Óheiðarleiki, valkvæð fréttamiðlun og lygar um efnahagskreppu Venesúela
—
Þetta er efnismikil og ómissandi grein um baksvið kreppu, átaka og erlendrar íhlutunar í Venesúela. Hún birtist áður á Countercurrents.org og Globalresearch.ca, ásamt því sem hún hefur hlotið birtingu sem aðsend grein í Kvennablaðinu.
Frá 2015 hefur Venesúela gegnið gegnum gríðarlega efnahagslega erfiðleika. Verðbólga hefur farið úr böndum og almenningur má þola efnahagssamdrátt sem klýfur landið. Og nú horfast Venesúelabúar ekki aðeins í augu við efnahagslega ólgu heldur beina hernaðaríhlutun. Heilbrigð viðbrögð hvers þess sem hjálpa vill Venesúelabúum í erfiðleikum er að reyna að skilja það sem gerist.
Því miður nálgast ekki öll skoðanaskrif né fréttagreinar málið á heiðarlegan hátt. Í raun virðast flestir fjölmiðlar jórtra sömu vondu og röngu frásagnirnar og halda almenningi óupplýstum. Það er nauðsynlegt að fjalla um nokkur algeng ósannindi sem dreift hefur verið varðandi efnahagsástandið í Venesúela og undirstrika mikilvægar staðreyndir sem að mestu leyti er horft fram hjá í ríkjandi fréttaflutningi.
Efnahagsvandi Venesúela hófst ekki með bólivarísku byltingunni
Dæmi um óheiðarlega frásögn á síðum vestrænna fjölmiðla er sú að efnahagsvandi Venesúela orsakist af stefnu Hugo Chavez og Niculas Maduro. Þessum mönnum er lýst sem harðstjórum er hafi eyðilagt heilbrigt hagkerfi og sem sökudólgum í núverandi kreppu. Undirliggjandi slíkri túlkun er sú ályktun, stundum ósögð, stundum öskruð, að efnahagur Venesúela hafi verið í fínu standi fyrir kjör Chavez til valda 1998. Það er sannanlega rangt.
Efnahagskreppa Venesúela hófst fyrir meira en 35 árum síðan. Frá 1983 til 1998 lækkuðu rauntekjur um 14% í þjóðfélagi sem fyrir fram einkenndist af spillingu og ójöfnuði (Corrales 1999). Samkvæmt tölum frá Inter-American Development Bank voru 68% Venesúelabúa undir fátæktarmörkum árið 1998. Sama ár var atvinnuleysið 11,2% og verðbólgan 35,8%. Þetta var einu ári áður en Chavez varð forseti og áður en nokkrar refsiaðgerðir Vestursins hófust.
Eftir að Chavez tók við völdum styrktist efnahagurinn verulega í þrjú ár þrátt fyrir gríðarleg flóð og aurskriður í landinu í desember 1999. Verðbólga lækkaði í 12,5% árið 2001 og það tókst að lækka hlutfall fátækra niður í 39% (Weisbrot 2008). Bólivaríska hagstjórnin sem Chavez-stjórnin fylgdi lyfti Venesúelabúum úr fátækt áður en krafan um „valdaskipti“ (regime change) var sett á dagskrá.
Það sem olli fyrsta samdrætti í þjóðarbúskap Venesúela var hvorki bólvaríska stefnan né meint harðstjórn Chavez heldur stórfelld valdaránstilraun með stuðningi CIA árið 2002 og meðfylgjandi lokun olíuiðnaðar landsins með valdi. Þó að valdaránið væri misheppnað olli það miklu umróti í landinu. Fram að 2003 höfðu stjórnvöld ekki stjórnað olíuiðnaðinum. Lokun hans var skipulögð af „Coordina Democrática“, regnhlífarsamtökum stjórnmálaflokka, verslunarsamtaka og hægrisinnaðra félaga sem leituðust við að steypa stjórninni með óþingræðislegum aðferðum. Við munum skoða valdaránstilraunina nánar síðar, en veitum því athygli að þessi opinskáa stefna hægri vængsins og bandarísku bakmannanna var rekin í andrúmslofti batnandi lífskjara, sérstaklega fyrir þá fátækari.
Því miður var misheppnaða valdaránið ekki endirinn heldur byrjunin á tilraunum til að þvinga Venesúela til að hverfa frá markaðri stefnu. Frá þessum punkti til dagsins í dag hefur landsmálastefna Venesúela verið skotmark stöðugt ískyggilegri aðferða og tilrauna til ólýðræðislegrar yfirtöku.
