Frakkland að missa tökin á fyrrverandi nýlendum sínum

14. ágúst, 2023 Jón Karl Stefánsson

Níger er fjórða ríkið í norðvesturhluta Afríku, svæði sem landfræðilega kallast Sahel og voru áður hluti af nýlenduveldi Frakklands, þar sem valdarán hefur farið fram á síðustu árum. Þessi valdaskipti  hafa öll farið fram eftir að Frakkar leiddu árásir á fyrrverandi stjórnvöld í Líbíu árið 2011, en sá gjörningur eyðilagði allan stöðugleika á svæðinu. Landsmenn þessara landa eru orðnir langþreyttir á uppivöðslu jíhadista og þó enn frekar efnahagslegum og pólitískum yfirgangi frönsku yfirstéttarinnar. Frakkar hafa haldið uppi herafla í þessum ríkjum, en sérstaklega í nágrannaríki Nígers, Chad, undir því yfirskyni að þeir séu í stríði gegn ISIS; samtökum sem Frakkar og önnur NATO-ríki studdu (þá undir heitinu Libyan Islamic Fighting Group) í „byltingunni“ gegn Jamahiriya stjórninni í Líbíu (auglýst sem stríð gegn Gaddafi) árið 2011. Þessi herafli hefur verið notaður sem hluti af valdakerfi sem hefur verið í mótun síðan 1830.

Nýlenduherrarnir í Sahel

Nýlendustefna Frakklands í Afríku hófst að fullum krafti árið 1830 er franski herinn gerði innrás í Alsír og í kjölfarið önnur ríki í norðvesturhluta heimsálfunnar. Á næstu áratugum eignaði Frakkland sér víðfeðm svæði og gerðu íbúa Fílabeinsstrandarinnar, Senegal, Benin, Máritaníu, Malí, Efri Voltu / Burkina Faso, Niger, Gíneu, Vestur-Kongó, Kamerún, og svo ríkja sem ekki eru til í dag að undirsátum sínum. Þeir eignuðu sér svo fleiri nýlendur, bæði í Afríku, auk Ameríku og Asíu. Í meira en öld byggði franska valdastéttin upp kúgunarkerfi sem tryggðu að mestur hluti hagnaðarins af auðlindum þessara ríkja enduðu í bankareikningum frönsku valdastéttarinnar. 

Það voru íbúar Marokkó, Túnis og Alsírs sem náðu fyrstir að frelsa sig undan oki frönsku nýlenduherranna. Það var ekki ókeypis. Frelsisstríð Alsíringa varði frá 1956 til 1962 og var það andstyggilegur hildarleikur fyrir landsmenn. Fjöldi þeirra sem féllu í viðureignum við leiguhermenn frönsku nýlenduherranna er umdeildur. Frakkar sjálfir telja að um 400 þúsund Alsíringar hafi fallið, en alsírskir sagnfræðingar hafa fært rök fyrir því að fjöldi látinna hafi verið nær 1,5 milljónum í stríðinu og þeirri ógnaröld sem fylgdi í kjölfarið (Gastel, 2012).

En sjálfstæðisbarátta Alsíringa var upphafið á endalokum eiginlegrar nýlendustjórnunar Frakklands yfir íbúum vestur Afríku. Fleiri ríki fylgdu í kjölfarið og árið 1977, er Djibútí lýsti yfir sjálfstæði, var nýlendusögu Frakklands lokið. En yfirráð [yfirráðum] Frakka yfir auðlindum og stjórnarkerfi í þessum löndum var alls ekki lokið. Sjálft fjármálakerfi ríkjanna var hannað á þann hátt að viðskipti þurftu að fara í gegnum franska auðmenn. Sérstök tegund franska gjaldmiðilsins er enn notaður í viðskiptum átta af fyrrverandi frönsku nýlendum Afríku, CFA Frankinn (Communauté Financière Africaine). Frönsk og önnur Vestræn fyrirtæki hirða stærstu bitana í efnahagskerfum ríkjanna. Bæði Frakkar og Bandaríkjamenn eru með herstöðvar í þessum ríkjum og í gegnum þær vernda þau hagsmuni sína í þessum heimshluta, en auglýsa hernaðarlega viðveru sína auðvitað sem góðsemi, að viðvera herdeildanna sé til að vernda íbúa þessara landa. Frakkar stjórna ýmsu í gegnum notkun CFA frankans, meðal annars með reglum á borð við þær að ríkin sem nota hann verði að geyma að lágmarki helming erlendra eigna sinna í frönskum sjóðum (Signe, 2019).

