Úkraína og rökfræði staðgengilsstríðsins
—
Þegar ég staðhæfði, skömmu eftir að innrás Rússa hófst, að Úkraínustríðið væri staðgengilsstríð var allt slíkt tal stimplað sem «Pútínáróður» enda væri stríðið einfaldlega þjóðfrelsisstríð Úkraínu. Slíkir stimplar eru vissulega enn á lofti og mynd þjóðfrelisstríðsins er haldið fast að okkur í fjölmilum. Inn á milli heyrist samt oftar og oftar frá háum stöðum, ekki síst í Washington, að Úkraínustríðið sé einmitt – staðgengilsstríð. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir sambandi “staðgengils» og þeirra sem hann «staðgengur” fyrir.
Panetta: – Þetta er staðgengilsstríð
Leon Panetta, sem var varnarmálaráðherra Obama-stjórnarinnar 2011-2013 og áður æðsti yfirmaður CIA fer ekki í grafgötur með að stríðið sé stríð milli Bandaríkjanna og Rússlands. Í viðtali við David Vestin hjá Bloomberg þann 17. mars orðar hann það á einföldu mannamáli:
«Í fyrsta lagi, einasta aðferðin til að fást við Pútín er að tvöfalda framlag okkar. Sem þýðir að veita eins mikla hernaðaraðstoð til Úkraínumanna og nauðsynlegt er þannig að þeir geti haldið áfram að berjast við Rússana… Við erum þátttakendur í átökum þarna. Það er staðgengilsstríð við Rússland hvort sem við segjum það eða ekki. Það er það sem í reynd á sér stað. Og af þeirri ástæðu verðum við að vera viss um að við veitum eins mikið af vopnum og mögulegt er… Ekki vera í vafa, diplómatík er gagnslaus nema við höfum áhrif. Og aðferðin til að hafa áhrif er að fara inn og drepa Rússa. Það er það sem Úkraínumenn verða að gera. Við verðum að halda áfram hernaðaraðstoðinni… Af því þetta er valdatafl.» https://www.bloomberg.com/news/videos/2022-03-17/u-s-is-in-a-proxy-war-with-russia-panetta-video
Orð Panetta eru beinlínis skilgreiningin á staðgengilsstríði: utanaðkomandi stórveldi veitir veikara ríki efnahags- og vopnahjálp til að heyja stríð gegn stórveldisandstæðingi sem fyrrnefnda stórveldið vill skaða. Minna ríkið þarf hins vegar að vinna sjálft verkið, með lífi sínu og blóði.
Austin – markmiðið er að «veikja Rússland»
Panetta er að vísu ekki lengur varnarmálaráðherra. En núverandi varnarmálaráðherra BNA, Loyd Austin, sagði að Úkraínumenn skyldu fá «allt sem þeir vilja af vopnum». Staddur í Kíev, eftir fund með Zelensky forseta, var hann var spurður um «markmið Bandaríkjanna» í Úkrínustríðinu og hann svaraði líka mjög skýrt: «Við viljum sjá Rússland veikjast það mikið að það geti ekki gert þess konar hluti sem það hefur gert við Úkraínu.» https://www.commondreams.org/views/2022/04/26/us-secretary-defense-admits-real-strategic-goal-ukraine-quagmire-russia
Fyrrum æðsti stjórnandi Bandaríkjahers í Evrópu, Ben Hodges, orðar hin bandarísku stríðsmarkmið með líkum hætti, þau séu að: “hryggbrjóta að lokum getu Rússlands til að ráðgera valdbeitingu utan Rússlands”. https://www.cbsnews.com/news/face-the-nation-full-transcript-04-17-2022/ Strategistarnir í Washington (og hjá NATO) ætla Úkraínu þetta hlutverk, með duglegri hernaðaraðstoð: að veikja Rússland (jafnvel hryggbrjóta). Það er ærið verkefni og þarf mikið til. Það eru ekki heldur neinir vasapeningar sem Bandaríkin beina til Úkraínu. Samkvæmt New York Times 28. apríl bað Bidenstjórnin þingið nú um 33 milljarða dollara (4,4 billjónir ísl. kr) í viðbót til stríðsins í Úkraínu. Síðan gerðist það 10. maí að þingið hækkaði framlagið upp í 40 milljónir, enda eru flokkarnir tveir á þinginu samstíga og nær engin andstaða. https://www.reuters.com/world/us-house-vote-40-billion-ukraine-aid-package-tuesday-pelosi-2022-05-10/
