,,Friðarheimur Norðurlanda“ yfirtekinn af Nató!

24. janúar, 2024 Rúnar Kristjánsson

Á skömmum tíma hefur staða hinna svokölluðu Norðurlanda gjörbreyst. Hin gamla ímynd, að Norðurlönd væru kjörsvæði lýðræðis og friðarhugsjóna, er týnd og tröllum gefin. Nú eru Norðurlönd orðin að fullu samfelldur Natóheimur hervæðingar-hugsunar og ekki lengur tengd neinni friðarstefnu í milli-ríkjasamskiptum. Eins og flestir menn vita, sem ekki hafa verið heilaþvegnir, er vitað að hernaðarbandalag þrífst á ófriði en ekki friði!
 
Lýðræðismynd Norðurlanda hefur samt löngum verið nokkuð brothætt, og hún skaðaðist mikið þegar í ljós kom 1984 og árin þar á eftir, að friðarstefna Svíþjóðar hafði líklega alltaf verið fölsk. Sænska ríkið hafði nefnilega um skeið haft miklar og vaxandi tekjur af vopnasölu til annarra ríkja, en því var haldið leyndu!
 
Á umræddum tíma var gerður stærsti vopnasölusamningur í sögu Svíþjóðar upp á 1,4 milljarða dollara, á vopnum frá Bofors samsteypunni til Indlands. Það varð meiri-háttar hneyksli er upp komst um tvöfeldni Svía. Eftir það fóru fjölmiðlar um allan heim að tala í háðstón um – að í sænska krataríkinu réði Bofors-kapítalismi, sem væri sjálfkrafa með fullkominn fjármála-forgang gagnvart allri friðarstefnu!
 
Sænsku kratarnir urðu sér endanlega til skammar í þessum skandal og náðu aldrei fyrri tiltrú sem friðarpostular eftir Bofors hneykslið. Þáverandi leiðtogar Svíþjóðar og Indlands, Olaf Palme og Rajiv Gandhi sem léku stóru hlutverkin í þessu vopnasölumáli, voru skömmu síðar báðir myrtir, Palme 1986 og Gandhi 1991. Geislabaugur friðarhöfðingjans var þá náttúrulega alveg dottinn af Palme og Svíþjóð stóð afhjúpuð í augum heimsins sem sérstaklega falskt græðgisbatterí blekkinga og svika. ,,The little coward country“, svo notuð séu orð Churchills, hafði málað sig út í horn!
 
Noregur var hinsvegar gleyptur af Nató frá upphafi, enda hægri kratar mjög í forustu þar. Svipað mátti segja um Ísland, enda krati settur í stól forsætisráðherra meðan valdayfirtaka Nató átti sér stað í landinu. Formenn íhalds og Framsóknar sáu ekki ávinning í þeirri valdastöðu rétt á meðan, þó þeir væru auðvitað með í spilinu. Það er í raun lítið um þessi tvö ríki að segja og framgöngu þeirra fyrir friði og lýðræðislegum vinnubrögðum. Alþingi og utanríkismálanefnd eru til dæmis ekki höfð með í ráðum hérlendis þegar afsal á landsréttindum eða önnur þjónkun við útlendinga er viðhöfð. Þessi tvö ríki hafa alltaf verið undirgefin Natóvaldi og jafnan sýnt þar fullkomlega manndómslausan undirlægjuhátt í öllum efnum, eins og Sagan sýnir og sannar!
 
Veruleiki Sögunnar segir okkur líka, að það hefur löngum verið grunnt á fasisma í Finnlandi, enda ber að hafa í huga að Finnar börðust með Nazista-Þýskalandi í heimsstyrjöldinni síðari. Sumir leiðtogar Finna þá voru taldir æstir meðhaldsmenn Hitlers. Ennfremur var það svo í borgarastyrjöldinni 1918, milli hvítliða og rauðliða, að þar réð þýskur her úrslitum og tryggði hvítliðum sigur. Stórjarðeigendur og aðalsættir landsins nutu áframhaldandi valda fyrir vikið en alþýðan var pískuð í hel!
 
Carl Gustaf Emil Mannerheim síðar marskálkur, þjónaði lengi sem liðsforingi í rússneska keisaraveldishernum og hann var alla tíð merktur þeim anda sem hann ólst upp við þar. Hann fór fyrir finnskum hvítliðum í fullu kompaníi við þýska herinn, sem var öflugur í landinu undir stjórn hershöfðingjans Rudiger von der Goltz. Fyrrnefnd borgarastyrjöld áttu sér stað á síðustu mánuðum fyrri heims-styrjaldarinnar og harkan í þeim bræðra-vígum var skelfileg og einkum þó eftirleikurinn. Líklega er sú atburðarás eitt af því ljótasta sem gerst hefur á Norðurlöndum!
 
Rudiger von der Goltz var í reynd algjör einræðisherra í Finnlandi um nokkurt skeið eftir að bardögum lauk. Þá tóku við umfangsmiklar aftökur á andstæðingum hvítliða og hefur aldrei mátt tala mikið um þau fjöldamorð í uppmáluðum friðarheimi Norðurlanda. Ógnarstjórn þeirra tíma í Finnlandi hefur aldrei verið gerð upp, enda algjört feimnismál með öllum sínum hryllingi og múgmorðum. Látum svo úttalað um Finnland og þá þjóð sem þar býr, og er ekki skyld okkur Íslendingum að einu eða neinu leyti!
 
Danmörk er dálítið sérstakt ríki, því Danir sem þjóð virðast hafa tilhneigingu til að hugsa dálítið um þjóðlega sóma-tilfinningu. Sú afstaða til mála er auðvitað Natósneydd hugsun og ekki sérlega áberandi á hinum Norður-löndunum. Danir eru að vísu í Nató, enda var þeim víst ekki stætt á öðru, en þó þeir beri það æruok, eru þeir samt mannleg og virðingarverð þjóð að mörgu leyti!
 
Ég ætla ekki að rekja sögu Dana frekar, en hefði þó vonað að þeir væru ekki þær konungs-sleikjur sem þeir virðast vera, alveg eins og Norðmenn og Svíar. Sama konungsættin ríkir yfir öllum þessum þjóðum enn í dag og virðast litlar framfarir líklegar til að breyta því í fyrirsjáanlegri framtíð. En þar sem konungsvald er dýrkað í einhverjum mæli, verður almannaheill aldrei ráðandi!
 
Annars skipta Norðurlöndin engu máli í hinu stóra hernaðarlega samhengi. Ríki upp á örfáar milljónir manna valda þar litlum sem engum breytingum á valdahlutföllum, hvað þá Ísland með sínar 300 þúsund ættjarðarsálir. Það eina sem kann að breytast eru líkur á aukinni hernaðar-uppbyggingu Nató á Norður-löndum sem gæti þá miklu frekar kallað á það, að viðkomandi ríki yrðu höfð að skotmörkum. En í styrjöld sem kosta myndi tugmilljónir manna lífið í það minnsta, yrðu fáeinar milljónir Norðurlandabúa líklega ekki talinn stór fórnarhluti!