Afnám lýðræðis (2): Yfirtaka auðhringa á heilbrigðismálum

25. nóvember, 2022 Jón Karl Stefánsson

Þann sjöunda desember s.l. birtist nýjasta skýrsla World Inequality Lab, „The world Inequality Report 2022“. World Inequality Lab er stofnun innan hagfræðiháskólans í París sem helgar sig rannsóknum um alþjóðlegan ójöfnuð í tekjum og auði. Skýrslan er byggð á nýjustu niðurstöðum sem teknar eru saman af gagnagrunni þeirra, World Inequality Database. Niðurstöður hennar eru sláandi. Frá því að heimsfaraldri var lýst yfir í byrjun árs 2020 hafa meira en 100 milljón nýjar manneskjur lent í því sem flokkað er sem algjör fátækt (extreme poverty). Á sama tíma hefur auður hinna forríku aukist gríðarlega. Við upphaf árs 2020 áttu 2.755 milljarðamæringar heimsins um 2% af auði heimsins, en við lok árs 2021 átti þessi hópur 3,5% af þessari köku. Ríkustu 10% jarðarbúa eiga nú 76% af auði heimsins á meðan fátækari helmingur allra jarðarbúa deilir 2% hans. Ójöfnuður á heimsvísu er nú sambærilegur við það sem var á hámarki nýlendutímans. Efnahagslega séð hafa heildaráhrif aðgerða vegna covid-19 verið mesti fjáraustur frá hinum fátækari til hinna ríkari sem nokkurn tímann hefur átt sér stað (World Inequality Lab, 2021).

Einkageirinn eignast hið opinbera

Ein afleiðing hinnar gríðarlegu aukningar á ójöfnuði á heimsvísu er breyting á stöðu hins opinbera gagnvart einkageiranum. Á meðan fjármagn hefur mokast inn til einkageirans, hafa ríkissjóðir um allan heim einnig orðið fátækari og um leið valdaminni.

Á árinu 2020 hækkuðu skuldir á heimsvísu um 226 billjónir Bandaríkjadala samkvæmt útreikningum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta er mesta hlutfallslega skuldaaukning á einu ári frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Þessi skuldasöfnun bitnar verst á fátækustu ríkjum heims. Um leið hefur orðið hrun á vergri landsframleiðslu flestra ríkja heims og eru þjóðríkin því verr í stakk búin en áður að bregðast við þeirri fjármálakrísu sem blasir við, en búist er við mikilli verðbólgu um heim allan á komandi misserum (Gaspar, Medas og Perrilli, 2021 – Sjá nánar í grein á Neistum: Eru stórkapítalistar að fela kreppu fyrir almenningi).

Heilbrigðismál, og þá nú sérstaklega í tengslum við sóttvarnarstefnu spilar hér stórt hlutverk. Hið opinbera, almennir skattgreiðendur, borguðu fyrir sóttvarnaraðgerðir og allt það sem þeim fylgir með því að taka lán frá seðlabönkum, lífeyrissjóðum og frá risa-einkafyrirtækjum, bönkum og tryggingafélögum. Til að endurgreiða þurftu þessi ríki annað hvort að auka skyndilega tekjur sínar gríðarlega, sem er nærri ómögulegt að hugsa sér, að taka frekari lán, hækka skatta og/eða selja opinberar eignir í brunaútsölu. Stærstu fyrirtæki heims munu ná gríðarlegum eignum úr höndum almennings og samt eiga inni miklar skuldbindingar hjá hinu opinbera.

Ríkið starfar fyrir einkafyrirtækin

Langtímasamningar milli hins opinbera og einkageirans eiga sér langa sögu, en við lok 20. aldarinnar hófst nútímaútgáfan af því sem nú er kallað „public-private partnership“ (ppp). Þessi tegund „samstarfs“ kemur úr þankasmiðjum nýfrjálshyggjunnar og eru liður í því að auka umsvif einkageirans í opinberri þjónustu. Til að byrja með snerust þessir samningar um að í stað þess að hið opinbera sæi sjálft um framkvæmdir réði það einkafyrirtæki til að framkvæma aðgerðina og leggja fram fjármagn sjálft, en einkafyrirtækin ættu svo rétt á hagnaði í framtíðinni. Þetta fólst einnig í þeirrar tegundar einkavæðingu þegar hið opinbera selur fyrirtæki og eignir til einkageirans, en gerir svo samning við þessi sömu einkafyrirtæki um að veita almenningi þá þjónustu sem hið opinbera er skuldbundið til þess að veita. Auðvitað gerir ekkert einkafyrirtæki slíkan samning án þess að sjá í því gróðavon, og því leiðir þetta fyrirkomulag á endanum til hlutfallslegs eignataps almennings (eða hins opinbera almennt) til einkageirans.

