Hjartaskaði í kjölfar bólusetninga gegn Covid-19 mun algengari en áður var talið

8. ágúst, 2023 Jón Karl Stefánsson

Ný rannsókn sem framkvæmd var í Sviss á heilbrigðisstarfsfólki bendir til þess að tíðni aukaverkana sem tengjast hjartanu eftir bólusetningu gegn Covid-19 sé mun hærri en hingað til hefur verið viðurkennt. Í rannsókninni voru 777 starfsmenn sjúkrahúsa sem áttu að gangast undir örvunarbólusetningu með bóluefni Moderna, mRNA-1273, rannsakaðir með tilliti til hjartaáverka sem var skilgreind sem bráð og mikil aukning á þéttni svokallaðs cardiac tropóníns T í hjarta. Þetta er ákveðin tegund prótína sem fyrirfinnst einungis í hjartavöðva. Þessi prótín dreifast um líkaman ef skaði verður á hjartavöðva og því er mæling á þéttni þessara prótína notuð sem vísir fyrir skaða.

Þessi rannsókn var frábrugðin fyrri tilraunum, t.d. rannsóknum lyfjarisanna sjálfra, þar sem sérstaklega var athugað eftir slíkum skaða í kjölfar bólusetninga. Í tilraunum Moderna var notast við tilkynningar frá bólusetningarþegunum sjálfum. Vandamálið við þá aðferð er meðal annars sú að skaði á borð við eyðileggingu hjartavefs getur komið fram án þess að þeir sem fyrir skaðanum verða finni fyrir honum og séu því meðvitaðir um hann. Ekki var sérstaklega leitað að skaða í fasaprufunum lyfjarisanna. 

Í þessari nýju rannsókn kom í ljós að meðal hinna 777 þátttakenda greindist aukin þéttni tropóníns T í 69,5% kvenna og hjá 22 þátttakendum tilraunarinnar greindist bóluefnatengdur klínískur hjartavöðvaskaði, þar af 20 hjá konum og 2 hjá körlum. Þetta þýðir að 2,8 prósentur þeirra sem fengu örvunarbólusetningu fengu hjartaskaða í kjölfar þessarar einu sprautu.

Í rannsókninni kemur fram að þessar hækkanir á gildi tropóníns T hafi verið vægar og tímabundnar, enginn sjúklingur hafði breytingar á hjartalínuriti og enginn greindi frá meiriháttar aukaverkunum á hjarta innan 30 daga (Buergin et al., 2023). En þessi mikla tíðni hjartavöðvaskaða er samt mikið áhyggjuefni. Hjartavöðvabólga, einnig sú sem telst væg, getur valdið skyndilegum dauða og nýleg rannsókn sýndi að af hverjum þúsund einstaklingum á aldrinum 20-79 sem fá slíkan skaða látast um 250 innan 10 ára (Kim et al., 2023). Hjartavöðvaskaði getur verið alfarið óafturkræfur og þeir sem eru með slíkan skaða geta verið ómeðvitaðir um hann.

Þetta eru einungis nýjustu rannsóknirnar sem benda til þessa ógnvekjandi hjartatengdu aukaverkana af bóluefnum gegn Covid-19. Vísindamenn og læknar við Háskólasjúkrahús Taiwans, Læknaháskólann og Háskólann í Taipei, birtu niðurstöður rannsókna í janúar s.l. þar sem skoðuð voru áhrif bólusetninga á unglingum þar í landi á starfsemi hjartavöðva. Rannsóknin, sem birt í tímaritinu European Journal of Pediatrics, tók til 4928 framhaldsskólanema í höfuðborginni, Taipei, og skoðuð voru áhrif seinni sprautu bóluefnis frá Pfizer. Niðurstöður rannsóknanna voru þær að hjá 763 nemenda (17,1%) kom fram a.m.k. ein tegund hjartaóreglu. Þau algengustu voru sársauki í brjóstholi og flökt í hjartagáttum. Hjá 51 nemanda kom fram óeðlileg hjartavirkni á hjartalínuriti (ECG) og einn nemendanna greindist með hjartavöðvabólgu (myocarditis) og fjórir með alvarlegar hjartsláttartruflanir (arrhythmia) (Chiu o.fl., 2023).

