipti“. Samtímis fara samtökin silkihönskum um utanríkisstefnu ríkja á borð við Bandaríkin. Þegar saga og eðli samtakanna er skoðuð sést að sú nálgun er fullkomlega fyrirsjáanleg.


Ein stærstu mannréttindasamtök í heimi, en…

Human Rights Watch eru önnur stærstu mannréttindasamtök heims. Þau stunda umfangsmikla starfsemi og rannsóknir þeirra hafa verið notaðar í alþjóðlegum réttarhöldum. Þau hafa gert mikið gagn á heimsvísu, meðal annars með því að fá stórbrotamenn í mannréttindamálum úr umferð, og hafa mikil áhrif á heimspólitíkina. Fjölmargir aðilar vinna þar gott starf í þágu mannréttinda og oft hafa skýrslur frá þessum samtökum veitt innsýn í hernaðarátök sem aðrir hafa ekki geta gert, enda eru skýrslur þeirra oftast unnar á grundvelli fagmennsku.

En þessi samtök eru ekki og hafa aldrei verið hlutlæg, hvorki í því hvaða áherslumál þau velja sér né hvernig þeir vinna. Ekki eru allir jafnir þegar kemur að Human Rights Watch. Þetta er vegna þess að helsti tilgangur samtakanna hefur aldrei verið beinlínis að gæta mannréttinda almennt. Þetta hafa framámenn samtakanna aldrei farið í felur með og það væri rangt af fjölmiðlum að reka ekki varnagla í fréttatilkynningar þeirra af þessum sökum.

Þessi samtök stunda, að minnsta kosti að hluta til, ákveðna tegund af pólitískum áróðri1 sem virðist fara æ meira í aukanna. Hún felst í því að beina athyglinni að, eða jafnvel ýkja, glæpi ákveðinna aðila en gera lítið úr eða hunsa glæpi annarra og einnig að auka hróður ákveðinna ríkja og fyrirtækja á kostnað annarra. Það er nóg að skoða þeirra eigin heimildir og yfirlýsingar helstu stjórnarmanna þeirra til að komast að þessu.


Hlutdrægni frá upphafi

Human Rights Watch hét áður Helsinki Watch. Þau samtök voru stofnuð árið 1978 sem einkafyrirtæki að frumkvæði Roberts L. Bernsteins, en stofnfé samtakanna kom að stórum hluta frá styrktarsjóði Ford-samsteypunnar. Bernstein sagði síðar um tilurð samtakanna: „Við vildum koma í veg fyrir að Sovétríkin og fylginautar þeirra gætu notað siðferðislega gagnrýni gegn Vesturlöndum og um leið að hvetja til frjálshyggjuvæðingar með því að beina athyglinni að gagnrýnendum á borð við Andrei Sakharov, Natan Wharonsky og þá í sovésku gúlögunum“ (Bernstein, 2009). Þar eð yfirlýst starfsemi félagsins var að fylgjast sérstaklega með Sovétríkjunum í þessu samhengi bar þetta með sér að samtökin fylgdumst ekki sérstaklega með því hvort Vesturveldin fylgdu þessum samningum. Það að samtökin berðust sérstaklega fyrir ákveðinni stjórnmála- og efnahagsstefnu (markaðsfrjálshyggju) felur einnig í sér beina pólitíska slagsíðu. Það er því alveg ljóst að samtökin voru frá upphafi hlutdræg, ef þau beindu ekki beinlínis pólitískan áróður í nafni mannréttinda.

[Hér er notast við eftirfarandi skilgreiningu á áróðri: “tilraunir hagsmunahópa til að ná almenningi á sitt band á laun með því að koma skilaboðum fyrir í ýmsar almenningssamskiptarásir sem almennt eru álitnar ópólitískar og hlutlægar” (Sproule, 1994).]

