1. maí ávarp Alþýðufylkingarinnar 2021
—
Nú er atvinnuleysi verkafólks á Íslandi í sögulegum hæðum og það er annað árið í röð, sem verkalýðshreyfingin kemur ekki saman á 1. maí. Þó að atvinnuleysið sé að mestu bundið við greinar tengdar ferðaþjónustu, vegna heimsfaraldursins, og þó að gangur sé í ýmsum öðrum greinum, kemur það að litlu haldi fyrir það fólk, sem líður fyrir atvinnuleysið. Auðvaldskerfið er ófært um að deila vinnunni og hagnaði hennar réttlátlega. Það er frumorsök þess að kapítalisminn leiðir stöðugt af sér kreppur, jafnvel þegar sérstakar aðstæður virðist leysa þær úr læðingi eins og nú.
Í hverri kreppu vinnur auðstéttin í samvinnu við ríkisvaldi að því að velta afleiðingum hennar yfir á herðar alþýðunnar og nota tækifærið til að safna meiri auði á færri hendur. Nú eru uppi áform um aukna einokun í ferðaþjónustu, eins og áður hefur gerst í sjávarútvegi, byggingariðnaði og víðar.
Í haust lýkur kjörtímabili þar sem yfirlýstur vinstriflokkur hefur haft forsæti í ríkisstjórn. Það hefur ekki skilað sér í breyttri stefnu enda stjórnar auðstéttin í vaxandi mæli beint gegnum fjármagnið. Markaðsvæðingin er áfram alls ráðandi, og eykst frekar en hitt. Samþjöppun og einokun vex, sem leiðir til vaxandi ójafnaðar. Loks er stuðningur ríkisstjórnarinnar við stríðsrekstur og refsiaðgerðir Bandaríkjanna og NATO jafn skilyrðislaus og áður, umsvif bandarísku heimsvaldastefnunnar aukast jafnt og þétt og Ísland er aftur að verða stökkpallur í nýju köldu stríði. Þá hefur ríkisstjórn Íslands stutt pólitískt og fjárhagslega við hryðjuverkastarfsemi og valdaránstilraunir fasista í Venesúela.
Til að koma til leiðar raunverulegum breytingum á Íslandi í þágu alþýðunnar er nauðsynlegt að höggva að rótum auðvaldsskipulagsins. Til þess dugar hvorki múgsefjun né ráðabrugg í fílabeinsturnum. Bylting gegn auðvaldskerfinu, sem leiðir til sósíalisma, getur aðeins orðið á grundvelli pólitískrar og stéttarlegrar baráttu, úbreiddrar vitundar, virkni og skipulags á lýðræðislegum grunni, sem nær til fjölda alþýðunnar. Vonandi safnast íslensk alþýða saman á 1. maí að ári, nær þessu marki.
1. maí 2021
Alþýðufylkingin