En önnur birtingarmynd þessarar stefnu hefur komið betur fram á dögum sóttvarna. Hún felst í því að einkafyrirtæki og hið opinbera gera samning um ákveðin verkefni sem felst í því að hið opinbera greiðir kostnaðinn af framleiðslunni, en einkafyrirtækin skuldbinda sig til að útvega ákveðna vöru og halda eftir hagnaðinum og einkaréttinum á vörunni. Um leið skuldbindur hið opinbera sig til þess að kaupa vöruna sem kemur úr samningnum, sama hvað. Það var þessi tegund viðskipta sem Bandaríkin, og svo allur hinn vestræni heimur í kjölfarið, gerði við lyfjafyrirtæki snemma árs 2020. Fyrirtæki á borð við Pfizer, BioNTech, og Moderna gerðu þannig draumasamning hvers fyrirtækis sem fólst einmitt í því að ríkið lofaði að greiða fyrir þann kostnað sem hlytist af dýrri framleiðslu nýrra lyfja, eða bóluefna. Frumkvæði af þessum samningi var gerður í marsmánuði 2020 milli Donalds Trumps, þáverandi forseta Bandaríkjanna, og Moderna líftæknifyrirtækisins. Hlaut sá samningur nafngiftina „Operation Warp Speed“. Nánast engar mótbárur bárust við þessum samningi, fólk vildi skjóta lausn á covid-ástandinu og bóluefni skyldi vera sú lausn.

Hneykslandi leynisamningar Evrópusambandsins

Nýlega birtist mjög sláandi skýrsla frá stofnun Evrópuþingsins, European Court of Auditors (2022). Skýrslan ber nafnið „EU COVID-19 vaccine procurement – Sufficient doses secured after initial challenges but performance of the process not sufficiently assessed“. Skýrslan var unnin til þess að meta hvernig staðið var að kaupum og þróun á bóluefnunum gegn Covid-19. Fyrsta málsgrein skýrslunnar er svohljóðandi:

„Evrópusambandið gerði bóluefni að forgangsatriði sem viðbrögð við COVID-19 snemma í faraldrinum, og hóf að beina spjótum sínum að þróun á öruggu og áhrifaríku bóluefni sem lausn á því að binda endi á heilsu-neyðarástandið. Það gerði ráðstafanir til að hjálpa við að minnka þann tíma sem tekur að þróa bóluefni frá 10-15 árum niður í 12-24 mánuði. Við upphaf nóvember 2021 hafði Evrópuráðið undirritað samninga um kaup að andvirði 71 milljarða Evra (€71b) að hálfu aðildarríkja til kaupa á allt að 4,6 milljörðum skammta af COVID-19 bóluefnum. Flestir þessara samninga voru forkaupssamkomulög, þar sem Evrópusambandið deilir áhættunni af þróun bóluefna með bóluefnaframleiðendum, og styður undirbúning að framleiðslugetu í samræmi við þörf með fyrir fram greiðslum úr fjárhagsáætlun ESB.“

Í Evrópusambandinu búa um 460 milljónir manna. Þetta þýðir að keyptir voru í forsölu um 10 skammtar á hvern einasta íbúa Sambandsins. Þessir samningar hafa verið að mestu leynilegir þar til nú. Þetta er vægast sagt merkilegt, enda var á þessum tíma ekki gefið í skyn að þörf væri á fleirum en tveim skömmtum, og ekki hafði verið samþykkt að gefa þessi lyf börnum yngri en 18 ára. Samningar um að deila áhættu, og þetta tekur meðal annars til greiðslna vegna aukaverkana lyfjanna, eru fordæmalausir í Evrópusambandinu.

Stærsti sigurvegari þessara samninga var lyfjarisinn Pfizer, en hagnaður þess fyrirtækis hefur náð áður óþekktum hæðum síðustu tvö árin í samhengi lyfjaiðnaðarins. Ekki sér fyrir endann á gróðasöfnun Pfizers vegna Covid og samninga þeirra sem gerðir hafa verið við ríkisstjórnir um allan heim. Fyrr í þessum mánuði tilkynnti lyfjarisinn að hann hygðist hækka verð á hverjum skammti bóluefnis sín frá um 30 upp í 110 til 130 Bandaríkjadali (Reuters, 2022). Talsmenn Pfizers bættu því við að þeir teldu markaðinn fyrir bóluefni verða á svipaðri stærðargráðu og bóluefni þeirra fyrir inflúensu, en reiknuðu með því að það tæki ögn lengri tíma að byggja um markaðinn fyrir börn.

