Einkavæðing og andlýðræði í Úkraínu

20. júlí, 2023 Jón Karl Stefánsson

Fyrsti hluti: BlackRock og árásir á verkalýðshreyfingar

Orðræðan um Úkraínustríðið fjallar meðal annars um það að um sé að ræða stríð fyrir lýðræðisgildum gegn ofríki og einræði. En ef einhver meining er á bakvið slíkt þarf stuðningi að fylgja kröfur um einmitt lýðræðislega þróun. Ekkert er fjær raunveruleikanum í Úkraínu nú. Í krafti neyðarástands hafa erlend öfl, sem og innlend öfgaöfl, sest í kringum kjötkatlana. Þróunin er eins slæm og hugsast getur. Gagnrýni er ekki einungis eðlileg, hún er bráðnauðsynleg, ekki síst fyrir almenning í Úkraínu. 

BlackRock, JP Morgan og McKinsey undirbúa stórfellda yfirtöku á eignum Úkraínu

Fjárfestingarrisarnir BlackRock og JP Morgan hafa tekið höndum saman við að koma á fót stofnuninni „Ukraine Reconstruction Bank“ sem hefur það hlutverk að „safna milljörðum Bandaríkjadala frá einkafjárfestum til þess að koma að verkefnum sem tengjast enduruppbyggingu í þessu stríðshrjáða landi“ (Financial Times, 18. júní 2023). Varla þarf að taka fram að eftir þessa enduruppbyggingu verða helstu stofnanir landsins í eigu þessara sömu erlendu risafyrirtækja. Forseti Úkraínu, Zelensky, sagði í viðtali við Financial Times að ríkisstjórn hans ynni náið með þessum risum á fjármálasviðinu, í samstarfi við ráðgjafafyrirtækið McKinsey. Þetta almannatengslafyrirtæki, McKinsey, hefur orð á sér um allan heim fyrir gríðarlega spillingu, sérstaklega í formi mútugreiðslna til stjórnmálamanna og vinnu við að koma eigum almennings í hinum ýmsu ríkjum í hendur alþjóðlegra einkafyrirtækja. Nýlega kærði Suður Afríka McKinsey fyrir einstaklega glæpsamlega ásælni í eigur landsins. 

Viðræður Úkraínustjórnar við þessa hákarla hófust í september í fyrra og í desember samþykkti forsetinn að leyfa BlackRock að stjórna því hvernig uppbygging á landinu færi fram. Þetta kom fram í fjarfundi milli forsetans og Larry Fink, stjórnarformanns BlackRock (Zelensky, 2023).

Svo kom að því, nú í júní, að BlackRock safnaði saman þúsundum fjárfesta og einnig hinum ýmsu þjóðarleiðtogum úr hinum Vestræna heimi á ráðstefnu í London sem bar nafnið „Ukraine Recovery Conference“. Þar sátu þessir erlendu viðskiptajöfrar og stjórnmálamenn til að skeggræða hvernig ætti nú að ráðstafa verkefnum og eignaskiptingu í hinni æ minna sjálfstæðu Úkraínu. Þetta greypti áætlanir BlackRock í stein og gaf alþjóðlegan viðurkenningarstimpil á þessa risaeignatöku landsins sem við styðjum í orði. Almenningur í Úkraínu kemur hvergi að þeirri skiptingu.

Lýðræðið afnumið

Almenningur mun ekki fá að kjósa um þessa miklu yfirtöku erlendra auðhringja á eignum lands síns. Í vikunni sem leið tilkynnti Zelensky forseti að engar kosningar yrðu haldnar í bráð. Lýðræðinu verður slegið á frest og herlög munu gilda áfram. Einnig sagði forsetinn það „óljóst“ hvenær mætti framkvæma skoðanakönnun á fylgi flokka og forsetaframbjóðenda í landinu. Zelensky sagðist ekki muna hvenær stjórnvöld hygðust leyfa slíkt. Hvers vegna ættu skoðanakannanir á fylgi flokka og stjórnmálamanna að vera bannaðar að svo stöddu?

