Austursnúningur Rússlands: frá stærri Evrópu til stærri Evrasíu
—
Hér er framhald af grein Glenn Diesens, „Baráttan um Evrasíu – og hverfipunktur sögunnar“ sem birtist hér 4. nóvember. Sá fyrri hluti fjallaði um stórveldaátök um „hjartalandið“ og Evrasíu í sögunnar rás fram til loka Kalda stríðsins 1991 en þessi hér fjallar um þau róttæku umskipti sem síðan hafa orðið á þessu mikla leiksviði.
****
Eftir kalda stríðið og fall Sovétríkjanna í framhaldinu, sáum við að Rússland sneri ekki aftur til hinnar „evrasísku sýnar“ manna á borð við Peter Savitskíj. Þess í stað sneru Rússar sér aftur að mjög vestrænni stefnu og hunsuðu að mestu leyti löndin í austri á meðan þeir stefndu að markmiði sínu um Stór-Evrópu – það er að segja evrópsku öryggiskerfi án aðgreiningar.
Ameríska einpóla andartakið
Hins vegar var horft framhjá því í stefnu Rússa að Rússland var veikt – og Bandaríkin sáu nú sögulegt tækifæri til að skapa varanlegt yfirráðakerfi í Evrópu og með því samtímis að drottna yfir Evrasíu frá jaðrinum. Og sannarlega, hálfum öðrum mánuði frá falli Sovétríkjanna sáum við að Wolfowitz-kenningin var sett fram í drögum að bandarískri varnarmálastefnu frá 1992, sem lak út í fjölmiðla. Þar kom eftirfarandi fram:
Það er ólíklegt að hnattræn hefðbundin ógn við öryggi Bandaríkjanna og Vesturlanda muni koma aftur upp frá hjartalandi Evrasíu um langt skeið.
Meginmarkmið var einnig að koma í veg fyrir að ný ógn gæti komið upp. Þessu átti að ná með því að tryggja hagsmuni leiðandi iðnríkja:
við verðum að viðhalda þeim aðferðum sem fæla hugsanlega keppinauta frá því einu sinni að reyna að leika stærra svæðisbundið eða hnattrænt hlutverk.
Bandaríkin urðu því að ná yfirráðum á lykilsvæðum og lykilorkuleiðum og tryggja að engir keppinautar gætu mögulega komið fram. Jafnvel Þýskaland, Japan og önnur bandalagsríki voru sett á lista yfir mögulega keppinauta. Sem sagt, enginn mátti véfengja yfirburði/yfirráð Bandaríkjanna. Augljóslega setti þetta einnig strangar skorður við hlutverki Rússlands í Evrópu og hvers kyns samþættingu milli Rússa og annarra leiðandi Evrópuríkja eins og Þýskalands.
Leiðandi fræðiverk um yfirráð Bandaríkjanna yfir Evrasíu eftir kalda stríðið var skrifað af Zbigniew Brzezinski, ráðgjafa margra forseta á borð við Jimmy Carter og Barack Obama, sem einnig gegndi lykilhlutverki í vopnun Mujahideen-hreyfingarinnar í Afganistan á níunda áratugnum. Brzezinski benti á að forræði og yfirráð yfir Evrasíu væru háð getu Bandaríkjanna til að halda stærri ríkjum sundruðum, gera þau áfram hernaðarlega háð Bandaríkjunum, og þetta yrði uppskriftin að stjórn eða varanlegum yfirráðum yfir Evrasíu frá jaðarsvæðum hafsins. Og þess vegna reiðir sjóveldið, nú Bandaríkin, sig á kerfi bandalaga. Þegar heimurinn síðan skiptist í fylkingar, standa annars vegar háð leppríki, sem gera eins og þeim er sagt, og hins vegar standa innilokaðir andstæðingar. Og þetta fyrirkomulag myndi koma í veg fyrir að alvarlegur friður brytist út, sem gæti afmáð þessar skiptilínur.