Þegar sú upphæð kemur ofan á fyrri framlög þingsins til stríðsins er upphæðin orðin um 54 miljarðar dollara. Það eru talsvert meira en árleg meðalútgjöld Bandaríkjanna til eigin nýafstaðins stríðsreksturs í Afganistan (um 46 milljarðar). Ennþá meira sláandi: Upphæðin nálgast heildarútgjöld Rússlands til hermála á heilu ári (á árinu 2021 voru þau 65,9 milljarðar) og eru þó bara liðnir þrír mánuðir tæpir af Úkraínustríði.. https://www.sipri.org/media/press-release/2022/world-military-expenditure-passes-2-trillion-first-time Þessi talnahlutföll eru áhugaverð, ekki síst í ljósi hinna síendurteknu fullyrðinga um að áhyggjur Rússa af Úkraínu séu fullkomlega tilefnislausar, þeir hafi ekkert þaðan að óttast (það má þó minna á að Úkraína var tvívegis á 20. öld notuð til innrása í Rússland og kostuðu tugmilljónir mannslífa). Glenn Greenwald fjallar hér um þessar upphæðir: https://greenwald.substack.com/p/biden-wanted-33b-more-for-ukraine?s=r Framantalin bandarísk hernaðaaraðstoð og framantalin ummæli ráðamanna sýna að ráðamenn vestur þar líta á þetta stríð sem sitt stríð, þó svo formlega sé það aðeins á milli Rússlands og Úkraínu. Það er staðgengilsstríð – og það fylgir rökfræði slíkra stríða.
Óbein bandarísk þátttaka
Úkraína skal ein standa í slagsmálunum við Rússa, a.m.k. ennþá, en þátttaka Bandaríkjanna og NATO verður samt smám saman meiri. Ráðmenn í Washington viðurkenna að Bandaríkjaher þjálfi úkraínska hermenn í Póllandi og Þýskalandi. Vestrænar fréttastofur sögðu frá því að bandarískar leyniþjónustuupplýsingar hefðu hjálpað Úkraínu að granda rússneska Svartahafsflaggskipinu «Moskva» þann 14. apríl. https://edition.cnn.com/europe/live-news/russia-ukraine-war-news-05-05-22/h_fa0900ceed55ba329c1f69702537e9e6 Einnig sögðu vestrænar fréttastofur að sams konar leyniþjónustuupplýsingar hefðu hjálpað Úkraínumönnum að drepa allmarga rússneska hershöfðingja í stríðinu. https://www.abcnyheter.no/nyheter/verden/2022/05/05/195843790/new-york-times-russiske-generaler-drept-etter-hjelp-fra-amerikansk-etterretning
Og bandarískar njósnaupplýsingar hafa líka hjálpað Úkraínuher að staðsetja og skjóta niður rússneskar flugvélar. Mark Milley, formaður bandaríska Herforingjaráðsins (Joint Chiefs of Staff) hældist í síðasta mánuði við þingnefnd og House Armed Services Committee yfir leynilegum aðgerðum í Úkraínu: “Þetta stríð hefur án efa verið best heppnaða leyniþjónustuaðgerðin í hernaðarsögunni,” sagði hann. “Hún er rosaleg, og saga hennar verður einhvern tíma sögð.» https://www.washingtonexaminer.com/policy/defense-national-security/mystery-of-early-russian-failures-in-ukraine-explained-with-new-revelations-of-us-intelligence-help
Kviksyndis-strategían frá Washington
Það er dável þekkt í geópólitík, ekki síst eftir styrjaldirnar í Víetnam og Afganistan, að besta aðferðin til að veikja geópólitískan andstæðing, hernaðarlega og pólitískt, er að egna hann til óyndisúrræða og árásarhegðunar, helst etja honum út í dýrt staðgengilsstríð. Það er gjarnan kallað «kviksyndi» og oft bendlað við «víetnam-syndróm».
