Baráttan um Evrasíu – og hverfipunktur sögunnar
—
Landfræðipólitík (geopolitics) er fræðigrein sem fjallar um það hvernig landfræðilegir þættir víxlverka á pólitísk völd og hernaðaráætlanir. Megináherslan í landfræðipólitík hefur alltaf verið á meginlandið Evrasíu. Þetta er hin víðfeðma heimsálfa sem teygir sig frá Atlantshafi til Kyrrahafs og frá Norður-Íshafi til Arabíuhafs. Þetta er því það meginland þar sem flesta íbúa heimsins, mest af auðlindum heimsins og einnig stærsta landsvæði heimsins er að finna. Grundvallarhugmyndin hefur alltaf verið sú að stjórnir þú Evrasíu getirðu stjórnað heiminum.
Ég mun hér fjalla stuttlega um sögu þess hvernig stórveldin hafa keppt öllu öðru fremur um yfirráðin yfir Evrasíu. Ég mun síðan (í grein númer tvö) fjalla um þá róttæku valda-umbreytingu sem við horfum upp á nú um stundir, sem umbreytir allri heimsskipaninni.
Silkivegurinn – síðan sjóveldin
Sem kunnugt er var Evrasía samantengd sögulega með hinum forna Silkivegi, með bæði land- og sjóleiðum sem voru notaðar til að skiptast á menningu, hugmyndum, tækni og efnislegum vörum. Hinn forni Silkivegur var dreifskipulagður. Hann samanstóð af mörgum leiðum sem tengdu saman mismunandi siðmenningar, og hirðingjar sáu yfirleitt um stjórnun verslunarleiðanna. Mongólaveldið – sem var heimsveldi hirðingja – var síðasta veldið sem gegndi lykilhlutverki í því að efla og viðhalda hinum forna Silkivegi.

Veldi mongóla byrjaði að hrynja á 14. öld. Sjóleiðirnar voru síðan aðallega yfirteknar af evrópskum sjóveldum, með uppgangi þeirra í byrjun 16. aldar. Kólumbus, Magellan og Vasco da Gama o.a. komu af stað landfræðilegri byltingu þegar þeir tengdu heiminn saman eftir sjóleiðum. Þetta hafði margs konar afleiðingar, þar sem ný valdakerfi mynduðust.
Ólíkt hinum forna Silkivegi urðu sjóleiðir evrópsku stórveldanna mjög miðstýrðar og einnig mjög Evrópu-stýrðar. Áherslan var á að stjórna lykilhöfnum verslunar, flöskuhálsum siglinga, þar sem eitt vald gat einokað stjórnina – og þar sem þröngt var um valkosti. Drottnunarhvötin jókst enn frekar með tækninýjungum í Evrópu, sem er ástæðan fyrir því að Adam Smith viðurkenndi til dæmis að samfundir og kynni Evrópu við umheiminn þróuðust á mjög eyðileggjandi og arðrænandi hátt. Adam Smith vonaði að í framtíðinni yrði minni valdaójöfnuður, þ.e.a.s. minni samþjöppun valds í Evrópu, til að tryggja að efnahagssamskiptin yrðu gagnkvæmari, af því þessi samþjöppun valds í Evrópu skapaði mjög ríkjandi stöðu og þar með arðráns- og undirgefnishlutverk fyrir þau landsvæði sem Evrópubúar komust í snertingu við.
Yfirráðakerfi sjóveldanna byggðist upp. Við nefndum að veldi verslunarstöðva voru sjóveldi, verslunarveldi þar sem yfirráð yfir höfnum og siglingaleiðum voru afgerandi um hernaðarleg yfirráð yfir heimsviðskiptum. Og slík yfirráð voru mikilvægara en landvinningar.
Bretland gerist yfirveldi
Hins vegar þróuðust evrópsku verslunarstöðvaveldin með tímanum yfir í fullgild heimsveldi, og evrópsku heimsveldin kepptu síðan óbeint með því að leggja undir sig umheiminn, sem leiddi að lokum til innbyrðis hernaðarátaka þeirra á milli. Með tímanum fór hverju stórveldinu á fætur öðru að hnigna en hið ráðandi sjóveldi varð þá að hnattrænu yfirveldi (global hegemon). Þetta gerðist í byrjun 19. aldar – eftir langvarandi samkeppni milli Frakka og Breta – þá markaði ósigur Napóleons upphafið að „Pax Britannica“, þ.e.a.s. friði undir yfirráðum Breta, sem talinn er hafa staðið í 100 ár, allt til fyrri heimsstyrjaldar. Það er að segja Bretar réðu hafinu, og stjórnun þeirra á hafinu sem tengir heiminn saman var uppsprettan að yfirveldi Bretlands, sem Bandaríkin tóku síðar við þegar þau yfirtóku stjórn þessara leiða. Ennfremur höfðu Bretar, sérstaklega frá byrjun 19. aldar, gríðarlegt forskot í iðnbyltingunni og einnig fjármálavald, sem leiddi til þess að yfirráð Breta jukust enn frekar.