Yfirlýst meginmarkmið samtakanna var að fylgjast með því hvort Sovétríkin myndu brjóta hina svokölluðu Helsinki samninga, en þetta var sáttmáli sem skrifað var undir árið 1975 og átti að bæta samskiptin milli Austurblokkarinnar og Vesturblokkarinnar. Þetta voru alls 10 greinar í sáttmála um að virða landamæri annarra ríkja, virða sjálfstæði ríkja, nota ekki hernaðarlegan mátt sinn gegn öðrum ríkjum, finna friðsamar lausnir á milliríkjadeilum, að íhluta ekki í innanríkismál annarra ríkja, virða mannréttindi innan eigin landamæra auk grundvallarréttinda til málfrelsis, trúfrelsis o.s.frv., réttindi þjóða innan landamæra, samvinnu og virðingu fyrir alþjóðalögum.

Samtökin voru gagnrýnd strax í upphafi fyrir að vera and-sovésk áróðurssamtök og til að svara þeirri gagnrýni um það stofnuðu samtökin Americas Watch sem átti að fylgjast með mannréttindabrotum í Ameríkuálfunum árið 1981. Í kjölfarið komu einnig samtök fyrir Asíu, Afríku og Mið Austurlönd. Árið 1988 voru allar þessar stofnanir sameinaðar undir nafninu „Human Rights Watch“. Þetta hafði ekki áhrif á hlutdrægni samtakanna. Nú beindist slagsíðan einfaldlega einnig að öðrum ríkjum og stofnunum sem voru í ónáð á Vesturlöndum.

Það er því í anda HRW að hvað Ameríkuálfurnar snertir eru það ríki á borð við Kúbu, Venesúela og önnur óþæg ríki hvað Bandaríkin varðar sem fá langmesta athygli HRW. 118 fræðimenn frá Norður- og Suður Ameríku sendu því frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem samtökin voru gagnrýnd harðlega í kjölfar útgáfu skýrslunnar „A Decade Under Chávez: Political Intolerance and Lost Opportunities for Advancing Human Rights in Venezuela“ (Holland et. Al, 2008). Sú skýrsla var unnin undir handleiðslu hins sílenska José Miguel Vivanco og hann fór ekki leynt með að skýrslan var unnin í pólitískum tilgangi. Í viðtali við dagblaðið „El Universal“, en það er ásamt dagblaðinu „El Nacional“ öflugasta málgagn stjórnarandstæðinga í Venesúela, sagði Vivanco: „Við unnum þessa skýrslu vegna þess að við vildum sýna heiminum að Venesúela er ekki fyrirmynd fyrir neinn“ (El Universal, 2008). Í gagnrýni fræðimannanna segir að skýrslan „mæti ekki svo mikið sem lágmarkskröfum um fræðimennsku, hlutlægni, nákvæmni eða áreiðanleika“ (COHA, 2008). Meðal þess sem tekið er í gagnrýni fræðimanna eru að skýrslan setji fram harðar fullyrðingar á borð við „forsetaembætti Chavez hefur einkennst af pólitískum ofsóknum“ sem svo séu alls ekki studdar með gögnum. Eina sönnunin fyrir þessum ásökunin sé frásögn 98 ára gamallar konu sem hélt því fram að hún hafi ekki fengið að kaupa lyf vegna þess að hún hafi kosið vitlaust. Í skýrslunni var fullyrt að borgurum hafi verið hótað að vera sett á svartan lista á opinberar stofnanir fyrir þátttöku í kröfum um afsögn forsetans, en fyrir því var ein heimild, sem var úr símtali við frænda eins manns sem hélt þessu fram (sjá nánar hér).

Human Rights Watch hafa, eins og fleiri meint mannréttindasamtök, beinlínis gerst málsvarar fyrir stríðsrekstri. Samtökin spiluðu til dæmis algjört lykilhlutverk í að afla stuðning við árásarstríði gegn Líbíu undir glityrðinu „flugferðarbann“ árið 2011. Þá baráttu leiddi Suzanne Nossel, sem áður starfaði hjá hinni herskáu valdaskiptastofnun Council for Foreign Relations og Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna áður en hún tók lykilhlutverk í hinum gríðarstóru samtökum HRW og Amnesty. Yfirlýst stefna hennar var að yfirvinna mótþróa almennings á Vesturlöndum fyrir hernaðaríhlutunum með því að breyta um taktík á þá vegu að í stað notkunar Bandaríkjahers sjálfs skyldi notast við svokalla „Smart Power“, sem einmitt felst m.a. í því að nota mannúðarsjónarmið til að auka fylgi við stríðsrekstur. Sjá nánar hér.


