Goðsagnir í áróðri eru sannleikanum sterkari – Um baráttu góðs (okkar) og ills (hinna)
—

Með hverju ári víkur Ísland smám saman lengra frá stefnu um vinsamleg og friðsæl samskipti við erlend ríki yfir í æ eindregnari stuðning við stríðsrekstur og efnahagsaðgerðir. Þessi breyting birtist í aukinni tvíhyggju þar sem heiminum er skipt í hið góða og illa, vini og óvini, í takt við geópólitísk markmið Vesturlanda. Áróðursstríðið, sem fylgir þessari þróun, virðist geta umbreytt jafnvel rólegasta fólki í ákafa stuðningsmenn hernaðar gegn öðrum ríkjum og þjóðarleiðtogum. Í þessu samhengi gegna goðsagnir lykilhlutverki: þær verða sterkari en sannleikurinn sjálfur og móta frásagnir um baráttu góðs (okkar) gegn illu (hinna). Allir þeir sem dirfast að tala gegn hinni herskáu stefnu verða útmálaðir sem samsekir hinum illa. Stríðið í Donbass er einungis nýjasta dæmið um þetta. Í þessu umhverfi, þar sem goðsagnirnar ríkja, er ekkert rúm fyrir málefnalega umræðu.
Goðsagnirnar
Í bókinni „Propaganda: The Formation of Men’s Attitudes,“ sem áður hefur verið fjallað um á Neistum, ræðir Jacques Ellul um mikilvægt hlutverk goðsagna í áróðri. Samkvæmt Ellul eru goðsagnir ekki einungis skáldaðar sögur heldur grundvallarrammi utan um sameiginlega upplifun og félagsvitund. Þessar goðsagnir eru undirstaða fyrir heimssýn og frásagnarhefð sem áróður byggir svo á. Með því að nýta djúpstæðar menningarlegar og hugmyndafræðilegar goðsagnir getur áróður haft djúp áhrif á einstaklinga, styrkt gildandi viðhorf og stýrt tilfinningum og athöfnum í átt sem er valdinu til góða. Goðsagnir gefa áróðursboðskapnum tilgang og samfellu, sem aftur gerir hann sannfærandi og áhrifaríkan í að móta almenningsviðhorf og hegðun.
Ellul skrifaði þannig:
„Áróðursmeistarinn reynir að skapa goðsagnir sem maðurinn á að lifa eftir, sem bregðast við tilfinningu mannsins fyrir því heilaga. Með „goðsögn“ er átt við yfirgripsmikla ímynd sem hvetur til aðgerða: eins konar sýn á æskileg markmið sem hafa misst efnislegt, praktískt eðli sitt og hefur orðið lituð sterkum litum, yfirþyrmandi og alltumlykjandi, og sem ryður úr meðvitundinni öllu sem tengist henni ekki. Slík mynd knýr einstaklinginn til aðgerða einmitt vegna þess að hún inniheldur allt sem manneskjan telur gott, réttlátt og satt. Án þess að fara í frumspekilega greiningu á goðsögninni, er hægt nefna stórar goðsagnir sem hafa verið skapaðar af ýmsum áróðursherferðum: goðsögnin um kynþátt, verkalýð, foringjann, kommúnískt samfélag, framleiðni. Að lokum tekur goðsögnin svo algjörlega yfir huga mannsins að líf hans verður sem helgað henni. Þessi áhrif er aðeins hægt skapa með hægum, þolinmóðum aðgerðum sem nýtir öll áróðurstæki sem til eru, ekki með neinni skyndilegri áróðursaðgerð. Aðeins þegar skilyrt viðbrögð hafa verið sköpuð í manneskjunni og samfélagið lifir og hrærist í sameiginlegri goðsögn er hægt að virkja hana og nota.” (bls. 72).
Eitt dæmið sem Ellul tekur um öfluga goðsögn sem notuð er í áróðri hér á Vesturlöndum er hugtakið lýðræði. Lýðræðisgoðsögnin virkar með því að vísa til stjórnmálakerfis þar sem vilji fólksins er í fyrirrúmi og allir hafa jafnt um að segja hvernig samfélaginu er stjórnað. Þessi goðsögn er notuð í áróðri til að stuðla að einingu, þátttöku og lögmæti meðal almennings, jafnvel þótt raunveruleiki stjórnmálakerfisins sé í raun langt frá þessari hugmynd. Með því að halda lýðræðisgoðsögninni á lofti geta áróðursmenn hvatt almenning til fylgis við stórar og alvarlegar ákvarðanir (t.d. einkavæðingar og stríðsreksturs) og vísað til þess að þessar stefnur séu niðurstaða sanngjarns og sameiginlegs ákvarðanatökuferlis, jafnvel þótt ákvarðanirnar hafi í raun verið tekið fyrir luktum dyrum, en lýðræðið til var til sýnis. Um leið má skapa óvild til óvina á þeim forsendum að þeir séu andstæðingar þessarar goðsagnar. Þetta gerir hinu raunverulega valdi kleift að viðhalda hentugri samfélagslegri reglu og styrkja vald ráðandi aðila með því að tengja aðgerðir þeirra við virtar lýðræðislegar meginreglur, og tryggja þar með víðtækara samþykkis og lágmarka andstöðu.