Brzezinski hélt því einnig fram að Rússland væri veikt og hefði enga aðra valkosti en að halla sér að Vesturlöndum. Af þeirri ástæðu myndi Rússland verða að landfræðistrategísku svartholi við hinn tvöfalda jaðar Evrópu og Austur-Asíu, og þetta væri það sem Bandaríkin ættu að leitast við að nýta sér. Með orðum Brzezinski
skapaði það forsendur fyrir stigvaxandi landfræðilegri útrás vestræna samfélagsins dýpra og dýpra inn í Evrasíu.
Þannig að ef að Rússland skyldi standa gegn framsókn Vestursins inn í Evrasíu
yrði Rússland að vita að gríðarlegt siglingabann [innilokun] myndi þá hindra aðgang þess að Vesturlöndum sjóleiðina.
Hugmyndin var sú að Rússlandi sjálfu ætti helst einnig að skipta upp í það sem Brzezinski kallaði lauslega sambandsríkið Rússland, sem samanstæði af evrópska Rússlandi, síberísku lýðveldi og lýðveldi í Austurlöndum fjær. Á meðan skera skyldi Rússland þannig frá Evrópu og helst skipta því upp í aðskilin svæði eða ríki, voru Bandaríkin að þróa sitt eigið Silkileiðarverkefni. En þetta var allt önnur Silkileið en sú gamla. Ekki dreifstýrt fjölpóla fyrirkomulag með fjölbreyttum tengingum. Þess í stað hafði hún þann tilgang að sundra Evrasíu til þess að viðhalda bandaríska yfirveldinu [nota þetta orð fyrir hið erlenda hegemon]. Svo sjá mátti að öll verkefni, hvort sem það var TAPI-leiðslan frá Túrkmenistan, Afganistan, Pakistan og Indlandi, eða georgísk-aserska leiðslan til að komast inn í Mið-Asíu, höfðu öll þann skýra tilgang að slíta Mið-Asíu frá Rússlandi og Kína. Þetta var sem sagt yfirveldis-sýnin á Evrasíu.
Um 2014 gerðist tvennt sögulegt
Nú, í kringum 2014 gerðist tvennt sem fór að breyta heimsskipaninni. Í fyrsta lagi steyptu NATO-ríki ríkisstjórninni í Úkraínu árið 2014, sem gaf Rússum til kynna að öll von væri úti um Stór-Evrópu, þar sem Úkraína yrði nú víglína í stað brúar. Og viti menn, eins og við komumst að síðar, strax á fyrsta degi eftir valdaránið, hófu Bandaríkjamenn samstarf við nýju úkraínsku leyniþjónusturnar sem Bandaríkjamenn höfðu komið á fót, til að endurbyggja þær frá grunni og nota þær – sem áður voru helsti samstarfsaðili Rússlands – sem helsta samstarfsaðila Bandaríkjanna, til að beita gegn Rússlandi í leynilegu stríði.
Valdaránið í Úkraínu var sem sagt fyrra atriðið. Annað sem gerðist um sama leyti var að Kína hafði misst trúna á varanleika alþjóðlega efnahagskerfisins undir forystu Bandaríkjanna og hafði þróað nægjanlegt vald til að geta ögrað því. Og þetta er nákvæmlega það sem Kína gerði, byrjaði að ögra alþjóðlega bandarísk-stýrða efnahagskerfinu. Árið 2013 sáum við upphaf Beltis- og brautarframtaksins sem er viðleitni til að endurvekja gamla Silkiveginn sem var ráðandi þjóðbraut fyrir uppgang vestrænu sjóveldanna. Við sáum einnig tilkomu mjög metnaðarfullrar kínverskrar tækni- og iðnaðarstefnu árið 2015, svo sem „Kína 2025“-áætlunina sem hafði það að markmiði að koma Kína í forustu allrar helstu tækni sem tengist fjórðu iðnbyltingunni. Og við sáum einnig ný fjármálaverkfæri líta dagsins ljós, nýja banka árið 2015 með stofnun Asíu-innviðafjárfestingarbankans, einnig það að kínverski gjaldmiðillinn yrði alþjóðavæddur, en einnig notkun gjaldmiðla annarra landa.