Heilbrigðiskerfið verður aldrei hið sama

Þessir ppp samningar lyfjarisanna við ríkisstjórnir urðu vægast sagt ábaasamir fyrir lyfjarisana. Pfizer eitt og sér græddi 36 milljarða Bandaríkjadala á sölu bóluefnisins eins og sér árið 2021 og reiknar með því að græða um 30 milljarða á því á yfirstandandi ári. Þetta er langmesti gróði sem fengist hefur af lyfi í sögunni. Fyrra met var lyfið „Humira“, sem náði að hala inn um 20 milljarða Bandaríkjadala árið 2019. Moderna græddi 11,3 milljarða Bandaríkjadala á bóluefni sínu og reiknar með mikilli sölu á næsta ári einnig. Árið 2021 græddu Pfizer, BioNTech og Moderna 65 þúsund Bandaríkjadali á hverri einustu mínútu á bóluefnum sínum (Oxfam, 2021).

Í samningum Bandaríkjanna og svo annarra vestrænna ríkja í kjölfarið voru fleiri fádæmalausar klausur sem koma sér vel fyrir lyfjarisanna. Sú allra gleðilegasta var sú að fyrirtækin fá undanþágu frá sektargreiðslum komi til alvarlegra aukaverkana af völdum lyfjanna. Þetta þýðir það að komi í ljós síðar að þessi efni valdi alvarlegum heilsuskaða, s.s. aukinni tíðni krabbameina, hjarta og æðagalla, frjósemisvanda, eða hverju sem er, þá er ekki hægt að sækja þessi fyrirtæki til saka. Þetta verður einstaklega sæt viðbót, enda eru sektargreiðslur að jafnaði meðal stærstu útgjaldaliða þessara fyrirtækja. Pfizer er þannig heimsmethafinn í stærstu sektargreiðslum fyrirtækis fyrir villandi markaðssetningu (US DoJ, 2009) og á að baki einhverja ógeðfelldustu sakaskrá nokkurs fyrirtækis. Svo eitt dæmi af mörgum sé tekið, þá gerðist Pfizer sekt um að stunda ólöglegar lyfjatilraunir með efninu Trovafloxacin á börnum í Nígeríu árið 1996. Um fjórðungur barnanna lét lífið í tilraununum og mörg hinna urðu fyrir alvarlegum og varanlegum skaða á miðtaugakerfi. Foreldrar barnanna höfðu ekki fengið upplýsingar um að lyfið væri á tilraunastigi og upplýst samþykki var ekki veitt (Wise, 2001). Johnsson & Johnsson á einnig langan sakaferil og hefur reglulega þurft að greiða háar sektargreiðslur, nú síðast vegna markaðssetningar á ópíóðalyfjum (RÚV, 2019), en gríðarleg aukning hefur orðið ár hvert á dauðsföllum vegna ópíóðalyfja á borð við Fentanyl. Árið 2021 var fentanyl-ofneysla helsta dánarorsök fólks á aldrinum 18 til 45 ára í Bandaríkjunum (Motter, 2021), en árið 2020 var helsta dánarorsökin hjá þessum aldurshópi sjálfsmorð. Þessi sómafyrirtæki þurfa ekki að hafa áhyggjur af bótagreiðslum ef í ljós kemur að þau valdi alvarlegum aukaverkunum, hvorki strax né til langframa. Þessi fyrirtæki fengu nú ekki einungis framleiðslukostnaðinn ókeypis, heldur bæði loforð um gríðarleg magnkaup og markaðssetningu í kaupbæti. Ekki slæmir samningar það.

Nýtt alþjóðlegt heilbrigðiskerfi undir stjórn einkafyrirtækja

Samningar eins og þeir sem Evrópusambandið, Bandaríkin og fleiri gerðu við lyfjarisana geta í stærra samhengi leitt til mjög róttækra breytinga á því hvernig heilbrigðiskerfi heimsins munu starfa í framtíðinni. Sá auður og þau völd, og einnig þau almannatengsl sem þessi einkafyrirtæki hafa fengið á þessum stutta tíma geta haft langvarandi og varanleg áhrif fyrir komandi kynslóðir. Nýr tími í heilbrigðisþjónustu er að renna upp.