Ellul er ekki bjartsýnn á að hægt sé að berjast gegn áróðri einfaldlega með því að vísa til heimilda með sterkum rökstuðningi. Áróður er eins konar skrímsli sem nýtir sér allt í manneskjunni sem fer gegn skynsemi og rökum. Að beita rökum og sterkum upplýsingum er nánast gagnslaust gagnvart mætti goðsagnarinnar. Tilfinningar bera skynsemina ætíð ofurliði í heimi áróðurs.
Baráttan gegn vonda manninum
Ein öflugasta goðsögn samtímans í áróðri er sú um „vonda manninn“ – óvininn sem ógnar öllu því góða, rétta og lýðræðislega. Í sífellu birtast nýir einstaklingar á sviði heimsstjórnmálanna sem settir eru fram sem ímynd alls ills, sem nýr Hitler eða nýr Stalín. Hvort sem við horfum á Milosevic, Saddam Hussein, Hugo Chavez, Gaddafi, Assad eða Putin, er þessi goðsögn endurtekin af áróðursmeisturum á Vesturlöndum, þar sem leiðtogar ríkja sem andæfa pólitískum eða efnahagslegum hagsmunum eru gerðir að ímynd hins illa. Með þessu er sköpuð einföld en áhrifamikil tvíhyggjuhugmyndafræði um baráttu góðs og ills.
Goðsögnin um „vonda manninn“ býr til óumdeilanlega réttlætingu fyrir inngripum, efnahagsþvingunum eða jafnvel hernaðarárásum gegn ríkjum sem talin eru undir stjórn slíkra leiðtoga. Með því að tengja svo persónu leiðtogans við stjórnkerfi landsins, eða jafnvel þjóðina sem heild, verður auðveldara að skapa samstöðu meðal almennings um aðgerðir sem annars gætu virst siðferðilega vafasamar eða jafnvel ólöglegar. Áróðursmeistarar nýta þannig grundvallartilfinningar eins og ótta, reiði og meinta siðferðilega yfirburði til að útiloka gagnrýni. Þeir sem gagnrýna aðgerðir eða aðferðir Vesturlanda gegn þessum „vonda manni“ eru gjarnan sakaðir um friðþægni eða samúð með hinum illa, rétt eins og Ellul bendir á að gagnrýnendur lýðræðisgoðsagnarinnar séu fordæmdir sem andstæðingar hins góða.
Áhrif þessarar goðsagnar eru ekki aðeins pólitísk heldur einnig félagsleg og sálfræðileg. Hún einfaldar flókna alþjóðastjórnmálalega stöðu í svarthvítar, tilfinningahlaðnar myndir sem nánast útiloka raunsæja umræðu eða rökræða greiningu. Samkvæmt Ellul er styrkur slíkrar goðsagnar einmitt sá að hún hvetur fólk til aðgerða án þess að hugsa. Einstaklingurinn verður bundinn í tryggð sinni við goðsögnina, þar sem raunverulegar staðreyndir eða upplýsingar hafa takmarkaða getu til að hafa áhrif á skoðanir hans og athafnir.
Með því að skapa stöðugt nýja „vonda menn“ endurnýjast þessi goðsögn og festist í sameiginlegri meðvitund almennings, og áróðurinn verður þannig sannleikanum sterkari.
Þessi tegund orðræðu er hættuleg, ekki síst vegna þess að þær krefjast algjörs stuðnings. Þær krefjast þess einnig að allar upplýsingar sem ganga gegn henni eru hunsaðar. Þær ganga þannig gegn öllum möguleikum á gagnrýninni umræðu, en hvetja til úthrópunar og múgsefjunar. Það hefur aldrei endað vel.
En ef við viljum raunverulega standa vörð um frið og lýðræði þurfum við að horfa gagnrýnum augum á okkar eigin goðsagnir. Með því að hafna einföldum svarthvítum áróðri endurheimtum við getuna til að hugsa sjálfstætt og ræða málin á yfirvegaðan hátt.