Ríkisstjórnin hafði áður gripið til aðgerða sem lágmörkuðu möguleikann á því að lýðræði gæti hindrað stefnumótun í landinu. Í marsmánuði 2022 skrifaði forsetinn undir lög sem bönnuðu alla starfsemi alls 11 stjórnmálaflokka í landinu. Þetta voru allt vinstrisinnaðir flokkar á borð við sósíalistaflokk Úkraínu (Sotsialistychna Partiia Ukrayiny, SPU), eins elsta starfandi flokks landsins og þann þriðja stærsta, og svo Opozytsiyna platforma, sem fékk tæplega 12% fylgi í kosningum 2019 (Zelensky, 2022). 

Verkalýðsfélög bönnuð

Lykilatriði í einkavæðingu Úkraínu hefur verið að banna starfsemi stétta- og verkalýðsfélaga í landinu. Helsti fjármálaráðgjafi forsetans, Alexander Rodnyansky sem er sonur eiganda stærstu einkareknu sjónvarpsstöðvar Úkraínu og mikill hægri- og einkavæðingarsinni, sagði í viðtali við the Guardian að nauðsynlegt væri að ráðast í stórfelldar einkavæðingar og gera vinnulöggjöf landsins meira „aðlaðandi“ fyrir stóra fjárfesta. Meira aðlaðandi í þessu tilfelli er einmitt að svo gott sem afmá, útiloka stéttabaráttu launþega (Lawson, 2022). 

Í júlí 2022 skrifaði forsetinn einmitt undir lög í landinu, lagafrumvarp númer 7451, sem fyrirskipuðu að um 420 ríkisfyrirtæki yrðu færð í sérstakan eignasjóð sem opnaði þau fyrir einkavæðingu. Einungis mánuði síðar skrifaði Zelensky undir nýja lagabreytingu, lög númer 5371, sem fólust í því að afnema réttindi launþega í landinu að stórum hluta. Í þessum lögum fólst það að samningar um kaup og kjör yrðu framvegis milli fyrirtækjanna sjálfra og einstaka starfsmanna, í stað þess að fara í gegnum stéttarfélög. Starfsmaðurinn stendur nú einn andspænis atvinnurekanda sínum. Atvinnurekendum var gert kleift að gera svokallaða núll-tíma samninga við starfsfólk sitt, en þá getur atvinnurekandinn haldið starfsmanninum á launaskrá án þess að greiða honum, en kallað í hann þegar þörf er á. Atvinnurekendur geta nú einnig sagt starfsmönnum upp án sérstakrar ástæðu. Stéttafélög í Úkraínu, eins og ILO á alþjóðavísu, hafa mótmælt þessum árásum á réttindi launþega, en eins og ástandið er nú hafa þau engin tök á að berjast gegn stjórnvöldum.

Afnám verkalýðsfélaga var í raun létt mál eftir að herlög voru sett á í landinu í fyrra. Í fyrstu fólust herlög þessi helst í því að banna karlmönnum á aldrinum 18 til 60 ára að yfirgefa landið, en strax þann 20. mars tóku við áðurnefnd lög sem bönnuðu starfsemi ellefu stjórnarandstöðuflokka. Allt var afsakað á þeim forsendum að þessir flokkar væru „Rússa-hollir“ (Ischenko, 2022). Landið var jú í innrás, og engum landráðamönnum mætti leyfa að hafa áhrif. Á sama tíma tóku stjórnvöld öll völd yfir öllum sjónvarpsfréttamiðlum landsins (Reuters, 20. mars 2022). Engar gagnrýnar raddir á stjórnvöld skyldu heldur heyrast í ljósvökum Úkraínu (Askenazy, 2022). 