Mikilvægasta hernaðarlega hugveita Bandaríkjanna er RAND-corporation. Hún leggur fram greiningar og stjórnlist fyrir Bandaríkjaher. Hernaðaráætlunin gagnvart Rússum sem hún gaf út 2019 hét “Að teygja Rússland” (Extending Russia) og gengur út á að láta “reyna á her eða hagkerfi Rússlands eða pólitíska stöðu stjórnvalda, heima og utan lands… og láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega og láta stjórnvöld þar tapa virðingu og áliti heimafyrir og alþjóðlega.” Af beinum aðgerðum í áætluninni sem eiga að grafa undan áhrifum Rússlands og veikja það með hjálp álagsþreytu er efst á blaði og mikilvægust sú að “sjá Úkraínu fyrir hernaðaraaðstoð” (lethal aid). Númer tvö er að “auka stuðning við sýrlenska uppreisnarmenn.” sjá hér
Samanburður við Sýrland, annað staðgengilsstríð, er gagnlegur. James Jeffrey, sérlegur fulltrúi Bandaríkjastjórnar málefnum Sýrlands sagði í vitali 2020 að verkefni sitt væri einmitt að gera Sýrland að «kviksyndi» fyrir Rússa: „Þetta er ekki Afganistan, þetta er ekki Víetnam“, útskýrði hann – en hins vegar: „Verkefni mitt er að gera það að kviksyndi fyrir Rússa.“ https://sputniknews.com/world/202005121079285040-us-military-presence-could-help-turn-syria-into-quagmire-for-russia—special-envoy/
Fljótlega eftir að innrás Rússa í Úkraínu hófst fóru bandarískir strategistar og hermálatoppar að spá löngu stríði (og óska eftir því). Áðurnefndur Mark Miller, formaður Herforingjaráðsins, sagði í byrjun apríl að þetta stríð myndi að líkindum “vara svo árum skipti frekar” en mánuðum. Þá hafa strategistarnir líka von um að stríðið verði farið að “veikja Rússland”. https://www.voanews.com/a/ukraine-war-likely-to-last-years-top-us-military-officer-says-/6517110.html
Bakmaðurinn í Úkraínudeilunnari
Hið geopólitíska stríð stendur á milli Rússlands og BNA/NATO. Úkraína er staðgengillinn, bakmaðurinn er BNA/NATO. Það að bakmaðurinn ætli stríðinu að «veikja Rússland» í stað þess bara að verja Úkraínu stækkar verkefnið ansi mikið, og gerir pólitískar og diplómatískar lausnir deilunnar fjarlægari. Gallinn er að eigi að láta Rússlandi blæða verulega verður Úkraínu að blæða þeim mun meira. En frá sjónarhóli bakmannsins er það auðvitað aukaatriði.
Stefna Bandaríkjanna og annarra helstu NATO-velda gagnvart Rússlandi (og Úkraínu) er ekki alltaf ein og sú sama, en þó verður að segjast að geópólitík Vesturblokkarinnar á 21. öldinni hefur á þessu sviði algjörlega verið stjórnað frá Washington, og aldrei meira en nú.
Það þarf ekki lengi að stúdera háttarlag bandarískra ráðamanna í Úkraínudeilunni til að sjá að ekki eru þeir þar friðarstillar. Hlutverk þeirra er ekki heldur bara að bregðast við gerðum Rússa. Þeir eru megingerendur í deilunni og verk þeirra sýna að markmið þeirra er ekki að vinna að friði heldur hið gagnstæða. Rekjum þess vegna aðeins framlag Bandaríkjanna – með Vesturblokkina í eftirdragi – á nokkrum stigum Úkraínudeilunnar.
Útþensla NATO í austur
Fyrst skal nefna ytri aðstæður deilunnar sem markast umfram allt af útþenslu NATO í austur. Síðustu Sovétleiðtogunum voru gefin margvísleg loforð um öryggistryggingar. Eldri Bush og James Baker utanríkisráðherra sóru þess eið að NATO færi ekki «eina tommu austar» en Þýskaland. Í febrúar sl. skrifaði hinn virti Der Spiegel um viðræður stórveldanna árið 1990 í aðdraganda þess að Varsjárbandalagið var lagt niður:
«Sem betur fer er nóg af skjölum aðgengilegum frá þeim ríkjum sem tóku þátt í viðræðunum, þ.á.m. greinargerðir frá samtölum, samningsútskriftir og skýrslur. Samkvæmt þessum skjölum gáfu Bandaríkin, Bretland og Þýskaland það til kynna að NATO-aðild landa eins og Póllands, Ungverjalands og Tékkóslóvakíu kæmi ekki til greina.» https://www.spiegel.de/international/world/nato-s-eastward-expansion-is-vladimir-putin-right-a-bf318d2c-7aeb-4b59-8d5f-1d8c94e1964d
Loforðin reyndust léttvæg. Þegar árið 1999 gengu einmitt Tékkland og Pólland í NATO. Það var m.a.s. á tíma Jeltsíns, þegar Rússland var að miklu leyti undir forræði Bandaríkjanna og ekki talað um Rússland sem ógn. Enda var þetta engin varnarráðstöfun heldur heimsyfirráðapólitík, BNA að þenja út áhrifasvæði sitt og fyrirbyggja mögulega kappinauta (Wolfowitz-kenningin frá 1992 gekk út á það). Gamalreyndir menn í geópólitík, frá George Kennan til Kissingers, sögðu þó að með því væri gagnvart Rússlandi gengin braut út á mikið hættusvæði. Jeltsín reyndi vissulega að andæfa útþenslunni, en Rússland var enn á hnjánum og varð að láta það yfir sig ganga.