Árið 2022 var framkvæmd rannsókn þar sem áhættan á hjartavöðva- og gollurhússbólgu í kjölfar sýkingar af SARS-CoV-2, delta afbrigðinu, var borin saman við skaða vegna bólusetningar á BNT162b2 mRNA bóluefnis frá Pfizer á aldurshópnum 12-17 ára. Notast var við gögn frá bandaríska skrásetningarkerfinu VAERS fyrir aukaverkanir í kjölfar lyfjagjafar. Til skoðunar voru börn á aldrinum 12-15 og 16-17 ára, samanburður var gerður milli kynja og milli undirliggjandi áhættuþátta. Niðurstöðurnar voru þær að 253 einstaklingar í aldursflokknum höfðu fengið skrásett tilvik af hjartavöðva- eða gollurhússbólgu í kjölfar bólusetningar, 129 eftir fyrsta skammt og 124 eftir annan skammt. Tæplega 90% þessara barna þurftu á sjúkrahúsvist að halda. Tíðni þessara sjúkdóma var 162,2/1000000 hjá aldursbilinu 12-15 og 93/1000000 hjá aldursbilinu 16-17. Samanburður á áhættu á þessum sjúkdómum í þessum aldurshópi í kjölfar sýkingar við áhættu vegna bólusetningar sýndi að bólusetningin var einungis gagnleg hjá stúlkum sem höfðu marga undirliggjandi áhættuþætti og höfðu ekki áður fengið sýkingu. Hjá öllum öðrum hópum olli bólusetningin meiri skaða en hún gerði gagn (Krug, Stevenson og Høeg, 2022).

Í rannsóknum Goddards o.fl. (2022) á einstaklingum á aldrinum 18 til 39 ára kom í ljós að því eftir annan skammt af BNT162b2 jókst tíðni hjartavöðvabólgu og gollurhúsabólgu fjórtánfalt fyrstu tvær vikurnar eftir lyfjagjöf. Hjá þeim sem fengu tvo skammta af mRNA-127 jókst tíðnin um meira en átjánfalt.

Það er full ástæða fyrir íslensk heilbrigðisyfirvöld að rannsaka hvort tíðni hjartaskaða á Íslandi hafi aukist í kjölfar bólusetninga með þessum tilteknu efnum, ekki síst hjá yngri aldurshópum. Slíkar rannsóknir gætu bjargað mannslífum. Að gangast ekki í slíkar rannsóknir er í besta falli vítavert gáleysi. Í versta falli er það skipuleg þöggun þar sem aðvaranir í þessa átt eru löngu fram komnar, en eru aldrei sjáanlegar í gögnum eða umræðu íslenskra heilbrigðisyfirvalda.

Heimildir

Buergin, N., Lopez-Ayala, P., Hirsiger, J. R., Mueller, P., Median, D., Glarner, N., Rumora, K., Herrmann, T., Koechlin, L., Haaf, P., Rentsch, K., Battegay, M., Banderet, F., Berger, C. T., og Mueller, C. 2023. Sex-specific differences in myocardial injury incidence after COVID-19 mRNA-1273 Booster Vaccination. European Journal of Heart Failure, (accepted article). https://doi.org/10.1002/ejhf.2978

Chiu, SN., Chen, YS., Hsu, CC. et al. 2023. Changes of ECG parameters after BNT162b2 vaccine in the senior high school students.  European Journal of Pediatrics, online.
https://doi.org/10.1007/s00431-022-04786-0

Goddard, K., Lewis, N., Fireman, B., Weintraub, E., Shimabukuro, T., Zerbo, O. Boyce, T. G., Oster, Kayla, M. E, Hanson, E., Donahue, J. G., Ross, P., Naleway, A., Nelson, J. C., Lewin, B. Glanz, J. M., Williams, J. T. B., Kharbanda, E. O., Yih, W. E., og Klein, N. P. 2022. Risk of myocarditis and pericarditis following BNT162b2 and mRNA-1273 COVID-19 vaccination. Vaccine, 40, 5153-5159

Kim, Mi-Jeong, Jung, H. O., Kim, H., Bae, Y., Lee, S. L., og Jeon, D. S. 2023. 10-year survival outcome after clinically suspected acute myocarditis in adults: A nationwide study in the pre-COVID-19 era. PLOS One, 18, e0281296. doi:10.1371/journal.pone.0281296

Krug, A., Stevenson, J., og Høeg, T. B. 2022. BNT162b2 Vaccine-Associated Myo/Pericarditis in Adolescents: A Stratified Risk-Benefit Analysis. European Journal of Clinical Investigation.
https://doi.org/10.1111/eci.13759