Heilbrigðiskerfi á Vesturlöndum hafa rýrnað gríðarlega frá því nýfrjálshyggjan náði virkilega undirtökunum í pólitíkinni. Á Íslandi hefur þannig heildarfjöldi sjúkrarýma fækkað úr um 2800 árið 1987 í um 1100 árið 2021, á sama tíma og Íslendingum hefur fjölgað um rúmlega 120 þúsundir. Þrátt fyrir yfirlýsta heilbrigðiskrísu ákváðu íslensk stjórnvöld að fjölga ekki sjúkrarýmum á síðustu árum, og jafnvel fækkað þeim (10 geðrými voru lögð niður við lok árs 2021). Ef ekki á að fjölga rýmum eða starfsfólki þrátt fyrir að starfsfólk spítalanna hafi lýst því yfir að hætta sé á hópuppsögnum vegna álags, hver er þá undirliggjandi framtíðarstefna heilbrigðiskerfisins?

Nákvæmlega sama staða ríkir í heilbrigðiskerfum allra þeirra ríkja sem hafa fylgt nýfrjálshyggjuboðorðunum. Ekkert bolmagn er til að bregðast við tímabundinni aukningu á sjúkrahúsinnlögnum. Það sem meira er, á síðustu tveimur árum hafa ríkissjóðirnir misst miklar tekjur og hafa þurft að auka lántöku sína um leið og þau juku útgjöld í nafni sóttvarna. Kalla þurfti inn varaliðsafla fyrir þá starfsmenn sem lentu í einangrun eða sóttkví, mannafla þurfti til að skima og rannsaka sýni, og kaupa þurfti ýmsan varning tengdum sóttvörnum. Í heildina hækkuðu útgjöld til hins opinbera um 138 milljarða króna á milli áranna 2019 og 2020, og má rekja meirihluta þeirrar hækkunar til sóttvarnaraðgerða (Kjarninn, 2021). Bein útgjöld til heilbrigðismála hækkuðu um rúmlega 17 milljarða, þar sem stærsti útgjaldaliðurinn voru kaup á lyfjum og lækningavörum.

Með þetta í huga hljótum við að spyrja okkur, ef ekki á að leggjast í stórfellt átak í að endurreisa heilbrigðiskerfið svo það nái einhverju í líkingu við það sem við höfðum áður, hvaða valmöguleikar eru þá í stöðunni? Á alþjóðavísu er svarið augljóst. Við höfum nú tekið ákvörðun um að höfuðáherslan í lýðheilsumálum er ekki lengur velferðarkerfismódelið; að borga skatta til að tryggja að hver sem verður veikur fær þá læknisþjónustu sem hann eða hún þarf á að halda, heldur á hver og einn einstaklingur hér eftir að þiggja þá vöru sem lyfjafyrirtæki og önnur einkafyrirtæki í heilsuiðnaðinum bjóða upp á hverju sinni. Sá sem þiggur hana ekki getur sjálfum sér um kennt. Þessi hugmyndafræði er smám saman að breiða úr sér. Með auknum gróða lyfjafyrirtækjanna og æ verri fjárhagsstöðu opinberra heilbrigðiskerfa eru einkafyrirtæki í lyfjaiðnaði, líftækni og annarri söluvöru smám saman að taka yfir heilsumálin. Þetta er kallað að treysta á vísindin.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) er lýsandi dæmi um hvert hin alþjóðlega heilbrigðisstefna stefnir. Þegar litið er á hvernig sú stofnun er fjármögnuð kemur í ljós að stærstu fjárframlögin til stofnunarinnar eru í þessari röð: 1. Bandaríkin, 2. Bretland, 3. Bill and Melinda Gates Foundation og 4. GAVI, the Vaccine Alliance, sem eru einmitt public-private partnership milli einkafyrirtækja í lyfjaiðnaðinum og svo ríkisstjórna sem borga kostnaðinn. Eftir þessari stofnun fylgja svo flestar þjóðir heimsins þegar kemur að stefnumótun í heilbrigðismálum. Aðilar úr einkafyrirtækjum, sérstaklega í líftækni og lyfjaiðnaðinum, hafa auðvelt aðgengi að opinberri stefnumótun í heilbrigðismálum. Þetta er stundum kallað „revolving door“ vandamálið, þar sem stjórnarmenn fyrirtækjanna sem á að stjórna birtast sem stjórnarmenn í eftirlitsstofnununum sem eiga að fylgjast með þessum sömu fyrirtækjum. Með þessu fyrirkomulagi verður það nánast tryggt að reglur sem settar eru henta einkafyrirtækjunum.