Síðan hélt úþenslustefna NATO áfram í stökkum austur að landamærum Rússlands. Aðeins Hvíta-Rússland og Úkraína voru orðin á milli. Af þeim þótti Úkraína álitlegri til nálgunar vegna sterkra andrússneskra strauma og innbyrðis klofnings landsins, sem heimsvaldasinnar vildu nýta (sjá síðar). Eftir að stórveldið Rússland með tilkomu Pútíns komst aftur á fæturna og hætti að láta að stjórn þeirra í Washington jókst atgangurinn við að vinna Úkraínu frá stóra bróður.
Árið 2008 lýsti leiðtogafundur NATO í Búkarest yfir að einnig Úkraína „mun verða aðili að NATO“. Þá brást Pútín við hart og sagði: “Hingað og ekki lengra, öryggishagsmunir Rússlands leyfa það ekki.” NATO-aðild Úkraínu sagðist hann líta á sem tilvistarógn, “existensial threat” fyrir Rússland. Hann dró «rautt strik” við Úkraínu. Rússar og aðrir hafa gjarnan líkt þessu við Kúbudeiluna 1962. Kennedy er oft þakkað fyrir að hafa bjargað landi sínu og Vesturlöndum úr mikilli kjarnorkustríðshættu með því að fyrirbyggja sovéskar skotflaugar til Kúbu, draga “rautt strik” við Kúbu. Þetta kom honum þó formlega ekkert við, Kúbanir voru í fullveldisrétti að haga öryggismálum sínum að vild (alveg sambærilegt við hinn heilaga fullveldisrétt Úkraínu að ganga í NATO), en þetta var geópólitík sem sögð var trompa þjóðarrétt. Líklega hafa almennir Rússar litið rauða strik Pútíns svipuðum augum og Vesturlandabúar litu strik Kennedys þá. En í Washington og Brussel var ákveðið að hafa rauða strikið að engu.
Maidan 2014
Nú var markmið bakmannanna í Washington valdaskipti í Úkraínu, sem áfanga í baráttunni við Rússland. Aðferðin var litabylting, vörumerki frá CIA. Tvær atlögur voru gerðar í Úkraínu með 10 ára millibili. Appelsínugula byltingin 2004 var stjórnað af bandarískri utanríkis- og leyniþjónustu en fótönguliðið voru heimamenn. Þessum öflum tókst að láta endurkjósa 2004 og koma sínum manni Jútsjenkó að í stað Janúkóvitsj. Þau valdaskipti gengu þó tilbaka og þessi öfl voru felld að nýju í kosningum. https://www.theguardian.com/world/2004/nov/26/ukraine.usa
Þetta var aðeins forleikur að því sem gerðist árið 2014. Þá var miklu meiru kostað til. Og nú tengdi USA sig við miklu harðsnúnari stjórnmálaöfl. Á útmánuðum þess árs sagði Victoria Nuland aðstoðarutanríkisráðherra að Bandaríkin hefðu á undanförnum árum varið 5 milljörðum dollara til að «koma upp lýðræðislegri getu og stofnunum í Úkraínu» https://www.youtube.com/watch?v=U2fYcHLouXY. Úkraína hafði orðið sjálfstæð 1991, en landið einkenndist af alvarlegum klofningi af sögulegri rót, markaðan ekki síst af sambýlinu langa við Rússland. Klofningurinn liggur eftir landfræðilegum austur-vestur línum sem einkum eru þjóðernis- menningar- og tungumálalegar. Þær línur eru þó líka stjórnmálalegar þar sem hin andrússnesku öfl standa í stórum dráttum hægra megin.