Niðursveifla fylgdi valdaránstilrauninni árið 2002 og stóð í tvö ár. En landið náði sér samt og árið 2005 óx hagur Venesúela um 9,4%, mesti hagvöxtur í Rómönsku Ameríku. Verðbólga lækkaði niður í 15,3% (Wilpert, 2005). Árið 2012 var Venesúela jafnasta samfélag Rómönsku Ameríku m.t.t. tekjuskiptingar (BBC, 2012). Svo vitnað sé í CNN, „Árið 2011 var Gini-ójafnaðarstuðullinn – sem mælir tekjuójöfnuð – 0,39 samanborið við nærri 0,50 árið 1998, samkvæmt CIA-Factbook.“ Þ.e.a.s. jöfnuður í Venesúela var meiri en í Bandaríkjunum, Kanada eitt stóð framar í samanlagðri Ameríku (Voigt 2013). Þannig að þrátt fyrir raunverulegar og alvarlegar skemmdarverkatilraunir tókst Chavez-stjórninni að fylgja stjórnarstefnu sem hjálpaði þeim fátæku og styrkti samtímis efnahaginn.
–
Hálfsannleikur og lygi
Algeng saga í ríkjandi fréttaflutningi um kreppu Venesúela er að hana megi alveg rekja til „óstjórnar, spillingar og pólitískrar kúgunar“ þeirra Chavez og Maduros (Laya, 2019). Slík túlkun er studd dæmum um „hollensku sýkina“ (þegar land verður of háð einni vöru en Venesúela er mjög háð olíu), um ofurútgjöld til samfélagsverkefna, um miklar lántökur og spillingu. Þessar fullyrðingar myndu vel þola málefnalega umræðu ef Venesúela hefði í reynd fengið frið. En ekkert væri fjær sanni.
–
Spilað með olíuverð
Atriði sem of sjaldan er nefnt í sögunni um efnahagsáföll Venesúela er skipulögð afskipti Sádi-Arabíu og bandamanna þeirra af olíuverði sem virðist einkum hafa haft þann tilgang að skaða Íran (Cooper) og önnur olíu-háð ríki eins og Venesúela og Rússland. Sádi- Arabía fór frá árinu 2014 að dæla ódýrri olíu út á markaðinn, þó svo að aðgerðin skaðaði Sádi-Arabíu sjálfa. Það hafði harkalegar afleiðingar. Olíuverð féll frá 110 dollurum á tunnu niður í 28 dollara á tveimur árum (Puko, 2016). Þetta hrap olíuverðs hafði skjótar afleiðingar á ríkisbúskap Venesúela sem og önnur olíu-háð lönd og eyddi reiðufé Venesúela. Það er vissulega rétt að Venesúela er ofurháð einni auðlind og á við alvarlegan spillingarvanda að stríða. En erfitt er að sjá hvernig ríkisstjórn Venesúela ætti að geta svarað svo ofurþungu efnahagslegu höggi samtímis alvarlegum refsiaðgerðum og efnahagslegum skemmdarverkum sem þegar þjökuðu landið. Hægri stjórn hefði ekki vegnað betur við þau skilyrði. Í stað þess að sýna skilning á vandamálum landsins var kreppan notuð til að fordæma Maduro-stjórnina og reka áróður sem jók líkurnar á ofbeldisfullri erlendri og innlendri árás.
–
Áhrif efnahagslegra refsiaðgerða
Refsiaðgerðir af hálfu öflugustu efnahagslegu og hernaðarlegu stórvelda geta lamað hvaða hagkerfi sem er. Jafnvel hlutfallslega mildar refsiaðgerðir geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir það hagkerfi sem í hlut á. Reiknað hefur verið út að það að leggja efnahagslegar refsiaðgerðir á land lækkar verga landsframleiðslu þess um 20-30% að meðaltali, í 10 tíu ár, en alvarlegri refsiaðgerðir hafa alvarlegri afleiðingar (Neuenkirch, 2015). Einnig hefur komið í ljós að efnahags-refsiaðgerðir auka efnahagslegan ójöfnuð og lífskjarabil og koma harðast niður á þeim fátækustu í landinu sem fyrir verður (Afersorgbor & Mahadevan, 2016; Mulder, 2016).
