Azov fær nú hergagnastuðning frá Íslandi

22. júní, 2024 Jón Karl Stefánsson

Þann 12. júní s.l. samþykkti ríkisstjórn Bandaríkjanna að aflétta banni við að veita hinum svokölluðu Azov-hersveitum hergagnaaðstoð. Banninu hafði verið komið á árið 2015 að kröfu Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í kjölfar rannsóknar sem leiddi í ljós að hersveitirnar hefðu stundað pyntingar, nauðganir og myrt fjölda saklausra borgara í Úkraínu í kjölfar Maidan-mótmælanna og borgarastyrjaldarinnar sem fylgdi í kjölfarið. Þetta þýðir meðal annars að skattfé Íslendinga verður með í að styðja þessar hersveitir.

Fyrir þá sem nenna ekki að lesa, þá gerði BBC heimildarþátt um Azov herdeildirnar og aðra ný-nasistahópa í Úkraínu strax árið 2014, þegar enn var leyfilegt að gagnrýna stjórnvöld í Kænugarði. Þáttinn má nálgast hér.

Azov herdeildirnar eru kinnroðalaus nasistasamtök. Merki þeirra er Wolfsangels-fáninn, en hann var merki þýskra nasista áður en hakakrossinn var tekinn sem aðalmerki þess flokks. Samtökin byrjuðu sem hópur sjálfboðaliða sem vildu berja á Rússum og úkraínskum andstæðingum Maidan-valdastjórnarinnar árið 2014. Íbúar í austurhluta Úkraínu, sem töldu stjórnvöldin og forsetann sem steypt var af stóli, vera hin réttmætu stjórnvöld landsins og neituðu að viðurkenna hinu nýju stjórn. Úr varð borgarastyrjöld þar sem hersveitir nýrra stjórnvalda börðust gegn uppreisnarhópum í austri. Úkraínski herinn var of máttlítill í þessum átökum og hann fór hreinlega halloka fyrir hersveitum uppreisnarmanna. Fyrir vikið fór Maidanstjórnin að skipuleggja herflokka sjálfboðaliða sem væru tilbúnir að berjast við uppreisnarmenn í Donbas. Út úr því komu herdeildir skipaðar fyrst og fremst öfgaþjóðernissinnum. Ein slík tók nafnið Azovherdeildin eftir átökin um borgina Mariupol vorið 2014. Kjarni samtakanna voru, samkvæmt Radio Free Europe / Radio Liberty (fjölmiðlar sem Nató-ríkin komu á fót í áróðursskyni í Evrópu Kalda stríðsins), hópur harðkjarna, ofur-þjóðernissinnaðra fótbollabulla sem höfðu orð á sér í Austur Evrópu fyrir ofbeldishneigð og voru kallaðir „ultras“. Slíkir hópar tóku þátt í ýmsum ofbeldisherferðum í landinu, meðal annars í því að brenna til grunna höfuðstöðvar verkalýðshreyfingar í borginni Odessa á vormánuðum 2014 og með henni um 40 manneskjur.

Þann 2. maí 2014 myrtu úkraínskir þjóðernissinnar um 38 samlanda sinna er þeir kveiktu í höfuðstöðvum verkalýðshreyfingar Odessa.  Mynd, Nexusnewsfeed.

Smám saman drógu samtökin að sér nasista víðs vegar um Úkraínu og Evrópu allri. Fyrsti óopinberi leiðtogi samtakanna, Andriy Biletsky, sagði helsta markmið þeirra vera að „leiða hvítu kynþætti heimsins í loka-krossferð gegn undirmálsfólki [untermench] undir stjórn gyðinga“ (frá the Guardian). Helstu skotmörk þeirra í Úkraínu voru samt Rússar, kommúnistar og aðrir sem þeir litu á sem óæskilega í landinu. Úr þessum samtökum hafa svo sprottið upp ýmsir hópar ofbeldismanna (t.d. the National Militia) sem hafa gengið um götur borganna í Úkraínu og beitt þá ofbeldi sem ekki fylgja þjóðernisstefnu. Í október 2014 var hún (reyndar fleiri öfgahægrihópar) svo tekin inn í Þjóðvarðlið Úkraínu sem er undirlagt innanríkisráðuneytið (National Guard of Ukraine, ekki reglulega herinn). Þáttur öfgahærisins í hernaðinum gegn uppreisnaröflunum í Donbass varð stór og alveg afgerandi.

Liðsmenn Azov herdeildanna á góðri stund. Mynd, The guardian.