En á þessum tímapunkti, eftir að Bretland var orðið eitt yfirveldi, sáum við einnig að landfræðipólitík Evrasíu hafði breyst, af því að í Napóleonsstyrjöldunum hafði annað mjög mikilvægt gerst. Í mjög stuttu máli: Rússar höfðu gert bandalag við Napóleon og þeir höfðu á árinu 1800 til 1801sent kósakkaleiðangur í gegnum Mið-Asíu til að komast til breska Indlands. Óttast var að þetta gæti ógnað yfirráðum Breta yfir breska krónudjásninu Indlandi.
„Leikurinn mikli“, landveldi gegn sjóveldi
Á þann hátt birtist nýr landfræðipólitískur veruleiki. Það er að segja, yfirráð Breta yfir hafinu dugðu ekki til að stjórna Evrasíu-meginlandinu af því stórt evrasískt landveldi eins og Rússland gat þá mögulega byrjað að tengja meginland Evrasíu saman – á landi. Upp frá því, og næstu 70 árin, varð samkeppni Breta og Rússa þekkt sem „Leikurinn mikli“ (The Grand Game), landfræðipólitísk samkeppni 19. aldar um yfirráð yfir Mið-Evrasíu, sem er talin hafa staðið frá 1820 til 1890.
Þetta var samkeppni um að stjórna verslunarleiðum og auðlindum, og á komandi árum sáum við að Rússar unnu fyrst stríðið gegn Persíu árið 1828, sem ógnaði yfirráðunum yfir hlutum af syðri sjóleiða-jaðrinum af því Rússar þöndu sig út í átt að þeim jaðri. Bretland var augljóslega ekki lengur hið allsráðandi yfirvald. Bretar gátu ekki ýtt Rússum til baka, og Persía var undir miklum þrýstingi að gera bandalag við Rússland – og saman gætu þau jafnvel ráðist á Breska Indland.
Á sama tíma höfðu Bretar og Frakkar áhyggjur af því að Rússland færðist sífellt nær Ottómanaveldinu. Þar með réðust Bretar og Frakkar á Rússland í Krímstríðinu – sem stóð frá 1853 til 1856 – með það að markmiði að hrekja Rússland að fullu út úr Evrópu. Rússar biðu niðurlægjandi ósigur. Ástæður þess má draga saman: Rússland hafði engan raunverulegan iðnað sem hægt var að beita til að þjóna stríðsrekstrinum. Rússland hafði lélega innviði og hafði augljóslega dregist langt aftur úr í iðnvæðingu. En Rússar brugðust við með því sem kallað var „umbæturnar miklu“: hraðri iðnvæðingu og einnig lagningu járnbrauta um Mið-Asíu. Og það var athyglisvert að þessar járnbrautir fylgdu að miklu leyti sömu leið og hinn forni Silkivegur hafði gert, og náðu alla leið til Afganistans.
Eftir mörg stríð lauk loks „Leiknum mikla“ með bókunum Pamír-landamæranefndarinnar frá 1895, sem gerðu Afganistan að hlutlausu svæði (stuðpúðabelti) milli Rússaveldis og Breska heimsveldisins. Þetta er ástæðan fyrir hinni mjög undarlegu landafræði austur-Afganistans. Og með þessu hlutlausa svæði virtist sem sjóveldisdrottnun Breta gæti haldist áfram.
Mackinder og „hjartalandskenningin“
Hvað um það, á tíunda áratug 19. aldar lögðu Rússar einnig Síberíujárnbrautina sem tengdi Moskvu við Vladivostok á Kyrrahafsströndinni. Það ögraði að nýju yfirráðum Breta yfir Austur-Asíu, þ.e.a.s. austurjaðri Evrasíu-meginlandsins.
Gegnum þetta allt varð til í Bretlandi landfræðipólitísk kenning um Evrasíu. Hún var kölluð „hjartalandskenningin“, þróuð af Halford Mackinder í byrjun 20. aldar, fyrst sett fram árið 1904 í grein sem hét „The Geographical Pivot of History“ (Landfræðilegur hverfipunktur sögunnar). Í þessari grein skrifaði Mackinder, og þetta er bein tilvitnun:
Sá sem ræður Austur-Evrópu stjórnar hjartalandinu. Sá sem ræður hjartalandinu stjórnar heimseyjunni. Sá sem ræður heimseyjunni stjórnar heiminum.