Hverjir eru Human Rights Watch?

Human Rights Watch er, eins og önnur samtök, vinna ákveðins fólks með ákveðnar skoðanir. Hverjir helstu ráðamenn og lykilstarfsmenn í þessu félagi eru segir sitt um hvers konar pólitískar áherslur félagið sjálft hampar. Í samtökunum eru um 400 stjórnarmenn, en flesta þeirra má kynna sér á heimasíðu samtakanna. Í sannleika sagt lítur þessi listi meira út en stjórn viðskiptabanka en mannréttindasamtaka. Nánast allir æðstu stjórnarmenn HRW eru einnig meðlimir í stórum fjárfestingafélögum eða tengjast bandarísku leyniþjónustunni. Þetta eru því ekki beinlínis samtök hippa eða sauðsvarts almúgans. Hér getur að líta þá aðila sem fyrstir eru kynntir á heimasíðu samtakanna sjálfra.

Meðal æðstu stjórnenda eru James F. Hage Jr., varaformaður, en hann var áður stjórnarmaður í hinni valdamiklu skuggastofnun Council on Foreign Relations. Sú stofnun hefur unnið fyrir hagsmuni yfirþjóðlegra auðhringja frá því hún var stofnuð árið 1921. Það voru Ford-sjóðurinn og Rockefeller styrktarsjóðurinn sem komu þeirri stofnun á fót.

Michael G. Fisch, stjórnarmaður og gjaldkeri, er einnig formaður í einkafjárfestingarrisanum American Securities. Fyrirtækið hefur aðsetur í Shanghai og leggur áherslu á að auka fjárfestingar í Bandarískum fyrirtækjum.

Robert Kissane er einnig stjórnarformaður CCS Fundraising, sem eru risastór bandarísk fjáröflunarsamtök. Sonur Kissane er fyrrverandi herforingi í Bandaríska hernum og núverandi leyniþjónustufulltrúi hjá Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.

Hassan Elmasry, einn æðsti stjórnandi HRW, er einnig sjóðsstjóri hjá Morgan Stanley bankanum, en þar stjórnar hann ýmsum fjárfestingarsjóðum. Hann er einnig meðlimur hjá hinum áhrifaríku samtökum fjárfestsa, CFA institute.

Oki Matsumoto, stjórnarmaður, er einnig stjórnarformaður Monex group, Inc. sem er eitt stærsta fjárfestingarfélag Japans. Hann stofnaði sjálfur fyrirtækið með eigin fjárframlögum auk fjármagns frá Sony fyrirtækinu.

