Aðför Ísraels að UNWRA og um hlutlausan fréttaflutning
—
Ríkisstjórn Ísraels hlýtur að vera í skýjunum af fögnuði þessa dagana. Bara örfáum dögum eftir að hafa fengið sinn stærsta skell á alþjóðavettvangi með úrskurði Alþjóðadómsstóls Sameinuðu þjóðanna hefur þeim tekist að snúa vörn í sókn. Og tekist að slá a.m.k. tvær flugur í einu höggi, beint athyglinni frá eigin stríðsglæpum gagnvart Palestínumönnum og tekist að koma höggi á báða aðalandstæðinga sína þessa dagana, Palestínumenn og Sameinuðu þjóðirnar, – nánar tiltekið Flóttamannahjálp SÞ, UNWRA. Í stað þess að þjóðir heims taki höndum saman, fordæmi hroðalegt framferði Ísraelshers, beiti þá viðskiptaþvingunum til að neyða þá til að veita almennum borgurum á Gaza nauðbjargir, og takist á við þá staðreynd að ríkið Ísrael er byggt á kerfisbundinni mismunum borgaranna, apartheid, að þá gleypa þessar sömu þjóðir þá fráleitu staðhæfingu Ísraelsmanna að það sé Flóttamannahjálpin UNWRA sem sé aðalvandamálið á Gaza, ekki þjóðarmorð í beinni útsendingu.
Hvernig má það vera, þegar öllum er ljóst að það er fráleitt svo? Svarið er auðvitað augljóst, Bandaríkjamenn, sem eiga ekki fremur en önnur stórveldi nokkra siðferðis- né réttlætiskennd þegar kemur að eigin hagsmunum, telja þessum sömu hagsmunum best borgið með að styðja rasiska hryðjuverkaríkisstjórn Ísraels. Þá skiptir ekki máli þó æðsti dómstóll SÞ hafi úrskurðað að allar líkur bendi til að sú ríkisstjórn sé að fremja þjóðarmorð. Auðvitað skiptir það máli hér fyrir afstöðu USA, að verði Ísrael dæmt sekt um þjóðarmorð að þá er samsekt Bandaríkjanna og ábyrgð á því þjóðarmorði, næst á dagskrá. (Um það vitna orð Joe Biden sjálfs frá 30. janúar þegar hann í tilefni drónaárása á bandaríska hermenn í Jórdan: „Forsetinn sagði klerkastjórnina í Íran bera ábyrgð á árásinni þar sem hún hefði gefið áðurnefndum hópum vopn sem voru notuð.“
Og þá hrekkur í gírinn svokölluð „yfirburðastaða“ Bandaríkjanna gagnvart lénsþjóðum sínum í NATÓ.
Hnjámýkt sem kostar mörg mannslíf
Það er ekki svo að Þjóðverjar, Bretar, eða þess vegna Bjarni Benediktsson sjái ekki gegndarlaust ofbeldið og grimmdina sem Ísraelar beita vopnlausan almenning í Palestínu. Að þeim finnist ekki eðlilegt undir vanalegum kringumstæðum að hlíta úrskurði Alþjóðadómsstólsins, sem er toppurinn á því regluverki alþjóðasamfélagsins sem á að koma í veg fyrir að samfélögin falli niður í barbarí og stjórnleysi. En undirlægjuhátturinn og ósjálfstæðið gagnvert lénsherranum í vestri er svo algjör að þeir kyngja því að svart sé hvítt, og bera það síðan með alvörusvip á borð fyrir þegna sína. Og það gera þeir jafnvel þó þeir viti að það brjóti gegn allri almennri siðferðisvitund og réttlætiskennd almennings.
En þá að því hvernig þessi umsnúningur á veruleikanum er borinn á borð fyrir almenning. Meginásökun Ísraelsmanna, sú sem stuðningsþjóðir USA og Ísraels eru tilbúnar að grípa til aðgerða vegna, er að ónefndir tólf starfsmenn Flóttamannahjálpar SÞ í Palestínu, UNWRA, hafi með einhverjum ótilgreindum hætti, tekið þátt í innrás Hamas inn í Ísrael. Ekkert af þessu er staðfest eða stutt neinum opinberum sönnunargögnum. Undir eðlilegum kringumstæðum er auðvitað fráleitt að ríkisstjórnir kaupi slíkar staðhæfingar frá öðrum „hagsmunaaðilanum“, sem staðreynd, og lítið sem fjölmiðlar geta gert til að komast að hinu sanna í málinu. Þar til sannanir eru lagðar fram er því ekki hægt að líta á þessa afdrifaríku „heimsfrétt“ öðrum augum en að um velheppnað áróðursbragð aðþrengds stríðsaðila, Ísraels, sé um að ræða.
