Fjórða iðnbyltingin á leiðinni. Eru borgaralaun svarið?
—
Fjórða iðnbyltingin hefur hafið innreið sína og Covid herðir á því ferli. Tæknin er tilbúin að leysa mannshöndina af hólmi í stórum stíl. Borgaralaun eru oft nefnd sem svar við þessu. Hér er því haldið fram að Fjórða iðnbylting kapítalismans horfi ekki til framfara fyrir almenning og borgaralaun séu alls ekki svarið við vandanum.
Fjórða iðnbyltingin
Stórauðvaldið boðar sína Fjórðu iðnbyltingu. Fremstur fer Silicon Valley og stafrænu tæknirisarnir. Tæknin til að framkvæma hina miklu umbyltingu er að mestu fyrirliggjandi nú þegar. Til dæmis sýndi rannsókn frá Oxford University 2017 að sjálfvirknivæða megi 67% af öllum störfum í Bandaríkjunum (og mun hærra hlutfall en það í t.d. veitingarekstri, afþreygingu, smásöluverslun, skrifstofuvinnu – róbótarnir taka við) sjá hér. Tækni- og upplýsingaiðnaður er semsé tilbúinn að ryðja út þessu mennska vinnuafli. Það hefur fyrst og fremst vantað öflugri eftirspurn til að koma tæknibreytingunum í kring. Umbyltingin hefur líka verið pólitískt erfið af því mikill samfélagslegur vandi blasir við við til að mæta því mikla atvinnuleysi sem af hlýst.
Kórónukreppan hefur reynst öflugt verkfæri til að koma breytingum í kring. Kröfur um vírusvarnir eru tilefni/átylla til að koma á breytingum sem stórkapítalið hefur beðið eftir, stafræn veröld, netverslun, heimaafhendingar og frekari sjálfvirknivæðing. Eins og efnahagskreppur gjarnan gera veldur kórónukreppan mikilli samþjöppun þegar aragrúi lítilla og meðalstórra fyrirtækja verða gjaldþrota, og þessi kreppa mun slá fyrri kreppum við að því leyti. Við það fjölgar fjárfestingatækifærum fyrir þá stærstu sem eftir standa. Keppan flýtir um leið fyrir breyttum styrkleikahlutföllum milli atvinnugreina: Það eru einmitt stafrænu tæknirisarnir (Apple, Microsoft, Amazon, Google, Facebook, Visa m.m.) sem öðrum fremur lifa nú mikla gulltíma, en þeir eru orðnir ríkasti og voldugasti hluti stórauðvaldsins.
Á enn einn hátt er kórónukreppan verkfæri til að koma á samfélagsbreytingum: Hún lamar verkalýðsbaráttuna. Á kórónutímum á launafólk erfitt með að veita viðnám gegn vaxandi atvinnuleysi og öðrum neikvæðum hliðum þessara breytinga. Aðgerðir og mótmæli eru bönnuð í nafni sóttvarna, þannig að funda- og félagafrelsi virkar ekki og gagntækt eftirlitssamfélag er þróað á nýtt og áður óþekkt stig.
Ekki eru allar byltingar alþýðubyltingar. Wold Economic Forum (WEF), áhrifamesta auðmannasamkunda heims, hefur hugmyndfræðilega forustu í þeirri samfélagsbyltingu sem hér um ræðir og hefur boðað hana um nokkurra ára skeið, einmitt sem Fjórðu iðnbyltinguna (4IR). Þegar Covid-faraldur hófst breytti WEF snarlega „hugmyndafræði“ sinni yfir í „famkvæmdaáætlun“. Á grunni kórónukreppunnar – eftir lokanir hagkerfa, fjöldagjaldþrot, lömun verkalýðshreyfingar og tilheyrandi – á nú þessi mikla bylting að rísa, og er að rísa. Byltingaráætlunina kallar WEF „Endurstillinguna miklu“ eða Endurstillingu kapítalismans, á ensku Great Reset of Capitalism.
