Hírósíma og Nagasakí og nokkrar staðreyndir
—
„Japanir voru reiðubúnir til þess að gefast upp og það var alls ekki nauðsynlegt að ráðast á þá með þessum hræðilega hlut.“ Þessi orð Dwights Eisenhower, þáverandi yfirhershöfðingja og síðar forseta Bandaríkjanna um kjarnorkuárásina á Japan, mátti lesa á sýningu í Smithsonian-safninu í Washington fyrir nokkrum árum.
Ég hlustaði í gærdag (26. ágúst) á þáttinn Heimskviður á Rás 1. Fyrri hluti þáttarins fjallaði um afleiðingar kjarnorkusprenginga Bandaríkjastjórnar á Japan undir lok seinni heimsstyrjaldar. Í þættinum var fullyrt: “Hirohito Japanskeirsari gafst ekki upp fyrr en kjarnavopnum hafði verið beitt.” Þetta er ekki rétt og raunar ágætt dæmi um hvernig sagan er oft endurskrifuð og margendurtekin og verður svo að ígildi sannleiks með tímanum í augum margra, m.a. í skólabókum og fjölmiðlum. Ég fjallaði um þetta í grein sem birtist á Vísi 2014:
„Þegar leið að lokum styrjaldarinnar var Japan rjúkandi rúst; iðnaðarframleiðsla hafði nær stöðvast. Japan var innikróað – engin viðskipti voru við önnur lönd; um 90% kaupskipaflotans voru eyðilögð og hin 10% föst við bryggju í Japan. Einungis 10% sjóhersins voru enn nothæf. Í mars varpaði Bandaríkjaher napalmsprengjum á fjórar borgir, Tókýó, Osaka, Kobe og Nagoya. Í Tókýó féllu á einni nóttu 80.000 manns og 1 milljón varð heimilislaus – hver borgin á fætur annarri var nú sprengd í tætlur, þó voru fjórar borgir, þar á meðal Hiroshima og Nagaski, skildar eftir – í bili!
Því var það að Japansstjórn fór fram á það við Sovétríkin, sem stóðu enn utan við Kyrrahafsstríðið, að þau hefðu milligöngu um friðarviðræður við Bandaríkjastjórn. Stalín greindi Truman og Churchill frá þessu á fundi þeirra þriggja í Potsdam 17. júlí – raunar vissi Bandaríkjastjórn þegar af tillögunni 13. júlí, því leyniþjónustan hafði leyst dulmálslykil Japana. Eina skilyrðið sem Japansstjórn setti var um áframhaldandi fullveldi landsins og að Hirohito keisari héldi völdum. Truman og Churchill höfnuðu skilmálunum og kröfðust 26. júlí uppgjafar án nokkurra skilmála. Eftir að sprengjunum var varpað samþykkti Bandaríkjastjórn (14. ágúst) uppgjöf Japana með sömu skilyrðum og áður hafði verið hafnað.
Daginn áður en Stalín lagði fram tillögu Japana fékk Truman skeyti þar sem á stóð: „It‘s a boy!“ Enginn vissi í raun, hvort sprengjan myndi virka fyrr en „velheppnuð“ tilraun hafði verið gerð í New Mexico þann sama dag. Samstundis var flogið með tvær sprengjur í flotastöð við Kyrrahaf, tónninn gagnvart Sovétríkjunum gerbreyttist en ætlunin var að þau hæfu innrásina í Japan. Nú var allt klárt á síðustu stundu fyrir alvöru tilraun á borg þar sem ekki hafði verið gerð loftárás! Kjarnorkusprengingarnar á Japan voru ekki lokabombur síðari heimsstyrjaldarinnar, þær mörkuðu miklu fremur upphafsskot kalda stríðsins gegn Sovétríkjunum. Þær voru sprengdar í tilraunaskyni og til þess að sýna Sovétríkjunum og öðrum þjóðum að öflugt drápstæki hafði verið þróað og framleitt og eins að Bandaríkin hefðu fullan hug á að beita þessu vopni þegar þurfi þætti.“
Hér má lesa í heild greinina „Hírósíma og Nagasakí og nokkrar staðreyndir“ frá Vísi 2014.