Full þörf á málefnalegum skæruhernaði

14. ágúst, 2023 Rúnar Kristjánsson

Sjómenn hafa löngum verið atkvæðamikill hópur í íslenskri þjóðarsögu. En eftir upptöku hins illræmda kvótakerfis, sem færði auðlindina í hendur fjármagns-aflanna í landinu, hefur reisn íslenskra sjómanna verið barin niður með ýmsum hætti. Það er ljót saga og engir þekkja hana betur en sjómenn þessa lands!

Nú er sjómannastéttin með þeim hætti að hún virðist orðin tvískipt. Annarsvegar eru þeir sem virðast hafa verið barðir niður að fullu og þegja og hlýða og svo hinsvegar þeir sem enn virðast vilja berjast fyrir mannréttindum sínum sem frjálsir sjómenn. Það eru fyrst og fremst menn af því tagi sem hafa stundað strandveiðarnar sem nú er verið að taka af þeim!

Og af hverju er verið að gera það? Jú, stórútgerðin teygir sig stöðugt lengra. Ránshönd hennar er alltaf útglennt og kerfið þjónar henni meira og minna. Nú nær mannréttindasvipting sjómanna til veiða yfir 10 mánuði á ári. Strandveiðar eru orðnar minna en helmingur þess sem þær áttu að verða. Bláhönd ranglætisins hvílir þungt á sjómönnum þeim sem enn reyna að verjast sægreifavaldi svívirðunnar og um leið er stöðugt þrengt að almennings-frelsi á Íslandi í gegnum ólýðræðisleg tök hins ógeðslega blóðsuguvalds sem ógnar hér öllum friði og allri þjóðarsamstöðu!

Sjómenn verða að taka upp málefnalegan skæruhernað. Skipuleggja andstöðu sína og skrifa látlaust greinar í fjölmiðla og vekja athygli alþjóðar á yfirgangnum. Það þarf hver og einn að láta þar til sín taka. Hamra stöðugt á hinum frjálsa mann-rétti til sjósóknar. Hefja málefnalegan hernað í ræðu og riti!

Það má ekki gefa mafíu misréttisins nokkurn frið. Fáeinir, vinalausir menn mega ekki fá að ráðskast með auðlindir þjóðarinnar eins og verið hefur. Menn sem telja allt til sölu og ganga fram í rang-lætisanda kúgunar og ofríkis!

Ráðherrar, þingmenn og embættismenn sem þjóna undir kvótakerfis-kúgunina, sumir sýnilega meira eða minna orðnir heila-þvegnir til hugar og sálar, þurfa stöðugt að vera minntir á það, að þeir bera ábyrgð gagnvart þjóðinni, gagnvart almannaheill!

Þeirri ábyrgð verða þeir að svara með manngildislegum hætti, sem þjónar sam-félagsins, en ekki sem þjónar ógeðslegrar eigin-hagsmunaklíku sem er fullkomlega andstæð íslensku mannfrelsi. Kvótakerfið byggir allt sitt á raunverulegri þjóðar-kúgun og einum versta viðbjóði íslenskrar sögu!

Sjómenn Íslands! Látið ekki gera ykkur að algjörum þrælum margbölvaðs misréttis-kerfis, standið fast á rétti ykkar sem frjálsir menn og mótmælið alla daga ranglætinu og öllu því spillta stjórnvaldi sem ryður því braut í þessu landi!