Það byltingarkenndasta og sögulegasta í umskiptunum er einmitt það að voldugustu samkundur auðmannanna og voldugustu hnattrænu stórfyrirtækin stíga nú út fyrir ramma efnahagslegrar starfsemi og hefja mjög virk og opinber afskipti af stjórnmálum og samfélagsþróun. Og þetta eru sömu menn og stjórnað hafa frjálshyggjuhnattvæðingaráhlaupi undafarinna áratuga.
Klaus Schwab, faðir og formaður WEF gaf út stefnurit, og í kynningu þess segir: „Enginn atvinnugrein eða atvinnurekstur sleppur við áhrif þessara breytinga. Milljónir fyrirtækja eiga á hættu að hverfa og margar atvinnugreinar eiga óörugga framtíð, fáeinar munu dafna.“ COVID-19's legacy: This is how to get the Great Reset right | World Economic Forum (weforum.org) Þeir „fáeinu“ sem standast þessa áraun verða eðlilega að miklum hluta stærstu einokunarhringar. Stórlaxarnir koma svo þar sem lítil og meðalstór sjálfstæð fyrirtæki liggja í valnum og tína úr honum það sem er hirðandi. Ekki nóg með þetta: Í bók sinni spyr Schwab hvort endurreisa eigi gamla kerfið eftir veiruna, og hann svarar eins og raunverulegur byltingarmaður: „Margir spyrja sig nú hvenær ástandið verði aftur eðlilegt. Stutta svarið er: aldrei. Ekkert mun aftur snúa til hinnar „eyðilögðu“ tilfinningar um eðlilegt ástand sem ríkti fyrir kreppuna, af því kórónuveirufaraldurinn markar grundvallarhverfipunkt á okkar hnattrænu braut.“ Sjá bókina hér.
Stéttabarátta
Á Davos-fund skömmu fyrir Covid var mættur ísraelski rithöfundurinn Yuval Noah Harari (höfundur metsölubókarinnar Sapiens). Hann reyndist vera skarpskyggn um framtíðarhorfurnar í Fjórðu iðnbyltingunni:. „Á meðan fólk áður varð að berjast gegn því að vera arðrænt beinist aðalbarátta fólks á 21. öld gegn því að það verði óþarft [aukaatriði]. Og það er miklu verra að vera óþarfur en að vera arðrændur. Þeir sem undir verða í þeirri baráttu verða „ónothæf stétt“ – ekki frá sjónarhóli fjölskyldu og vina heldur frá sjónarhóli efnahagslífs og stjórnmálakerfis. Og sú stétt verður aðskilin frá sísterkari elítu með stöðugt breikkandi gjá.“ https://www.weforum.org/agenda/2020/01/yuval-hararis-warning-davos-speech-future-predications/
Við skulum hafa það hugfast að hvati auðvaldsins með Fjórðu iðnbyltingunni er lækkun kostnaðar og aukið arðrán, en auðvitað er það markaðssett með samfélagslegum rökum, sem liður í aukinni sjálfbærni og „grænum samningi“ (Grean Deal) vegna minni ferðalaga bæði hinna starfandi launamanna og hinna „óþörfu“. Þetta er hatrömm stéttabarátta af hálfu kapítalsins, einstæður flutningur fjármuna frá almenningi til hinna allra auðugustu. Og áhlaup frá auðvaldinu kallar auðvitað á varnarviðbrögð frá alþýðunni, en vígstaða hennar hefur versnað um sinn.
Áhlaup fjármálaelítunnar (tæknirisanna m.m.) beinist jafnframt gegn hlutum eignastéttarinnar og felur í sér mikla samþjöppun innan hennar.
Sjálfvirknivæðing, líftækniiðnaður og gerfikjöt í nafni sjálfbærni
Ekki verður gerð hér ítarleg úttekt á birtingarmyndum Fjórðu iðnbyltingarinnar eða Great Reset, en vísa má til áður ritaðs á þessum miðli: https://neistar.is/greinar/world-economic-forum-og-endurstillingin-mikla/ Aðeins skulu nefndir nokkrir þættir hennar.