Kenneth Roth er núverandi framkvæmdarstjóri Human Rights Watch. Hann tók við starfinu þegar fyrirrennari hans, Aryeh Neier, tók við nýju starfi sem framkvæmdarstjóri samtaka George Soros, Open Society Institute árið 1993. Roth hefur verið gagnrýndur harðlega fyrir pólitíska slagsíðu, meðal annars í Írak og Sýrlandsdeilunni. Twitter síða hans inniheldur meðal annars yfirlýsingar eins og „ISIS í Írak virðist ekki reyna að einangra almenning þar, ólíkt Maliki forsætisráðherra og ofbeldisfulla ógnarstjórn hans“ (en þetta kallaði Oren Kessler „versta tíst allra tíma“). Þetta var ekki í eina skiptið sem hann talaði fyrir hönd ISIS. Í öðru tísti sagði hann „psst., Pentagon, viltu vita af hverju ISIS hafa svona mikið fylgi? Þeir standa upp í hárinu á ofbeldi Assads. Það gera fáir aðrir“. Síðar átti hann heiðurinn af því að dreifa orðrómi um að Sýrlandsstjórn stæði á bakvið ISIS, en fyrir því liggja engar sannanir. Hann hélt því fram að með því að fella Zahran Alloush, leiðtoga samtakanna „her Íslam“, væri Assad að neyða Sýrlendinga til að velja annað hvort sig eða ISIS, en Alloush hafði áður lýst því yfir að takmark hans væri að hreinsa Damaskus af Alavítum og Sjítum og hafði gerst sekur um mikil fjöldamorð í stríðinu (sjá Lund, 2013 og Landis, 2013). Sama ár, 2013, þegar rætt var um einhliða loftárásir Bandaríkjahers á Sýrlands, sem hefði verið skýlaust brot á stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna, tísti Roth „Ef Obama ákveður að ráðast á Sýrland, mun hann láta nægja að stunda táknrænar loftárásir einungis, eða ætlar hann að gera eitthvað sem hjálpar almennum borgurum?“. Þetta tíst kallaði John Tirman, framkvæmdarstjóri rannsóknarstofnunar MIT á Alþjóðamálum, „hugsanlega vitlausasta og óábyrgasta yfirlýsing allra tíma sem kemur frá talsmanni stórra mannréttindasamtaka" (sjá nánar hér).

Á meðan samtökin senda frá sér vafasamar fullyrðingar um yfirlýsta óvini Bandaríkjastjórnar hafa þau vægast sagt farið silkihönskum um utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Dæmi um þetta var árið 2009 þegar Obama forseti lýsti því yfir að stjórnvöld hygðust halda áfram að stunda það sem þau kölluðu „flutningsstefnu“ sína, en hún fólst í raun í því að handtaka án dómskvaðningar grunaða „hryðjuverkamenn“ og flytja þá í leynileg fangelsi í ýmsum löndum þótt vitað væri að í þessum fangelsum var mjög líklegt að þeir yrðu pyntaðir í yfirheyrslum. Viðbrögð HRW voru yfirlýsing Toms Malinowskis, eins stjórnarmanna samtakanna, um að „undir takmörkuðum kringumstæðum er hægt að réttlæta flutning af þessu tagi og sýna þolinmæði: Þeir vilja hanna kerfi sem leiðir ekki til þess að fólk verði sent í erlendar dýflissur þar sem þeir verða pyntaðir“ (Miller, 2009). Það er nánast ómögulegt að túlka þetta sem annað en afsökun fyrir mannréttindabrotum.


HRW: Gagnleg, en ekki taka þeim gagnrýnislaust

Hér er því ekki haldið fram að Human Rights Watch séu vita gagnslaus eða að skýrslur þeirra séu helberar lygar. Í samtökunum hefur verið unnin mikilvæg fræðivinna sem allir fylgjendur mannréttinda geta nýtt sér. Rannsóknir samtakanna hafa leitt til þess að hægt hefur verið að draga aðila til saka sem hafa gerst sekir um alvarleg mannréttindabrot og samtökin hafa hampað grundvallarreglum Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og mikil þörf er á slíku starfi um heim allan.

En taka þarf með í reikninginn að samtökin eru mjög hlutdræg og full ástæða er til að lesa fréttatilkynningar þeirra með gagnrýnum huga. Samtökin hafa gerst sek um mjög vafasamar fullyrðingar, jafnvel lygar og það er mikilvægt að átta sig að jafnvel þótt samtök hafi í nafni sínu orð sem eru jafn hlaðin jákvæðri merkingu og „mannréttindi“ eru oft aðrir hagsmunir sem hafa áhrif á, eða stjórna, það sem frá þeim kemur.