Til dæmis voru refsiaðgerðir lagðar á Serbíu árið 1993 og þeim haldið við til ársins 2001. Þær höfðu eyðileggjandi afleiðingar fyrir almenning og gerði meira en helming þjóðarinnar fátækan og atavinnulausan eða rak hann á flótta (Garfield. R, 2003). Í Írak leiddu refsiaðgerðirnar sem lagðar voru á landið 1990, og var haldið áfram í kjölfar Persaflóastríðsins, til samdráttar í vergri landsframleiðslu frá 38 milljörðum dollara árið 1989 niður í 10,8 milljarða árið 1996. Þjóðarframleiðsla á mann dróst saman um 75% með eyðileggjandi afleiðingum fyrir almenning. Samkvæmt skýrslu Bossuyt (2000) voru samgöngukerfi, orkukerfi og samskiptainnviðir ekki endurreistir á þessu tímabili, iðnaðargeirinn var í molum og landbúnaðarframleiðslan leið mjög vegna refsiaðgerða. „Kaupgeta írakskra launa á miðjum tíunda áratugnum var um 5% af því sem hún var fyrir 1990“ og eins og skrifstofa Þróunarsviðs SÞ viðurkenndi: „landið hefur upplifað umsnúning frá hlutfallslegri velsæld til gríðarlegrar fátæktar… Fyrri framfarir í menntun og læsi hafa algjörlega snúist við á síðustu 10 árum“ (s.st.).
Eins og ætti að vera augljóst þá hafa efnahagslegar refsiaðgerðir hroðalegar afleiðingar fyrir efnahag þeirra landa sem fyrir verða og íbúa þeirra. Undarlegt er að álitsgjafar, ritstjórnargreinar og fréttapistlar virðast algjörlega horfa fram hjá því að hrokafull stórskotahríð refsiaðgerða gegn Venesúela gæti átt þátt í núverðandi kreppu landsins. Blaðamenn sem sleppa því að fjalla um það er ekki hægt og á ekki að taka alvarlega.
–
Hrunið í Venesúela beintengt refsiaðgerðunum
Árið 2006 voru fyrstu efnahagslegu refsiaðgerðir settar á Venesúela af mikilvægasta viðskiptaaðila landsins og, að því er virðist, versta óvini þess, BNA. Í fyrstu beindust þær gegn einstaklingum en smám saman hafa þær verið hertar og orðið að grimmum og alvarlegum refsiaðgerðum gegn ríkinu Venesúela.
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti Lög um mannréttindi og verndun lýðræðis í Venesúela (H.R. 4587; 113th Congress) 28. maí 2014. Þau beindust gegn embættismönnum Venesúela sem voru sagðir tengjast illri meðferð á þátttakendum í mótmælum það ár.
Í desember sama ár setti Fulltrúadeildin lögin S. 2142 (Lög um mannréttindi og borgaralegt samfélag í Venesúela). Lögin fólu forsetanum að leggja refsiaðgerðir á „hvern þann einstakling, þ.á.m. sérhvern núverandi eða fyrrverandi embættismann ríkisstjórnar Venesúela eða einstakling starfandi á vegum þeirrar ríkisstjórnar“ sem Fulltrúaþingið telur ábyrgan fyrir mannréttindabrotum eða sem „vísvitandi veitti efnislegan stuðning, verulegan fjárhagslegan og tæknilegan stuðning eða lagði fram vörur og þjónustu sem nýttist til slíks verknaðar“ (Poling o. a., 2014). Þegar Fulltrúadeildin samþykkti lögin létu bandarískir viðskiptaaðilar í ljós áhyggjur af því að þessi löggjöf gæti leitt af sér umfangsmeiri refsiaðgerðir gegn hagkerfi Venesúela, þ.á.m. olíuiðnaðinum, þótt hún samkvæmt kynningu beindist aðeins að einstaklingum (s.st.).
Þann 9. mars 2015 gaf Obamastjórnin út forsetatilskipun. Í henni var Venesúela skilgreint sem ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna og frekari refsiaðgerðir voru ákvarðaðar gegn Venesúelskum embættismönnum. Hvernig Venesúela ógnaði þjóðaröryggi BNA var ekki útskýrt. Tilskipunin var harkalega fordæmd af Sambandi ríkja Rómönsku Ameríku og ríkja Karíbahafs fyrir „einhliða þvingunaraðgerðir sem stríða gegn alþjóðalögum“ (Tejas, 2015). Ernesto Samper aðalritari Bandalags þjóða Rómönsku Ameríku mat það svo að tilskipunin væri tilraun til að trufla lýðræðislegt ferli í Venesúela.
