ESB – hernaðarvætt pólitískt samband í efnahags- og stjórnarkreppu

23. desember, 2024

Þjóðaraðkvæðagreiðsla um aðildarviðræður


Í stjórnarsáttmála nýju ríkisstjórnarinnar segir:

„Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu fer fram eigi síðar en árið 2027.“
En það er nú þannig að þjóðaratkvæðagreiðsla um áframhaldandi aðildarviðræður að ESB er í raun kosning um aðild að ESB. Það er auðvitað ekki farið í aðildarviðræður að ESB nema að það sé eindreginn vilji stjórnvalda að ganga þar inn. Hvernig getur land verið í aðildarviðræðum ef stefnan er ekki að ganga í sambandið? Þetta virkar auðvitað ekki þannig. Þannig að þessi hugmynd um að þjóðaratkvæðagreiðsla sem slík sé bara til að „kanna hug þjóðarinnar“ um áframhald viðræðna gengur ekki upp. Það sem þessi nýja ríkisstjórnin er s.s. að gera er að boða kosningu um aðild að ESB, en þorir ekki að segja það hreint út.


Efnahags- og stjórnarkreppa ESB

Einmitt núna þegar Evrópa er í kreppu og Þýskaland, efnahagslegi burðarstólpinn í sambandinu, er að af-iðnaðarvæðast, og þegar sambandið er stöðugt að hernaðarvæðast, að auka þátttöku sína í stríðsrekstri og auka útgjöld til hernaðarmála, þá fær fólk þessa snilldarhugmynd að núna sé svo góður tími að ganga í ESB?

Þessi yfirstandandi efnahagskreppa í ESB er auðvitað að mestu út af Úkraínustríðinu og efnahagsþvingunum gegn Rússlandi, sem hafa lagt efnahag Evrópu í rúst. Þess vegna eru nær allar ríkisstjórnir í Evrópu að tapa miklu fylgi, og hægri-popúlískir flokkar og and-ESB flokkar að sækja í sig veðrið, eins og AfD í Þýskalandi og vinstriflokkur Sahra Wagenknecht, sem leggja áherslu á andstöðu við stríðsreksturinn í Úkraínu, við endalausar vopnasendingar og fjárútlát þangað (í miðri efnahagskreppu).

Núna eru beinlínis stjórnarkreppur bæði í Frakklandi og Þýskalandi, tveimur stærstu löndunum og burðarstólpunum í ESB (eða, verið var að lýsa yfir vantrausti á kanslara Þýskalands og boða til nýrra kosninga). Það er ekki voðalega mikið talað um það að þýska ríkisstjórnin sprakk út af deilum um fjárlagafrumvarpið, milli kanslarans og fjármálaráðherrans, þar sem aðal deilumálið var hversu mikið af peningum ætti að senda til Úkraínu.

Andstaða við þetta er orðin mjög útbreidd afstaða í Evrópu. Þjóðfélagsumræðan um þessi mál hér á landi endurspeglar heldur ekki raunveruleikann, þar sem kannanir sýna að 60% Íslendinga eru á móti vopnasendingum. Samt eru allir stjórnmálamenn og allir helstu fjölmiðlar á sömu línu, með mjög einstrengingslega umfjöllun um þessi mál. Gagnrýnisraddir fá ekki að heyrast, eru alltaf samstundis skotnar í kaf eða þaggaðar niður. Í svona hópefli og stríðshysteríuástandi eru einmitt ekki mjög ákjósanlegar aðstæður til að taka svona stórar og langvarandi ákvarðanir, þegar tilfinningar virðast ráða ríkjum frekar en rökhugsun og ígrundun.

ESB hernaðarvætt pólitískt samband


Ef einhver er í vafa um að ESB sé pólitískt bandalag sem er að hernaðarvæðast í auknum mæli, sjáið þá þessa færslu hérna hjá Josep Borrell á Twitter. En hann var yfirmaður utanríkismála hjá ESB til margra ára (High Representative of the Union for Foreign Affairs and Security Policy), 2019–2024, samhliða því að vera varaforseti Framkvæmdaráðsins. En núna er hann orðin yfirmaður Varnarmálastofnunar ESB (European Defence Agency).

Hann er stundum kallaður „Jungle Josep“ vegna ummæla hans sem vöktu talsverða athygli, og eru af mörgum talin hafa verið frekar rasísk, þar sem hann sagði Evrópu vera „garð“ (garden) á meðan umheimurinn væri „frumskógur“ (jungle) og varaði við því að „frumskógurnn gæti ráðist inn í garðinn“. Sem er ansi kaldhæðnislegt vegna þess að sögulega hefur þetta verið á aðra leið, það eru evrópsku nýlenduveldin sem hafa stöðugt verið að ráðast inn í önnur fátæk lönd í restinni af heiminum, ekki öfugt.

https://www.euronews.com/my-europe/2022/10/19/josep-borrell-apologises-for-controversial-garden-vs-jungle-metaphor-but-stands-his-ground

Þarna í þessari Twitter-færslu segir hann að:

1) „Við [ESB] eigum að vera mikilvægir leikendur í varnarmálum“.

2) „ESB er ekki bara efnahagsbandalag, heldur pólitískt bandalag með skyldur í öryggis- og varnarmálum.“

3) „Sameiginleg öryggis- og varnarmálastefna ESB (Common Security & Defense Policy, eða CSDP) er ekki staðgengill fyrir NATO, en samt mjög mikilvæg fyrir öryggi Evrópu. Þetta er tæki sem við notum til að auka [hernaðarlega] getu okkar og taka sameiginleg skref [í öryggis- og varnarmálum].“

4) „Hlutverk CSDP er ekki bara að auka vopna- og hergagnaframleiðslu. Heldur einnig að halda áfram að móta stefnuna í öryggis- og varnarmálum, þá einkum „Rapid Deployment Capacity“, sem hefur verið samþykkt af öllum 27 aðildarríkjunum.
https://x.com/JosepBorrellF/status/1857018012261364031

Þetta „Rapid Deployment Capacity“ er sameiginleg 5.000 manna herdeild ESB sem á að vera tilbúin árið 2025. Svokölluð „hraðsveit“ sem ég að vera stöðugt reiðubúin og hægt að senda hvert sem er með skjótum fyrirvara. Hægt að lesa um það hér.


Hérna á Evrópuvefnum er síðan hægt að lesa um hlutverk Varnarmálastofnunar ESB á íslensku.



Sjá einnig þessa grein hérna eftir Josep Borrell þar sem hann kallar eftir auknu varnarsamstarfi á vegum ESB: