Gaza: Lokamarkmiðið er þjóðernishreinsun

3. nóvember, 2023 Jón Karl Stefánsson

Ísraelska hugveitan Misgav Institute for National Security & Zionist Strategy, birti í síðustu viku skýrslu sem ber nafnið „Áætlun um tilfærslu og endanlegan flutning allra íbúa til Egyptalands: Efnahagslegir þættir“ (e. „A plan for resettlement and final rehabilitation in Egypt of the entire population of Gaza: economic aspects“). Skýrsluna má nálgast hér. Í skýrslunni er það reifað að árás Hamas í Ísrael þann 7. október s.l. megi líta á sem einstakt tækifæri til þess að flytja alla íbúa Gaza yfir til Egyptalands í eitt skipti fyrir öll. Þessi hugveita er mjög áhrifamikil í Ísrael og innan hennar eru fyrrverandi ráðherrar og meðlimir í stjórnarflokki Benjamins Netanyahus. Sjá nánar umfjöllun á the Intercept og Mint Press News

Efnahagslega séð tengir hugveitan þessi áform við áform Ísraels, Vesturveldanna (Bandaríkjanna og Evrópubandalagsins), Jórdans, Sádí Arabíu og Sameinuðu Arabísku furstadæmanna um smíði öflugra birgðaflutningaleiða úr austri í vestur sem gæti keppt við flutningsleiðir sem Kínverjar, Rússar og Íranir hafa þegar komið upp. 

Ísraelska dagblaðið the Calcaist hafði áður fjallað um leynilega stefnumótun hægriafla í ríkisstjórn Ísraels um að flytja alla íbúa Gaza til Egyptalands. Að sögn dagblaðsins hefur áætlunin helst tafist vegna lítils áhuga egypskra stjórnvalda á þessari áætlun. Þó að þessar áætlanir hafi ekki verið kynntar opinberlega og ekki er hægt að fullyrða að þær séu viðurkenndar af stjórnvöldum, bendir margt til þess að áhrifamiklir stjórnmálamenn í landinu styðji þessar áætlanir. Danny Ayalon, fyrrverandi ráðherra í Ísrael, lýsti því t.d. yfir um miðbik síðasta mánaðar að Palestínumenn í Gaza ættu að flytja í tjaldbúðir í Sínai-skaga í Egyptalandi, að minnsta kosti á meðan Ísraelar murkuðu lífið úr Hamas. 

Ráðamenn í Ísrael hafa í það minnsta ekki lýst því opinberlega að þessar gríðarlegu umfangsmiklu þjóðernishreinsanir séu ekki á pallborðinu og árásir Ísraelshers undanfarnar vikur eru það hryllilegar að nota má orðið þjóðarmorð um það sem nú á sér stað. Ólíkt íslenskum fjölmiðlum hafa þeir norsku mannskap á staðnum. Myndir fréttamanna VG frá vettvangi annarrar sprengiárásarinnar á Jabalia flóttamannabúðirnar í Gaza segja allt sem segja þarf. Sjá hér. Ísraelsher gerði svo enn loftárásir á þessar búðir nú í gær, í þetta skiptið á fjölbýlishús þar sem í það minnsta 100 einstaklingar höfðu leitað sér skjóls.

Ísraelar hafa varpað því sem samsvarar tveimur kjarnorkusprengjum á Gaza á tæpum mánuði. Mynd: Euro-Med Human Rights Monitor.

Ástandið fyrir almenning í Gaza versnar með hverjum deginum. Í nýjustu skýrslu SÞ um málefni flóttamanna í Palestínu (UNRWA, 2. nóvember) kemur fram að í það minnsta 8720 manneskjur hafi verið drepnar, meirihluti þeirra börn, konur og gamalmenni. Um 22.000 hafa særst alvarlega og um 2000 einstaklingar eru enn týndir, þar af 1.100 börn. Líklegast er þetta fólk grafið undir húsarústum sem Ísraelsher hefur eyðilagt. Meira en 530.000 dvelja í flóttaskýlum UNRWA. Þau eru nú yfirfull og fólk neyðist því til að sofa á götum úti nálægt skýlunum. . 625 þúsund nemar í Gaza hafa engan aðgang að menntun. Ísraelsher hefur gert sprengiárásir á flóttamannabúðir, íbúðahverfi og í raun öll innviði Gaza, og eru nú einnig að stunda árásir á Vesturbakkanum. 72 starfsmenn UNRWA hafa fallið í árásum Ísraels og í það minnsta 44 miðstöðvar þeirra eru ónýtar. Rafmagn hefur ítrekað verið tekið á, eins og netsamband og meir að segja vatn. Heilbrigðiskerfið er á mörkum þess að hrynja, en samkvæmt nýjustu tölum frá Palestínu eru nú 16 sjúkrahús og 32 heilsugæslustöðvar í Gaza óstarfhæf vegna árása Ísraels. 

Íslenska ríkisstjórnin hefur enn á ný smánað þjóðina með ótrúlegum viðbrögðum og hjásetum á meðan öllu þessu stendur.