Gagnrýnin yfirferð á samtökum á borð við Human Rights Watch sýnir einnig er tvennt annað. Annars vegar er það að áróður tekur á sig ýmsar myndir og er alls ekki samnefnari fyrir lygi. Áróður snýst um að skapa heimsmynd í hugum fólks sem hentar ákveðnum aðilum og öðrum ekki. Með því að beina kastljósinu að mannréttindabrotum, raunverulegum og ekki raunverulegum, ákveðinna aðila en halda því um leið frá mannréttindabrotum skjólstæðinganna má búa til skekkta mynd af raunveruleikanum. Slíkt er pólitískt og efnahagslegt verkfæri þeirra sem starfað er fyrir. Samtök sem væru raunverulega hlutlæg myndu taka jafnt á öllum aðilum.

Hitt sem þetta vekur athygli á er að orð eins og „mannréttindi“ gefa góða ímynd. Hétu þessi tilteknu samtök til dæmis „Almannatengslafyrirtækið Helsinki Watch“ nytu þau tæpast jafn mikils traust og þau gera núna. Þetta hafa fleiri lært í gegnum tíðina. Fleiri samtök hafa sett orð eins og „Human Rights“ eða „Relief“ í nafn sitt án þess að hafa mikið með slíka starfsemi að gera í raun, en heppnast að fá gott orð á sig fyrir vikið. Dæmi um þetta eru til dæmis samtökin „Saudi High Commission for Relief of Bosnia and Herzegovina“ sem náðu að safna hátt í milljarð Bandaríkjadala sem fóru að mestu í að kaupa vopn handa skæruliðum íslamista í Bosníu, Afganistan og fleiri ríkjum (Weinberg, 2015). Annað dæmi eru samtökin „Third World Relief Agency“ sem söfnuðu fé fyrir al Kaída og fleiri samtök trúarstríðsmanna (Farah og Braun, 2007). Það kann að vera freistandi fyrir leitandi fólk og blaðamenn að nota þumalfingursreglur eins og þá að ef orðið mannréttindi sé notað sé allur ásetningur góður og heimildin skotheld. Við þurfum enn að lesa allar fullyrðingar með gagnrýnum augum, einnig frá risum eins og Human Rights Watch.


Heimildir:

Bernstein, R. L. (2009, 19. Október). Rights Watchdog, lost in the Mideast. New York: The Times.

Council on Hemispheric Affairs [COHA]. (2008, 18. desember). Taking Human Rights Watch to Task on the Question of Venezuela’s Purported Abuse of Human Rights: Over 100 U.S. and Foreign Scholars Take Issue with the head of HRW’s Latin American Division. Sótt af: http://www.coha.org/taking-human-rights-watch-to-task/

Farah, D. og Braun, S. (2007). Merchants of Death. Hoboken, NJ: Wiley & Sons.

Holland, A., Brett, S., Taraciuk, T. Og Wilkinson, D. (2008). A Decade Under Chávez: Political Intolerance and Lost Opportunities for Advancing Human Rights in Venezuela. New York: Human Rights Watch.

Landis, J. (2013, 15. Desember). Zahran Alloush: His ideology and beliefs. Syria Comment. Sótt frá: https://www.joshualandis.com/blog/zahran-alloush/

Lund, A. (2013, 17. Júní). Freedom fighters? Cannibals? The truth about Syria‘s rebels. London: The Independent. Sótt frá: https://www.independent.co.uk/news/world/middle-east/freedom-fighters-cannibals-the-truth-about-syria-s-rebels-8662618.html

Miller, G. (2009, 1. Febrúar). Obama preserves renditions as counter-terrorism tool. Los Angeles: The Times. Sótt af http://articles.latimes.com/2009/feb/01/nation/na-rendition1

Sproule, J. M. (1997). Propaganda and democracy: The American experience of media and mass persuation. New York: Cambridge university Press

El Universal. (2008, 21. september). Venezuela no es modelo para nadie. Sjá einnig https://www.commondreams.org/newswire/2008/12/17/more-100-latin-america-experts-question-human-rights-watchs-venezuela-report

Weinberg, D. A. (2015, 27. janúar). King Salmans shady history. Foreign Policy. Sótt af https://foreignpolicy.com/2015/01/27/king-salmans-shady-history-saudi-arabia-jihadi-ties/