Íslensk fúkyrðaumræða

23. maí 2022 — Jón Karl Stefánsson

fúkyrði

Ég rakst á skoðanagrein í bloggi á Stundinni fyrir skemmstu. Í henni var minnst á mig og ég varð því forvitinn. Greinin tengdist Úkraínu, og mig grunaði því að verið væri að vísa í grein sem ég skrifaði í upphaf ársins. Ég var opinn fyrir málefnalegri gagnrýni um greinina, en ekki sérstaklega vongóður um að svo yrði. Því miður reyndist greinin vera lýsandi fyrir íslenska umræðuhefð.

Ég svara einungis fyrir mína eigin grein og því sem þar stendur, og held mig við það hér. Ég sé ekki ástæðu til að ræða mikið um sjálfa greinina, enda er hún yfirfull af langlokum sem hafa ekkert samhengi með innihald neins sem ég hef skrifað. Ég þurfti að bíða lengi eftir nokkru sem líktist málefnalegri gagnrýni, en nóg var af fúkyrðum um mig og aðra. Samkvæmt greinagerðinni er ég meðal annars:

Ég las áfram, spenntur að sjá hvaða gagnrýni leyfði þvílíka dóma, en greip í tómt. Málefnaleg gagnrýni á greinina er ein og stök þessi:

„Gagnstætt honum vitnar Jón Karl í margvíslegar heimildir fyrir þeirri kenningu að CIA hafi reynt að hafa áhrif á fjölmiðla. Sennilega rétt en varla hefur leyniþjónustan náð þeim miklu tökum á fjölmiðlum sem Jón Karl heldur. Enda viðurkennir hann að amerísk þingnefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að CIA réri á gruggug fjölmiðla-mið.“

Greinin sem hann vísar í, og hingað til eina greinin sem ég hef skrifað um Úkraínudeiluna, birtist sem sagt á Neistum þann 31. janúar s.l., þ.e. nokkru fyrir innrás Rússlandshers og ber hún heitið „Undir Wolfsangelfána“. Þetta er nokkuð löng grein, en allar staðhæfingar í henni eru vel og kirfilega studdar með heimildum. Í henni eru margir punktar sem settir eru fram í eins skilmerkilegri röð og tök voru á og því ætla ég ekki að endurtaka mál hennar. Ég efast stórlega um að þessi maður hafi lesið greinina, enda eru lokaorð hennar beinlínis þessi:

Vegna þess að varla er til sú fréttaskýring á málefnum Úkraínu að nafnið Pútín komi ekki fram í aðalhlutverki, þá er nærri öruggt að einhver líti á þessa yfirferð sem einhvers konar afsökun á framferði Rússa eða að hér sé Pútín mærður. En þessi grein fjallar alls ekki um Rússland eða Pútín, heldur um Úkraínu og Úkraínumenn, hvort sem þeir búa í austri eða vestri.

þessi tiltekni greinahöfundur sannar þessi lokaorð. Greinin fjallar um mjög afmarkaða hluti og eðlileg gagnrýni á hana verður að taka á sjálfu innihaldi greinarinnar, ekki vangaveltum, hugarórum og getgátum um hvað liggi á bakvið.

Þessi tegund „gagnrýni“ er því miður ráðandi á Íslandi. Mönnum virðist reynast það algjörlega ofviða að halda sig við málefni, við sjálft innihaldið og leyfa sér að kasta fúkyrðum í krafti lélegra brandara og getgáta um hvað liggi að baki efninu sem um ræðir. Allar tilraunir til að kveikja á yfirvegaðri og málefnalegri umræðu renna í sandkassann þar sem menn liggja hver í sinni skotgröf og kasta aur. Menn geta einfaldlega ekki stillt sig, og þess vegna er galskapur að bíta á agnið og taka þátt, nema fyrir þá sem njóta þess að liggja í sandkassanum.

Þetta virkar. Því miður nenna fæstir að lesa lengri greinar eða umræður. Það er auðveldara að stimpla og draga í dilka. Að taka þátt í þessari tegund umræðu þar sem menn hlaupa beint í persónuárásir, slagorð, skrúðgöngulest og innihaldslausar fordæmingar gerir bara illt verra. Ég nenni því ekki og ég skil vel fólk sem einfaldlega nennir ekki að tjá sig um neitt lengur og leyfa bara þeirri skrúðgöngulest sem ríkir hverju sinni að rúlla um göturnar.