Nýjar tengingar – efnahagsleg þungamiðja færist austur
Þegar bæði Rússland og Kína höfðu misst trúna á bandarísk-stýrða efnahagskerfið sáum við fara að myndast útlínur stærri Evrasíu. Í raun yfirgaf Rússland drauminn um sameinaða Evrópu og hallaðist að Stór-Evrasíu framtakinu í staðinn. Þannig myndi Rússland ekki lengur horfa til Vestursins eftir þróun, eins og það hafði gert allt frá Pétri mikli fyrir 300 árum, og með Kína sem helsta samstarfsaðila gæti það nú í staðinn horft til Austursins eftir slíkri þróunar- og efnahagssamvinnu. Hvað Vestrið snerti og viðleitni þess til að kljúfa Rússland frá Evrópu og Þýskalandi var Rússlandi með því móti ýtt í átt að Kína, ýtt inn í Asíu.
Jæja, á 19. öld, hefði slíkt kannski veikt Rússland og gert það efnahagslega vanþróaðra. En í nútímanum var slíkt sjálf hin versta martröð Mackinders: tvö risastór Evrasíuríki samtengjast, Rússland og Kína, með það að markmiði að grafa undan yfirráðum sjóveldanna frá jaðarsvæðum hafsins. Og við sjáum að kínverska Beltis- og brautarframtakið endurtengir meginland Evrasíu, bæði á landi og sjó, með járnbrautum, hraðbrautum, hafnarborgum, stafrænum netum. Og með þessum efnislegu tengingum aukast viðskipti, samþætting aðfangakeðja, tæknisamstarf og iðnaðarsamvinna, einnig fjármálasamvinna með nýjum bönkum og notkun innlendra gjaldmiðla. Í reynd sjáum við grunninn að nýrri alþjóðlegri efnahagsskipan.
Þetta er ekki einvörðungu samstarf milli Rússlands og Kína. Í raun tengir það saman alla álfuna og þar að auki heiminn. Og þetta er ótrúlega vinsæl hugmynd, því Evrasía er tákn um fjölpóla heim. Í slíkum heimi eru ekki allar ákvarðanir teknar frá einni valdamiðju. Og Stór-Evrasía er líka mjög skynsamleg fyrir Rússland, sem getur færst frá þessum tvöfalda jaðri Evrópu og Austur-Asíu og sett sig í staðinn í miðjuna á mun stærri heild.
Þannig að vesturmiðaðir orkuútflutningsinnviðir Rússlands hafa smám saman verið færðir til Austurs í staðinn. Aðallega til Kína, en einnig til Indlands. Á Vesturlöndum sjáum við að hagkerfin hafa staðnað og þar að auki hefur hatrið á Rússlandi þar að því er virðist verið viðvarandi um aldir. Á meðan eru hagkerfin í Austri eru kraftmeiri og Rússlandi hefur að mestu verið tekið þar fagnandi. Þannig að Rússland hefur sín eigin verkefni. Það hefur auðvitað þennan austur-vestur-gang eftir og meðfram Síberíujárnbrautinni. En við sjáum líka að Rússar eru að þróa norðursiglingaleiðina meðfram Norður-Íshafinu, sem er þak Evrasíu-meginlandsins, sem býður upp á hraðvirka og ódýra flutningaleið, sem er einnig utan stjórnsvæðis bandaríska sjóhersins, þótt NATO sé í auknum mæli að skipuleggja að fara inn á Norðurslóðir með miklum þunga.
Við sjáum líka að Rússar eru að byggja upp alþjóðlegan norður-suður-flutningagang, gang sem tengir Rússland við Íran og Indland, sem er mun hraðvirkari og ódýrari gangur en Súesskurðurinn sem er hinn valkosturinn. Þetta er líka nokkuð sem tengir saman granna Rússa, Íran og Indland. Þetta er því mikilvægur hluti af viðleitni Írans til að tengjast Evrasíu, enda telur Íran nú samstarfið við Kína og Rússland afar mikilvægt.
