Djöfullinn skoraði mark
—
Ríkisstjórn Bashar al-Assads í Sýrlandi er fallin. Damaskus er yfirtekin af samtökunum HTS sem eru endurskírð útgáfa af Al Qaeda.
Þetta er mikill sigur fyrir Bandaríkin og Ísrael sem hafa lengi en misopinberlega stutt hina vopnuðu andstöðu í Sýrlandi og, ásamt ESB, rekið efnahagsstríð gegn landinu. Hinu tvíhliða stríði þeirra lauk með sigri. Samtímis er þetta strategískur ósigur fyrir Íran, fyrir Andspyrnuöxulinn í Miðausturlööndum – og ekki síst fyrir Palestínu.
Ríkisútvarpið greinir fjálglega frá sigri „uppreisnarmanna“ í Sýrlandi og segir að frelsisbarátta hinna undirokuðu hafi náð að steypa hinum illræmda harðstjóra Sýrlands við mikinn fögnuð heimamanna. Það er hin staðlaða, opinbera vestræna frásögn af enn einni vestrænt studdri valdaskiptaaðgerð í Miðausturlöndum.
Fall Bashar al-Assads er heimssögulegur geópólitískur atburður, ekki bara sýrlenskt innanríkismál. Fallið gerðist með valdaskiptaaðgerð (regime change operation) að lokinni styrjöld sem ekki var aðeins borgarastríð heldur hluti af hnattrænu stríði. Slíkar valdaskiptaaðgerðir og litabyltingar verða almennt aldrei án þess að hnattveldið með valdamiðju í Washington, og lénsmenn þess, séu þar djúpt íblönduð. A.m.k. tveir bakmenn valdaskiptanna – Netanyahu og Joe Biden – hafa líka þegar gengið fram og eignað sér stóran hluta af heiðrinum. Þriðji bakmaður, Recep Tayip Erdoğan, á ekki minni beinan hlut að máli. Hann rekur með þessu hníf sinn í bak Palestínu, auk Sýrlands og Líbanons, en velur að gera það sem mest í leynum.
Daginn sem Assad flúði til Moskvu var Natanyahu harla glaðhlakkalegur og sagði: „Þessi stjórn er fallin. Það er bein afleiðing þeirra högga sem við höfum greitt Íran og Hizbollah.“
Sama dag flutti Joe Biden ávarp í líkum anda, og sagði: „Grundvallaratriðið í þessu öllu saman er að í fyrsta sinn í sögunni gátu hvorki Rússar, Íranar né Hizbollah-samtökin varið þetta viðbjóðslega stjórnarfar í Sýrlandi. Og þetta er bein afleiðing þeirra högga sem Úkraína og Ísrael hafa látið dynja á þeim, í sjálfsvörn, með fumlausum stuðningi Bandaríkjanna.“
Hin snögga framrás vígahópanna kom fyrst og fremst frá norðvesturhéraðinu Idlib þar sem þeir höfðu um árabil haft sjálfstjórn undir vernd Tyrklands. Hinn snöggi sigur vígahópanna kom flestum á óvart. Borgir Sýrlands hver af annarri féllu í hendur „uppreisnarmanna“ án vopnaviðskipta. Lítið sem ekkert viðnám kom frá Sýrlandsher sem hafði þó barist við sömu andstöðuhópa af krafti og með góðum árangri á öllu tímabilinu 2011-2020. Árásin kom auk þess þegar Hizbollah, bandamenn Sýrlands í Líbanon voru vant við látnir í eigin stríði. Íranir náðu ekki að bregðast við heldur, ellegar að aðstoð Írans var ekki þegin.
Svo er að sjá sem Sýrlandsher hafi gefist upp og lagt niður vopn í framhaldi af því að stjórnkerfi landsins sjálft hafi brotnað saman eða lamast og lagt niður völd. Að stjórnvöld landsins hafi verið þrotin pólitískum (og öðrum) kröftum og ekki treyst sér til að leiða og heyja það framhaldsstríð sem þá blasti við. Hér er þó meiri skýringa þörf.
