Eru stórkapítalistar að fela kreppu fyrir almenningi?

8. júlí 2022 — Jón Karl Stefánsson

kreppa

Ýmislegt bendir til þess að stór alþjóðleg efnahagskreppa sé við sjóndeildarhringinn. Viðskiptaþvinganirnar gegn Rússlandi og stríðið sem ekki var komið í veg fyrir í Úkraínu eru einungis nýjustu viðbæturnar við þau vandamál sem steðja að efnahagskerfi heimsins og bætast þær við peningaprentunina sem sló 2008 kreppunni á frest, gríðarlega eignafærslu og fjáraustur í kring um alþjóðlegar aðgerðir í nafni sóttvarna, mikið ofmat á virði eigna og það sem virðist vera endamörk hins hefðbundna kapítalisma, ef marka má elítufjölmiðlana. Lítið fer samt fyrir því að almenningur sé varaður við þessu, en stóreignastéttin virðist fyrir löngu farin að búa sig undir slíka kreppu. Hvers vegna fær almenningur aðrar fréttir en stórkapítalið?

Varað við efnahagskreppu

Æ fleiri fjármálasérfræðingar eru farnir að tala opinberlega um það að mikil alþjóðleg fjármálakreppa sé handan við hornið. Simon Hunt, einn helsti sérfræðingurinn á sviði koparviðskipta, sagði í viðtali við tímaritið Wealthion, að hann teldi allt benda til þess að billjónir dala af skuldum lendi í greiðsluþrot innan þriggja ára. Þetta muni leiða af sér gríðarlega sársaukafulla kreppu. Þetta verði hins vegar á endanum gott fyrir stórfjárfesta, enda hreinsast þá út lélegar eignir af markaðnum. Yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Kristalina Georgieva, er varkárnari í tali og telur hættu á efnahagssamdrætti á heimsvísu á næstunni og að 2023 verði verra en 2022. Hún bendir á að stór hagkerfi, eins og Kína, séu þegar komin í lægð.

Í byrjun ársins 2022 skrifaði Edward Alden, prófessor í hagfræði og meðlimur skuggasamtakanna Council on Foreign Policy, grein fyrir tímaritið Foreign Policy þar sem hann útlistar ekki einungis að gríðarleg kreppa væri á leiðinni, heldur að í þetta skiptið væri engin sjáanleg leið til að koma í veg fyrir hana eða komast hæglega í gegnum hana.

Halden tekur fram ýmsar ástæður fyrir þessari kreppu, þar á meðal annars ofmat á íbúðaverði á Vesturlöndum sem mun óumflýjanlega hrynja, verðhækkanir sem eru að leiða til óðaverðbólgu, stríð í helstu auðlindakistum Evrópu sem veldur gríðarlegu eignatapi auk dauða og sársauka, gríðarlegt fjárhagslegt tap af völdum covid-19 sóttvarnarstefnu um allan heim þar sem fyrirtæki og almenningur voru keyrð í þrot, fé ausið í ónýt fyrirtæki, flutningslínur voru rofnar og framleiðsla stöðvuð, stundum varanlega; og svo ótæpileg skuldasöfnun með æ bólgnari vaxtagreiðslum til lánadrottna. Er þetta rétt mat hjá þessum sérfræðingum, og af hverju er ekki meira talað um þessa komandi efnahagskreppu?

Teikn á lofti

Það er ýmislegt sem bendir til að þessar svörtu spár séu réttar. Rafrænir gjaldmiðlar (cryptocurrencies) hafa verið að hríðfalla undanfarin misseri. Þannig töpuðu þátttakendur í rafræna gjaldmiðlinum Terra andvirði um 2 billjóna (trillion) Bandaríkjadala á vormánuðum og hætta er á að aðrir rafgjaldmiðlar fylgi í kjölfarið, ekki síst í ljósi þess að nokkur stærstu ríki heims eru að ræða um að koma á fót eigin, miðstýrðum rafgjaldmiðli á næstu árum. Verði það að veruleika þrengir verulega að þessu ómiðstýrða hagkerfi sem hefur verið þyrnir í augu hinna stjórnsömustu hjá hinu opinbera.

