Byltingardagatalið 2020

28. desember 2019 — Vésteinn Valgarðsson


dagatal

Fyrir stuttu kom út Byltingardagatalið fyrir árið 2020. Þetta er í fjórða sinn sem Byltingardagatalið kemur út, en 2017 var það helgað hundrað ára afmæli októberbyltingarinnar, 2018 200 ára afmæli Karls Marx og 2019 hundrað ára ártíð Rósu Luxemburg og Karls Liebknecht. Nú, 2020, er það helgað 200 ára afmæli Friedrichs Engels og 150 ára afmæli Leníns. Eins og fyrri daginn er það stútfullt af fróðleik -- sem raunar fer frekar vaxandi, og hver mánuður myndskreyttur fólki eða viðburðum sem tengjast viðkomandi mánuði. Þessi fróðleikur er vitanlega mestmegnis tengdur baráttu fólksins fyrir réttlæti og mannsæmandi lífskjörum: stéttabaráttu, jafnréttisbaráttu og þjóðfrelsisbaráttu, svo það helsta sé nefnt. Fyrir útgáfu dagatalsins standa fern samtök: Alþýðufylkingin, DíaMat -- félag um díalektíska efnishyggju, Menningar- og friðarsamtökin MFÍK og Rauður vettvangur. Hægt er að nálgast það hjá samtökunum sjálfum, en einnig í Máli og menningu, Bóksölu stúdenta, versluninni Kjötborg á Ásvallagötu, bókaversluninni Sjónarlind á Bergstaðastræti og í sjoppunni Bláhorninu á Grundarstíg.