Klaus Schwab skrifar að kórónufaraldurinn muni „…hleypa af stað snöggri aukningu á vinnu-útskiptingu, sem þýðir að líkamleg vinna verður leyst af hólmi af róbótum og „greindum“ vélum sem munu svo valda varanlegum breytingum á vinnumarkaðnum“. Samkvæmt framtíðarsýn World Economic Forum mun fólk þar að auki vinna stærstan hluta starfanna sem eftir eru í fjarvinnu gegnum netið án snertingar við annað fólk. Fjarvinna, fjarnám t.d. gegnum Zoom og Skype, fjarfundir án þess að þurfa að ferðast o.s. frv. Auðvitað býður slík tækni upp á marga góða möguleika fyrir fólk sem býr dreift til að „koma saman“. En um leið hefur það þær afleiðingar að upp leysast margs kyns vinnusamfélög og náms- og stúdentasamfélgög sem hafa sjálfstætt gildi og gera mannfélagið að mannfélagi. Á marga vegu stríðir slík breyting gegn eðli mannsins sem félagsveru. https://consortiumnews.com/2020/11/24/diana-johnstone-the-great-pretext-for-dystopia/?fbclid=IwAR1jHFW14R3tIEfpeQIOxhWL8n6tJy8YSN_LxQ4ipUAONVxZArupdR1T8s8
Sjálfvirknivæðing í geirum eins og afþreygingargeiranum eða veitinga- og öðrum þjónustugreinum er ekki til komin vegna óska starfsfólks í þeim geirum né heldur óskum kúnnanna, heldur er frumkvæðið algerlega hjá kapítalinu í hinum nýja dásamlega gerfiheimi.
Annar angi af Great Reset er umbylting í landbúnaði, m.a. með umskiptum yfir í líftækni og verksmiðjuframleiðslu. Í bók sinni um Great Reset boðar Klaus Schwab það að líftækni og erfðabreytt matvæli þurfi að verða grundvallarstoð í baráttunni við fæðuöflunarvanda heimsins. Og bandamaður hans, Bill Gates gengur ennþá lengra: „Ég held að öll rík lönd ættu að skipta yfir í 100% gerfikjöt“, segir hann. https://www.climatedepot.com/2021/02/15/bill-gates-on-green-reset-its-an-all-out-effort-like-a-world-war-but-its-us-against-greenhouse-gases-urges-regulation-to-force-people-to-eat-synthetic-meat-links-covid-climate/ Þetta er auðvitað líka markaðssett sem hluti af sjálfbærni og „grænum samningi“ í baráttunni við kolefnisspor.
Dæmi um Green deal eru ný og róttæk landbúnaðarlög á Indlandi sem ríkisstjórn Narenda Modi þrykkti gegnum þingið sl. haust, einmitt fyrir bein áhrif frá WEF og Great Reset. Lögin hafa valdið gríðarlegum mótmælum og verkföllum í Indlandi síðan. Þau afnema hömlur gegn því að fjölþjóðleg stórfyrirtæki kaupi landbúnaðarland og sprengi verðtryggingu bændamarkaða og búvörulög með það að markmiði að brjóta upp það smábúakerfi indverskra bænda sem til þessa hefur verið ráðandi í landinu. Landbúnaðardeild Great Reset nefnist New Vision for Agriculture (NAV), og WEF hefur þrýst áhrifum sínum á Indland gegnum NAV India Business Council sem er dæmi um það „einka-opinbera samstarf“ sem WEF stendur fyrir (og er meginatriði í Gret Reset), samstarf milli inverskra auðmanna í búvörugeira og fjölþjóðafyrirtækja eins og Monsanto, Cargill, Nestle, Wal Mart pg Pepsi Cola. Stefnan yfir í yfirtöku stórfyrirtækja í landbúnaði sem WEF er fulltrúi fyrir, yfir í iðnbúskap og hnattvædda landbúnaðarframleiðslu sem mun leiða af sér gríðarlega uppflosnun indverskra smábænda (700-800 milljónir Indverja lifa af landbúnaði) sem hrekjast til borganna og bætast væntanlega að miklu leyti í raðir hinna „óþörfu“. https://www.globalresearch.ca/wef-agenda-behind-modi-farm-reform/5737472
„Persónuverndin“
Kórónukreppan hefur líka hjálpað til við að skapa gegnumgrípandi eftirlitssamfélag sem er nú þróað á stig sem áður var óhugsandi. Stafrænu tæknirisarnir, voldugasti hluti auðvaldsins, eru nú færir um að stjórna hugsun okkar og skoðunum á mjög beinan hátt. Þeir „stíga út fyrir svið efnahagslegrar starfsemi“ eins og áður sagði. Hugmyndlegt og pólitískt gjörræði þeirra birtist nýlega á táknrænan hátt þegar sitjandi Bandaríkjaforseti var útilokaður af samskiptamiðlum. Og eins og skáldið sagði: „Hvað gera þeir þá við ræfil eins og mig?“
Google, Apple og fleiri bjóða fram rakningaröpp eða smáforrit í GSM-símum til „samskiptarakningar“, til að spora upp öll sambönd fólks. Það er löngu vitað að CIA og NSA eiga innangengt í bæði Google og Apple svo allar hátíðlegar yfirlýsingar um persónuvernd verða að takast með fyrirvara. Fyrir tæpu ári skrifaði ég á þessa síðu: „Næst má búast við að slíkt app í símanum verði forsenda fyrir ferðafrelsi!“ Nú er það að verða staðreynd. T.d. er stafrænn „grænn passi“ ESB á leiðinni.
