Daniel Ellsberg: uppljóstrari um raunveruleikann
—
Daniel Ellsberg, einn mikilvægasti uppljóstrari síns samtíma, lést 16. júní síðastliðinn. „Hann hrinti af stað allsherjar pólitískri deilu í landi sínu árið 1971 þegar hann birti Pentagon Papers, strangleynilega Pentagon-skýrslu um ákvarðanir bandarískra stjórnvalda varðandi Víetnamstríðið“, segir Wikipedia.
Leki hans árið 1971 á því sem varð þekkt sem Pentagon Papers sýndu á óyggjandi hátt að bókstaflega allt sem bandarískum almenningi hafði verið sagt af stjórnvöldum um Víetnamstríðið , allt frá aðdraganda þess til þáverandi stöðu stríðsrekstursins, vara fals“ skrifar Guardian.
Politico.com minntist Daniels Ellsberg sem „The person whom Henry Kissinger once dubbed “the most dangerous man in America.”“ Ellsberg var kærður sem njósnari og réttarhöldin vörðu í tvö ár. Það stefndi í 115 ára fangelsisdóm, en loks var kærunni vísað frá af því of mörg lögbrot sönnuðust i málatilbúnaðinum gegn honum. Og falinn veruleiki Víetnamstríðsins fékk að birtast.
Ellsberg birti mikil og mikilvæg hernaðarleg og diplómatísk skjöl. Hann kom þeim á framfæri vegna almannahagsmuna af því samfélagið ætti heimtingu á upplýsingunum. Samtími okkar, undanfarinn rúman áratug, á sína sterku og mikilvæga hliðstæðu við Daniel Ellsberg. Það er auðvitað Julian Assange. Það er sérlega mikilvægt í nafni almannahagsmuni, í nafni afhjúpunar hernaðaraflanna og í nafni sannleikans að benda á þessa hliðstæðu. Vegna fráfalls hins 92 ára uppljóstrara skrifar Kristinn Hrafnsson:
„Nú er Daniel Ellsberg allur og veröldin fátækari. Hann var hetja og hugsjónamaður fram á síðasta dag. Allir, ekki síst blaðamenn, ættu að minnast hans enda ruddi hann braut sem einn mikilvægasti uppljóstrari allra tíma. Maðurinn sem fylgdi samvisku sinni og sannfæringu og hætti eigin frelsi til að koma Pentagon skjölunum til fjölmiðla og afhjúpa þannig lýgi Viet-Nam stríðsins. Hann átti sinn þátt í að Nixon bandaríkjaforseti hökklaðist frá völdum.
Ég kynntist Daniel árið 2010 þegar hann kom til London til að vera við birtingu WikiLeaks á hernaðarskjölunum frá Írak. Hann skyldi betur en flestir hvað sú birting var mikilvæg. Daniel gisti hjá samstarfsmanni okkar Gavin MacFadyen, forstöðumanni Miðstöðvar rannsóknarblaðamennsku í London sem nú er látinn. Ég hitti Daniel heima hjá Gavin og gerði ráð fyrir að hann væri úrvinda eftir langt flug og svefnleysi enda nærri áttræður. Það mætti mér hins vegar upptendraður unglingur sem óð um gólf. „Ég er búinn að vera að bíða eftir þessari stund í áratugi“, sagði hann ljómandi og fékkst varla til að setjast niður. Þessi kraftur í honum tendraði í okkur hinum og blés okkur baráttuanda í brjóst. Hvílíkur eldmóður, sprottinn af hreinni réttlætissýn og kröfu um aðhald og gagnsæi valdaafla sem spillast ef þeim er ekki haldið í skefjum.
Í öllum þeim slag sem við höfum staðið í hefur Ellsberg lagt þung og ómetanleg lóð á vogarskálina, vitnað fyrir Julian Assange í réttarsal í London og veitt ótal viðtöl ásamt því að vera alltaf tilbúinn til að taka þátt í viðburðum til að efla vernd uppljóstrara og blaðamanna sem starfa af tærri sýn á eigið aðhaldshlutverk.
Hann er horfinn okkur en eftir lifir sterk minning í hugum allra sem kynntust honum. Verk hans skilja eftir sig spor sem ættu að vera ljósviti þeirra sem standa áfram í hinum endalusa slag við hin myrku öfl. Ég kveð hann með trega.“