Sú kreppa sem sem Alden segir óhjákvæmilega yrði að hluta til framhald af þeirri síðustu. Á undanförnum árum hefur fjármálakerfið verið að prenta út peninga á ógnarhraða. Fjármálakreppan 2008 var „leyst“ með því að prenta út peninga sem engin innistæða var fyrir. Þjóðarskuld Bandaríkjanna er nú komin upp í 30,2 billjónir Bandaríkjadala, en verg þjóðarframleiðsla þar er minni en 22 billjónir til samanburðar. Skuldunum var í raun velt yfir á framtíðina og nú fer að líða að skuldadögum. Þetta skapar beinlínis verðbólgu; verðmæti peninga minnkar einfaldlega þegar framboðið á því eykst án þess að það tengist raunverulegri verðmætaaukningu. Ekki er hægt að sjá að hagvöxtur geti á nokkurn hátt haldið áfram að stemma stigu við þessari verðbólgu.

Vestur Evrópa virðist vera í sérstaklega vondum málum. Viðskiptaþvinganirnar gegn Rússlandi hafa þegar leitt til gríðarlegrar verðhækkunar þar, sérstaklega á eldsneyti og þetta er þegar farið að hafa skelfileg áhrif á efnahag stærstu Evrópuríkjanna. Sjálft Þýskaland sýndi viðskiptahalla í síðasta mánuði í fyrsta skipti í meira en 30 ár. Bandaríkjamenn, sem höfðu gert allt sem í valdi þeirra stóð til að koma í veg fyrir samningsviðræður sem hefðu getað komið í veg fyrir stríðið í Úkraínu, maka krókinn á kostnað Evrópu og selur nú gas og olíu til Evrópu á okurverði, sem Vestur Evrópubúar fengu áður frá Rússlandi. Viðskiptaþvinganirnar eru, frá sjónarhóli Evrópu, gríðarlega heimskulegar. The Guardian greinir nú frá því að Evrópa sé strax komið í efnahagslægð vegna þessa, og einnig vegna minni eftirspurnar eftir evrópskum vörum á Norður-Ameríkumarkað. Ofan á þetta er það ekki einungis eldsneyti sem rýkur upp í verði; áburður, matvæli og í raun allar hrávörur eru á hraðri leið upp á við.

Ísland myndi sogast í hringiðuna

Ísland er ekki vel undirbúið fyrir stóra alþjóðlega kreppu. Áður hefur verið fjallað um þá efnahagslegu stöðu sem Ísland er komið í og hvert hún getur leitt í greininni „Raunveruleikinn um efnahagsstöðu Íslands“ (12.október 2021). Þá var meðal annars bent á að íslenska efnahagskerfið væri þá að síbrjóta Íslandsmet í viðskiptahalla (47,7 milljarðar í júnímánuði 2021). Ísland sker sig algjörlega úr hinum Norðurlöndunum í viðskiptahalla, og bjartsýnar þjóðhagsspár frá íslenskum bönkum hafa verið mjög ósannfærandi. Í greininni var einnig bent á þá staðreynd að Íslands væri þegar byrjað að hrynja. Þetta sést best á stöðu íslenska heilbrigðiskerfisins, auk annarra lykilstofnanna. Við höfum nú ekki efni á því að byggja upp stoðirnar undir samfélag barna okkar.

Á Neistum hefur einnig áður verið fjallað um þær afleiðingar sóttvarnarstefnunnar að valda hröðustu fjölgun bæði ofurfátækra og ofurríkra í sögu heimsins í greininni „Misskipting drepur – Niðurstaða sóttvarnaraðgerða“. Þar kom meðal annars fram að 99 prósentur jarðarbúa misstu eignir á covidárunum, en auður 10 ríkustu einstaklinga heims tvöfölduðust á sama tíma. Meira en 150 milljónir manna í viðbót duttu í sárafátækt og milljónir hafa þegar soltið til baka af völdum þessarar nýju fátæktar.

Þrátt fyrir komu ferðamanna hefur ástandið á innviðum samfélagsins ekki skánað. Heilbrigðiskerfið er orðið svo þanið að starfsfólk treystir sér varla að mæta í vinnuna. Ofan á þetta er verðbólga er nú komin upp í 8,8 prósentur og stefnir hraðbyri upp á við. Fasteignamarkaðurinn er orðinn stórkostlega vanstilltur og sennilega gildir það sama um hlutabréfamarkaðinn. Það sem er kannski verst er það að frá því að nýfrjálshyggjustefnan var tekin upp höfum við smám saman hætt að framleiða. Ísland hefur ekkert að selja og er mjög háð aðfluttum vörum. Við erum því í viðkvæmri stöðu ef kreppa skellur á, sérstaklega hinir efnaminni. Alþýðan þarf að passa sig.