World Economic Forum gengur á undan í áróðri fyrir ígræðslu persónuskilríkja undir húð. Sjá t.d. hér. Klaus Schwab útskýrði þetta fyrir þremur árum í bókinni Shaping the Future of the Fourth Industrial Revolution, og var þá að tala um baráttu gegn glæpum: „Eftir því sem geta á þessu sviði eykst vex freisting löggæslu og dómskerfis til að nota tækni til að meta líkindi á afbrotahegðun, meta sekt og jafnvel að sækja minningar beint frá heila fólks… Jafnvel það að fara yfir landamæri gæti dag einn haft í för með sér nákvæma heilaskönnun til að meta öryggishættuna af viðkomandi… Vissulega finnst sumum okkar nú þegar að snjallsímar okkar séu orðnir útvíkkun á okkur sjálfum. Útvortis búnaður nútímans – allt frá fartölvum til Virtual Reality Headsets – munu næstum örugglega verða ígræðanlegar í líkama okkar og heila.“ https://www.zerohedge.com/geopolitical/klaus-schwab-great-reset-will-lead-fusion-our-physical-digital-biological-identity
Ég sleppi að tala um hvernig Fjórða iðnbyltingin breytir forsendum hernaðar. Sjálfvirknin bætir stöðu þess sem heyr árásarstríð, hann þarf ekki að setja sig í hættu. Hins vegar versnar bara enn staða þeirra sem fá sprengjurnar yfir sig. Ég sný mér aftur að meginatriði sem er áhrif Fjórðu iðnbyltingar á vinnuna og „hinn vinnandi mann“.
Hverjir eru það sem boða borgaralaun?
Eru áhrif Fjórðu iðnbyltingarinnar rök fyrir borgaralaunum? Margir telja það vera. Á Íslandi eru það Píratar sem hafa farið fyrir um árabil, og þeir krefjast borgaralauna. https://www.althingi.is/altext/144/s/0204.html Víða um lönd hljómar sama kjörorð, um „algilda grunnframfærslu“ (universal basic income). Það kann að hljóma eins og mjög vinstri sinnuð krafa og margir telja hana vera það. Fyrir nokkrum árum kom út á íslensku bókin Rétturinn til letinnar eftir Paul Lafargue sem var tengdasonur Karls Marx. Það sem hann boðaði þar var reyndar ekki borgaralaun heldur stytting vinnuvikunnar, auk þess sem hann gagnrýndi almennt sóun og græðgi í auðvaldsþjóðfélagi.