Ofbeldi gegn stjórnarandstöðu

Það hefur reyndar ekki þótt nægilegt að banna starfsemi stjórnarandstöðuflokka og gagnrýnna blaðamanna og álitsgjafa. Fjöldinn allur af slíku fólki hefur verið sent í gröfina síðustu árin, án dóms og laga. Hér verða tekin nokkur dæmi: 

Eftir að Yanukovych og fleiri úr ríkisstjórninni voru flæmdir á brott í kjölfar Maidanmótmæla og valdaránsins 2013-14 hófust árásir á flokksmenn Partiia Rehioniv („Héraðsflokksins“), sem hafði fengið flest þingsæti allra stjórnmálaflokka. Flokkurinn var sviptur völdum í öllum þeim 204 kjördæmum sem hann var í meirihluta því öllum bæjarstjórum var sagt upp og nýir settir í þeirra stað. Flokkurinn var beinlínis bannaður í nokkrum héruðum strax árið 2014 og fjöldi flokksmanna fékk á sig kæru fyrir að „styðja viðleitni til aðskilnaðar og fyrir spillingu“ (sjá nánar hér). Vígahópar á borð við Pravy Sektor tóku svo til að elta flokksmenn uppi og beita þá ofbeldi. Margir þeirra voru myrtir. Ný yfirvöld aðhöfðust ekkert til að koma í veg fyrir þessar árásir og enginn ofbeldismannanna hlaut kæru. Skrifstofur flokksins og stundum heimili flokksmanna voru brennd til grunna. Breska dagblaðið the Guardian greindi frá því í einstaklega orvellískri frétt að þessi fyrrum stjórnarflokkur Úkraínu, og stærsti flokkur landsins, hefði lent í „öldu sjálfsmorða“ árið 2015. Þann 21. febrúar 2023 bannaði Úkraínuþing svo alla starfsemi þessa fyrrum stærsta flokks Úkraínu. 

Úkraínska Leyniþjónustan, SBU, var tekin fyrir í skýrslu Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir að starfa án aðhalds og eftirlits og fyrir víðtæk mannréttindabrot frá árinu 2014. Mannréttindaráðið segir Leyniþjónustuna hafa stundað ólöglegar handtökur, mannrán, pyntingar og morð án dóms og laga á fjölda fólks frá dögum Maidan-byltingarinnar (UN OHCR, 2021). 

Viðbrögð SBU við skýrslunni voru ekki að fara í sjálfsskoðun, heldur var farið í háa gírinn við að taka höndum, pynta og myrða bæði innlenda og erlenda gagnrýnendur úkraínskra stjórnvalda. Stöðugt bætist á lista þeirra gagnrýnenda úkraínskra stjórnvalda sem lenda í því að vera rænt, þau pyntuð og svo myrt. Meðal þeirra eru Volodymyr Struk, borgarstjóri Kremennaborgar fyrir Partija Rehioniv. Í byrjun mars s.l. var honum rænt og hann fannst svo látinn af skotsárum. Eftir að fréttist af láti Struks lét Anton Gerashchenko, ráðgjafi Innanríkisráðherra Úkraínu svo um mælt: „Nú hefur fækkað um einn svikara í Úkraínu. Borgarstjóri í Luhanskhéraði, fyrrverandi meðlimur í þingi Luhansk, hefur verið drepinn“ (Miami Standard News, 2022).

Denis Kireev, úkraínskur embættismaður fór fyrir hönd úkraínsku ríkisstjórnarinnar fram á friðarviðræður  við Rússland í Hvíta-Rússlandi í mars 2022. Tilgangur fundarins var að leita leiða til að koma á vopnahléi. Þann sjötta mars fannst hann látinn á götum Kyiv. Samkvæmt fréttum af atburðinum var Kireev myrtur um miðjan dag af úkraínskum leyniþjónustumönnum fyrir að vera „svikari“ og myndir af líki hans fóru í dreifingu um allt landið (Taylor, 2022).

Daginn eftir voru bræðurnir Aleksandr og Mikhail Kononovich, leiðtogar ungliðahreyfingar Kommúnistaflokks Úkraínu, handteknir og þeir færðir í gæsluvarðhald í Kyiv. Þeir voru sakaðir um að vera áróðursmenn fyrir viðhorf Rússa og Hvít-Rússa. Samkvæmt twitter-skilaboðum frá bræðrunum hafa þeir fengið boð um yfirvofandi aftöku.