[með „heimseyjunni“ er átt við Evrasíu-meginlandið] Í stuttu máli var því Austur-Evrópa [austur að Úralfjöllum] hið miðlæga svæði sem þurfti að stjórna til að ná heimsyfirráðum. Mackinder hélt því fram að heimurinn skiptist í tvö svið sem væru andstæð frá náttúrunnar hendi, land og sjó. Sjóveldið, sem á þeim tíma var Bretland, átti því á hættu á að missa samkeppnisforskot sitt ef einhverjir aðilar næðu stjórn á Evrasíu frá landi.

Halford Mackinder
Mackinder benti á að járnbrautir hefðu jafnan aðeins stutt við verslun sem byggðist á sjóflutningum, þ.e.a.s. járnbrautir bjuggu aðeins til stystu mögulegu flutningsleið til strandar og þaðan var varningurinn fluttur sjóleiðis. En með járnbrautum þvert yfir Evrasíuheimsálfuna gætu nýir flutningsleiðir myndast sem gætu komið í stað sjóflutninga og þar með bundið enda á yfirráð sjóvelda með öllu. Með orðum Mackinders:
Fyrir einni kynslóð síðan virtist Súesskurðurinn hafa aukið hreyfanleika sjóveldis í samanburði við landveldi. Járnbrautir þjónuðu aðallega sem aðveituæðar fyrir siglingaverslun, en járnbrautir þvert um heimsálfur og meginlönd eru nú að umbreyta skilyrðum landveldis, og hvergi geta þær haft jafn mikil áhrif og í lokuðu hjartalandi Evrasíu, á hinum víðfeðmu svæðum þar sem hvorki timbur né tiltækilegt grjót fannst til vegagerðar.
Mackinder benti á að viðvera rússneska hersins í Mansjúríu væri nægjanleg sönnun fyrir því að hreyfanleg landveldi væru nú algjörlega samkeppnishæf, á sama hátt og viðvera breska hersins í Suður-Afríku sýndi fram á samkeppnishæfni sjóvelda.
Þannig var kominn upp lykilágreiningur milli fremsta sjóveldisins og fremsta landveldisins. Þetta skapaði alveg nýjan veruleika, þar sem keppnin stóð ekki lengur milli sjóvelda um heimsyfirráð. Í staðinn voru komin fram evrasísk landveldi sem gætu gjörbreytt mikilvægi þess að stjórna höfunum. Mesta áskorunin eða ógnin fyrir Breta var þessi: Hver gæti tengt saman meginland Evrasíu? Og helsta ógnin á 19. öld var augljóslega mögulegt bandalag Þjóðverja og Rússa sem gæti tengt þennan mikla landmassa saman.
Bandaríkin tóku upp Evrasíustefnu Breta
Það verður í raun seint ofmetið hversu mikilvægar þessar hugmyndir hafa verið fyrir landfræðipólitík, ekki aðeins við mótun breskrar utanríkisstefnu heldur einnig bandarískrar utanríkisstefnu, eftir að Bandaríkin urðu ráðandi ríki. Reyndar sjáum við í skýrslum Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna [National Security Council, NSC] allt frá árinu 1948 og áfram, að vísað er til innilokunarstefnu gagnvart Evrasíu með orðalagi Mackinders og hjartalandskenningar hans. Og á fyrstu blaðsíðu Þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna frá 1988 stendur:
Grundvallarþjóðaröryggishagsmunum Bandaríkjanna yrði stefnt í hættu ef fjandsamlegt ríki eða ríkjahópur … næði yfirráðum yfir evrasíska landmassanum, því svæði heimsins sem oft er vísað til sem hjartalands heimsins. Við háðum tvær heimsstyrjaldir til að koma í veg fyrir að þetta gerðist.
Þar á eftir er einnig útskýrt að þetta sé ástæðan fyrir því að þeir beittu hörðu gegn Sovétríkjunum. Bandaríkin, sem fremsta sjóveldið, gátu ekki leyft evrasísku veldi að tengja saman álfuna frá landi. Innilokunarstefna Bandaríkjanna fólst í því að drottna yfir Evrasíu frá ströndum hennar, það er að segja jaðarsvæðum við höfin. Þannig yrði Evrópa vesturjaðar Evrasíu, en á austurjaðrinum láu eyríkin undan strönd Kína, frá Japan og áfram, sem Bandaríkin höfðu skilgreint hugmyndalega í tvöfaldri eyjakeðju-innilokunarstefnu sinni strax eftir seinni heimsstyrjöldina.
