Hrynjandi heimsmynd Vesturlanda og «uppreisn Evrópu»

19. febrúar, 2025

Taugatitringur hefur skekið Evrópu síðustu daga, vegna hinna boðuðu viðræðna milli Washington og Moskvu um Úkraínudeiluna. Stundum hefur mátt skilja á RÚV að í Evrópu væri í uppsiglingu  «uppreisn gegn Bandaríkjunum” vegna stefnu Trumpstjórnarinnar. Uppreisn gegn «herskáustu þjóð í mannkynssögunni” svo notuð sé einkunn Jimmy heitins Carter. Til þess þarf visst hugrekki. Uppreisnin beindist þó ekki gegn árásargirni Bandaríkjanna heldur þvert á móti gegn of mikilli sáttfýsi þeirra við Rússa. Bandaríkin virðast vilja draga sig út úr Úkraínuátökum, nokkuð sem vekur mikinn óhug hjá Evrópuleiðtogum, auk þess sem Evrópa er hundsuð í friðarviðræðunum.

Haldinn var neyðarfundur valinna Evrópuríkja (1. deildin) í París á mánudag, með öllum helstu nöfnum evrópskra stjórnmála auk ESB-toppa. Szijjarto utanríkisráðherra Ungverjalands kallaði þann fund réttilega „fund stríðsæsingarlanda“ sem vilji nú „spilla friðinum“. Það mátti hugsanlega búast við að „Evrópa“ tæki þarna forustu í stuðningnum við Úkraínu gegn Rússlandi.

Það gerðist þó ekki í það sinnið. Fundurinn tók „engar bindandi ákvarðanir“ og engin sameiginleg yfirlýsing hefur birst.  Olof Scholz kanslari Þýskalands lýsti yfir að „ekki verður neinn klofningur öryggis eða ábyrgðar milli Bandaríkjanna og Evrópu“.

Keir Starmer hafði sagt fyrir fundinn að Bretar væru fúsir að senda herlið til Úkraínu til öryggisgæslu, enda væri Úkraína ennþá á „óstöðvandi leið inn í NATO“. Frá fundinum í París kom ekkert þar um. Það er víst líka þannig að ölllum vopnakerfum NATO-ríkja er stjórnað frá Bandaríkjunum svo Evrópulönd eru lítt fær um að standa á eigin hernaðarfótum. Geta þó enn bitið í skjaldarrendur.

Í París var ekkert ályktað um framhaldið. „Uppreisn Evrópu“ efnisgerðist ekki, og fundurinn skilaði litlu öðru en mikilli geðshræringu evrópsku leiðtoganna. 

Eitt símtal og vestræn heimsmynd hrynur

Eitt símtal – og heimsmynd Vesturlanda hrundi. Donald Trump hringdi í Vladimir Pútín þann 12. febrúar og tjáði að hann vildi semja um frið í Úkraínu. Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022 neitaði Biden að tala meira við Pútín og engin samtöl hafa farið fram milli þjóðarleiðtoganna síðan. En nú hringdi síminn, og heimurinn hrundi. NATO reynist gagnslaust. Fall «Evrópu» er hæst og mest.

Bandarikin vilja draga sig út úr Úkraínustríðinu. Heggseth, nýi varnarmálaráðherra BNA, sagð m.a.s.: „US military presence in Europe may not be for ever.” Guð forði okkur! Án Bandaríkjanna er ekki hægt að halda úti þessu stríði svo mögulega neyðast menn til að binda endi á það.

Hlaðvarpið The Duran tekur flestum öðrum fram í greiningu alþjóðamála. Þar stjórna þáttum alveg toppmenn: Alexander Mercouris, Alex Christoforou og oft Glenn Diesen, og ræða heit svið alþjóðamála við sérfróða menn og eru sjálfir miklir sérfræðingar.

Þann 15. febrúar ræddu þeir Mercouris og Diesen hinar nýju stórpólitísku vendingar í Úkraínudeilunni við stjórnmálafræðinginn víðkunna John Mearsheimer. Það var gegnumlýsandi þáttur sem greindi atburðina og samhengi þeirra af mikilli þekkingu. Hér aftan við reynum við að draga saman nokkra meginpunkta þeirrar greiningar sem þarna var sett fram. Mennirnir þrír voru giska sammála í dómum sínum og þess vegna er yfirleitt ekki getið um hver sagði hvað.

Mearsheimer, Diesen og Mercouris: Úkraínudeilan í hinu nýja ljósi

* «Símtalið» [Trumps og Pútíns] og eftirmál þess hefur afhjúpað getuleysi „Evrópu“ til samninga. Samningsgetan er fyrir bí og „Evrópu“ hryllir nú við sérhverju diplómatíi. Kaja Kallas utanríksmáastjóri ESB segist ekki trúa á diplómatí, segir að Pútín sé stríðsglæpamaður og við slíka megi ekki semja o.s.frv.