Strategistarnir í Washington fundu eðlilega út að gagnlegast væri að tengja sig við hin andrússnesku hægriöfl og þar á meðal öfgahægrið þar sem andrússneska stemningin er allra sterkast. Þau mátti líka nota til brýnna róttækra athafna. Hægrisektor sá um vopnaburðinn. Frjáls félagsamtök (NGO´s) eins og National Endowment for Democracy, George Soros, Freedom House, breska Chatham House o.fl. gegndu burðarhlutverkum. Undirbúningur aðgerða fór mest fram gegnum bandaríska sendiráðið undir stjórn Geoffrey Pyatt sendiherra. Og hann var í reglulegu símasambandi við Victoríu Nuland. Þau ræddu hvaða stjórnmálamenn ættu að mynda næstu ríkisstjórn Úkraínu. «Yats is the guy» (Yats er maðurinn) sagði hún og meinti Arseniy Yatseniuk leiðtoga Föðurlandsflokksins sem komandi forsætisráðherra. Hvað líka varð. Hún talaði um «the big three» og að «Yats» yrði að hafa reglulegt samráð við hina tvo, Klitschko formann Umbótaflokksins og Oleh Tiahnybok, foringja fasistaflokksins Svoboda. Rússar tóku eitt samtalið upp: https://www.youtube.com/watch?v=MSxaa-67yGM
Á Maidantorgi reif foringi Hægrisektors, Dimitro Jarosh, í ræðustólnum í sundur nýundirritað samkomulag um þjóðstjórn og nýjar kosningar sem gert hafði verið milli forsetans og stjórnarandstöðunnar, samkomulag sem utanríkisráðherrar Þýskalands, Frakklands og Póllands höfðu ábyrgst. Janukovitsj forseti flýði borgina. Næsta dag samþykkti fámennt þjóðþing í Kiev undir blikandi vopnum Hægrisektors að setja af Janukovitsj, lýðræðislega kjörinn forseta. Sjá stutta útgáfu af atburðarás valdaránsins: https://original.antiwar.com/justin/2014/02/23/coup-in-kiev/
Ofbeldið á Maidan-torgi vakti andúðarbylgju gegn Janukovitsj. Áttatíu manns dóu á torginu og götunum, um 20 lögreglumenn. Traustar heimildir eru þó fyrir því að mesta ofbeldið á torginu kom frá „mótmælendum“ úr vopnuðum hópum fasista. Sjá t.d. BBC: https://www.bbc.co.uk/programmes/p02jcrf3/clips Svobodaflokkurinn var með í nýrri ríkisstjórn. Það er enginn vafi á því að velþóknun Nuland og bakmannanna í Washington á m.a. Tiahnybok gaf öfgahægrinu lögmæti og stöðu í komandi Maidan-stjórnkerfi, sem var og er miklu sterkari en fylgi þess meðal almennings segir til um. Öfgahægrið stjórnaði alls ekki valdaráninu en var mjög nytsamlegt voldugri bakmönnum, innlendum og erlendum, til helstu ofbeldisverka og gegndi því lykilhlutverki í valdaráninu, og áfram.
Tíminn 2014-2022
Ný stjórn Maidan-aflanna varð vond stjórn og óvinsæl. Lífskjör í Úkraínu hrundu úr vondum niður í ömurleg. En frá sjónarhóli vestrænu bakmannanna var nýja stjórnin «góð» að einu mikilvægu leyti: Hún var grimmilega andrússnesk. Með valdaskiptunum sköpuðust skilyrði fyrir vestrænu virki á vesturlandamærum Rússlands, reyndar eftir hálfum landamærunum. Villtir draumar heimsvaldasinna rættust.
Nýja stjórnin sagði strax rússneska minnihlutanum stríð á hendur. Í fyrstu vikunni eftir að hún tók völd afnam hún stöðu rússnesku sem eitt opinberra tungumála í landinu, en um þriðjungur þegnanna hafði rússnesku sem fyrsta mál. Afleiðing valdaránsins varð að Úkraína rifnaði í sundur eftir hinum gömlu klofningslínum. Í Moskvu hugsaði Vladimir Pútín fyrst um öryggismál, hann brást við hart og skipulagði þjóðaratkæðagreiðslu á Krím (formlega var hún þó skipulögð af þinginu á Krím) sem leiddi til innlimunar skagans í Rússland. Þarna er Sevastopol, eina flotastöð Rússlands í suðri og hana ætluðu Kremlverjar ekki að missa til Maidanstjórnar og NATO. Og þremur mánuðum síðar var Maidanstjórnin komin í borgarastríð við rússneskumælandi austurhéruðin Donetsk og Lugansk, sem lýstu þá yfir sjálfsstjórn og kölluðu sig síðan «alþýðulýðveldi».
