Ef jörðin kostar túkall

23. ágúst, 2023 Ögmundur Jónasson

Tómas Tómasson alþingismaður var mættur í útvarpsþátt í vikunni að ræða sölu á íslenskum landareignum og vatnslindum til útlanda. Tómas kvaðst ekkert vilja selja út fyrir landsteinana. Og hvers vegna ekki? Jú, í upphafi skyldi endinn skoða, sagði þingmaðurinn, ef við höldum með vatnsauðlindina út á heimsmarkaðinn mun það gerast fyrr en varir að hún gangi okkur úr greipum.

Og til að gera grein fyrir umfangi og afli fjármagnsins kom Tómas með myndlíkingu sem var sláandi í einfaldleik sínum: Ef þú kemur til lands með tíu þúsund krónur í vasanum, sagði hann, og sérð að kaupa má jörð á túkall, þá gæti það hlaupið í þig að kaupa nokkrar að gamni þínu, rétt sísona. 

Og nákvæmlega þetta hefur gerst, auðmenn hafa fest kaup á jörðum vegna þess hve gaman þeim þykir að eiga land þar sem þeir geta verið einir í heiminum og ráðskast með allt og alla.

Þetta er ekki nein séríslensk þróun og ekki bundið við dreifbýli. Það þekkist í borgum og bæjum, stórum og smáum, að efnafólk kaupi hús eða íbúðir sem það notar sem afdrep endrum og sinnum. Fylgifiskurinn er þá sá að samfélögin þar sem þetta hendir veslast upp, skólarnir tæmast, verslun rýrnar og allt verður daufara.

Svo eru það hinir – fjárfestarnir – sem hafa áttað sig á því að eignarhaldi á íslensku landi tilheyra allar auðlindir í jörðu, heitt vatn og kalt og allt sem koma má verðmiða á. Þar er heldur betur bjart framundan þar sem vatnið er annars vegar, dýrmætasta auðlind framtíðarinnar. Og reynslan sýnir að þótt skipulagsvaldið sé hjá samfélaginu vegur eignarhaldið þyngra, slíkur er máttur peninganna. 

Þegar erlendir stórkapítalistar keyptu vatnsverksmiðjuna í Ölfusi á dögunum varð nokkurt uppnám í þjóðfélaginu enda hafði svipað sést gerast annars staðar á landinu varðandi sölu á vatnsréttindum. Bæjarstjórinn í Ölfusi reyndi að róa menn, varaði við “delluumræðu”, það væri einfaldlega verið að skipta um eignarhald í alþjóðlegu fyrirtæki. Í rauninni væri þetta smámál. Þekktur “álitsgjafi” tók strax undir og varaði við að gera “úlfalda úr mýflugu”.

En fæstir létu sér segjast frekar en fyrri daginn. Almenningur stilllir sér nefnilega jafnan upp til varnar samfélagi sínu en ekki kauphöllinni. Sama gerðist þegar tekist var á um markaðsvæðingu raforkunnar. Gagnrýnendum og efasemdarmönnum var þá sendur tónninn sem aldrei fyrr, þeir væru dellumenn, ef ekki fábjánar, og röksemdir þeirra og varnaðarorð “bullyrðingar” sem í sjálfu sér er skemmtilegt nýyrði.

Og þá aftur að Tómasi þingmanni, sem sagði að í upphafi skyldi endinn skoða, því nú segir forstjóri Landsvirkjunar að ástæða sé til að hafa áhyggjur af aðgengi almennings að raforku. Og menn hvá við sem von er og spyrja hvort það sé ekki svo að við eigum raforkuna. Mikið rétt, hana eigum við enn að mestu leyti, en eftir að hún er orðin markaðsvara þar sem ekki má mismuna kaupendum getur enginn gengið að aðgengi sem vísu. Á markaði stjórnast verðlagið af eftirspurn og ef hún er mikil gæti svo farið að almenningur hefði ekki efni á að kaupa afnot af þessari eign sinni! Neytendavernd Evrópusambandsins, sem við erum smám saman að gefast á vald, gengur út á jafnræði á markaði.

Þetta þekkjum við af fréttum frá Noregi. Sæstrengirnir sem tengja Noreg við meginland  Evrópu breyta engu að eðli til en gera hins vegar markaðinn ágengari. Það er ekki að ástæðulausu að í markaðsvæddum kerfum er fyrir löngu farið að tala um orkufátækt. Þar er átt við fólk sem ekki hefur efni á að lýsa upp og hita híbýli sín. 

Og sama gæti gerst með vatnið. Á sumum svæðum gæti orðið vatnsskortur. Um aldamótin síðustu tókst með naumindum að forða því að vatnsveitur á Íslandi yrðu allar settar undir hlutafélagalög og búið í haginn fyrir markaðsvæðingu vatnsins. Andstæðingar þessa voru eins og fyrri daginn sagðir bulla og eflaust var einhvers staðar álitsgjafinn sem þóttist sjá að verið væri að gera úlfalda úr mýflugu.


En sem betur fer áttuðu menn sig á því í tæka tíð að mýflugan gæti hæglega orðið að úlfalda ef endirinn yrði ekki í upphafi skoðaður eins og Tómas þingmaður vill að við gerum nú.