Erum við samþykk og tilbúin?

Með baráttusamtökum fyrir ppp, þar sem Alþjóðaefnahagsráðið (WEF) fer fremst fylkingar, eru ppp samningar milli hins opinbera og risafyrirtækjanna smám saman að yfirtaka alla þjónustu og iðnað allra ríkja heimsins. Heilbrigðiskerfið er einungis einn angi af þeirri þróun sem átt hefur sér stað í hægum skrefum í fimmtíu ár, en er nú komið á lokastig. Við höfum sem heild samþykkt þessa miklu breytingu sem ppp samningar fela í sér með þöglu samþykki, með því að gagnrýna ekki og leyfa umræðunni að stjórnast af almannatengslayfirlýsingum risafyrirtækjanna sem berjast fyrir yfirráðum yfir þeim sviðum sem fyrri kynslóðir byggðu upp. Nánast engir fjölmiðlar eru eftir sem gagnrýna framgang hins nýja kapítalisma, en spurningin er, erum við tilbúin fyrir hinn nýja heim þar sem almenningur hefur engin áhrif, ekki einu sinni þau sýndaráhrif sem kosningar hafa, á ákvörðunartöku sem nær til alls samfélagsins?

Þessi grein er sjálfstætt framhald greinar: „Afnám lýðræðis. WEF – vísir að heimsstjórn“ frá 14. Janúar sl.

Heimildir

Erman, M. 2022 (21. október). Pfizer expects to hike U.S. COVID vaccine price to $110-$130 per dose. New York: Reuters. Sótt frá https://www.reuters.com/business/healthcare-pharmaceuticals/pfizer-expects-price-covid-vaccine-110-130-per-dose-2022-10-20/

European Court of Auditors. 2022. Special report: EU COVID-19 vaccine procurement – Sufficient doses secured after initial challenges but performance of the process not sufficiently assessed. EU: Publications Office of the European Union. Sótt þann 26.10.2022 frá https://www.politico.eu/wp-content/uploads/2022/09/12/SR-19-2022-COVID-19-vaccine-procurement.pdf

Gaspar, V., Medas, P, og Perrelli, R. 2021 (15. desember). Global Debt Reaches a Record $226 Trillion. IMFBlog. Sótt 31.12.2021 frá https://blogs.imf.org/2021/12/15/global-debt-reaches-a-record-226-trillion/

Motter, S. 2021 (30. Desember). RCPD: Fentanyl overdoses become leading cause of death for ages 18-45 in 2021. 13WIBW. Sótt þann 2.01.2021 frá https://www.wibw.com/2021/12/30/rcpd-fentanyl-overdoses-become-leading-cause-death-ages-18-45-2021/

Oxfam. 2021 (16. nóvember). Pfizer, BioNTech and Moderna making $1,000 profit every second while world’s poorest countries remain largely unvaccinated. Reliefweb. Oxfam International.

Purtill, J. 2021 (4. Ágúst). Google's hidden search algorithms are being investigated by researchers. Here's what they've found. ABC Science. Sótt frá https://www.abc.net.au/news/science/2021-08-05/google-curating-covid-search-results-algorithm-project-finds/100343284.

RÚV. 2019 (27.08). Johnson & Johnson dæmt vegna ópíóðafaraldurs. https://www.ruv.is/frett/johnson-johnson-daemt-vegna-opiodafaraldurs

The United States Department of Justice. 2009. Justice Department Announces Largest Health Care Fraud Settlement in Its History: Pfizer to Pay $2.3 Billion for Fraudulent Marketing. Fengið 02.01.2022 frá https://www.justice.gov/opa/pr/justice-department-announces-largest-health-care-fraud-settlement-its-history

Wise, J. 2001. Pfizer accused of testing new drug without ethical approval. BMJ (Clinical Research Ed.). 322 (7280): 194. doi:10.1136/bmj.322.7280.194

World Inequality Lab. 2021 (7. desember). World Inequality Report 2022. Sjá https://wir2022.wid.world/www-site/uploads/2021/12/Summary_WorldInequalityReport2022_English.pdf

Þórður Snær Júlíusson (Kjarninn). 2021 (17. Ágúst). Útgjöld hins opinbera hafa hækkað um tæp 53 prósent frá árinu 2014. Kjarninn. Sótt þann 02.01.2021 frá https://kjarninn.is/frettir/utgjold-hins-opinbera-hafa-haekkad-um-taep-53-prosent-fra-arinu-2014/