Yfirráð Frakka yfir efnahagskerfum fyrrum nýlendna sinna gerir frönskum og öðrum vestrænum viðskiptamönnum kleift að nálgast hrávörur og eignarhlut í verðmætum fyrirtækjum og auðlindum á spottprís. Spillingarnet hefur komið upp þar sem innlendir aðilar sem njóta góðvildar hin na vestrænu auðjöfra fá aðgang að ýmsum lúxus sem aðrir geta einungis látið sig dreyma um (Pilling, 2023). Sambandið milli erlendra auðmanna og innlendra hjálpar báðum þessum hópum, en hefur skilið almenning eftir í fátækt.

Úran

Lykilatriði í efnahagskerfi Níger og lýsandi fyrir samband ríkisins við Frakkland eru náttúruauðlindir þess, þar á meðal gull, olía, og sérstaklega úran og svo hvernig viðskiptum með þessi hráefni er háttað. Úraniðnaðar Níger er í eigu og er rekinn með svokölluðum samrekstri Nígers og Frakklands, SOMAÏR (Société des Mines de l’Aïr), en 63,4% af því er í eigu franska risafyrirtækisins Orano, en 34,6% er í eigu ríkisfyrirtækisins Sopamin (Société du Patrimoine des Mines du Niger). Orano hefur haft tögl og haldir á Úraniðnaði Nígers allt frá því stórfelld vinnsla á málminum hófst við lok áttunda áratugarins (WNN, 2023). 

Níger er sjöundi stærsti framleiðandi úrans í heiminum og þetta úran er mikilvægt fyrir kjarnorku. Um 70% af innlendri raforku Frakklands kemur úr kjarnorkuverum sem keyrð eru af Úrani, og þarlendis er nígerskt úran  mest notað (Muzaffar, 2023). Um fjórðungur þess úrans sem notað er í Evrópu kemur frá Níger. Mjög lítið af hagnaðinum af þessari úranframleiðslu skilar sér hins vegar til almennings í Níger. Hann rennur mestmegnis til evrópskra kapítalista.

Efnahagsleg heimsstyrjöld

Þetta er bakteppið fyrir valdaráninu sem átti sér stað í Níger á dögunum. Frakkland hefur þráast við að viðurkenna að þeir hafi arðrænt Níger í um tvær aldir og það vakti ekki mikla lukku er Macron, forseti, sat fastur við þann franska keip að efnahags-, stjórnmála og hernaðarkerfið sem Frakkar byggðu upp tryggði stöðugleika í Níger og nágrannaríkjum þess á ráðstefnu í Níger í fyrra. Franska yfirstéttin virðist vera töluvert veruleikafirrt hvað varðar viðhorf íbúa í Sahel, og það kann að vera þess vegna sem þeir eiga erfitt með að skilja að íbúar þessara ríkja eru í æ meira mæli að horfa til BRICS-ríkjanna, þá sérstaklega Rússlands og Kína hvað alþjóðlega samvinnu varðar. Þeir leita til kínverskra fyrirtækja eftir fjármagni, og til Rússlands um hernaðaraðstoð. Rússneskum fánum var veifað á götum borganna í Níger eftir valdaránið og þar er Pútín hampað sem hetju Afríku (NPR, 30.07.2023). Það er ekki að undra, ekki síst eftir að rússnesk stjórnvöld samþykktu að afskrifa um 23 milljarða Bandaríkjadala skuld Afríkuríkja við Rússland (Segun, 30.07.2023).

Vesturlönd hafa brugðist við valdaráninu á þann hátt að reyna að fá þau ríki sem enn eru vinveitt þeim og teljast hluti af ECOWAS (Economic Community of West African States), samvinnustofnun sem á rætur sínar að rekja til nýlendutímans, til að ráðast inn í Níger. Ekki er víst að það gangi eftir.