Fjölpólunin
Og fyrir Indland er þetta líka mikilvægt. Landið hefur áhuga á samþættingu Evrasíu. Hins vegar vill það ekki að hún verði of miðstýrð frá Kína. Kína, sem einnig sér að samþætting Evrasíu verði fagnað ef hún er fjölpóla, er ekki á móti fjölbreytni í viðskiptum, til dæmis með því að Indland og Rússland tengist frekar. Þannig að frá Suður-Kóreu til Kína, Indlands, Kasakstan, Rússlands, Írans, Arabaríkjanna, hafa öll löndin stefnumótun [strategíu] um samþættingu Evrasíu. Þessi framtaksverkefni eru ólík, en þau eiga það öll sameiginlegt að útheimta bætt innbyrðis samskipti og finna pólitískar lausnir á deilum til að tengjast, því ekkert eitt vald á Evrasíuálfunni getur þröngvað sínu framtaki upp á aðra. Þess vegna er þörf á að samræma hagsmunina í staðinn.
Þannig að til dæmis hafa Rússland og Kína mjög ólík framtaksverkefni og áherslur í Mið-Asíu, en samt sjáum við líka að hvorugt getur náð fram því sem það vill án þess að samræma hagsmuni við hinn aðilann. Þess vegna sjáum við að vestrænar hugmyndir um að Rússar og Kínverjar hlytu berjast um Mið-Asíu rættust aldrei eins og búist var við. Og ástæðan er sú að hvorugt keppir nú um yfirveldis-stöðu. Þess í stað leita þau að fjölpóla kerfi.
Af þessari ástæðu sjáum við að Evrasíska efnahagssamband Rússlands og Beltis- og brautarframtak Kína voru samræmd undir formerkjum Samvinnustofnunar Sjanghæ. Og hin leiðandi stofnun í því að tengja nýtt alþjóðlegt efnahagskerfi er augljóslega BRICS.
Þetta snýst ekki lengur bara um hafnir, vegi eða járnbrautir. Heldur höfum við nú líka stafræna ganga, orkuganga, kornganga og ýmislegt tæknisamstarf. Við höfum iðnaðarsamþættingu, viðskipti í innlendum gjaldmiðlum, sameiginlega þróunarbanka, greiðslukerfi og vöruskipti.
Valkosturinn við fjölpóla kerfi Evrasíu er að allir lúti forræði sjó-yfirveldisins, sem leitast við að kljúfa Mið-Asíu frá Kína, kljúfa Kína frá Rússlandi, Rússland frá Indlandi, Indland frá Íran, kljúfa Íran frá Tyrklandi o.s.frv. Yfirveldið er þannig heimsveldi glundroða (empire of chaos) í þessum skilningi, sem reiðir sig á bandalagskerfi og stöðug átök. Hvort heldur menn sjá ávinning eða ókost í áframhaldandi hnattrænu forræði Bandaríkjanna, skiptir það í raun ekki svo miklu máli, það er einfaldlega ekki sjálfbært og er því á niðurleið.
Árásarviðbrögð yfirveldisins veikja það enn frekar
Þegar yfirveldið veikist, verður það líka árásargjarnara. Það er að segja: á meðan það hefði áður reynt að byggja upp traust í kringum stjórnunarlegt vald sitt yfir alþjóðlegu efnahagslífi, sjáum við í staðinn að hnignandi yfirveldi er líklegra til að nota yfirráð sín til að koma í veg fyrir að keppinautar komi fram, sem er ástæðan fyrir því að Bandaríkjamenn hafa hafið tæknistríð og efnahagsstríð gegn Kínverjum en orkustríð og hernaðarlegt staðgengilsstríð gegn Rússlandi. Við sjáum að Evrópulönd hafa slegist í hópinn, og ræða nú um lögleiðingu þjófnaðar með því að stela fullvalda sjóðum Rússlands. Þetta er tilraun til að koma í veg fyrir uppgang keppinauta. Hins vegar hefur það alveg öfug áhrif, það hvetur aðeins restina af heiminum til að auka fjölbreytni í viðskiptum innan þessa stærra evrasíska samhengis.