* «Evrópa» hefur engan valkost að bjóða. Hún hefur aldrei lagt fram tillögu að samningum í Úkraínustriðinu – og ekki heldur núna.

* „Evrópa“ hefur engin spil á hendinni, m.a. ekki neinar öryggistryggingar að bjóða Úkrínu. Ekki heldur friðargæslulið nema þá með bandarískri hervernd og bandarískri stjórnun vopnakerfa – sem ekki stendur lengur til boða.

* „Evrópa“ hefur ekki annan valkost að bjóða en að stríðið haldi áfram í sama farvegi, sem mundi krefjast bandarískrar aðstoðar. Án þeirrar aðstoðar er ekki hægt að halda stríðinu áfram – og hún er ekki lengur í boði

* Á engum tímapunkti í þessu stríði hefur „Evrópa“ haft neina sjálfstæða afstöðu. Aðeins sýnt fullan og einbeittan stuðning við staðgengilsstríðið, þétt við hlið stríðsaflanna í Bandaríkjunum (þ.e. stríðsflokksins sem er blanda af demókrötum og repúblíkönum).

* Það var virkur stuðningur. «Evrópa» kaus stríð, opnum augum. Kaus að styðja Úkraínu til stríðsins, engu síður en Bandaríkin (Ungverjaland og Slóvakía undanskilin).

* Skortur á spilum á hendinni og skortur á valkostum gæti neytt „Evrópu“ til raunsæis, en ennþá hefur hún samt ekki horfst í augu við þennan veruleika Úkraínustríðsins.

* Staðreyndir stríðsins, og skortur á valkostum, þýðir að Vestrið (í reynd Trumpstjórnin) og Úkraína mun neyðast til að fallast á kröfur Rússa. Á öryggisráðstefnunni í Munchen kynnti Keith Kelogg útsendari Trumps hið súra epli sem borða þarf: að Úkraína verði hlutlaus, aldrei í NATO, og verði að láta af hendi landsvæði í Donbas. Þetta eru staðreyndir stríðsins. Hinn valkosturinn er að stríðið haldi áfram, sem er ennþá verri kostur, nýjar þúsundir munu falla, meiri lönd tapast o.s.frv. Pútín er «í bílstjórasætinu».

* Það eina sem „Evrópa“ hefur fram að færa í hinni nýju stöðu er að reyna að skapa hindranir í samningaviðræðum, hindra að viðræðurnar komist á, framlengja átökin  – ekki til að vinna stríðið því það er óvinnandi – heldur af því að einungis þannig er hægt að halda Bandaríkjamönnum í Evrópu, nú þegar helst lítur út fyrir að þeir vilji losna þaðan.

 * „Evrópa“ vaknar nú upp við harkalegan veruleik. Keith Kellogg útsendari Trumps mætti á öryggisráðstefnuna í Munchen og lýsti þar yfir að „Evrópa“ yrði ekki við samningaborðið um lausn Úkraínustríðsins. Fyrst og fremst af því hvað hún væri neikvæð gagnvart  friðarumleitunum.

* Svipuð afstaða berst frá Moskvu, enginn áhugi er á að semja við „Evrópu“ um málið. Af sömu ástæðu, hví skyldu Russar hafa áhuga á að semja um frið við „Evrópu“, sem hefur ekki fram að þessu haft neinn sjálfstæðan þátt eða afstöðu gagnvart Úkraínustríðinu? „Evrópa“ skiptir ekki máli.

* „Evrópa“ hefur þannig, einmitt með því að vera hingað til ósjálfstæð bandarísk undirtylla, dæmt sjálfa sig úr leik. Undirgefni „Evrópu“ hefnir sín þegar Washington snýr frá hinni herskáu afstöðu í málinu (sem er afstaða „Evrópu“).

*Rússar hafa fullt tilefni til að vantreysta Bandaríkjunum og litla ástæðu til að bjóða upp á friðarsamninga sem væru hagstæðir fyrir Úkraínu.

* Það að Kellogg gengst fyrirfram inn á margar helstu kröfur Rússa sýnir fyrst og fremst hvað samningsstaða Rússlands er sterk og Washington viðurkennir það til að fá Rússa að borðinu. Það er í reynd ekki nein „eftirgjöf“. Heggseth varnarmálaráðherra sagði í Brussel: „The American position is a recognition of hard power-realities on the ground.“ Sem er einföld viðurkenning: við höfum tapað. Maður getur ekki tapað stríði og svo fengið hagstæðan frið. Vandamálið (m.a. vandamál Trumps og hans manna) er að fólk vítt og breitt á Vesturlöndum trúir á og lifir í falsmyndinni sem haldið hefur verið að okkur. Þá lítur slíkur friðarsamningur út einfaldlega sem svik.