Minsk-samningurinn haustið 2014 (og aftur í febrúar 2015) var alvarlegasta tilraunin til að leysa deiluna um austurhéruðin eftir diplómatískum leiðum: Þar tóku þátt nýi forsetinn Porosjenkó, Pútín, Merkel, og Hollande Frakklandsforseti. Lykilatriði hans voru vopnahlé og stjórnarskrárbreyting í Úkraínu sem tryggði Donetsk og Lugansk ákveðna sjálfsstjórn innan Úkraínu. Samningurinn var viðurkenndur af SÞ og þjóðréttarlega bindandi.
Úkraínska öfgahægrið fordæmdi samninginn frá byrjun. E.t.v. ætlaði Porosjenkó forseti sér aldrei að standa við hann, hann gerði alla vega litlar tilraunir til þess og tók aldrei upp samninga við fulltrúa sjálfsstjórnarhéraðanna. Og hinir vestrænu bakmenn hans þrýstu honum heldur ekki til þess. Borgarastríðið hélt því áfram og drap fólkið þúsundum saman. Þýskaland og Frakkland reyndu að þrýsta á um uppfyllingu samningsins en að litlu marki fyrr en í ársbyrjun 2022. Bandaríkin komu ekkert að Minsk-samningnum og sýndu honum engan áhuga, höfðu væntanlega jafnlítinn áhuga á uppfyllingu hans og úkraínska ofurhægrið. Framlag USA í málinu var á öðru sviði: að vopna og þjálfa Úkraínuher í baráttunni við aðskilnaðarsinna en hernum gekk vonum miður í borgarastríðinu. https://news.antiwar.com/2022/03/16/report-secret-cia-training-program-in-eastern-ukraine-helped-prepare-for-russian-invasion/ Árið 2015 voru herdeildir öfgahægrihópanna Azov og Hægrisektor innlimaðar í úkraínska Heimavarnarliðið, og gegndu lykilhlutverki á «austurvígstöðvunum». Aðskilnaðarhéruðin fengu vopnaaðstoð frá Rússlandi.
Árið 2019 var Zelensky kjörinn forseti, vann yfirburðasigur á Porosjenkó. Stærsta atriðið í stefnu Zelenskys var að lofa friði, hann vildi semja við aðskilnaðarsinna og Rússa og fullnusta Minsk-samninginn. Í innsetningarræðu sinni sagðist Zelensky ekki “hræddur við að tapa eigin vinsældum eða áhorfi… og er viðbúinn að gefa frá mér stöðu mína – ef bara friður kemst á.» En öfgahægrið kom því þá skýrt til skila að friðarsamningar við aðskilnaðarsinna myndu verða nýja forsetanum dýrir. Viku síðar birtist í vefriti einu vital við nasistann Jarosh áðurnefndann, þann sama sem reif sundur samkomulagið við Janukovitsj á Maidantorgi 2014. Jarosh mælti á þessa leið: “Framkvæmd Minsk-samkomulagsins er dauði fyrir lýðveldið okkar… Zelensky sagði í innsetningarræðu sinni að hann væri tilbúinn að tapa vinsældum, áhorfi, stöðu… Nei, han myndi týna lífi sínu. Hann myndi hanga í tré á Khreshchatyk [miðbæjarstræti í Kíev] – ef hann sviki Úkraínu og fólkið sem lét lífið í byltingunni og stríðinu.» https://mate.substack.com/p/siding-with-ukraines-far-right-us?s=r
Zelensky hætti skjótt að tala um að semja við aðskilnaðarsinna og að fullnusta Minsk-samninginn. Það var lífshættulegt. Ef hann hefði fengið stuðning frá hinum væstrænu bakmönnum Maidanaflanna til að framkvæma kosningaloforð sín – og vernd gegn fasistunum – hefði mátt komast hjá miklum djöfulskap og þjáningum. Þann stuðning fékk hann ekki. Að öllum líkindum var það af því í Washington höfðu menn engu meiri áhuga á friði í Donbass en fasistarnir. Samkvæmt tölum SÞ voru 13.000 fallnir í stríðinu gegn sjálfsstjórnarhéruðunum árið 2019. Yfir milljón höfðu fúið yfir til Rússlands.