Ég hef rakið hér að ofan hvers vegna yfirleitt er tekið mark á slíkum áróðri eða órökstuddum fullyrðingum og þær framreiddar sem staðreynd „sem taka verði mjög alvarlega og bregðast verði við“. Með því, óbeint, að styðja sveltiherferð Ísraela gagnvart íbúum Gaza og ýja sterklega að því að við megum trúa hinu versta upp á UNWRA.
Um hlutlausan fréttaflutning frá hlutlausri eftirlitsstofnun
Sjaldan er ein báran stök og ósönnuðum staðhæfingum er því oft fylgt eftir með öðrum fréttum sem virðast vera komnar frá áreiðanlegum heimildum og virðast styðja innihald hinnar ósönnuðu staðhæfingar fyrir viðtakendum fréttarinnar. Dæmi um slíka eftirfylgni er frétt í íslenskum fjölmiðlum, (Mbl 28.01.24) birtist sem einhvers konar stuðningur við þá mynd sem dregin er upp í upphaflegu fréttinni og gerir hana því trúverðugri. Innihaldið er það sama, að UNWRA sé í raun stuðningsaðili Hamas og gefið er til kynna að palestínskir starfmenn UNWRA séu blóðþyrstir villimenn sem vilji alla Ísraelsmenn dauða.
Á meðan að fjölmiðlar geta lítið grafist fyrir um áreiðanleika „fréttarinnar“ frá leyniþjónustu Ísraels um að tólf starfsmenn UNWRA hafi tekið þátt eða undirbúið innrás Hamas inn í Ísrael, þá hafa þeir hins vegar tækifæri hér til að varpa örlitlu ljósi á áreiðanleika fréttarinnar og hlutleysi þess aðila sem leggur fréttina fram, í þessu tilfelli UN Watch. Er því rétt að hvetja fjölmiðlamenn að grafast örlítið fyrir um áreiðanleika heimilda sinna sem þeir nýta sér í fréttaflutningi af hernaði Ísraela gagnvart palestínsku þjóðinni.
Lítum fyrst aðeins á framreiðslu Morgunblaðsins á fréttinni.
„Fjöldi kennara á vegum UNRWA, eða Palestínuflóttamannahjálpainnar, fagnaði hryðjuverkaárás Hamas þann 7. október á samfélagsmiðlum“ segir Morgunblaðið og ber fyrir sig áreiðanlega og trausta heimild, að því virðist: „Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá eftirlitssamtökunum UN Watch.“ „Í skýrslu frá UN Watch, svissneskum félagasamtökum sem hafa eftirlit með SÞ, er vitnað í Telegram-hóp með um 3.000 kennurum á vegum UNRWA á Gasaströndinni.“ „Mörgum stjórnendum hópsins, sem eru nafngreindir í skýrslunni, er gefið að sök að hafa fagnað „heilögum stríðsmönnum“ Hamas-samtakanna og beðið fyrir því að vígamennirnir myrtu Ísraelsmenn: „Ó Guð, rífðu þá í sundur,“ „dreptu þá einn í einu“, „taktu af lífi fyrstu landnámsmennina í beinni útsendingu.“
Síðan er vitnað í Jim Risch, „æðsti fulltrúi Repúblikana í utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar“ að sögn Mbl: „Árum saman hef ég varað Biden-stjórnina við því að halda fjárframlögum áfram til UNRWA, sem hefur um hríð ráðið fólk sem tengist hryðjuverkasamtökum eins og Hamas,“
Hér er því, mætti ætla, komin enn ein staðfestingin á staðhæfingum Ísraela um að UNWRA og Hamas, séu nánast eitt og hið sama og starfsmennirnir hatist út í Ísraelsmenn og fagni dauða þeirra. „Fjöldi kennara á vegum UNWRA….“ „Mörgum stjórnendum hópsins…“ sem telur „um 3000 kennara…“.