* Kellogg sagði annað í Munchen um daginn sem setti aukalegan hroll í Evrópufulltrúana, að „fyrir Bandaríkin eru forgangsatriðin núna Kína og Kyrrahafssvæðið“.

* Alexander Mercouris: „Fyrir Evrópubúana, sem allt sitt líf hafa talið að Evrópa væri forgangsmál Bandaríkjanna, er þetta í senn óhugsandi og mjög ógnvekjandi veruleiki, núna þegar sú heimsmynd virðist vera á förum.“

* John Mearsheimer: „Ég held að það sem er að gerast hér sé að Bandaríkin vilji „snúast að Asíu“ (pivot to Asia) og þau skilja að ef menn vilja snúa sér að einhverjum stað þá þurfa þeir að snúa sér frá öðrum stað. Ég held að Trump vilji góð samskipti við Rússa og vilji „pilla“  Rússa – eða sneiða þá – frá Kínverjum, og ég held að það sem Trumpstjórnin nú reynir að gera sé það sem Nixonstjórnin gerði á sinni tíð, að toga Kínverja frá Sovétríkjunum.“

* Macciavelli skrifaði eitt sinn: „Mönnum hættir til að líta ekki á hlutina eins og þeir raunverulega eru heldur eins og þeir vilja að þeir séu.“ Í Evrópu eru menn  í hugmyndafræðilegri spennutreyju. Sú spennitreyja hefur leitt menn út í stríð, en menn halda samt áfram að byggja rökhugsun sínar á þessari spennireyju í stað veruleikans. Sú spennitreyja er grundvölluð á „einpóla heimi“. En eins og Rubio utanríkisráðherra sagði fyrir viku: „Það er ekki eðlilegt ástand að heimurinn sé einpóla.“  Kannski er það taktík hans að tala þannig en hann þykist a.m.k. viðurkenna þá staðreynd. 

* Úkraínustríðið er er ekki bara stríð um örlög Úkraínu. Það snýst líka um hrun evrópsks öryggiskerfis. Að nógsamleg  útvíkkun NATO leysi öryggismál Evrópu stenst greinilega ekki dóm reynslunnar. Rússar hafa margsinnis gert það ljóst að sínu leyti það þeir vilji koma á öryggiskerfi fyrir austanverða Evrópu, helst fyrir Evrópu í heild. Stofnun slíks kerfis er huganleg jákvæð niðurstaða þessa stríðs, fyrst þarf þó að finna öryggistryggingar fyrir Úkraínu núna og það er flókið og alveg óleyst mál.

* „Evrópa“ vaknar upp með andfælum við þá vitneskju að skilmálar friðarsamninga um Úkraínu verða ákvarðaðir í Moskvu og Washington. Og hún vaknar í nýjum heimi, þar sem hún er ekki lengur í miðju heldur langt úti á kanti.

Mín pæling

Það er  þannig að vendingarnar undanfarið sýna Úkraínustríðið í hnotskurn, sýna hinn stóra þátt þess í heimspólitík síðustu tíu ára, og sýna eðli þess. Vendingarnar sýna það kristalskýrt að Bandaríkin líta á stríð þetta sem staðgengilsstríð sitt við Rússland, með Úkraínumenn sem fallbyssufóðrandi fótgöngulið og verkfæri (til að taka Rússum blóð). Rússar líta þetta sömu augum að því leyti að telja andstæðing sinn fyrst og fremst vera Bandaríkin. Evrópa er í aukahlutverki og skiptir ekki meginmáli. Fyrir Bandaríkin er Evrópa nú fyrst og fremst til trafala [ath: eftir fundinn með Lavrov í Riyadh sagði Rubio utanríkisráðherra þó að Evrópuþjóðir „would have to be involved in talks on ending the Ukraine war“ Sei sei].

Að Úkraína er ekki tekin með í að undirbúa friðarviðræðurnar segir langa sögu um stöðu landsins í samhenginu. Kremlverjar sömdu um frið við fulltrúa Úkraínu á fyrstu vikum innrásarinnar, en Bandaríkjamenn og Bretar þrýstu þá á Zelensky að skrifa ekki undir, heldur berjast. Og Zelensky setti skömmu síðar í lög Úkraínu um að ekki mætti semja við Rússland.

Evrópuleiðtogar reyna að hindra að friður brjótist út. Þeir þurfa nauðsynlega þetta stríð áfram. En nú er markmiðið ekki  lengur að taka Rússlandi blóð. Nú snýst baráttan eingöngu um að halda Bandaríkjunum á svæðinu („keep the Americans in“ sagði Lord Ismay, fyrsti aðalritri NATO). Bandaríkin sjá að stríðið er tapað, þau telja þess vegna önnur átakasvæði nú brýnni og vilja semja frið við Rússa.

Hvaða ráðum og aðferðum Evrópa mun beita til að reyna að framlengja stríðið er ekki komið fram en „uppreisn Evrópu“ mun mjög líklega halda áfram í einhverri mynd.