Þessi fengu ekki friðarverðlaun Nóbels

27. október 2021 — Jón Karl Stefánsson

Nobel

Maria Ressa og Dmitry Muratov fengu friðarverðlaun Nóbels á dögunum fyrir baráttu sína fyrir tjáningarfrelsi. Eins og oft áður eru verðlaunin pólitísk. Verðlaun veitt Muratov er liður í baráttunni gegn Rússagrýlunni nýju. Jón karl Stefánsson fjallar um nokkra aðila sem væru „enn betur fallnir til að hljóta þessi verðlaun.“

Maria Ressa og Dmitry Muratov fengu friðarverðlaun Nóbels á dögunum fyrir „viðleitni þeirra við að vernda tjáningarfrelsið, sem er forsenda lýðræðis og varanlegs friðar“. Ressa var meðal þeirra sem kom til greina til að vera „person of the year“ fyrir tímaritið „Time“ árið 2018 á þeim forsendum að hún var í framlínunni fyrir verkefnum til að „sporna við falsfréttum“. Ári síðar var hún kærð af filipínskum stjórnvöldum fyrir að hafa dreift falsfréttum um þarlendan viðskiptamógúl. Dmitry Muratov er rússneskur blaðamaður og ritstjóri Novaya Gazeta, sem er mjög gagnrýnið á rússnesk stjórnvöld. Blaðamenn Novaya Gazeta hafa staðið í ströngu og að minnsta kosti fjórir þeirra hafa verið myrtir. Muratov hefur áður unnið til fjölda verðlauna á Vesturlöndum, þar með talið „the Golden Pen of Freedom“, „CPJ International Press Freedom Award“, Ordre national de la Légion d'honneur (fálkaorðu Frakklands) og „Four freedom awards“ í Hollandi.

Ressa og Muratov hafa eflaust lagt margt af mörkum á ferli sínum, en ef það var ætlun Nóbelsverðlaunanefndarinnar að leggja áherslu á blaðamenn og uppljóstrara sem hafa lagt mikinn fórnarkostnað í nafni tjáningarfrelsis, réttlætis og sannfæringar, þá koma nokkrir aðilar upp í hugann sem hefðu verið enn betur fallnir til þess að hljóta þessi verðlaun. Meðal þeirra eru eftirfarandi:

Daniel Hale

Daniel Hale, sem starfaði í Leyniþjónustu Bandaríkjahers, var handtekinn, kærður og dæmdur í 45 mánaða fangelsi í sumar fyrir að leka innanbúðarupplýsingum sem sýndu að níu af hverjum tíu þeirra sem felldir voru í stríði Bandaríkjamanna í Afganistan voru óbreyttir borgarar. Hann lak þessu upplýsingum að eigin sögn af samviskuástæðum. Hann leit svo á að það væri almennt rangt að myrða fólk, en sérstaklega ógeðfellt væri að myrða hina varnarlausu. Hann vonaði eflaust að fjölmiðlar tækju málið upp og að uppljóstrunin myndi vekja sterk viðbrögð á Vesturlöndum, en hann ofmat þar vestræna blaðamenn. Lítið hefur verið fjallað um málið í okkar heimshluta.

Edward Snowden

Edward Snowden var kærður fyrir njósnir og á yfir höfði sér 30 ára fangelsi í Bandaríkjunum. Glæpur hans fólst í því að ljóstra upp um gríðarlega víðtækt ólöglegt njósna- og áróðursnet NSA í samstarfi við Five Eyes Intelligence Alliance árið 2013. Snowden er enn á flótta, en kemur reglulega fram í viðtölum í gegnum fjarfundarbúnað þar sem hann talar máli tjáningarfrelsis, opins samfélags, heiðarleika og sannleika. Hann hefur gríðarlega mikilvægan boðskap að færa og varar nú sérstaklega við því hversu gríðarlega mikið eftirlit er með nýjum kynslóðum og hversu miklu er varið til að hafa áhrif á skoðanir þeirra, hugsanir og hegðun.

Serena Shim

Serena Shim, blaðamaður af bandarískum og líbönskum ættum, starfaði sem blaðamaður í Sýrlandi árið 2014 fyrir Íranska fjölmiðilinn Press TV. Hún kom upp um olíuviðskipti Tyrklands við ISIS og sumarið 2014 fjallaði hún um hernaðaraðgerðir Tyrklands í Kobani-héraði í Sýrlandi. Tyrknesk stjórnvöld hótuðu Shim og sökuðu hana um að vera njósnari. Einungis tveim dögum síðar keyrði stór vöruflutningabíll aftan á bíl Shim, sem lést samstundis. Fjölskylda hennar hefur barist fyrir því að tyrknesk stjórnvöld verði rannsökuð og sakfelld fyrir morðið, en ekkert hefur orðið af því.