Ef við snúum okkur aftur að Rússum, þá byggðu þeir einnig á hugmyndum Mackinders í byrjun 20. aldar. En eftir að Rússlandi keisarans var sópað burt í bolsévíkabyltingunni og Sovétríkin komu í staðinn, fóru evrasíusinnar í Rússlandi í útlegð, menn eins og Savitskíj, sem setti fram hugmyndir á þriðja áratugnum um hvað ætti í raun að koma í stað Sovétríkjanna eftir að þau myndu að lokum falla. Savitskíj varaði við því að fyrri heimsstyrjöldin hefði að mestu leyti orsakast af því að sjóveldin neyddu Þýskaland til að þenjast út til austurs til að ná herfræðilega mikilvægu væði.
Ef litið er á hina hliðina á þeim peningi, væri bandalag Rússa og Þjóðverja tilvalið til að vega upp á móti yfirráðastefnu sjóveldanna. Í ljósi þess að Þjóðverjar höfðu ekki almennilegt sjóveldi sjálfir, yrðu þeir taldir líklegri til bandalaga við landveldi. Sjóveldin voru talin vera náttúrulega heimsvaldasinnuð eða óeðlilega eyðileggjandi, þar sem yfirráð þeirra yfir hjartalandinu myndu byggjast á aðferðinni að „deila og drottna“. Það er að segja, þau þyrftu að koma í veg fyrir að stórveldi Evrasíu tengdust, þ.e.a.s. Kína, Rússland, Þýskaland, Tyrkland, þau yrðu öll að vera sundruð til þess að sjóveldin gætu áfram drottnað frá sjó. Viðbrögð Evrasíu við vestrænum sjóveldum, heimsveldunum, yrðu því að mati manna eins og Savitskíjs að leita samvinnu þvert yfir Evrasíu.
Enn fremur: hin mesta bölvun Rússlands hafði einmitt verið sú að það var evrasískt landveldi. Hins vegar hafði það reynt allt frá tímum Péturs mikla að þróa sig og staðsetja sig sem vestur-evrópskt sjóveldi. Og besta aðferðin sem Bretar, Bandaríkjamenn og allir aðrir gátu beitt til að halda Rússum í skefjum var einfaldlega að loka fyrir aðgengi þeirra að sjóleiðum. Það er stefna sem virkar ennþá til að takmarka aðgang Rússlands að Svartahafi, Eystrasalti og Norður-Íshafinu. Með því móti yrði Rússlandi auðvitað ýtt yfir í Asíu. Þetta var rökfræðin.
Eftir Kalda stríðið hélt Rússland áfram að horfa til vesturs
Eftir kalda stríðið og fall Sovétríkjanna í framhaldinu, sjáum við að Rússland sneri ekki aftur til þessarar evrasísku sýnar manna á borð við Savitskíj. Þess í stað sneru Rússar aftur að mjög vestrænni stefnu og hunsuðu að mestu leyti löndin í austri á meðan þeir stefndu að markmiði sínu um Stór-Evrópu – það er að segja, evrópskt öryggiskerfi án aðgreiningar.
Hins vegar var horft framhjá því í stefnu Rússa að Rússland var veikt, og Bandaríkin sáu nú sögulegt tækifæri til að skapa varanlegt yfirráðakerfi í Evrópu og með því að drottna einnig yfir Evrasíu frá jaðrinum. Reyndar, minna en tveimur mánuðum frá falli Sovétríkjanna, sáum við að Wolfowitz-kenningin var sett fram í drögum að varnarmálastefnu frá 1992, sem lak út í fjölmiðla. Og þar kom eftirfarandi fram:
Það er ólíklegt að hnattræn hefðbundin ógn við öryggi Bandaríkjanna og Vesturlanda muni koma aftur upp frá hjartalandi Evrasíu um langt skeið.
Meginmarkmið var einnig að koma í veg fyrir að ný ógn gæti komið upp. Þessu átti að ná með því að tryggja hagsmuni leiðandi iðnríkja:
við verðum að viðhalda þeim aðferðum sem fæla hugsanlega keppinauta frá því einu sinni að reyna að leika stærra svæðisbundið eða hnattrænt hlutverk.
[Framhald í seinni grein. Hún fjallar um þann „snúning“ sem varð um þennan öxul eða hverfipunkt um 1990 og svo gagnstæðan, heimssögulegan „snúning“ sem hefur orðið frá 2014 eða þar um bil]
***
Glenn Diesen er norskur stjórnmálafræðingur og prófessor með meginfókus á rússnesk málefni, Evrasíu og hagræna landafræði. Hann er einnig afkastamikill þáttagerðarmaður á eigin hlaðvarpi.
Ofanskráð erindi með titilinn „Russia’s Pivot to the East: From Greater Europe to Greater Eurasia“ birtist á substack-bloggi Glenn Diesens 30. október: https://glenndiesen.substack.com/