Í skýrslu UN Watch, sem þeir hafa skírt því hlutlausa nafni Terrorgram stendur reyndar að þeir geti ekki staðreynt að allir 3000 þátttakendur í samræðuvef Telegram séu kennarar UNWRA, en skýrsluhöfundar gefi sér það út frá „yfirgnæfandi líkum.“ Í öðru lagi þá gat UN Watch fundið aðeins 30 einstaklinga af þessum 3000, sem þeir túlka að hafi „fagnað og stutt hryðjuverkin 7ok.tóber, eða með öðrum hætti stutt hryðjuverk Hamas.“
Þannig að Morgunblaðið eru nokkru afdráttarlausara í frásögn sinni en skýrsluhöfundar sjálfir.
Hverjir standa að baki UN Watch?
En lítum þá ögn nánar á þessi „svissnesku félagasamtök sem hafa eftirlit með SÞ, UN Watch“. Þó svo að UN Watch hafi haldið uppi gagnrýni á aðgerðir SÞ í hinum ýmsu löndum, þá virðast samtökin fyrst og fremst vera upptekin af því meinta óréttlæti sem Sameinuðu Þjóðirnar hafa beitt Ísrael í gegnum árin.
„United Nations Watch notes that the disproportionate attention and unfair treatment applied by the UN toward Israel over the years offers an object lesson (though not the only one) in how due process, equal treatment, and other fundamental principles of the UN Charter are often ignored or selectively upheld.”
Af hverju skyldi það vera? Á heimasíðu UN Watch kemur eftirfarandi fram: “From 1993 to 2000, United Nations Watch was affiliated with the World Jewish Congress, and then in 2001 with the American Jewish Committee.” Á heimasíðu WJC segir um tilgang samtakanna: “The WJC protects Jews everywhere and constantly defends the State of Israel against these threats through direct contact with the world’s leaders”.
Á heimasíðu American Jewish Committee segir um tilgang samtakanna: ”Through our unparalleled global network of offices, institutes, and international partnerships, AJC engages with leaders at the highest levels of government and civil society to counter antisemitism, open new doors for Israel, and advance democratic values.”
UN Watch skrifar engu að síður að samtökin séu ekki lengur aðilar að þessum regnbogasamtökum gyðinga, sem hafa sem yfirlýst markmið að styðja Ísrael, heldur séu samtökin í dag að fullu sjálfstæð: “As of 2013, United Nations Watch was no longer affiliated with any organization, and is fully independent.”
Af hverju vilja Ísraelsmenn UNWRA dauða?
Gott og vel. Lítum þá aðeins nánar á afstöðu UN Watch til Palestínu og palestínskra flóttamanna sérstaklega: “Among all peoples in the world affected by conflict and displacement, only the Palestinians have a dedicated UN agency to assist their so-called refugees, i.e., those displaced in the 1948 war launched by the Arab states against Israel when it declared independence, as well as their descendants.”
Ég strika hér sérstaklega undir orðalagið “so-called refugees” því hér er um lykilatriði að ræða í afstöðu Ísraelsríkis gagnvart þeim palestínsku flóttamönnum sem hryðjuverkasveitir Ísraela og Ísraelsher hafa stökkt úr landi. Allt frá Nakba, þegar 720 þúsund af þáverandi 1,3 milljónum Palestínumanna voru hrakin úr landi og Ísrael lagði undir sig 78% af landsvæði Palestínu, fram til dagsins í dag. Það er lykilatriði í stefnu Ísraelsmanna gagnvart Palestínu að þetta fólk eigi engan rétt á að snúa til baka og að það sé þar af leiðandi, skilgreiningu samkvæmt, ekki flóttamenn. Og þar af leiðandi, er hin sérstaka Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNWRA, ekki aðeins óþörf í augum Ísraelsmanna, heldur stefnir sjálf tilvist hennar Ísraelsríki í voða.
Hin “sjálfstæða svissneska eftirlitsstofnun með Sameinuðu Þjóðunum, UN Watch”, sem Morgunblaðið vitnar svo fyrirvaralaust til, er á sama máli: Á heimasíðu þeirra má lesa: “In practice, UNRWA is a political advocacy tool to promote the so-called Palestinian right of return, which is just another way for the Palestinians to achieve their ultimate goal of eliminating Israel as a Jewish state.”