Málefnaleg umræða er að öllu leyti góð. Hún er holl fyrir alla. Tilgangur hennar er að komast að hinu rétta, bæði hvað staðreyndir varðar og siðferði. Við ættum öll að éta með glöðu geði ofan í okkur fullyrðingar sem reynist rangar. Þessu reyni ég persónulega að fylgja. Ég er ekki í keppni um að vinna rökræður, ég er ekki klappstýra fyrir neitt lið og ég reyni að láta ekki stoltið byrgja mér sýn. Ég þarf ekki að „viðurkenna“ eitt né neitt. Ég hef það að markmiði að sætta mig við það sem er satt og rétt, og ef ég sé að einhver fullyrðing er röng þá vil ég benda á það með eins góðum heimildum og rökum og ég get, sama hversu óvinsælt það er hverju sinni. Um leið verð ég að breyta um sannfæringu ef ég reynist hafa rangt fyrir mér. Það er hollt fyrir sálina að læra af reynslunni og sjá hvenær maður hefur rétt fyrir sér og hvenær ekki. Ég tek þess vegna málefnalegri gagnrýni fagnandi, en svara ekki fyrir neitt sem ég hef ekki sagt, ekki fyrir skoðanir sem á mig er klínt, ekki fyrir annarlegar hvatir sem ég hef ekki.. Ég hef ekki tíma fyrir það. Ég ætti að biðja þennan mann um afsökunarbeiðni fyrir innihaldslaus fúkyrði, en ég veit vel að það mun aldrei gerast.

En ég óska þess heitt að íslensk umræðuhefð batni, annars er ekkert vit í því að reyna að byrja umræður. Samfélaginu verður ekki við bjargandi heldur rennur það ofan í fen múgæsingarinnar. Þetta þarf ekki að vera flókið. Ef við tökum öll saman höndum og fylgjum mjög einföldum umræðureglum, þá getum við í sameiningu búið til betra samfélag og komist að réttari niðurstöðum. Þetta eru reglur eins og:

  1. Haldið gagnrýninni á málefni. Horfum á rök og heimildir einungis.
  2. Markmið rökræðu eru að komast að hinu sanna og taka réttar ákvarðanir; ekki að sigra andstæðing og flokka í lið.
  3. Fylgjum prinsippum á borð við „gerum það sem við getum til að lágmarka sársauka annarra“, „reynum að láta gott af okkur leiða“, „stöndum með almenningi“, „allir hafa sömu réttindi“ o.s.frv.
  4. Forðumst að fordæma aðra, nota fúkyrði, sverta mannorð hins aðilans og nota órökstuddar dylgjur til að draga úr trúverðugleika annarra.
  5. Verum opin fyrir að skoða fleiri hliðar máls.
  6. Skrúðgöngulestin hefur ekki alltaf rétt fyrir sér.
  7. Reynum eftir fremsta megni að fylgja helstu reglum rökfræðinnar.
  8. Forðumst rökvillur
  9. Forðumst aðferðarfræði Davíðs Oddsonar um að hæðast að mótaðilanum til að draga úr trúverðugleika hans.
  10. Leitum ætíð sannleikans.

Það er engin lausn á hinu sorglega ástandi sem er í íslenskri umræðuhefð. Hún svertir alla sem að henni koma og skapar andlega vargöld. Það eina sem við getum gert er einfaldlega að taka ekki á neinn hátt þátt í lélegri umræðu. Ég geri undantekningu hér, einungis til að reyna að útskýra hvers vegna ég mun almennt ekki svara svipuðum greinum. Ef ekki er hægt að ræða um málefnin og innihaldið, þá er ekkert vit í því að byrja. Sleppum því. Deilum þeim upplýsingum sem við teljum að sé mikilvægt að koma á framfæri, en verum meðvituð um að einhverjir munu velja að snúa út úr því sem þú segir. Hættum á samfélagsmiðlum sem beinlínis ýta undir aurburð, sundrungu og hatur. Ræðum málin eins og fólk og reynum að snúa þessari umræðuhefð við. Við munum öll græða á því. Elskum friðinn og stöndum með lítilmagnanum og sannleikanum áfram.