Ben Norton stendur fyrir vefsíðunni Geopolitical Economy og sendir þar út vel unnar greinar og hlaðvarpsþætti. Þá grein sem jhér fylgir (og hlaðvarpsþátt) birti hann 6. desember, tveimur dögum áður en Damaskus féll:
„Uppreisnarmenn“ í Sýrlandi tengdir Al-Qaeda segjast „elska Ísrael“. Bandaríkjamenn veittu þeim milljarða dollara í vopn og stuðning
Höfundur Ben Norton, sjá Geopolitical Economy.
Bandaríkin hafa varið milljörðum í að vopna og þjálfa vígamenn í Sýrlandi, sem margir hverjir tengjast Al-Qaeda og ISIS.
Jake Sullivan, núverandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, viðurkenndi árið 2012 að „AQ [Al-Qaeda] standa með okkur í Sýrlandi“.
Síðla í nóvember árið 2024 tóku vopnaðir öfgamenn yfir næststærstu borg Sýrlands, Aleppo, í aðgerð sem studd var og kostuð af NATO-ríkinu Tyrklandi.
Sumir „uppreisnarmenn“ sem tengjast Al-Qaeda og stjórna héruðunum Aleppo og Idlib í Sýrlandi sögðu ísraelskum fjölmiðlum að þeir „elskuðu Ísrael“. Þeir hétu því að koma á fót nýrri stjórn í Sýrlandi sem væri vestrænt sinnuð.
Ísraelar hafa um árabil veitt öfgafullum „uppreisnarmönnum“ í Sýrlandi vopn og annan stuðning, þar á meðal Al-Qaeda, sem hafa reynt að steypa ríkisstjórn Bashar al-Assads forseta af stóli með ofbeldi. Stjórn Assads hefur neitað að viðurkenna Ísrael og veitt andspyrnuhópum á svæðinu hernaðaraðstoð.
Endurskírð Al-Qaeda yfirtaka Aleppo
Þó að herskáir Salafi-jihadistar, sem réðust á Aleppo í nóvemberlok, hafi í samúðarskyni verið kallaðir „uppreisnarmenn“ í vestrænum fjölmiðlum, lutu þeir forustu endurskírðs Al-Qaeda.
Helsti vopnaði hópurinn sem lagði Aleppo undir sig heitir Hay’at Tahrir al-Sham (HTS) og kom upp úr sýrlensku Al-Qaeda samtökunum Jabhat al-Nusra (einnig þekkt sem Nusra-fylkingin). Þau var áður stærsta deild Al-Qaeda í heiminum.
HTS skildi sig á yfirborðinu frá Al-Qaeda, sem var hluti af vestrænni almannatengslaherferð, til að sýnast „hófsamari“. Nýíhaldssöm hugveita í Washington hefur hvítþvegið leiðtoga HTS sem „fjölbreytni-sinnaða jíhadista“ en þeir halda samt fast við sömu fasistahugmyndafræðina.
Þrátt fyrir þessa kaldhæðnislegu endurskírn merktu bandarísk stjórnvöld HTS sem hryðjuverkasamtök árið 2018, og gáfu þannig öfgahópnum sömu útnefningu serm þeir áður gáfu Jabhat al-Nusra.
Hryðjuverkastimplar sem þessir hafa engu að síður ekki komið í veg fyrir að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra í Ísrael, Tyrklandi og einveldunum við Persaflóa geti veitt Al-Qaeda-samtökunum í Sýrlandi stuðning.
HTS hreyfingin hefur komið upp stjórn í Idlib-héraði í norðvesturhluta Sýrlands, þar sem hún hefur stjórnað með járnhnefa, með beinni aðstoð frá NATO-landinu Tyrklandi.
Endurskírð vígasveit Al-Qaeda notaði Idlib sem bækistöð til að gera árás á nágrannahéraðið Aleppo í nóvember 2024. Franska réttastofan AFP greindi frá því að sýrlensk „andstöðuöfl í sambandi við tyrknesku leyniþjónustuna sögðu að Tyrkir hefðu gefið grænt ljós á árásina“.
Jake Sullivan: „AQ er með okkur í Sýrlandi“
Enginn annar en Jake Sullivan, sem starfar sem þjóðaröryggisráðgjafi í ríkisstjórn Joe Bidens, viðurkenndi þá staðreynd að Al-Qaeda í Sýrlandi hafi verið í bandalagi við Vesturlönd.