Þessar nasistasveitir eru með stór markmið fyrir framtíðina. Þeir hafa meðal annars komið upp reglulegum sumarbúðum fyrir börn og unglinga þar sem þau læra rétta hugmyndafræði, læra hvernig á að fara með skotvopn og annað skemmtilegt. (Sjá myndband hér). Nú fá þessir hópar reglulegar vopnasendingar, herþjálfun og jafnvel laun frá Nató-ríkjunum. Hluti þessa fjár kemur væntanlega frá skattfé Íslendinga í kjölfar einhliða ákvörðun utanríkisráðherra okkar um árlegan og varanlegan milljarða fjárstuðning til landsins.

Azov eru langt frá því að vera eini fasistahópur Úkraínu sem við höfum stutt síðan árið 2014. Önnur áberandi hreyfing vígamanna er Aidar, en Amnesty International hefur sakað hana um mikil grimmdarverk á borð við pyntingar og aftökur án dóms og laga (Amnesty International, 2014). Pravyi Sektor („hægri armurinn“) er hreyfing um 10 þúsund sjálfboðaliða sem BBC kallaði „ultra-nationalists“. Þeir hafa farið mikinn í landinu og lamið þá sem sýna merki um að styðja ranga aðila. Pólitískur armur þeirra hefur myndað kosningabandalag við Svoboda og aðrar nýfasískar hreyfingar í landinu.

Hermaður frá Azov herdeildunum. Mynd úr fréttaskoti ZDF.

Þessir nasistahópar sem við á Vesturlöndum hvetjum nú til dáða spruttu ekki upp úr engu. Þegar Þýskaland nasista réðst inn í Úkraínu voru margir í Vesturhluta landsins sem tóku þeim fagnandi og mynduðu sína eigin nasistahópa sem voru við stjórnvölinn allt til loka stríðs. Sumir gengu til liðs við Schutzmannschaft, leynilögreglu þýskra nasista auk þess sem sérstakar SS sveitir Úkraínu, „Galizien“ og „Waffen-Grenadier-Division der SS“. Þessar sveitir byggðu sjálfar og sáu um einangrunarbúðir og myrtu mikinn fjölda fólks. Alls létust um sjö milljónir óbreyttra borgara í Úkraínu á einungis fjórum árum, margir þeirra féllu fyrir höndum þessara nasistasveita.

Um leið og Sovétríkin liðuðust í sundur spruttu upp hópar sem sáru hollustu sína við þessar gömlu nasistasveitir. Stærst þeirra var áðurnefnd Svobodahreyfing, en fleiri stjórnmálaflokkar, vígahópar og þrýstihópar fyrir hreinni Úkraínu spruttu upp um leið. Þessir hópar voru meðal þeirra sem fengu fjármögnun frá NED, USAID og Evrópusambandinu og þetta eru hörðustu vígasveitirnar sem nú fá vopn og fé frá okkur. Árlega er haldið upp á afmæli Stepans Bandera með mikilli fyrirhöfn, pomp og prakt, í höfuðborginni (sjá myndband).

Frá minningarathöfn um Stephan Bandera í Kænugarði.

Afneitun, afneitun, afneitun

Líklega vegna þess að mikil áhersla hefur verið lögð á að mála þá stjórn sem tók völdin í Úkraínu í kjölfar valdaráns í febrúar 2014 sem boðbera lýðræðis gegn vondum öflum í Rússlandi, og í krafti þess að forseti landsins er sjálfur gyðingur, hefur ríkt stórfurðuleg afneitun um framferði og jafnvel tilvist nýnasískra hópa í Úkraínu. Þessi afneitun hefur tekið á sig allt að hlægilega mynd. Þannig fékk hinn 98 ára gamli nasisti, Yaroslav Hunka standandi lófaklapp í tvígang í kanadíska þinginu í september í fyrra. Hunka þessi fékk þetta lófaklapp fyrir að hafa staðið í hárinu á Rússlandi í seinni heimstyrjöldinni, og að hann gerði það enn nú í dag. Hunka gerði það vissulega, enda var hann meðlimur hinna svokölluðu SS Galicia deild nasista í Úkraínu á dögum seinni heimsstyrjaldarinnar. Því er meir að segja afneitað að sjálfar Azov herdeildirnar hafi nokkuð með nasisma að gera, slíkt sé einungis Pútín-áróður. En menn geta einfaldlega ekki leyft sér slíka hræsni og sjálfsafneitun. Eitt væri ef menn viðurkenndu einfaldlega að opinber stefna Íslands og annarra Nató-ríkja, sé að styðja nasíska hópa í Úkraínu. Ef ekki, þá ætti ekki að veita slíkum hersveitum fjárhags- og hernaðarlegan stuðning. Tíminn til að ákveða sig er sirka núna.