Sama dag birtust myndbönd af því að úkraínskir nasistar pyntuðu MMA-íþróttamanninn Maxim Ryndovskiy. Hann var þrefaldur heimsmeistari í Sambo-glímu. Aðalglæpur hans var sagður sá að hafa þjálfað með rússneskum og téténskum glímumönnum og einnig að hafa heimsótt yfirráðasvæði sjálfsstjórnarsinna í Luhansk. Ryndovsky er gyðingur og yfirlýstur friðarsinni (Melanovsky, 2022).

Nestor Shufrych, þingmaður úr úkraínska sósíal-demókrataflokknum, var handtekinn þann 4. Mars, sakaður um að hafa starfað með rússneskum stjórnvöldum. Hann hafði áður lent í því að ráðist var á hann á þinginu. Hann var handtekinn fyrir að hafa tekið myndir af varnarliði Úkraínuhers og að vera grunaður um að vera á bandi með Rússum (Rackziewycz, 2022).

Þann 10. mars var hinn þjóðþekkti blaðamaður og sjónvarpsþáttastjórnandi, Yan Taksiur, handtekinn af úkraínsku Leyniþjónustunni og færður í gæsluvarðhald. Taksiur, sem er í úkraínsku Réttrúnaðarkirkjunni, er með krabbamein og samtök Rétttrúnaðarkirkjunnar á heimsvísu gáfu þann 24. mars út ákall til heimsbyggðarinnar þar sem Taksiur hafði hvorki fengið verjanda til að aðstoða sig né aðgang að heilbrigðisþjónustu frá því hann var handtekinn (OC, 2022).

Sílenski rithöfundurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Gonzalo Lira sem hafði ferðast til Úkraínu til að fjalla um stríðið, var numinn á brott þann 15. apríl. Hann hafði verið sakaður um að vera á móti stjórn Zelenskys og vera hliðhollur Rússum (News 24. 2022). Þann 15. ágúst 2021 var svo borgarstjórinn í borginni Kryvyi Rih, Konstantin Pavlov frá stjórnarandstöðuflokknum „Opposition Platform – For life“ myrtur. Hann var sakaður um að vera Rússahollur (Reuters, 15.08 2023). 

Þessi, og fjöldamörg önnur voðaverk voru framin á almennum borgurum í Úkraínu að hálfu vígasveita hliðhollum Kiev-stjórninni. Enginn hefur verið sóttur til saka fyrir þessi voðaverk. Ekki hefur heldur heyrst píp frá Vesturlöndum þar sem þessi háttsemi er gagnrýnd.

Hættulegir nasistahópar

Þeir hópar sem sjá um skítverk eins og að taka fólk með óþægilegar raddir af lífi njóta stuðnings bæði stjórnvalda í Úkraínu, og einnig okkar hér á Vesturlöndum. Sumir þeirra gætu reynst verstir allra hópa sem við höfum stutt í staðgenglastyrjöldum Vesturlanda hingað til. Gert hefur verið lítið úr eðli hópa á borð við Pravi Sektor, Azov hersveitanna, Natsionalnyi korpus og annarra hópa harðlínunasista (já, nasista) sem hafa verið felldir inn undir opinberan herafla Úkraínu á síðustu árum. Ef marka mætti þá fjölmiðlaumfjöllun sem ríkir um þá mætti ætla að þetta væru skátasveitir sem munu taka sönsum eftir því sem á líður. En þarna eru menn að misreikna sig.

Umræða um nasisma í Úkraínu hefur verið afgreidd, án umhugsunar, sem áróður frá Rússlandi (eða frá Pútín sjálfum). Það er meir að segja nokkuð erfitt að fá hlutlæga umfjöllun um þessa hlið deilunnar. Ritskoðun hefur bæst við vopnabúr almannatengladeildar stríðandi fylkinga og lokað hefur verið á rússneska fjölmiðla á borð við RT og Sputnik, samfélagsmiðlar hafa lokað aðgöngum sem sýna „ranga“ hlið af þessum átökum og ráðist hefur verið að þeim sem víkja frá þeirri meginhugmynd að um sé að ræða átök milli alveg ills aðila (Rússa) og dýrlinga. Þetta gæti reynst Evrópu dýrkeypt áður en langt um líður.