Trumpstjórnin jók til muna þær efnahagslegu þvinganir sem hófust með stjórn Obama. Þetta voru meðal annars efnahagslegar refsiaðgerðir gegn ríkisstjórn Venesúela og harðar árásir á olíuiðnað ríkisins. Hinar nýju efnahagsþvinganir sem voru settar á með tilskipun forsetans númer 13808 þann 24. Ágúst 2017 voru beinlínis árás gegn efnahagi Venesúela og íbúum landsins. Í henni er sérstaklega komið í veg fyrir að hægt sé að færa hagnað ríkisolíufyrirtækis Venesúela til heimalandsins, kemur í veg fyrir lántöku ríkisins og bannar sölu með ríkisskuldabréf (Ellner, 2019). Þess bera geta að þetta er mögulegt í ljósi þess að útistandandi erlend skuldabréf Venesúela eru undir lögjöf New York ríkis, og helsta ríkiseign Venesúela, ríkisolíufyrirtækið (PDVSA), er skráð í Texas.
Efnahagslegar refsiaðgerðir Bandaríkjanna hafa í sannleika haft eyðileggjandi áhrif á efnahag Venesúela. Francisco Rodriguez, venesúelskur hagfræðingur og gagnrýnandi stjórnar Venesúela um árabil, birti skýrar vísbendingar um að frá 2015, og sérstaklega eftir refsiaðgerðir lagðar á af Trumpstjórninni 2017, hefði olíuframleiðsla Venesúela dregist miklu hraðar saman en spáð hafði verið. Samkvæmt Rodriguez dróst olíuframleiðsla landsins saman um 37% eftir að refsiaðgerðirnar gerðu það ólöglegt fyrir ríkisstjórn Venesúela að fá lán í Bandaríkjunum, samanborið við þann 6-13% samdrátt sem spáð hafði verið. Rodriguez reiknaði út að tekjumunurinn í heild ef borið var saman „refsiaðgerðir“ og hins vegar „ekki-refsiaðgerðir“ næmi um 6 milljörðum dollara á einu ári. Sú upphæð er 133 sinnum hærri en upphæð sú sem Flóttamannastofnun SÞ hefur beðið um til aðstoðar flóttamönnum frá Venesúela. Rodriguez dró saman höfuðorsakir efnahagshruns í Venesúela á eftirfarandi hátt: „Fall í olíuframleiðslu hófst þegar olíuverð hrapaði snemma árs 2016 en magnaðist þegar olíuiðnaðurinn missti aðgang að lánamörkuðum árið 2017“ (Rodriguez, 2018).
Með orðum Rodriguez: „Til þess að skilja mikilvægi þessara áhrifa skuluð þið taka tillit til þess hversu mikið Venesúela myndi hagnast á olíu-útflutningi í dag ef ekki hefði dregið úr framleiðslunni. Ef landið seldi jafn margar tunnur til útflutnings í dag eins og var árið 2015, hefði það flutt út virði 51 milljarðs dollara af olíu á þessu ári. Til samanburðar mun Venesúela aðeins selja 21 milljarð dollara af olíu alþjóðlega árið 2018; Og, ef framleiðslan heldur áfram að minnka, einungis 16 milljarðar dollara árið 2019. Við getum sagt það með mikilli vissu að ef landið fengi 28 milljörðum dollara meira í útflutningstekjur en það gerir í dag, þá hefði það ekki mátt þola slíka skerðingu á lífskjörum eins og raun ber vitni.”
Bandaríkin kynntu enn nýjar refsiaðgerðir gegn Venesúela þann 28. janúar sl. Að þessu sinni snúa þær sérstaklega að „einstaklingum sem starfa í olíuiðnaði Venesúela”, sér í lagi Petroleos de Venezuela (PDVSA). Fjölmiðlatilkynningin sem boðar þessar nýju refsiaðgerðir tekur meira að segja fram að BNA muni „halda áfram að beita beinum og öflugum aðgerðum gegn þeim sem standa á móti friðsamlegri endurreisn lýðræðis í Venesúela” og bætir við að Bandaríkin standi „með Juan Guaido bráðabirgða-forseta”, ókjörnum manni (Utanríkisráðuneyti BNA, 2019). Þetta þýðir að refsiaðgerðir Bandaríkjanna snúast ekki einvörðungu um eignir erlends ríkis og skaða vísvitandi efnahag þess, heldur hafa BNA bein afskipti af innanríkismálum annars lands, sem er í trássi við alþjóðalög.
Þessari alvarlegu árás á efnahag Venesúela hefur verið fylgt eftir af bandamönnum BNA. Nýverið neitaði Englandsbanki að láta af hendi 1,2 milljarða dollara gullforða eftir afskipti John Boltons þjóðaröryggisráðgjafa og Michael Pompeo utanríkisráðherra. (Laya, Bronner & Ross, 2019).