Forsetinn sem missti völdin var lýðræðislega kjörinn og það er eðlilegt að fordæma slíkt valdarán. En það hlýtur að vera merki um tvöfeldni þegar skoðaður er munurinn á viðbrögðum fjölmiðla við þessu valdaráni og svo því sem átti sér stað í Úkraínu árið 2014. Í tilfelli Níger þá á að fylgja því prinsippi að valdarán gegn lýðræðislega kjörnum forseta sé ótækt. Þetta er rétt. En forsetinn í Níger og fráfarandi forseti í Úkraínu fengu nokkurn vegin jafnmikið hlutfall atkvæða í kosningum sínum. Í báðum tilfellum voru forsetarnir sakaðir af andstæðingum sínum um spillingu og friðþægni við fyrrum herraþjóðir sínar. Hvað veldur þessum ólíku prinsipp-viðbrögðum?

Hvað sem því líður, þá er framvinda sögunnar í Níger og nágrannaríkjunum merki um það að tangarhald Vesturlanda yfir Afríku er að losna hratt. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir frönsk risafyrirtæki á borð við Orano að það viðskiptanet og aðgangur að ódýrum en gríðarlega ábatasömum auðlindum ríkjanna í Sahel. Efnahagskreppa vofir þegar yfir Evrópu eftir Covid-lokanir og tilheyrandi peningaprentun, viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi sem hafa snúist í höndunum á Vestur Evrópu og æ minnkandi iðnaðarframleiðslu. En ef ECOWAS mun ekki gera innrás í Níger, hvað gerir yfirstéttin í Frakklandi til að koma í veg fyrir þennan nýja skell?

Það á tíminn eftir að leiða í ljós, en þegar eru blikur á lofti. Nígerska herstjórnin hefur nú þegar sakað franska herinn um að sleppa jíhadistum úr fangelsum, að því er virðist til að hleypa af stað vargöld í landinu (Africa News, 09.08.2023). Franskar hersveitir gerðu svo í gærkvöldi árás á Þjóðvarnarlið Nígers þar sem 5 létust (UNI, 12.08.2023). Það er ljóst að hagsmunaaðilar eru ekki af baki dottnir. 

Heimildir

AFP. 2023 (1.08). Niger coup raises questions about uranium dependence. France24. Sótt frá https://www.france24.com/en/live-news/20230801-niger-coup-raises-questions-about-uranium-dependence

Africa News. 09.08.2023. Niger’s military rulers accuse France of unilaterally releasing ‘terrorists’. Sótt frá https://www.africanews.com/2023/08/09/nigers-military-rulers-accuse-france-of-unilaterally-releasing-terrorists/

Gastel, A. 2012. France remembers the Algerian War, 50 years on. France 24. Sótt frá https://www.france24.com/en/20120316-commemorations-mark-end-algerian-war-independence-france-evian-accords

Muzaffar, C. 2023. Niger: A Coup Against French Control and Dominance. Global Research. Sótt frá https://www.globalresearch.ca/niger-coup-french-control-dominance/5828336

NPR. 30.07.2023. Supporters of Niger’s coup march, waving Russian flags and denouncing France. Sótt frá https://www.npr.org/2023/07/30/1190969703/supporters-of-nigers-coup-march-waving-russian-flags-and-denouncing-france

Pilling, D. 2023. Niger is the graveyard of French policy in the Sahel. Financial Times. Sótt frá https://www.ft.com/content/0d94d586-cab1-49f2-bc82-366ac31ab9a6

Segun, O. A. 30.07.2023. Russia’s $23b debt: forgiveness step towards Africa’s development. The Nation. Sótt frá https://thenationonlineng.net/russias-23b-debt-forgiveness-step-towards-africas-development/

Signe, L. 2019. How the France-backed African CFA franc works as an enabler and barrier to development. Brookings. Sótt frá https://www.brookings.edu/articles/how-the-france-backed-african-cfa-franc-works-as-an-enabler-and-barrier-to-development/

UNI. 12.08.2023. 5 soldiers killed in attack of French troops on Nigers National Guard. United News of India. Sótt frá http://www.uniindia.com/5-soldiers-killed-in-attack-of-french-troops-on-niger-s-national-guard/world/news/3029377.html

World Nuclear News. 2023. A guide: Uranium in Niger. World Nuclear News. Sótt frá https://world-nuclear-news.org/Articles/A-guide-Uranium-in-Niger