Innrásin og stríðið – og ábyrgðin
Í desember sl. og aftur í febrúar setti Pútín fram kröfur í Úkraínudeilunni. Kröfunum var beint að Úkraínu en einnig að NATO. Innihaldslega voru kröfurnar einkum þrjár: Úkraína verður að viðurkenna rússnesk yfirráð yfir Krím. Úkraína verður opinberlega að falla frá inngöngu í NATO. Úkraína verður að ná samkomulagi við aðskilnaðarhéruðin. Kröfurnar voru settar fram í formi afarkosta, mótherjar yrðu að taka afleiðingunum að öðrum kosti. Kröfurnar þrjár voru gamalkunnar, þær sömu og Rússar hafa staðið á undanfarin ár. Kröfurnar var ástæða til að ræða, a.m.k. ef friður alls svæðisins væri í mikilli hættu að öðrum kosti. Svarið var þríþætt, nei, nei og nei. Hvorki af hálfu Kiev, Washington né NATO yrðu þessar kröfur ræddar.
Þann 24. febrúar réðist Rússaher inn í Úkraínu. Innrásin kallar hörmungar yfir Úkraínu og hún er þjóðréttarlegur glæpur. Enginn vafi er að mikill meirihluti landsmanna er henni andvígur og vill standa vörð um úkraínskt fullveldi. Rússnesk stjórnvöld frömdu glæpinn, þau gerðu innrásina og bera ábyrgð á henni. Við það verður að bæta að Úkraínustríðið hófst ekki með innrásinni 24. febrúar heldur vorið 2014. Ábyrgðin á því liggur hjá fleirum, m.a. hjá Úkraínustjórn og allra mest hjá bakmönnum hennar, Bandaríkjunum og NATO sem með ögrunarpólitík sinnu stuðluðu að því að glæpurinn yrði framinn.
Með innrás Rússa er sem sagt skollið á útvíkkað stríð. Staðgengilsstríð eins og hér hefur komið fram. Allir aðilar sem til þessa hafa komið að deilunni eru nú ábyrgir fyrir því að leysa hana og stöðva frekari hörmungar. Helstu valkostir stríðsaðila eru þessir: Á að semja eftir diplómatískum leiðum um grundvallarhagsmuni deiluaðila? Á að reyna að vinna stríðið, koma andstæðing sínum á kné? Á að stofna til stórstyrjaldar, t.d. stríði um «lýðræðið í heiminum» gegn «alræðinu í heiminum?
Sigurtónninn að vestan
Á fyrstu vikum stríðsins komu ákveðnir tónar um samningsvilja frá bæði Úkraínu og Rússlandi: «Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu segist vera fús til að ræða framtíðastöðu Krím og Donbassvæðisins við Rússland… – Við við getum rætt og fundið málamiðlun um það hvernig þessi svæði eiga að hafa það framvegis, segir hann.» https://www.nrk.no/nyheter/zelenskyj_-villig-til-a-diskutere-krim-og-donbas-1.15883649 Um sama leyti sagðist hann til viðræðu um það að Úkraína falli frá ósk um NATO-aðild. https://www.france24.com/en/live-news/20220308-in-nod-to-russia-ukraine-says-no-longer-insisting-on-nato-membership
Á þeim tveimur mánuðum sem síðan hafa liðið hefur minna heyrst af slíku samningahljóði hjá Zelensky. Í ræðum sínum yfir þjóðþingum og fjölmiðlum Vesturlanda tekur hann undir boðskap Bidens um að stríðið standi um «framtíð lýðræðisins», og biður um «meiri vopn». Og á sigurdaginn 9. maí sagði hann: “Leiðin er erfið en við erum ekki í neinum vafa um að við munum sigra.” https://www.wsj.com/livecoverage/russia-ukraine-latest-news-2022-05-09/card/zelensky-marks-victory-day-with-a-promise-of-russia-s-defeat-HGUXDPVOw3eyxcCHVVBn Málflutningur hans hefur smám saman færst til samhljóms við þann “sigurtón” sem orðið hefur alveg ríkjandi vestan hafs undanfarnar vikur.