En það er reyndar svo að kjörorðið um borgaralaun eða „algilda gunnframfærslu“ kemur hreint ekki fyrst og fremst frá verkalýðshreyfingunni. Mógúlar hins nýja tíma, t.d. í Silicon Valley, stíga fram og veifa þessu kjörorði. Mark Zuckerberg hefur stutt kröfuna um allsherjar grunnlaun frá árinu 2017. https://www.independent.co.uk/life-style/gadgets-and-tech/news/mark-zuckerberg-universal-basic-income-harvard-commencement-speech-facebook-president-bid-a7757781.html Litlu fyrr hafði Elon Musk sagt það sama. Þetta hefur álíka lengi verið stefna billjóneraklúbbsins World Economic Forum. Á vefsíðu samtakanna frá 2017 er útskýrt: „Why we should all have a basic income“: https://www.weforum.org/agenda/2017/01/why-we-should-all-have-a-basic-income
Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna er ekki langt frá þessum herramönnum (enda hafa SÞ gert „sögulegan samstarfssamning“ við WEF og byggja starf sitt æ meir á kostun billjóneranna) og á Allsherjarþingi í október 2018 bað hann ríkisstjórnir heims íhuga borgaralaun: “Sjálft eðli vinnunnar breytist. Ríkisstjórnir geta neyðst til að íhuga sterkari öryggisnet, og að lokum algilda grunnframfærslu." https://www.inverse.com/article/49371-secretary-general-guterres-pushes-for-basic-universal-income
Kórónukreppan kom hugmyndinni á dagskrá í stórum stíl. Á Capitol Hill sagði Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar sl. vor að Covid gerði e.t.v. tímabært að fara fram á „algilda grunnframfærslu“: https://www.dailymail.co.uk/news/article-8265053/amp/Pelosi-says-time-consider-universal-basic-income-pushed-Andrew-Yang.html Á líkum slóðum voru menn í höfuðstöðvum ESB sem lögðu fram lagafrumvarp um samevrópsk lágmarkslaun sl. haust. Slíkt kerfi getur virkað jafnandi fyrir evrópskan vinnumarkað. Norrænni verkalýðshreyfingu líst hins vegar mjög illa á frumvarpið þar sem fyrirbærið ógnar grundvallarreglunni um samningsrétt stéttarfélaga án afskipta stjórnvalda og gerð heildarkjarasamninga: https://emag-loaktuelt.lomedia.no/ny-eulov-om-minstelonn-6.509.743233.b3ae46fde3
M.a.s. Frans páfi hefur stillt sér að baki kröfunni um „algilda grunnframfærslu“. https://www.vaticannews.va/en/pope/news/2020-04/pope-letter-popular-movements-universal-basic-wage.html
Iðjuleysið eftirsóknarvert?
Við sjáum af þessu að krafan um borgaralaun er ekki frá verkalýðshreyfingunni komin, ekki frekar en fagnaðarboðskapur Fjórðu iðnbyltingarinnar. En auðvitað hefur hvort tveggja verið þar til umræðu. Róbótar yfirtaka störf; það getur vissulega verið framför að losna við rútínustörf, erfið störf, hættuleg störf. Fræðilega gefur það fólki færi á að vinna meira gefandi og skapandi störf í staðinn. En slíkt er bara ekki í boði. Fólk einfaldlega missir vinnuna.
Það er gömul staðreynd og ný að launafólki sem missir vinnuna í langan tíma gengur illa að finna tilgang og innihald í lífi sínu. Langtímaatvinnuleysi leiðir oftar en ekki til örorku. Fólk missir heilsu á sál og líkama. Ekki eingöngu vegna fátæktar, jafnvel ekki aðallega vegna fátæktar, frekar vegna tilgangsleysis og þeirra áhrifa sem það hefur á líðan og sjálfsmynd. Tengslin við vinnumarkaðinn eru grundvallaratriði í farsælu lífi alþýðu. Fólk á borgaralaunum er (endanlega) komið upp á bótakerfið, „sósíalinn“, og gegnir ekki lengur samfélagslegu hlutverki, breytist í hreinan þiggjanda og „ómaga“. Munurinn á atvinnuleysisbótum og borgaralaunum er að það fyrrnefnda skoðast sem tímabundið, óeðlilegt ástand en hið síðarnefnda sem varanlegt og „eðlilegt ástand“.