Í eðlislægri andstöðu sinni við samvinnu innan Evrasíu og til að varðveita yfirráð sjóveldanna, horfir Vestrið framhjá því að nú er ekki lengur 19. eða 20. öld. Í fyrsta lagi hefur Rússland hvorki getu né áform um að drottna yfir Evrasíu. Og ógnin sem stafar frá Evrasíu er ekki frá nýjum yfirveldis-keppinaut, heldur stafar hún frá fjölpóla kerfi. Áður fyrr hefðu Bandaríkin verið ánægð með að sjá valdajafnvægi í Evrasíu en þau eru það ekki lengur. Eina ástæðan fyrir því að þetta er ekki lengur ásættanlegt er sú að Bandaríkin samþykkja aðeins yfirveldis-líkan.
Viðbrögð Vestursins við þessu einkennast af ótal mistökum. Til dæmis: þjófnaður á fullveldis-sjóðum rússneska seðlabankans [í Evrópskum bönkum] hefur gert heiminn hræddan við vestræna fjármálakerfið svo að hann leitar í örvæntingu eftir valkostum. Árásir á kínverska tækni [tæknifyrirtæki] ógna aðfangakeðjum sem reiða sig á viðskipti við Vesturlönd, og við sjáum því að Vesturlöndum er ýtt út úr þeim aðfangakeðjunum. Óttinn við flöskuhálsa í siglingaleiðum skapar meiri eftirspurn eftir öðrum valkostum.
Við á Vesturköndum getum í raun ekki tekið á þessum málum, vegna þess að í því ættbálkahugarfari sem við erum föst í núna er hægt að saka hvern sem er um að standa með andstæðingnum ef hann bendir á hversu mikið við erum að skaða okkur sjálf. Og frásagnir okkar [narratífið] verða því sífellt ótengdari raunveruleikanum.
Í Evrópu er mikið að vinna með því að hverfa frá yfirveldis-hugsuninni og viðurkenna fjölpóla veruleika, þ.e.a.s. viðurkenna þau nýju alþjóðlegu valdahlutföll sem hafa þegar þróast. En það er sem sagt aðalvandamálið: það er nákvæmlega enginn vilji til að viðurkenna þær gríðarlegu breytingar sem eiga sér stað og að framkvæma nauðsynlegar aðlaganir sem geta aukið efnahagslega velmegun og einnig öryggi. Í staðinn, svo vitnað sé í Machiavelli,
menn vilja ekki horfa á hlutina eins og þeir raunverulega eru, heldur eins og þeir óska sér að þeir séu, svo að þeir falla [glatast].
Hver er svo stemningin í Rússlandi í dag? Ég tel að hægt sé að draga hana saman með tilvitnun frá Dostojevský:
Rússar eru jafn mikið Asíubúar og Evrópubúar. Mistök stefnu okkar síðustu tvær aldir hafa verið að láta íbúa Evrópu trúa því að við séum sannir Evrópubúar. Við höfum beygt okkur eins og þrælar fyrir Evrópubúum, og við höfum aðeins uppskorið hatur þeirra og fyrirlitningu. Það er kominn tími til að snúa baki við vanþakklátri Evrópu. Framtíð okkar er í Asíu.
Aðalatriðið hjá mér er einfaldlega þetta: að landafræðin skiptir máli, eins og hún hefur alltaf gert. Og heimurinn er kominn á mjög mikilvæg tímamót. Þess vegna er evrasísk heimsskipan nú í mótun, og allar tilraunir til að koma í veg fyrir hana munu aðeins magna þróun hennar enn frekar.
****
Glenn Diesen er norskur stjórnmálafræðingur og prófessor með meginfókus á rússnesk málefni, Evrasíu og hagræna landafræði. Glenn Diesen er einnig afkastamikill þáttagerðarmaður á eigin hlaðvarpi https://glenndiesen.substack.com/ Ofanskráð erindi er sótt á substack-blogg hans frá 30. október: https://glenndiesen.substack.com/p/russias-pivot-to-the-east-from-greater