Þess vegna vilja Ísraelsmenn UNWRA dauða og það er þetta sem liggur að baki aðför þeirra að UNWRA, með stuðningi Bjarna Ben og Bandaríkjanna. Þess vegna hefur hin sjálfstæða eftirlitsstofnun UN Watch gert að kröfu sinni árum saman og gerir enn, að öllum fjárveitingum til UNWRA verði hætt. Eins og lesa má á heimasíðu þeirra þar sem þeir krefjast “…that UNRWA be in full compliance with its neutrality obligations prior to releasing any further funds to UNRWA.” Og samkvæmt skoðun UN Watch stenst UNWRA ekki kröfur þeirra um “fullt hlutleysi”, enda líta þeir svo á að stofnunin vilji ganga að Ísraelsríki dauðu. Og rétt til að undirstrika þá skoðun sína, skrifar hin hlutlausa UN Watch að tilvist 3000 manna spjallhópsins á Telegram sanni að hin eiginlegi tilgangur Flóttamannastofnunar SÞ í Palestínu sé að viðhalda átökum og stríðinu: “The very existence of a Telegram group of 3,000 teachers in which members celebrate Hamas atrocities is but a symptom of the core problem of UNRWA, which is that its true purpose is to perpetuate the conflict.”
Eftir höfðinu dansi limirnir
Sagt er að eftir höfðinu dansi limirnir. Ef við lítum á svokallað alþjóðlegan ráðgjafahóp (International Advisory Board ) eftirlitsstofnunarar UN Watch, þá prýða þann hóp nöfn ellefu einstaklinga, flestir þekktir af einhverjum afrekum á alþjóðavettvangi. Gary Kasparoff, kínverskur stjórnarandstæðingur Yang Jianli og annar sem er kynntur sem stjórnarandstæðingur frá Venesuela, Diego Arria, fyrrum formaður Öryggisráðs SÞ og Mark P Lagon, fyrrum „Deputy Assistant Secretary at the U.S. State Department responsible for United Nations-related human rights and humanitarian issues“.
En lítum ögn nánar á nokkur þeirra sem eftir standa.
Prófessor Irwin Cotler er þekktur mannréttindalögfræðingur og fyrrum dómsmálaráðherra Kanada. Hann gegnir einnig stöðu sem er kölluð the International Chair of the Raoul Wallenberg Centre for Human Rights. Á heimasíðu Wallenberg mannréttindastofnunarinnar má lesa þessi göfugu orð: „Indifference and inaction always mean coming down on the side of the victimizer, never on the side of the victim. In the face of evil, indifference is acquiescence, if not complicity in evil itself.”
Engu að síður birtir stofnunin grein eftir Cotler, sem birtist upphaflega í The Times of Israel daginn fyrir úrskurð Mannréttindadómstóls SÞ, þann 26.01.24. Þar skrifar mannréttindalögmaðurinn Cotler að stefna Suður Afríku fyrir dómstólnum sé skrumskæling á Sáttmála SÞ um þjóðarmorð og Suður Afríku til vansa. “The actions by South Africa — in its Orwellian inversion of fact and law and weaponization of the Genocide Convention — constitute a repudiation of South Africa’s proud legacy.” Og ennfremur að málarekstur Suður Afríku gegn Ísrael sé ekki aðeins innihaldslaus, heldur sé hann einnig stórkostlega gallaður, rotinn inn að beini og gjörsamlega ástæðulaus. “ Regrettably, South Africa’s application before the Court is not only “meritless,” but it is fatally flawed – tainted at the core – and entirely unfounded. “
Baronessan Ruth Deech er þingmaður í Lávarðadeildinni bresku og þekktur fræðimaður. (Member of British House of Lords, academic, lawyer, bioethicist, former Principal of St Anne’s College at Oxford University and chair of Human Fertilisation and Embryology Authority from 1994 to 2002.) Hún hefur einnig verið stjórnandi Bretlandsdeildar Jewish National Fund JNF-UK en Jewish National Fund hefur frá stofnun Ísraelsríkis 1948, keypt „óbyggð“ landsvæði af ísraelsku ríkisstjórninni. Á níunda áratugnum stóð JNF fyrir átakinu „Fyrirheitna landið“ til þess að mæta flaumi innflytjenda til Ísrael frá Sovétríkjunum og Eþíópíu og síðar stóð sjóðurinn fyrir 600 milljón dollara átaki Blueprint Negev til að laða að 250 þúsundir „landnema“ í Negev eyðimörkinni, en þar var að finna fyrir samfélög Bedúína.