Þessum aðgerðum hefur verið lýst sem „ólöglegum og gætu flokkast undir 'glæpi gegn mannkyni' samkvæmt alþjóðalögum” af Alfred de Zayas, fyrrum rannsóknarfulltrúa SÞ. Samkvæmt de Zayas stunda Bandaríkin „efnahagshernað” gegn Venesúela sem leiðir af sér efnahagsskaða og dauðsföll Venesúelabúa (Selby-Green, 2019). Þar sem refsiaðgerðirnar virðast vera aðferð til að svelta íbúa Venesúela og vísvitandi að bækla efnahaginn í pólitískum tilgangi, mætti með réttu kalla þessar aðgerðir hryðjuverk.
Það er óvíst að nokkur efnahagur gæti lifað af svo ofsafengnar refsiaðgerðir. Því miður eru þær aðeins einn hluti umfangsmikilla skemmdarverka sem hafa verið unnin á efnahag og samfélagi landsins. Jafnvel enn meiri ógn við efnahag Venesúela en ofangreindar erlendar refsiaðgerðir undir bandarískri forustu eru samt áberandi athafnir framdar af innlendum óvinum ríkisstjórnar Venesúela og framsækinnar bólivarískrar stefnu hennar.
–
Grafið undan landinu innan frá
Allt frá því árið 1999 hefur ríkisstjórn Venesúela verið undir sífelldri árás frá hinni ofur-ríku og valdamiklu stétt viðskiptajöfra sem hata bólivarísk stjórnmál af ástríðu. Þessir ólígarkar hafa notið stuðnings frá Bandaríkjunum, ásamt öfga-hægriöflum í álfunni, ekki síst í Kólumbíu.
Fyrsta raunverulega valdaránstilraunin átti sér stað í apríl 2002. Hún hófst með verkfalli/verkbanni innan ríkisolíufélagsins PDVSA og var fylgt eftir af mótmælagöngum í gegnum Caracas. Þegar mótmælin nálguðust Miraflores-höllina hófst blóðbað þar sem 16 létust, 7 lögreglumenn og 9 óbreyttir borgarar. Innan nokkurra stunda hafði yfirstjórn hersins handtekið Chavés og skipað Pedro Carmona, yfirmann stærstu viðskiptasamsteypu Venesúela, forseta í hans stað. Hans embættistíð entist í 48 stundir. Á þeim stutta tíma leysti Carmona upp þingið og aflýsti ný-samþykktum breytingum á stjórnarskrá Venesúela. Hópar fólks voru handteknir og lýst yfir herstjórn í landinu. Hins vegar tókst þúsundum mótmælenda og fólki úr röðum hersins sem stóð gegn stjórn Carmona að snúa taflinu við. Samkvæmt Bellos (2002) sat Bush-stjórnin „eftir með nokkra niðurlægingu. Öfugt við lönd Rómönsku Ameríku, sem lýstu áhyggjum af því að valdaránið hefði yfirgefið lýðræðislegar reglur, sýndu Bandaríkin enga eftirsjá varðandi það hvernig Hr. Chavez var bolað frá völdum.“
Frásagnir af því hvað nákvæmlega gerðist eru enn mjög hlutdrægar, en valdaránstilraunin hafði verið skipulögð í a.m.k. 9 mánuði af hópi viðskiptajöfra, yfirmanna í hernum og ýmsum einstaklingum í stjórnarandstöðu Venesúela. Í ljósi þess hve lengi þetta valdarán var undirbúið er erfitt að taka alvarlega fullyrðingar um að sá undirbúningur hafi verið ótengdur atburðunum sem urðu árla morguns 11. Apríl, mótmælunum og blóðbaðinu sem leiddu af sér handtöku Chavezar og annara stjórnmálamanna af hálfu hópa innan hersins. Einkafjölmiðlar voru óheiðarlegir í umfjöllun sinni um atburði þessa dags (sjá: Wilpert, G. 2009) og voru því samsekir í valdaránstilrauninni.
Þó að það sé ekki vitað í hve miklum mæli stofnanir í Bandaríkjunum tóku þátt í valdaránstilrauninni, þá vissu bandarískir embættismenn að hún væri yfirvofandi. Árið 2004 voru afhjúpuð leyniskjöl, sem sýndu að Leyniþjónusta Bandaríkjanna vissi að andófsmenn innan hersins og stjórnarandstæðingar í Venesúela skipulögðu valdarán gegn Hugo Chávez forseta árið 2002, með löngum aðdraganda. Í skjalinu segir m.a.: „ósáttir foringjar hátt settir í hernum og hópur róttækra lægra settra foringja herða nú tilraunir sínar til að skipuleggja valdarán gegn Chávez forseta, hugsanlega þegar í þessum mánuði…“ Þarna stóð að handtaka ætti Chávez og 10 háttsetta foringja og að launráðsmenn myndu reyna að „notfæra sér ólgu sem stafar af mótmælagöngum stjórnarandstöðunnar sem eiga að fara fram síðar í mánuðinum“ (Forero, 2004).
