Ályktun af aðalfundi Alþýðufylkingarinnar í norðausturkjördæmi


Fundur Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi lýsir fullum stuðningi við baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir mannsæmandi kjörum láglaunastétta og lífeyrisþega í landinu. Krafa um styttingu vinnuviku horfir til framfara.

Ný baráttuöfl blása nú til sóknar í verkalýðsfélögunum sem eftir áralanga stéttarsamvinnu voru orðin skrifstofuvædd og við fögnum því. Það er löngu tímabært að þeim hrikalegu fjárfúlgum sem fámenn auðstétt hefur rakað til sín undanfarna áratugi verði skilað aftur til sameiginlegra þarfa samfélagsins og til kjarabóta fyrir láglaunastéttir og lífeyrisþega.

Aðalfundur Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi lýsir stuðningi við breytingar á tekjuskattskerfinu með innleiðingu hátekjuskatts. Ríkisstjórnin býður mjög smáa dúsu til þess að láglaunafólkið sætti sig við áframhaldandi arðrán á sama tíma og einokunarvaldið krefur leigjendur um 20.000 kr hækkun á mánuði. Ríkisstjórnarflokkarnir standa þétt saman um þessa niðurlægjandi sendingu. Enn gerist það þegar vinstri flokkur sezt við stýrið á íslenzku auðvaldsskútunni fer hann að horfa á launadeilur frá sjónarhóli atvinnurekenda og auðræðis.
Fundurinn telur að vandi verkalýðsstéttarinnar verði ekki leystur nema undir merkjum sósíalismans!

Kær kv. GB, formaður.