Með þátttöku í framleiðslu- eða þjónustustörfum leggjum við skerf okkar til samvinnunnar um samfélag manna. Þátttaka í því sem slík er ekki vandamálið. Hið EFTIRSÓKNARVERÐA er ekki að hætta að vinna heldur HÆTTA AÐ VINNA FYRIR AUÐVALDIÐ, í efnahagskerfi þar sem uppsöfnun auðæfa er lokamark vinnunnar. Framleiðslukerfi auðvaldsins er samfélagslegt að eðli þó að það sé á formi einkaeignar, það er hin mikla mótsögn kapítalismans, kerfis sem nú hótar meirihluta fólks því að gera það að „afgangsstærð“, óþarft. Hið eftirsóknarverða er að framleiðendurnir sjálfir yfirtaki stjórn á framleiðslunni og nýti hana til eigin frelsunar og vinnuna til uppfyllingar mannlegra þarfa. Til þess þarf að losna við auðvaldið og gera framleiðsluna félagslega að formi, ekki bara að eðli.
Launamaður sem fer á borgaralaun missir um leið helstu verkfærin til að breyta samfélaginu. „Launþegi“ á borgaralaunum missir sambandið við atvinnulífið og þar með samband við vinnufélaga og stéttarfélag. Sömuleiðis missir hann vopnið sem samstaðan gefur verkafólki til að bæta stöðu sína og breyta samfélaginu. Hann verður valdalaus (munið: samstaðan er auðmagn hins fátæka). Með yfir helming fólks á vinnualdri atvinnulausan (eða „á grunnframfærslu“) veikist verkalýðshreyfingin enn stórlega frá þeirri veikingu sem þegar er staðreynd í kjölfar afiðnvæðingar (flutnings iðnaðar austar og sunnar á hnöttinn) og flæðis ódýrs vinnuafls frá suðri og austri inn á svæði þar sem verkalýðshreyfning áður stóð sterkt. Það væri banabiti sömu hreyfingar að gangast inn á hugmyndina um borgaralaun.
Vinnan sem gerir okkur að mönnum
Hugmyndin um borgaralaun er engin sósíslísk hugmynd. Karl Marx lýsti manninum sem „hinum vinnandi manni“ eða homo faber og leit á vinnuna sem skilyrði mannlegrar tilveru. Hann taldi að með brotthvarfi stéttakúgunar breyttist vinnan úr „ráðstöfun til að halda í sér lífinu“ í það að vera „sjálf óhjákvæmilegasta þörf lífsins.“ Friedrich Engels skrifar þetta viðhorf hvað skýrast í greininni „Þáttur vinnunnar í þróuninni úr apa í mann“ (skrifuð 1876): „Vinnan er uppspretta allra auðæfa, segja þjóðhagfræðingar. Og hún er virkilega uppsprettan – ásamt náttúrunni sem leggur henni til efnið sem hún breytir í auðæfi. En hún er óendanlega miklu meira en það. Hún er fyrsta grundvallarskilyrði allrar mannlegrar tilveru og það að því marki að, á sinn hátt, verðum við að segja að vinnan hafi skapað manninn sjálfan.“ Hin líffræðilega mannshönd, segir Engels ennfremur, þróaðist með vinnunni og beitingu verkfæra og svo áfram í gagnvirku sambandi við hugann og tungumálið. Í þróuninni frá veiðimennsku til húsdýrahalds, beitingu elds, flutningi á kaldari svæði, akuryrkju til siðmenningar og iðnaðar varð þáttur vinnunnar sífellt stærri. Í stuttu máli er það vinnan sem gerir okkur að mönnum. https://www.marxists.org/archive/marx/works/1876/part-played-labour/
Frjálshyggjan og auðvaldssinnar (m.a. kratisminn, pólitísk meginstoð auðvaldsins) líta svo á að aukin hagræðing og afköst auðmagnsins horfi alltaf til framfara. En svo er ekki. Fjórða iðnvæðing kapítalismans ber ekki í sér þjóðfélagslega framför, ekki frekar en t.d. nýfrjálshyggjuvæðingin. Með allri sinni markaðsvæðingu, hnattvæðingu, útvistun til austurs og afiðnvæðingu til vesturs hafði nýfrjálshyggjan ekki heldur í för með sér framfarir fyrir alþýðu – þó svo að hún hámarkaði hagræðingu og afköst auðmagnsins.
Niðurstaðan er þessi: Fjórða iðnbylting kapítalismans hefur ekki í för með sér framfarir fyrir almenning heldur er árás á hann. Og krafa um borgaralaun er alveg glatað svar almennings við því.