Þegar Barack Obama var forseti var Sullivan aðstoðarmaður Hillary Clinton utanríkisráðherra. Árið 2012 notaði hann tölvupóstinn sinn í utanríkisráðuneytinu til að senda Clinton skilaboð sem WikiLeaks birti síðar.
„AQ stendur með okkur í Sýrlandi“, skrifaði Sullivan með AQ sem skammstöfun fyrir Al-Qaeda.
Aðgerð Timber Sycamore: Stuðningur CIA við uppreisnarmenn í Sýrlandi
Eftir að ofbeldisfull mótmæli brutust út í Sýrlandi árið 2011 hófu Bandaríkjamenn að veita vopnum inn í landið.
CIA setti af stað leynilega áætlun til að vopna og þjálfa uppreisnarhópa sem reyndu að steypa sýrlenskum stjórnvöldum af stóli. Washington Post greindi frá því árið 2015 að þetta framtak hefði „fjárhagsáætlun sem nálgaðist 1 milljarð dollara á ári“ sem þýðir að „aðgerðir tengdar Sýrlandi eru um 1 af hverjum 15 dollurum í heildarfjárhagsáætlun CIA“.
Þetta CIA-verkefni, sem nefndist Operation Timber Sycamore, var samkvæmt New York Times, „ein dýrasta tilraun til að vopna og þjálfa uppreisnarmenn frá því að stofnunin hóf að vopna múhameðstrúarmenn í Afganistan á tíunda áratugnum“, aðgerð sem kallaðist „Cyclone“.
Rétt eins og Cyclone aðgerðin í Afganistan skóp grundvöllinn fyrir Al-Qaeda og Talíbana, kynti aðgerðin Timber Sycamore í Sýrlandi undir vexti Al-Qaeda og ISIS.
Pentagon viðurkenndi opinberlega árið 2015 að uppreisnarmenn sem Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra hefðu vopnað og þjálfað hefðu afhent vopn sín til Jabhat al-Nusra, deildar al-Qaeda í Sýrlandi.
Amnesty International komst einnig að því að þjóðarmorðsfasistarnir í ISIS (einnig þekkt sem ISIL eða Íslamska ríkið) notuðu bandarísk vopn.
Bresku samtökin Conflict Armament Research, sem eru fjármögnuð af evrópskum stjórnvöldum, komust að sömu niðurstöðu og töldu að mörg þeirra vopna sem Bandaríkjamenn og bandamenn á borð við Sádi-Arabíu létu uppreisnarmönnum í Sýrlandi í té, hefðu runnið til ISIS.
DIA-skjal viðurkennir að Al-Qaeda og Íslamska ríkið hafi verið ráðandi í stjórnarandstöðunni í Sýrlandi frá upphafi.
Þrátt fyrir að stjórnvöld í Washington segist ekki hafa stutt Al-Qaeda og ISIS í Sýrlandi af ásettu ráði sýna innri skjöl að bandarískir ráðamenn vissu að stefna þeirra styrkti þjóðarmorðsöfgahópa.
Í minnisblaði leyniþjónustunnar Defence Intelligence Agency (DIA, leyniþjónusta á vegum bandaríska hersins) frá árinu 2012, sem seinna rataði í dagsljósið, kemur fram að „Salafistar, Bræðralag múslima og AQI eru helstu öflin sem hafa knúið fram uppreisnina í Sýrlandi frá upphafi“. Með AQI er vísað til Al-Qaeda í Írak sem síðar varð að ISIS.
„AQI studdi stjórnarandstöðuna í Sýrlandi frá upphafi“, segir í minnisblaðinu sem sent var til bandaríska utanríkisráðuneytisins, sameiginlegra yfirmanna, heimavarnarráðuneytisins og alríkislögreglunnar, auk þess sem bréfið var sent beint til Hillary Clinton utanríkisráðherra og Leon Panetta varnarmálaráðherra.
„Vesturlönd, Persaflóaríkin og Tyrkland styðja stjórnarandstöðuna, en Rússland, Kína og Íran styðja stjórnarherinn“, segir í skjalinu.
Í minnisblaðinu frá árinu 2012 mátti glögglega sjá að „það er möguleiki á að stofna yfirlýst eða óyfirlýst furstadæmi salafista í Austur-Sýrlandi (Hasaka og Deir ez-Zor) og það er einmitt það sem stuðningsöfl stjórnarandstöðunnar vilja, til þess að einangra sýrlenska stjórnarherinn“.