Bretland og Bandaríkin keyra samræmda línu í málinu, hún er sú að Úkraína sé sigursæl og hugrökk, hún eigi að berjast sem ákafast, þiggja vopn og ekki semja við Pútín. “Absolutely they can win” sagði Kirby talsmaður Pentagon 6. apríl. Og Austin varnarmálaráðherra sagði: «Úkraínumenn eru fyrirmynd fyrir hinn frjálsa heim, geta unnið stríðið við Rússland og skulu fá allt það sem þeir biðja um af vopnum.” Úkraínska vefritið Ukrainska Pravda sagði frá heimsókn Boris Johnsn til Kiev 5. maí, og greindi frá fundi hans með Zelensky. Boris Johnson kom með þau skilaboð frá «sameinuðu Vestrinu» til forsetans og Úkraínumanna að «jafnvel þótt Úkraínumenn væru tilbúnir að undirrita eitthvert samkomulag um tryggingar við Pútín værum [við] það ekki… Pútín er stríðsglæpamaður, það þarf að beita hann þrýstingi, ekki samningaviðræðum (he should be pressured, not negotiated with)». https://www.pravda.com.ua/eng/news/2022/05/5/7344206/
Ekki óvænt sendi NATO forstjóri Jens Stoltenberg út sama boðskap: “Úkraína getur unnið þetta stríð” og bætir við að NATO verði að halda áfram að auka hernaðarhjálpina við Kíev”. https://www.stuff.co.nz/world/europe/300588804/ukraine-can-win-this-war-against-russia-says-nato-chief
Vestrið hefur samt ekki allt «sameinað» í afstöðu sinni. Það sést m.a. á því að eftir að Boris Johnson heimsótti Kiev hefur Macron Frakklandsforseti tjáð þá skoðun sína að friður muni aðeins nást gegnum samninga: «Við viljum hafa frið að byggja morgundaginn á… Við verðum að gera það með Rússland og Úkraínu við borðið.” Og hann varaði við því að reyna að «auðmýkja Rússa». https://www.euronews.com/my-europe/2022/05/09/macron-warns-against-humiliating-russia-over-war-in-ukraine Macron er hins vegar einn fárra leiðtoga Vesturlanda sem hefur verið í sambandi við Kremlverja. Anthony Blinken hefur t.d. ekki talað við Lavrov kollega sinn síðan innrásin hófst. Hann telur væntanlega æskilegra að vopnin fái að tala.
Sigurhrópin eru ósk um framlengt stríð
Sigurmálflutningurinn býður fyrst og fremst upp á stigmögnun. Hann dregur á langinn hörmungar Úkraínu (og alþjóðlegu efnahagsafleiðingar sömuleiðis) og með hverri viku sem stríðið fær að þróast eykst hættan á glæfrum, mistökum eða asnaskap sem leiða til beinna átaka NATO og Bandaríkjanna við annað stærsta kjarnorkuveldi heims.
Á hinn bóginn eru litlar líkur til að Rússar játi sig sigraða og bakki út á næstunni, m.a. af því rússneska þjóðin sýnist deila þeirri hugmynd með Vladimír Pútín að Úkraína sem NATO-ríki væri “tilvistarógn” við sjálfstætt Rússland. Það er ekki heldur líklegt að Rússar víki mikið frá kröfunum þremur sem þeir settu fram áður en innrásin hófst. Sá ímyndaði «sigur» sem talað er um í Vestrinu fengist aldrei nema mjög mikið hefði gengið á áður, trúlegast stórstyrjöld sem varla verður «sigur» neins. Hvers konar stigmögnun stríðsins mun væntanlega ekki heldur draga úr tilfinningu Rússa fyrir «tilvistarógn» frá NATO, þvert á móti.
Framlenging stríðsins (í von um «sigur») og höfnun viðræðna um pólitíska lausn deilunnar boðar sem sagt ekkert nema skelfingu fyrir Úkraínu. Þjónar sú framlenging einhverjum tilgangi? Já, frá geópólitíska sjónarhólnum í Washington þjónar hún þeim tilgangi að «veikja Rússland» og þá væri tilgangi staðgengilsstríðsins náð. «Sigur»-málflutningurinn hefur þann eina tilgang. Í þeim tilgangi hvetur Washington Útraínu til að fórna sér sjálfri.
Hver er afstaða Íslands? Ísland hefur enga utanríkisstefnu. Ísland er bara NATO-land, punktur. Hoppar þegar Washington eða Bussel segja «hoppa!» Annað ekki. Ísland getur að vísu ekki veitt Úkraínu hernaðaraðstoð, en tekur eftir megni þátt í þeirri efnahagslegu heimsstyrjöld sem hafin er gegn Rússlandi. Tekur líka fullan þátt í upplýsingastríðinu sem er einn grundvallarhluti hernaðarins. Ástandið í landinu og á samanlögðu Alþingi einkennist af stríðsæsingi til stuðnings við stríðið, við staðgengilshernað Vestursins. Katrín Jakobsdóttir segist auk þess styðja það ef Finnland og Svíþjóð sæki um NATO-aðild og vill stuðla að því að þær umsóknir yrðu afgreiddar með hraði. Það þýðir stuðningur við þá stækkun NATO sem þegar hefur leitt til til stríðs. Þar stendur meginstraumsvinstrið, en lengra út á vinstri kanti er stríðið ekki-þema. En sú dapurlega staðreynd er ekki þema þessarar greinar.