Því miður hefur Trump rétt fyrir sér um Úkraínu
—

Alan J. Kuperman er stjórnmálafræðiprófessor í Austin Texas og vel þekktur álitsgjafi um bandaríska utanríkisstefnu. Skrifar hér í The Hill.
The Hill, skoðanagrein, 18. mars 2025
Alan J. Kuperman, prófessor
https://thehill.com/opinion/5198022-ukraine-conflict-disinformation/
Ég er sjaldan sammála Donald Trump, en umdeildar staðhæfingar hans um Úkraínustríðið hafa að mestu verið réttar. Þær virðast mörgum vera fáránlegar, en það er bara af því almenningur á Vesturlöndum hefur verið matreiddur af misvísandi upplýsingum um Úkraínu í meira en áratug. Það er kominn tími til að segja rétt frá um þrjú lykilatriði sem varpa ljósi á hvers vegna Úkraínumenn og Joe Biden fyrrum Bandaríkjaforseti bera einnig ábyrgð á Úkraínustríðinu – en ekki bara Vladímír Pútín Rússlandsforseti.
Í fyrsta lagi, eins og hefur nýlega verið sýnt fram á með yfirgnæfandi sönnunargögnum [í fræðibók Ivan Katchanovski, “The Maidan Massacre in Ukraine”, sem var gefin út af Palgrave Macmillan árið 2024] – og sem hefur einnig verið staðfest í réttarhöldum í Kyiv – er að það voru það úkraínskir öfgahægri vígamenn sem byrjuðu ofbeldið á Maidan-torginu árið 2014, sem var síðan kveikjan að innrás Rússlands í suðausturhluta landsins, þar á meðal á Krím.
Á þeim tíma [fyrir Maidan-byltingina] var Úkraína með forseta sem var hliðhollur Rússlandi, Viktor Yanukovych, en hann hafði verið kosinn í frjálsum kosningum árið 2010 með yfirgnæfandi stuðningi etnískra Rússa í suðausturhéruðum landsins.
Árið 2013 hafði hann ákveðið að sækjast eftir auknu efnahagslegu samstarfi við Rússland frekar en Evrópu. Aktívistar hliðhollir Vesturlöndum brugðust við þessu með mótmælum og með því að taka friðsamlega yfir Maidan-torgið og stjórnarbyggingar í miðborg Kænugarðs, þangað til að forsetinn gaf á endanum eftir um miðjan febrúar 2014 og mótmælendur drógu sig þá til baka frá torginu.
En það var þá sem að öfgahægri vígamenn byrjuðu að skjóta á lögreglu og mótmælendur sem voru eftir á torginu. Lögreglan skaut til baka á vígamenninna, sem fullyrtu þá ranglega að lögreglan hefði drepið óvopnaða mótmælendur. Stjórnvöldum var kennt um fjöldamorðið á Maidan-torginu, sem vakti mikla reiði, og leiddi til þess að mótmælendur snéru aftur til höfuðborgarinnar í stórum stíl og hröktu forsetann úr landi, sem flúði síðan til Rússlands.
Pútín brást við þessu með því að senda hermenn til Krímskaga og Donbas héraðanna, fyrir hönd etnískra Rússa/rússneskumælandi fólks á þessum svæðum [sem eru meirihluti íbúa á þessum svæðum] sem litu svo á að forseta þeirra hafi verið steypt af stóli í ólýðræðislegu valdaráni. Á meðan þessi baksaga réttlætir ekki innrás Rússlands, þá sýnir hún fram á að innrásin var svo sannarlega ekki “unprovoked”.
Í öðru lagi, þá stuðlaði Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu að útbreiðslu stríðsins með því að brjóta á friðarsamningum við Rússland, með því að sækjast eftir aðild að NATO og leitast eftir hernaðaraðstoð frá NATO. Þessir friðarsamningar, sem eru þekktir sem Minsk 1 og 2, höfðu verið samþykktir af forvera hans í embætti, Petro Poroshenko, árin 2014 og 2015, til að binda enda á borgarstyrjöldina í Donbas, og til að vernda hermenn sem hafði verið stemmt í hættu [í orrustunni í Debaltsevo].
Samkvæmt samningunum átti Úkraína að veita Donbas-héruðunum takmarkaða sjálfstjórn fyrir lok árs 2015, sem Pútín taldi vera nægjanlegt skilyrði til að koma í veg fyrir að Úkraína gengi í NATO – eða myndi vera staður fyrir herstöðvar NATO. Því miður stóð Úkraína ekki við skuldbindingar sínar samkvæmt Minsk-samningunum, heldur neitaði að standa við þá í sjö ár samfleytt.
Zelensky hafði boðið sig fram í kosningunum árið 2019 með loforðum um að hrinda loksins Minsk-samninunum í framkvæmd til að binda enda á borgarstyrjöldina. En eftr að vann kosningarnar sveik hann þessi loforð, hann virtist vera minna hræddur við stríð heldur en að líta út fyrir að vera veikburða gagnvart Rússlandi.