Deir ez-Zor var síðar yfirtekin af ISIS, rétt eins og DIA spáði.
Að sama skapi sáu sérfræðingar leyniþjónustunnar í Pentagon fyrir að „ISI [íslamska ríkið Írak] gæti einnig lýst yfir íslömsku ríki með sameiningu við önnur hryðjuverkasamtök í Írak og Sýrlandi“ sem myndi laða að „hryðjuverkaöfl alls staðar að úr arabaheiminum“. Þeir bentu á írösku borgina Mosul sem annan mögulegan stað fyrir þetta „salafi-furstadæmi“.
Allt gerðist þetta á næstu árum: ISI tók yfir Mosul og teygði anga sína til Sýrlands og myndaði ISIS (eða ISIL) og beitti bandarískum vopnum til að fremja þjóðarmorð og fjöldamorð.
Í áðurnefndu skjali kemur skýrt fram að bandarískir ráðamenn voru frá upphafi „óhreina stríðsins“ gegn Sýrlandi fullkomlega meðvitaðir um að stuðningur þeirra við „uppreisnarmennina“ myndi styrkja öfgahópa eins og Al-Qaeda og ISIS. Þeir ákváðu engu að síður að eyða milljörðum dollara í að dæla vopnum inn í landið.
Ísraelar styðja uppreisnarmenn í Sýrlandi, þar á meðal Al-Qaeda.
Ísraelar studdu einnig beint „uppreisnarmenn“ í Sýrlandi sem tengdust Al-Qaeda. Árið 2019 viðurkenndi Gadi Eisenkot, yfirmaður herráðs Ísraelshers (IDF), opinberlega að Ísraelar hefðu gefið uppreisnarmönnum í Sýrlandi vopn til að reyna að steypa ríkisstjórn Assads forseta af stóli.
Ísraelar aðstoðuðu jafnvel sýrlenska Al-Qaeda beint. Í frétt Times of Israel frá árinu 2015 segir að „Ísraelar hafi opnað landamæri sín að Sýrlandi til þess að veita Nusra Front og þeim vígamönnum Al-Qaeda læknismeðferð sem særðir hafa verið í borgarastyrjöldinni sem nú stendur yfir“.
Eftir að hafa kallað Al-Qaeda „skárri af tveimur slæmum“ hefur Wall Street Journal eftir fyrrum yfirmanni leyniþjónustu Ísraelshers, Amos Yadlin, að sía-íslömsk þjóðernissinnuð stjórnmálaöfl eins og Hezbollah í Líbanon og Íran „séu helsta ógnin við Ísrael, miklu frekar en róttækir súnní-íslamistar“.
Yadlin tók það glaðbeittur fram að Al-Qaeda „hefðu ekki truflað Ísrael“ heldur einbeitt sér að því í staðinn að berjast gegn óvinum Ísraels. „Þau súnnísku öfl sem ráða yfir tveimur þriðju til 90% af landamærunum að Gólanhæðinni eru ekki að ráðast á Ísrael“, sagði fyrrverandi yfirmaður leyniþjónustu hersins. „Þetta gefur manni ástæðu til að halda að þeir skilji hver er raunverulegur óvinur þeirra – kannski er það ekki Ísrael“.
Virt ísraelsk hugveita sem vinnur verktakavinnu fyrir NATO birti grein árið 2016 þar sem hún hélt því fram að Vesturlönd ættu ekki að eyða ISIS, því þau væri „gagnlegt verkfæri“ gegn Íran, Hizbollah og Sýrlandsstjórn. Hugveitan lagði á það áherslu: „Áframhaldandi tilvist IS [íslamska ríkisins] þjónar hernaðarlegum tilgangi“.
Á sama tíma og ISIS öfgamenn frömdu þjóðarmorð á sía-múslimum og öðrum trúarlegum minnihlutahópum á Gaza sýndu þeir Ísraelum opinberlega samúð. Árið 2017 upplýsti Moshe Ya‘alon, fyrrverandi varnarmálaráðherra Ísraels, að ISIS hefði beðið Tel Aviv afsökunar eftir að hafa fyrir slysni ráðist á ísraelskar hersveitir á Gólanhæðum, sem er fullvalda svæði í Sýrlandi sem Ísraelar hafa hernumið áratugum saman, ólöglega samkvæmt alþjóðalögum.