Loks ber að nefna Dr. Einat Wilf, sem kynnt til sögunnar sem leiðandi hugsuður á sviði Ísraelsríkis, Zionisma og utanríkisstefnu. Hún sat á ísraelska þinginu fyrir Zionista flokk þáverandi varnarmálaráðherra Ehud Barak, sat í utanríkis- og varnarmálanefnd þingsins og hefur verið yfirmaður í njósnadeild ísraelska hersins. Hún hefur skrifað sjö bækur; “We Should All Be Zionists“, kom út 2022. Í bókinni “The War of Return: How Western Indulgence of the Palestinian Dream Has Obstructed the Path to Peace”, sem kom út 2020 rekur hún hugmyndir sínar um hvernig UNWRA, Flóttamannaaðstoð SÞ í Palestínu, hafi “gefið eftir þrýstingi, með að samþykkja að brottreknir Palestínumenn ættu rétt á að flytja aftur til heimalands síns og hafi þannig skapað “viðvarandi flóttamannavandamál”. Að hennar mati hefur þessi krafa Palestínumanna hvorki siðferðilegan né lagalegan rétt og hún biðlar ákaft til Bandaríkjanna, SÞ og EU að viðurkenna þessa skoðun hennar, sem hún álítur að sé til góða fyrir Ísraela og Palestínumenn.
UN Watch: Hlutdræg skýrsla
Það má því vera nokkuð ljóst hvað þessir ráðgjafar hafa til málanna að leggja þegar kemur að stefnumótun hjá UN Watch. Það ætti að vera nokkuð ljóst að skýrsla UN Watch, Terrorgram, er ekki hlutlaus skýrsla ætluð til að upplýsa og veita Sameinuðu þjóðunum aðhald. Hún byggir þvert á móti á þeirri pólitísku stefnu Ísraelsríkis, að brottreknir Palestínumenn eigi engan tilverurétt í Ísrael og að Flóttamannastofnun SÞ í Palestínu, UNWRA, sé óvinur Ísraels þar sem stofnunin gengur út frá og er byggð á þeim rétti.
Breytir þá litlu þó stofnunin sé eina af stærstu stofnunum Sameinuðu Þjóðanna og hafi verið sett á laggirnar 1949 eftir að Ísraelsmenn flæmdu yfir 700 þúsund Palestínumenn af landareignum sínum. Loks má minna Bjarna Benediktsson, Katrínu Jakobsdóttur og aðra höfðingja á, að Ísland hefur viðurkennt Palestínu sem sjálfsstætt og fullvalda ríki.
Það ætti að kveikja á perunni hjá íslenskum fjölmiðlamönnum, að kannski er ekki allt sem sýnist, þegar Flóttamannahjálp SÞ er orðinn sökudólgurinn í þeim hörmungum sem nú eru lagðar á palestínsku þjóðina – ekki síst þegar heimildin er ýmist ísraelska leyniþjónustan eða „svissnesk eftirlitssamtök með S.Þ.
Því það þarf enginn að búast við að baráttu Ísraels gegn Flóttamannastofnun S.Þ. sé lokið. Til þess er of mikið í húfi fyrir Ísraelsmenn. Annars vegar fá þeir staðfestingu USA og leiðitömustu ríkja þeirra, með því að taka undir með Ísrael, að í raun eigi Flóttamannahjálp SÞ í Palestínu ekki tilverurétt og þá er stutt í stuðning við undirliggjandi röksemdir um að palestínskir flóttamenn eigi engan rétt á að snúa heim, þeir eigi ekkert heimaland og séu því ekki flóttamenn. Landið tilheyri Ísrael. Og svo ekki síður er augljóslega mikilvægt fyrir Ísrael að hafa augu fjölmiðla heimsins á þessari smjörklípu og ekki á mannréttindabrotum þeirra sjálfra og eyðileggingu palestínsku þjóðarinnar.