Í staðinn tók Zelensky við símeiri vopnasendingum frá NATO-ríkjum, sem var síðasta hálmstráið fyrir Pútín. Þannig að þann 21. febrúar 2022 viðurkenndi Rússland sjálfstæði Donbas-héraðanna, sendi hermenn þangað sem “friðargæsluliða”, og krafðist þess að Zelensky myndi fallast frá inngöngu Úkraínu í NATO og fá hernaðarstuðning frá Vesturlöndum.
Þegar Zelensky neitaði enn og aftur, þá jók Pútín gríðarlega hernaðarumsvif Rússlands í Úkraínu með innrás í landið, þann 24. febrúar. Hvort sem það var viljandi gert eða ekki, þá ögraði Zelensky Rússlandi til að ráðast inn, þó að það afsaki auðvitað ekki stríðsglæpi Rússa sem gerðust í kjölfarið.
Í þriðja lagi átti Joe Biden einnig mikilvægan þátt í að stigmagna átökin og framlengja stríðið. Í lok árs 2021, þegar Pútín var að safna herliði við landamæri Úkraínu og krafðist þess að Minsk-samningarnir yrðu virtir og framkvæmdir, þá virtist það vera ljóst á þeim tíma að ef Zelensky myndi ekki láta undan, þá myndi Rússland ráðast inn, að minnsta kosti til að mynda landbrú milli Donbas og Krímskaga.
Í ljósi þess hvað Úkraína var háð hernaðarstuðningi Bandaríkjanna, ef Biden hefði sett pressu á Zelensky að framfylgja kröfum Pútíns [að standa við Minsk-samningana], þá hefði hann gert það. En því miður, þá setti Biden enga pressu á Zelensky, heldur lét honum eftir ákvörðunina, og lofaði því að ef Rússland myndi ráðast inn, þá myndu Bandaríkin “bregðast við fljótt og örugglega”, sem Zelensky túlkaði sem grænt ljós til að bjóða Pútín birginn [þ.e.a.s. til að fallast ekki á hans kröfur].
Ef Trump hefði aftur á móti verið forseti, þá hefði hann líklega ekki veitt Zelensky svona skilyrðislausan stuðning eins og Biden gerði, þannig að Zelensky hefði þá þurft að standa við og framfylgja Minsk-samningunum til að koma í veg fyrir stríð. Og jafnvel þó að Zelensky hefði enn neitað, og ögrað Rússlandi til að ráðast inn [eins og hann gerði], þá hefði Trump ekki veitt Zelensky neitunarvald yfir friðarviðræðum, eins og Biden gerði á glannalegan hátt með því að lýsa því yfir að: “Það verða engar friðarviðræður um Úkraínu án Úkraínu”.
Þessi yfirlýsing Biden virkaði sem harmleg hvatning fyrir Úkraínu til að berjast áfram og framlengja stríðið, í þeirri von að fá hernaðaraðstoð frá Bandaríkjunum sem myndi ráða úrslitum í stríðinu, sem Biden neitaði síðan að standa við, vegna þess að hann óttaðist stigmögnun yfir í kjarnorkustríð [ef Rússland yrði raunverulega sigrað á vígvellinum]. Þess vegna gaf Biden Úkraínu falskar vonir sem urðu til þess að framlengja stríðið að óþörfu, sem hefur drepið eða sært hundruði þúsunda bara á síðustu tveimur árum á sama tíma og víglínurnar hafa haggast mjög lítið, eða bara um því sem nemur 1% af landsvæði Úkraínu.
Við vitum í grófum dráttum hvernig samkomulagið mun líta út sem þarf til að binda enda á stríðið, þó það þurfi vissulega að semja um smáatriðin, eins og Trump og Pútín byrjuðu að gera með símtali sínu í dag [18. mars]. Rússland mun halda Krímskaga og þeim landsvæðum sem þeir hafa tekið í suðausturhluta Úkraínu, á meðan restin af Úkraínu mun ekki ganga í NATO, heldur mun í staðinn fá öryggistryggingar frá Vesturlöndum. Það sem er svo sorglegt við þetta allt saman er að slíkt samkomulag hefði geta náðst fyrir tveimur árum, bara ef Biden hefði sett það skilyrði við hernaðarstuðning Bandaríkjanna til Úkraínu að Zelensky þyrfti að semja um vopnahlé [eins og Tump er að gera núna].
Það sem er ennþá hörmulegra er að sá friðarsamningur sem verður núna að stríði loknu mun verða enn verri fyrir Úkraínu heldur en Minsk-samningarnir, sem Zelensky ákvað á heimskulegan hátt að yfirgefa, vegna eigins pólitísks metnaðar, og vegna barnalegrar vonar um botnlausan stuðning frá Bandaríkjunum.
Þýðandi: Tjörvi Schiöth