Af hverju er þetta ekki meira í umræðunni?

Ekkert af þessu er að koma fram í helstu fjölmiðlum landsins að neinu marki. Fólk er ekki varað við, heldur jafnvel hvatt til fjárfestinga. Ef eitthvað er minnst á verðbólgu og harða tíma, þá er þetta auðvitað allt Pútín að kenna. Er þessi vitlausa greining sett fram að yfirlögðu ráði? Spurningin er ekki einungis vænissýki; það verða ákveðnir hópar sem munu á endanum græða á efnahagskreppu, eins og ætíð á síðustu 100 árum og þeir hafa enga ástæðu til að hvetja til varkárni. Þeir stórfjárfestar sem losa sig við eignir nú og bíða eftir brunaútsölunum munu eignast enn meira og hafa enn meiri völd en fyrr. Það er kannski þess vegna sem að einu fjölmiðlarnir sem tala um komandi kreppu eru fjölmiðlar sem beinast að stórfjárfestum; elítufjölmiðlarnir. Fjölmiðlar sem beinast að alþýðunni láta enn eins og ekkert sé að gerast. Samt mun það verða alþýðan sem fær að brenna.

Aðrir sem eru fyrir löngu farnir að undirbúa sig fyrir algjört hrun efnahagskerfisins á heimsvísu eru svo samráðsvettvangar stórkapítalsins. Fremst meðal jafningja þar er Alþjóðaefnahagsráðið (WEF). Frá því á árinu 2016 hafa ráðstefnurnar í Davos meira eða minna snúist um það hvað taki við af efnahagskerfinu sem við eigum að venjast. Eftir hverja ráðstefnu hefur svo Æðstiprestur þeirra samtaka, Klaus Schwab, gefið út bók sem útlistar niðurstöður aðalfunda þessa sambands ofurkapítalista, og svo þeirra sem þeir leyfa að vera með (stjórnmálamenn, blaðamenn og álitsgjafar). Fjölmiðlar leyfa þeim að ákveða framtíð heimsins og þetta ótrúlega ólýðræðislega ferli, og ganga svo langt að kalla það samsæriskenningar þegar yfir höfuð er rætt um hvað fer þarna fram. Sú framtíð sem ákveðin hefur verið fyrir okkur var útlistuð í skýrslum á borð við „Great Reset“ og nú eftir nýjustu ráðstefnuna sem bar beinlínis nafnið „Leiðtogafundur heimsstjórnarinnar“ (e.„World Government Summit“). Helsta markmið WEF er að auka vægi risafyrirtækja í opinberri ákvörðunartöku og að „móta stefnu á heimsvísu“ á öllum sviðum samfélagsins. Með hverri ráðstefnu kemst WEF nær þessum draumi um yfirtöku á samfélagsstofnum heimsins.

Framtíðin, samkvæmt WEF, er ekki bylting alþýðunnar, meira lýðræði eða máttur hinnar venjulegu manneskju, heldur það sem kallað er „stakeholder capitalism“, „fjórða iðbyltingin“ þar sem tæki leysa verkafólk af hólmi og gera þá að nýrri stétt „óþarfra“ (hvað á svo að gera við allt þetta óþarfa fólk er svo ekki síður skelfilegt), myndun nýs rafræns gjaldmiðils sem verður undir algerri stjórn einkafyrirtækja, upplýsingastjórnun og hegðunarstjórnun, meðal annars. Þetta er það sem hinir raunverulegu stjórnendur heimsins hafa boðað sem framtíðina fyrir okkur.

Verum vör um okkur

Þetta þarf ekki að fara svona. Ef við hættum að spila með þessu og skiljum að stórkapítalið eru ekki vinir okkar, ef meintir vinstrimenn hætta að vera málpípur þessa fólks og við náum raunverulegri samstöðu, þá getum við snúið vörn í sókn. En á meðan við erum blind fyrir því að alþýðan fær eina útgáfu af fréttunum meðan eignastéttin fær aðra og réttari, á meðan við hlustum einungis á fjölmiðla sem þegja yfir sannleikanum og ráðast á þá sem reyna að benda á hvað er að gerast, þá er illt í efni. Ef það er rétt að efnahagskreppa sé að fara að skella á heimsbyggðina verðum við að vera undirbúin.