Þrátt fyrir mikla ritskoðun er það auðvelt hverjum sem hefur áhuga að kynna sér eðli nasískra sveita í Úkraínu. Áður en innrás Rússa hófst höfðu fréttamenn frá BBC, Vice, Time og fleiri meginstraumsfjölmiðlar fjallað með hryllingi  um uppgang nasismans í Úkraínu, og þeir hafa sjálfir montað sig nokkuð rækilega á samfélagsmiðlum að undanförnu. Áróðursmyndbönd frá úkraínskum þjóðernissinnum sýna afhöfðanir, talað er um útrýmingu Rússa og svo mætti lengi telja. Það er beinlínis stórfurðulegt, heimskulegt og bendir til vísvitandi hundsunar að halda því fram að nasisminn hafi ekki náð mikilli fótfestu í Úkraínu í kjölfar Maidan 2014. Ástandið er grafalvarlegt. Þessir hópar eru þaulskipulagðir og hafa mjög skýra stefnu og markmið. Þeir eru agaðir, og þeim fer stöðugt fjölgandi. Eftir að hafa fengið frjálsar hendur, óhemju fjármagn og jákvæða fjölmiðlaumfjöllun á Vesturlöndum hefur þeim orðið æ meira ágengt til að fá almenning á sitt band. 

Gagnrýni óskast

Biden, Stoltenberg, Þórdís og aðrir vestrænir leiðtogar halda því fram að þeir hvetji Úkraínu til stríðs gegn Rússlandi undir fánum lýðræðis gegn öflum alræðis. Hálfgert bann hefur ríkt við því að gagnrýna nokkuð sem stjórnvöld í Úkraínu hafa gert. Þetta er stór liður í þeirri aukahörmungarsögu sem nú er að eiga sér stað í þessu landi sem svo margir segjast styðja. Með þessari barnalegu nálgun um góðu kallana og vondu höfum við í raun hjálpað til við að eyðileggja framtíð venjulegra Úkraínumanna. Auðvitað á ætíð að standa með almenningi og fordæma það ef ráðist er á lífskjör venjulegs fólks sem vill bara fá að vera í friði. En eins og málin standa nú er verið að færa almenning Úkraínu í hendurnar á alþjóðlegum efnahagsskrímslum, og svo til öfgaofbeldissveita. Gríðarleg einkavæðing og opnun landsins fyrir alþjóðlegu fjármálakapítali, bann svið störfum verkalýðsfélaga og stjórnarandstöðu og mis-þögull stuðningur við háttsemi ofbeldissveita sem ráðast gegn gagnrýnendum ríkisins minnir um of á innleiðingu markaðslíberalisma í anda Pinochets, ef ekki enn verri ógnarstjórnir. Þeir sem vilja styðja lýðræði mega ekki láta slíkt gagnrýnislaust. Þeir sem segjast vilja styðja baráttuna fyrir lýðræði í heiminum hreinlega verða að huga að þessari hlið málsins.

Heimildir

Askenazy, P. 2022 (8 desember). ‘In Ukraine, martial law has suspended entire sections of labor law and new laws are intended to last beyond the conflict’. Le Monde Diplomatique. Sótt frá https://www.lemonde.fr/en/opinion/article/2022/12/08/in-ukraine-martial-law-has-suspended-entire-sections-of-labor-law-and-new-laws-are-intended-to-last-beyond-the-conflict_6006949_23.html

Fazi, T. 2023 (5. júlí). The capitalists are circling over Ukraine: The war is creating massive profit opportunities. Unherd. Sótt frá https://unherd.com/2023/07/the-capitalists-are-circling-over-ukraine/?tl_inbound=1&tl_groups[0]=18743&tl_period_type=3&mc_cid=88990750de&mc_eid=3e8fbd0b18

Financial Times. 18. júní 2023. BlackRock and JPMorgan help set up Ukraine reconstruction bank. FT. Sótt frá https://www.ft.com/content/3d6041fb-5747-4564-9874-691742aa52a2