Í nóvember 2013, í kjölfar málaferla frá lögmanninum Evu Golinger (2013) kom upp á yfirborðið skjal undir nafninu „Plan Estratégico Venezolano“ eða „Hernaðaráætlun fyrir Venesúela“ sem var skrifað í júní það sama ár. Skjalið útlistaði áætlun frá fulltrúum Bandaríkjanna, Kólumbíu og ólígarkanna í Venesúela um að grafa undan efnahag Venesúela sem lið í því að fjarlægja Maduro. Skjalið var undirbúið af „Democratic Internationalism Foundations“ sem er undir forystu fyrrum forseta Kólumbíu Alvaro Uribe, og einnig af „First Colombia Think Tank“ ásamt Bandaríska ráðgjafafyrirtækinu FTI Consulting.
Skjalið er afar skuggaleg lesning. Þar er dregin upp herkænskuleg áætlun til að skapa óstöðugleika í Venesúela með ýmsum aðferðum. Til dæmis er þar áætlun um að vinna skemmdarverk á rafkerfi landsins, „halda áfram að framkvæma og auka við skemmdarverk sem hafa áhrif á almannaþjónustu“ og „auka vandamál við útvegun grunn-neysluvarnings“. Hvað áróður varðar stinga höfundarnir upp á því að „fullkomna átaka-orðræðu Henrique Capriles“ [frambjóðenda stjórnarandstöðunnar] og höfða til „tilfinninga með stuttum skilaboðum sem ná til sem flestra, leggja áherslu á samfélagsleg vandamál og vekja þannig ósætti í samfélaginu.“ Það sem alvarlegra er, höfundar leggja til að skapað verði „neyðarástand á götum úti sem greiðir fyrir bandarískri íhlutun, ásamt NATO herafla, með aðstoð kólumbísku ríkisstjórnarinnar“, og þeir bæta við „hvar sem hægt er þyrfti ofbeldið að leiða af sér einhvern fjölda dauðra eða slasaðra“. Skjalið talar fyrir „hernaðarlegri uppreisn“ gegn Venesúelska ríkinu með því að „hafa samband við virka hernaðarhópa og hermenn á eftirlaunum til að styrkja uppreisnina og koma óorði á ríkisstjórnina innan hersins … Það er nauðsynlegt að undirbúa heraflann þannig að við aðstæður neyðarástands og samfélagsátaka muni hann leiða uppreisn gegn ríkisstjórninni, eða í það minnsta styðja erlenda íhlutun eða borgaralega uppreisn“ (Golinger, 2013).
Áætlunin var samin á fundi samtakanna þriggja ásamt leiðtogum úr stjórnarandstöðu Venesúela, þ.á.m. Maria Corina Machado, Julio Borges, Ramon Guillermo Avelado; og J.J. Rendon sérfræðingi í sálfræðilegum aðgerðum og Mark Feierstein, deildarstjóra rómönsk-amerísku deildar Bandarísku Stofnunarinnar um Alþjóðlega Þróun (USAID).
Maður spyr sig hve mörg slík áform hafa verið útfærð síðan en ekki afhjúpuð. Athafnir og orðræða þessara ólígarka sýnir hversu lágt þeir eru tilbúnir að leggjast til þess að steypa lýðræðislega kjörinni ríkisstjórn.
Stjórnarandstaðan í Venesúela hefur verið mjög ofbeldisfull og sýnt algjört skeytingarleysi um lýðræðisreglur. Til dæmis: árið 2014 reið yfir stór alda mótmæla í Venesúela í kjölfarið á niðurstöðum forsetakosninganna 2013, þar sem Nicolas Maduro vann með naumum meirihluta, 50,6%. Á þessum óeirðatíma settu stjórnarandstæðingar eins og Leopoldo Lopéz, sem hafði líka verið viðriðinn valdaránstilraunina árið 2002, og María Corina Machado, af stað herferð til að koma Maduro úr embætti. Áætlunin bar nafnið „La Salida„ (útgönguleiðin) með það markmið að þvinga Maduro til að segja af sér vegna mótmæla. Machado sagði opinberlega „við verðum að skapa óreiðu á götum úti“ (Carasik, 2014). Að minnsta kosti 36 manns dóu í kjölfarið á þessu ákalli. Eins og fyrirsjáanlegt var kenndi stjórnarandstaðan ríkisstjórninni um þessi dauðsföll. En þegar þess er gætt að í valnum lágu líka löggæsluliðar, borgarar hlynntir ríkisstjórninni og aðrir sem að því er virtist komu málinu ekkert við, þá verður að véfengja þá fullyrðingu (sjá: Hart, 2014).