Uppreisnarmenn í Sýrlandi segjast „elska Ísrael“
Eftir að endurskírð Al-Qaeda yfirtóku Aleppo aftur yfir í nóvember 2024 ræddu nokkrir sýrlenskir „andspyrnu-aðgerðasinnar“ við ísraelska fjölmiðla. Á meðan Ísraelar beittu bandarískum vopnum til að framkvæma svívirðilegt þjóðarmorð á Gaza, lofuðu þessir leiðtogar uppreisnarmanna Sýrlands stjórn Benjamins Netanyahus forsætisráðherra, hins eftirlýsta af Alþjóðaglæpadómstólnum vegna glæpa gegn mannkyni sem framdir voru gegn palestínsku þjóðinni.
Ísraelski ríkisfjölmiðillinn Kan tók viðtal við uppreisnarmenn frá Aleppo og Idlib, sem sögðu: „Við elskum Ísrael og vorum aldrei óvinir þess… [Ísrael] er ekki fjandsamlegt þeim sem eru ekki fjandsamlegir því. Við hötum ykkur ekki, við elskum ykkur mjög mikið“.
Að sögn Times of Israel hrósuðu sýrlensku vígamennirnir Ísraelum fyrir að varpa sprengjum á Hizbollah. Þeir töldu stríð Ísraela gegn Líbanon hafa hjálpað þeim að vinna Aleppo.
Sýrlenskur uppreisnarforingi sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina Stöð 12 í Ísrael að vígamennirnir reyndu að steypa Bashar al-Assad forseta af stóli og stofna nýja ríkisstjórn sem ætti í góðum samskiptum við öll ríki á svæðinu, „þar á meðal Ísrael“.
Foringi uppreisnarmanna bað Ísraela að gera beinar árásir á Sýrland og sagði: „Við skorum á ísraelska ráðamenn að gera öflugar árásir á herstöðvar og liðsmenn vígasveita Írans á sýrlensku yfirráðasvæði“.
Ísraelar hafa þegar nokkur hundruð sinnum skotið sprengjum á Sýrland á síðasta áratug og beint spjótum sínum að andspyrnuherjum gegn nýlendustefnunni.
Bandaríkjamenn hafa einnig skotið sprengjum á Sýrland tugum sinnum frá árinu 2011, síðast í nóvember 2024.
Bandaríkin reyna að deila og drottna yfir Andspyrnuöxlinum
Stjórnvöld í Washington hafa reynt að kljúfa Andspyrnuöxulinn, sem samanstendur af nýlendustefnu-andstæðingum í Íran, Írak, Sýrlandi, Líbanon, Jemen og Palestínu, þar á meðal eru bæði ríki, og hálf-ríkistengdir vopnaðir hópar eins og Hizbollah, Ansarallah (einnig þekktir sem Hútar) og Hamas.
Sýrland hefur verið mikilvægur þáttur í þessu neti og útvegað vopn til andspyrnuhópa sem berjast gegn hernámsöflum Bandaríkjamanna og Ísraela.
Reuters greindi frá því í desember að Bandaríkjastjórn og bandamenn hennar í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þrýstu á Sýrland að slíta náin tengsl við Íran og hætta vopnaflutningum til þjóðfrelsissamtaka eins og Hizbollah.
Gegn því að Sýrland brjóti upp Andspyrnuöxulinn bauðst Washington til að aflétta hinum kæfandi refsiaðgerðum gegn landinu.
Bandaríkin og Evrópusambandið hafa um árabil haldið áfram að beita Sýrland einhliða refsiaðgerðum, sem brjóta í bága við alþjóðalög.
Alena Douhan, sérlegur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna, sagði að refsiaðgerðir Vesturlanda gegn Sýrlandi væru „forkastanlegar“ og „kæfandi“ fyrir milljónir almennra borgara. Hún sagði að þær væru mögulega „glæpir gegn mannkyni“.
Refsiaðgerðir Vesturlanda hafa valdið miklum skaða í Sýrlandi, mikilli verðbólgu og skorti á matvælum og eldsneyti. Þessi skortur hefur aukist vegna löglausrar hersetu Bandaríkjahers á sýrlensku landssvæði í austurhluta landsins, þar sem olíubirgðir landsins eru.