Evrópa hefur misst allan trúverðugleika

14. janúar, 2024 Andri Sigurðsson

Nærri allar Evrópskar þjóðir fordæmdu harðlega árás Hamas á Ísrael. Þó svo að lítið hefði verið vitað í byrjun um mannfall óbreyttra borgara og hver bæri ábyrgðina.

Núna þegar Ísrael er svo gott sem búið að jafna Gasa við jörðu og myrða tugi þúsunda bólar enn ekkert á fordæmingu frá þjóðum Evrópu. Aðeins eitt Evrópskt land hefur fordæmt Ísrael og það er Írland. Evrópusambandið hefur að auki neitað að styðja eða tjá sig um málsókn Suður-Afríku gegn Ísrael og ekkert Evrópuríki styður málsóknina þegar þetta er skrifað.

Þetta er hin dapra staðreynd þó svo að glæpir Ísrael séu augljóslega þúsund sinnum verri en það sem Hamas hefur gert. Þá má nefna að margir innan róttæka vinstrisins hafa þar auki neitað að fordæma Hamas af góðri ástæðu. Fólk sem hefur orðið fyrir barðinu á áratuga hersetu, aðskilnaðarstefnu, reglulegum fjöldamorðum og ofbeldi hefur allan rétt til að beita ofbeldi í baráttunni fyrir sínu frelsi ef ekkert annað er í boði. Þetta voru líka skilaboðin sem Nelson Mandela færði Palestínumönnum árið 1999 þegar hann heimsótti Gasa.

„Veljið frið frekar en átök, nema þegar þú getur ekki komist lengra, þegar þú getur ekki færst áfram. Ef eini valkosturinn er að beita ofbeldi, þá munum við velja ofbeldi.“ — Nelson Mandela, Gasaborg, 1999.

Hamas ber aðeins ábyrgð á hluta af þeim 1139 sem Ísrael segir hafa látist í árásinni. Ísrael hefur viðurkennt að talan innihaldi hundruð hermenn auk þess sem vitað er að fjöldi óbreyttra borgara var drepnir af Ísraelska hernum þegar hann reyndi að stöðva för Hamas aftur til Gasa með gíslana. Ísraelskir fréttamiðlar hafa greint frá skipun um að stöðva för Hamas sama hvað það kostaði. Jafnel þó það þýddi dauða óbreyttra borgara. Við vitum því ekki enn hvað Hamas ber ábyrgð á dauða margra óbreyttra borgara. Og nei engar sannanir hafa komið fram um kerfisbundnar nauðganir, afhausuð börn, eða börn í bakarofnum. Það eru aðeins  lygar til að réttlæta þjóðarmorð. Skrímslavæðing Hamas og tilraunir til að mála hreyfinguna upp sem morðóð dýr sem fari um nauðgandi og myrðandi börn er ekki aðeins rasísk heldur þjónar þeim tilgangi að réttlæta viðbrögð Ísrael og draga athyglina frá raunverulegum markmiðum Ísraela.

Hver svo sem talan er er það aðeins lítið brot af þeim þúsundum sem Ísrael hefur drepið. Í vikunni sem leið sögðu fréttamiðlar okkur að Ísrael hafi drepið 1% af íbúum Gasa, en talið er að fjöldi látinna sé núna kominn yfir 30 þúsund ef taldir eru með þeir sem enn eru grafnir í rústunum. Flestir hafa séð tölurnar, 90% Gasabúa á flótta og án heimilis. Allir innviðir í rúst. Spítalar hafa ekki aðgang að lyfjum eða rafmagni. Hungursneyð vofir yfir o.s.frv. En samt bólar ekkert á fordæmingu Evrópulanda. 

Það er þess vegna ekki að furða að margir sérfræðingar, þar með talinn forsætisráðherra Írlands, bendi á að Evrópa hafi misst allan trúverðugleika. Ekki síst gagnvart þjóðum suðursins: Asíu, Afríku, og Suður-Ameríku. Hræsnin er yfirgengileg. Skömmu eftir árásina 7. Október var forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, í heimsókn hjá hinni íhaldssömu hugveitu Hudson Institute í Bandaríkjunum. Þar notaði hún tækifærið til að lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi við Ísrael og líkti meðal annars Hamas við Vladimír Pútín og sagði það markmið Hamas að útrýma gyðingum:

„Það voru engin takmörk fyrir blóðsúthellingum hryðjuverkamenn Hamas. Þeir fóru hús úr húsi. Þeir brenndu fólk lifandi. Þeir limlestu börn og jafnvel ungabörn. Af hverju? Af því að þau voru gyðingar. Af því að þau bjuggu í Ísraelsríki. Og það er skýrt markmið Hamas útrýma lífi gyðinga af landinu helga. Þessir hryðjuverkamenn, sem njóta stuðnings vina sinna í Teheran, munu aldrei hætta. Og þannig á Ísrael rétt á að verja sig í samræmi við mannúðarlög. Og í ljósi þessa hryllings er aðeins eitt svar frá lýðræðisþjóðum eins og okkur: Við stöndum með Ísrael.“ — Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Hudson Institute, Október 2023

En hver er ástæðan fyrir þessum skilyrðislausa stuðningi við glæpi Ísraels? Ein ástæðan er sú að Ísrael er bandamaður Vesturlanda og að mörgu leyti sköpunarverk. Noam Chomsky benti eitt sinn á að Ísrael sé í raun síðasta verkefni Evrópskrar nýlendustefnu og að þau lönd sem hvað mest styðja Ísrael: Bandaríkin, Kanada, og Ástralía (afsprengi Englands) hafi öll verið byggð á nýlendustefnu, landtöku, og útrýmingu innfæddra. Bandaríkin í þessu sambandi líta á Ísrael sem verkfæri til að fylgja eftir og verja hagsmuni sínum á svæðinu. Ísrael er „ósökkvandi flugmóðurskip“ Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum. Bandaríkin yrðu bókstaflega að búa til Ísrael til að þjóna hagsmunum sínum ef það væri ekki til nú þegar hefur verið haft eftir Joe Biden. Þegar kemur að því að verja völd Vesturlanda og aðgang að náttúruauðlindum í Mið-Austurlöndum skipta líf Palestínumanna ekki máli. En það eru ekki bara stórveldi Vesturlanda sem hafa tapað trúverðugleika. Ekkert er að frétta af fordæmingu Katrínar Jakobsdóttur og Reykjavíkurborg er enn að flagga fána Úkraínu á sama tíma og lítið hefur sést til fána Palestínumanna við ráðhúsið. Þann stutta tíma sem Palestínska fánanum var flaggað virðist sem það hafi verið í óþökk yfirstjórnar borgarinnar.

Evrópa og Vesturlönd öll hafa tapað trúverðugleika sínum. Lygin um meinta yfirburði vestrænnar menningar hefur verið afhjúpuð og sannleikurinn um arf nýlendustefnunnar birtist. Lýðræði og mannréttindi áttu aldrei að vera fyrir alla. Aðeins útvalda. Og þegar það hentar leiðtogum Vesturlanda réttlæta þeir þjóðarmorð, barnamorð, og morð á læknum og blaðamönnum án þess að hika.