Nýverið virðist stofnun sem kallast „Democratic Unity Roundtable“ hafa verið að skipuleggja ofbeldisverk gegn skilgreindum Chavez-sinnum (Joubert-Ceci, 2017). Þessi hópur var stofnaður árið 2008 til þess að sameina andstöðuna gegn Chávez og má líta á sem arftaka Coordinadora Democrática. Ofsafengin mótmælin snerust um kall Maduros eftir kjöri stjórnlagaþings til að endurskrifa stjórnarskrána. Þrátt fyrir að hafa sjálf kallað eftir stjórnlagaþingi neitaði stjórnarandstaðan að taka þátt í viðræðum þar um, og fór fram á þátttöku Vatíkansins í þeim. En Frans páfi sagði síðar sjálfur að viðræðurnar hefðu misheppnast vegna þess að stjórnarandstaðan neitaði að taka þátt (Nelson, 2017). Í staðinn blés stjórnarandstaðan til mótmæla þar sem mótmælendur gegn Maduro hófu öldu ofbeldis sem leiddi til a.m.k. 100 dauðra (s.st.). Um þetta skrifar Kanadíska Friðarráðið (Canadian Peace Congress) 2017: „Ef tilraunir til gangbyltingar innanlands misheppnast, eru uppi áform um beina hernaðaríhlutun af hálfu Bandaríkjanna, hugsanlega undir regnhlíf Samtaka Ameríkuríkja (OAS)“ (s.st.). Það er í það minnsta ljóst að stjórnarandstaðan er algjörlega ólýðræðisleg í ráðagerðum og athöfnum sínum, en nýtur samt sem áður stuðnings Vesturveldanna.
Að flytja fréttir þess efnis að efnahagskreppa Venesúela stafi einungis af „sósíalískri“ stefnu Maduros, en horfa fram hjá grafalvarlegum afleiðingum refsiaðgerða, spils með olíuverð, og skemmdarverka innanlands – það er að hunsa markvisst staðreyndir, það er áróðursblaðamennska. Upplýst umræða um áhrif og kostnað framsækinna samfélagsáætlana kann að vera áhugaverð og gagnleg fræðileg æfing. En afbökun og afneitun á sögulegum staðreyndum og tilfinningaþrungnar árásir á ríkisstjórn Venesúela á að skoða sem áróður, hannaðan til þess að fá íbúa Bandaríkjanna, Kanada og Evrópu til þess að styðja ofbeldisfull valdaskipti hjá enn einni olíuframleiðsluþjóð.
Greinina íslenskuðu Þórarinn Hjartarson & Bjarmi Þ. Dýrfjörð
Heimildir:
Afersorgbor, S. K. & Mahadevan, R. 2016. The impact of economic sanctions on income inequality of target states. World Development, 83, p. 1-11.
BBC. (August 22., 2012). UN study says wealth gap in Latin America increases. Má nálgast á https://www.bbc.co.uk/news/world-latin-america-19339636.
Bellos, A. (April 15., 2002). Chavez rises from very peculiar coup. The Guardian. Má nálgast á https://www.theguardian.com/world/2002/apr/15/venezuela.alexbellos
Bossuyt, M. (June 21, 2000). The adverse consequences of economic sanctions. Global Policy Forum; Economic and Social Council. Má nálgast á https://www.globalpolicy.org/global-taxes/42501-the-adverse-consequences-of-economic-sanctions.html#case-a.
Carasik, L. Obama continues Bush’s policies in Venezuela. Al Jazeera. Má nálgast á http://america.aljazeera.com/opinions/2014/4/nicolas-maduro-onobamaandbushspoliciesinvenezuela.html
Cooper, A. S. (Dec. 18., 2014). Why would the Saudis deliberately crash the oil markets? Foreign Policy. Má nálgast á https://foreignpolicy.com/2014/12/18/why-would-the-saudis-crash-oil-markets-iran/
Corrales, J. (Fall 1999). Venezuela in the 1980s, the 1990s and beyond. Revista: Harvard Review of Latin America. Má nálgast á https://revista.drclas.harvard.edu/book/venezuela-1980s-1990s-and-beyond
Ellner, S. (January 25, 2019). The radicalization of US policy on Venezuela. Consortium News. Sjá einnig https://www.treasury.gov/resource-center/sanctions/Programs/Documents/13808.pdf.