Kirill Vyshinsky blaðamaður og aðrir pólitískir fangar í Úkraínu

Blaðamaðurinn Kirill Vyshinski var handtekinn í Úkraínu þann fyrsta júní 2018 og sakaður um að stunda upplýsingastríð fyrir Rússland. Hann var látinn dúsa í 18 mánuði í fangelsi við mjög slæmar aðstæður, en engin gögn studdu ásakanirnar gegn honum og meir að segja bandarísk stjórnvöld litu svo á að hann hefði verið handtekinn vegna pólitískra skoðana sinna, en Vyshinski hafði skrifað gagnrýnar greinar um úkraínsk stjórnvöld og afstöðu þeirra til úkaínskra nasista og hernámssinna í seinni heimsstyrjöldinni. Vyshinsky er ekki eini pólitíski fanginn í Úkraínu. Sergey Dolzhenkov og Evgeny Mefedov hafa dúsað í fangelsi í meira en fimm ár fyrir að leggja blómakrans að minnismerki Rauða hersins í borginni Nikolaev, leigubílstjórarnir Sergeyev og Gorbian voru lokaðir inni í tvö og hálft ár fyrir að keyra ellilífeyrisþega milli Austur- og Vesturhluta landsins svo þeir gætu sótt ellilífeyri sinn, Andrey Tatarintsev hefur verið í fangelsi í tvö ár fyrir að vinna við uppbyggingu barnasjúkrahússins í Lugansk-héraðinu sem er á yfirráðasvæði stjórnarandstæðinga, Pavel Volkov var lokaður í fangelsi í eitt ár fyrir gagnrýna blaðamennsku og svo mætti lengi telja.

Samtök palestínskra blaðamanna

Yusuf Abu Hussein lést þegar ísraelski herinn sprengdi með yfirlögðu ráði höfuðstöðvar palestínskra fjölmiðla í Gaza þann 13. maí s.l. Hussein er einn af að minnsta kosti 47 palestínskum blaðamönnum sem Ísraelsríki hefur vísvitandi myrt frá upphafi þessarar aldar.

Julian Assange

Julian Assange var á flótta frá 2010 til 2019, en var svo handtekinn og geymdur í hámarksöryggisgæslufangelsinu Belmarsh í London fyrir að leka upplýsingum um stríðsglæpi Bandaríkjamanna og fyrir störf sín fyrir Wikileaks. Fjöldi fjölmiðla hefur notað upplýsingar hans í fréttir sínar, en nærri enginn þeirra hefur komið honum til varnar. Varað hefur verið við því að heilsa Assange er orðin svo slæm að líklegt er að hann látist í fangelsi. Á netsíðunni https://www.freeassange.net/ er hægt að leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir því að Assange verði frelsaður tafarlaust og að tjáningarfrelsi og mannréttindi allra verði virt.

Friðarverðlaun Nóbels sem áróðurstæki

Því miður standa margir hugrakkir blaðamenn í ströngu þessa dagana og þurfa nauðsynlega hjálp alþjóðasamfélagsins og viðurkenningu á störfum þeirra. Hver einasti þeirra á skilið að fá Friðarverðlaun Nóbels. Þarna má telja uppljóstrarana Thomas Drake, Jeffrey Sterling, Chelsea Manning, Shamai Lebowitz og fleiri og fleiri sem hafa verið settir á bakvið lás og slá fyrir að fylgja sannfæringu sinni og siðferðiskennd.

En við vitum fyrirfram að einstaklingar eins og Julian Assange munu ekki fá þessi verðlaun, sama hversu mikið þeir hafa lagt af mörkum og sama hversu miklar fórnir þeir hafa fært. Það er vegna þess að ef þeir fengju þessi verðlaun væri það um leið gagnrýni á þau stjórnvöld og þá ráðamenn sem hafa nú tögl á haldir í stjórnmálum á Vesturlöndum. Friðarverðlaun Nóbels hafa í langa hríð verið stuðningur til „réttra“ aðila sem hafa rétta andstæðinga. Þau eru hluti af heimsmynd þar sem okkar valdhafar eru hinir góðu, en andstæðingar okkar eru hinir slæmu. Verðlaun veitt Murtov eru högg greitt rússneskum stjórnvöldum samkvæmt þeirri sýn að lýðræði og tjáningarfrelsi sé mest hætta búin þaðan

Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fékk Friðarverðlaun Nóbels áður en hann hafði gert nokkurn skapaðan hlut í embætti sínu. Það er kaldhæðnislegt að það var undir forsæti hans sem stríðið gegn uppljóstrurum hófst fyrir alvöru. Við vitum nú að norska Nóbelsverðlaunanefndin valdi hann einfaldlega til að koma sér í mjúkinn hjá Bandaríkjamönnum, og voru verðlaunaðir með því að útnefna Jens Stoltenberg sem yfirmann herafla Nató. Þetta voru dæmigerð hrossakaup Nóbelsnefndarinnar. En þeir sem fengu ekki verðlaunin ættu ekki að örvænta. Þeir lenda að minnsta kosti ekki í liði með Obama, Kissinger, Yitzhak Rabin, Shimon Peres og Evrópusambandinu.