Ishenko, V. 2022. Why did Ukraine suspend 11 ´pro-Russa´ parties? Al Jazeera. Sótt frá https://www.aljazeera.com/amp/opinions/2022/3/21/why-did-ukraine-suspend-11-pro-russia-parties

Lawson, A. 2022 (4. október). Ukraine ‘must revamp labour laws and step up privatisation to fix economy’. The Guardian. Sótt frá https://www.theguardian.com/world/2022/oct/04/ukraine-must-revamp-labour-laws-and-step-up-privatisation-to-fix-economy

Melanovsky, J. 2022 (9.mars). Ukrainian neo-Nazis torture Jewish anti-war MMA athlete. WSWS. Sótt frá https://www.wsws.org/en/articles/2022/03/09/umma-m09.html

Miami Standard News. 2022 (3.mars). Pro-Russia mayor of city in eastern Ukraine who welcomed Putin’s invasion is found shot dead in the street after being kidnapped from his home. Miami Standard. Sótt frá https://miamistandard.news/2022/03/03/pro-russian-mayor-of-city-in-eastern-ukraine-who-welcomed-putins-invasion-is-found-shot-dead-in-the-street-after-being-kidnapped-from-his-home/

OHCHR. 2022 (janúar). Conflict-related civilian casualties in Ukraine (PDF). Sótt þann 2.06.2022 frá https://ukraine.un.org/sites/default/files/2022-02/Conflict-related%20civilian%20casualties%20as%20of%2031%20December%202021%20%28rev%2027%20January%202022%29%20corr%20EN_0.pdf

Orthodox Christianity. 2022 (24.mars). ORTHODOX JOURNALIST WITH CANCER DETAINED IN KIEV WITHOUT ACCESS TO LAWYER OR MEDICINE, HEALTH DETERIORATING. Sótt frá https://orthochristian.com/145355.html

Raczkiewycz, M. 2022 (4.mars). Suspected longtime Russian mole Shufrych detained by territorial defense after taking pictures of checkpoint. The Ukrainian Weekly. https://subscription.ukrweekly.com/2022/03/suspected-longtime-russian-mole-shufrych-detained-by-territorial-defense-after-taking-pictures-of-checkpoint/

Reuters. 15.08.2023. Opposition mayor of Ukrainian city found dead. Sótt frá https://www.reuters.com/world/europe/opposition-mayor-ukrainian-city-found-dead-2021-08-15/

Reuters. 20. Mars 2022. Citing martial law, Ukraine president signs decree to combine national TV channels into one platform. Sótt frá https://www.reuters.com/world/europe/citing-martial-law-ukraine-president-signs-decree-combine-national-tv-channels-2022-03-20/

Taylor, H. 2022 (07.03.2022). Ukrainian official Denis Kireev found dead after being accused of committing ‘treason’ and working for Russia. 7News, Australia. Sótt frá https://7news.com.au/news/ukraine/competing-claims-emerge-after-ukraine-official-denis-kireev-accused-of-treason-shot-dead-in-street-c-5958770

TheN24. 2022 (20.apríl). Chilean journalist Gonzalo Lira disappeared in Ukraine five days ago. 

UN OHCR. 2021. Arbitrary detention, torture, and ill-treatment in the context of armed conflict in eastern Ukraine, 2014-2021. United Nations Human Rights Office of the High Commissioner. Skýrsla um ofbeldi úkraínskra öryggissveita í stríðinu í Austur Úkraínu. Sótt frá https://www.ohchr.org/sites/default/files/Documents/Countries/UA/UkraineArbDetTorture_EN.pdf

Zelensky, V. 20. mars 2022. The more Russia uses terror against Ukraine, the worse the consequences will be for it – address by President Volodymyr Zelenskyy. Sótt frá https://www.president.gov.ua/en/news/sho-bilshe-rosiya-zastosovuye-teroru-proti-ukrayini-girshi-n-73685

Zelensky, V. 28. desember 2023. President discussed with the CEO of BlackRock the coordination of efforts to rebuild Ukraine. President of Ukraine – Volodymyr Zelenskyy. Sótt frá https://www.president.gov.ua/en/news/prezident-obgovoriv-z-generalnim-direktorom-blackrock-koordi-80105