Forero, J. (Dec. 3, 2004). Documents show C.I.A. knew of a coup plot in Venezuela. The New York Times.
Garfield, R. (2003, June). Sanctions and the Federal Republic of Yugoslavia: assessing impacts and drawing lessons. Humanitarian Practice Network (HPN). Má nálgast á https://odihpn.org/magazine/sanctions-and-the-federal-republic-of-yugoslavia-assessing-impacts-and-drawing-lessons/
Golinger, E. (Nov. 8, 2013). Document evidences destabilization plan against Venezuela. Venezuela Analysis. Allt skjalið má nálgast á https://www.scribd.com/document/184396951/FTI-Consulting-Fundacion-Colombia-Plan-Estrategico-Venezolano-2013 og https://actualidad.rt.com/opinion/eva_golinger/view/110489-documento-evidencia-plan-desestabilizacion-venezuela-golinger
Hart, P. (March 26, 2014). Who is dying in Venezuela? A revealing NYT correction. FAIR. Má nálgast á https://fair.org/home/who-is-dying-in-venezuela-a-revealing-nyt-correction/
Joubert-Ceci, B. (May 31, 2017). Venezuela restists U.S. sabotage. Workers World. Má nálgast á https://www.workers.org/2017/05/31/venezuela-resists-u-s-sabotage/
Laya, P. Bronner, E. & Ross, T. (January 25, 2019). Maduro Stymied in bid to pull $1.2 billion of gold from U.K. Bloomberg.
Laya, P. (Jan. 23, 2019). Venezuela’s collapse. Bloomberg. Má nálgast á https://www.bloomberg.com/quicktake/venezuela-price-revolution
Mulder, N. (2018, 20.11). A leftist foreign policy should reject economic sanctions. The Nation. Má nálgast á https://www.thenation.com/article/sanctions-economy-foreign-policy/.
Neuenkirch, M. 2015. The impact of UN and US economic sanctions on GDP growth. European Journal of Political Economy, 40, p. 110-125.
Nelson, J. (August 11, 2017). Venezuela: Target of economic warfare. Counterpunch. Má nálgast á https://www.counterpunch.org/2017/08/11/venezuela-target-of-economic-warfare/
Poling, J. C., Segall, W. H., Davis, C. C. & Grant. A. H. (Dec. 18, 2014). Obama to sign Venezuela sanctions bill. Aking Gump, International Trade Alert.
Puko, T. (Feb. 9., 2016). Oil settles below $28 per barrel. The Wall Street Journal. Má nálgast á https://www.wsj.com/articles/oil-prices-rise-on-output-uncertainty-1454993303
Rodríguez, F. (September 20, 2018). Crude realities: Understanding Venezuela’s economic collapse. WOLA: Advocacy for human rights in the Americas.
Selby-Green, M. (Jan. 27, 2019). Venezuela crisis: Former UN rapporteur says US sanctions are killing Venezuelans. The Independent. Má nálgast á https://www.independent.co.uk/news/world/americas/venezuela-us-sanctions-united-nations-oil-pdvsa-a8748201.html
Tejas, A. (13 March 2015). Venezuela president Nicolas Maduro granted special powers designed to counter ‘Imperialism’. International Business Times.
Trading Economics. (2019). Venezuela Government debt to GDP. Má nálgast á https://tradingeconomics.com/venezuela/government-debt-to-gdp
U.S. Department of State. (Jan. 28, 2019). Sanctions against PDVSA and Venezuela oil sector. Press release. Má nálgast á https://www.state.gov/secretary/remarks/2019/01/288623.htm
Voigt, K. Chavez leaves Venezuelan economy more equal, less Stable. CNN Business. Má nálgast á https://edition.cnn.com/2013/03/06/business/venezuela-chavez-oil-economy/index.html
Wilpert, G. Venezuelan economy grew 9,4% in 2005. Venezuelan analysis. Má nálgast á https://venezuelanalysis.com/news/1547
Weisbrot, M. (Fall, 2008). Poverty reduction in Venezuela. Revista: Harvard Review of Latin America. Má nálgast á https://revista.drclas.harvard.edu/book/poverty-reduction-venezuela
Wilpert, G. (June 26, 2009). The Venezuelan coup revisited: Silencing the evidence. NACLA. Má nálgast á https://nacla.org/article/venezuelan-coup-revisited-silencing-evidence.