Starfsmannasamvinnufélög eru lykilhluti af byltingu alþýðunnar, ef rétt er að staðið

31. ágúst, 2024

Einkaeign á fyrirtækjunum er uppspretta arðráns og firringar

Völdin í samfélaginu liggja ekki einungis í formlegum embættum og þingræði. Þau liggja einnig, og reyndar fyrst og fremst, í efnahagskerfinu. Völdin sem eigendur og stjórnendur stærstu fyrirtækjanna, framleiðslutækjanna, hafa yfir okkur sauðsvörtum almúganum eru mikil og margvísleg. Flest okkar eru háð launaseðli til að lifa af. Þennan launaseðil fáum við með því að selja vinnuafl okkar í svo og svo marga tíma á dag til þessara fyrirtækja. Við seljum sumsé bæði búta úr lífinu, einbeitingu okkar, erfiði og svo afrakstri vinnunnar sem við reiddum af höndum til eigenda fyrirtækjanna, sem svo borga okkur laun. Fyrirtækin eiga þetta vinnuframlag og ef fyrirtækið stækkar og dafnar, getur borgað eigendum sínum arð og skilar hagnaði, þá þýðir það um leið að það hefur ekki borgað launþegunum nákvæmlega virði vinnuaflsins sem launþegarnir lögðu í það. Þessi mismunur, virðisaukinn, er undirstaða auðs og valda þeirrar stéttar fólks sem á fyrirtækin og stjórnar þeim. Afrakstur vinnunnar, það sem starfsfólkið hefur lagt erfiði sitt, sköpunargáfu og tíma sinn í, þetta er allt í eign eigenda fyrirtækjanna. Starfsfólkið er firrt þessum hluta lífs síns. Svo hefur verið síðan efnahagskerfi okkar kom fram og svo er það enn.

Litlu alræðisríkin

Þeir sem eiga stærstu fyrirtækin og stjórna þeim er fámennur hópur fólks í samanburði við þann hóp sem telst til launþega. En þessi fámenni hópur ræður ekki einungis því hvað hver launþegi gerir í 8 tíma á hverjum virkum degi, í hinum litlu alræðisríkjum sem vinnustaðir eru, heldur hefur úrslitaáhrif á það hvernig umhverfi launþegarnir búa við í frítíma sínum. Við kaupum vörurnar frá þessum hópi, borgum þeim fyrir þjónustu sem við þurfum, borgum vexti af lánum fyrir heimilunum sem við búum við til banka í eigu einhverra úr þessari stétt, horfum á auglýsingarnar frá þeim og afþreyingarefnið sem var búið til í krafti fjármagns sem þessi stétt lagði af höndum og kaupum kvíðalyf frá þeim svo við komum ekki ósofin í vinnu næsta dag.

Áskrift að lagasetningu

Ofan á þetta hefur þessi sama stétt úrslitaáhrif á það hvaða lög eru samin í landinu. Á pappírnum eigum við öll sama möguleika til að taka þátt í stjórnmálastarfi og áróðri fyrir honum. En í rauninni stöndum við ekki alveg á sama stað þegar kemur að því að hafa áhrif á skriffinskuveldið. Þarna spila auðvitað inn í hlutir á borð við hversu mikið fé einstaklingurinn hefur tök á því að nota til að leigja lögfræðinga, almannatengslafulltrúa, húsnæði og annað slíkt sem auðveldar pólitíska baráttu. En munurinn liggur í fleiru. Góðir kapítalistar verða að kunna að byggja sér gott tengslanet. Í gegnum sameiginleg áhugamál, vensl, virðulegar reglur og að þekkja hvert annað styrkja kapítalistar sig í sessi með því að gera hvor öðrum greiða. Þau geta boðið börnum hvors annars góðar stöður á toppnum, hjálpað til með að mála pallinn í sumarbústaðnum eða hvað sem er, allt til þess að byggja upp þetta dýrmæta tengslanet. Aðgangur að því er sterkara en allt annað þegar kemur að því að hafa áhrif á hið formlega valdakerfi. Að þekkja fólk sem þekkir reglurnar, sem kann fortölulistina, og hefur aðgang að þeim sem taka ákvarðanirnar í stofnanakerfinu er ávísun á að geta ráðið því á endanum hvaða lög gilda í landinu okkar. Embættis- og stjórnmálamenn sem fá boð um að gerast ráðgjafar hjá stórfyrirtækjum eftir að ferill þeirra í stjórnmálum eru keyptir, og gildir það engu hvort þeir vinni undan merkjum „vinstri“ eða „hægri“ flokka. Eftir stöndum við, plebbarnir, og grátum valdleysi okkar, nöldrum yfir fréttunum og bíðum eftir eftirlaununum.

Öflugasta vopnið er svo kannski áróðurinn. Síðustu 100 árin eða svo hefur gríðarlega mikið fé verið notað til að þróa, prófa og beita áróðurstækni í gegnum sér til hannaðan iðnað, Almannatengslaiðnaðinn, sérstaklega til að hafa áhrif á ákvörðunartöku stjórnmálafólks, fjölmiðla og almennings alls. Því meira fé sem hver hefur til að ráða, þeim meiri tök hefur sá á að hafa áhrif á það hvaða ákvarðanir eru teknar í samfélaginu (sjá nánar hér).

Ráðumst á rót vandans

En þetta þarf ekki að vera svona. Þó að við finnum oft fyrir máttleysi gagnvart gangi heimsins og pólitíkinni, þá vitum við um leið að við höfum óbeislaða orku og völd. Við erum auðvitað miklu fleiri en stétt eigendanna. Við erum sterk og vel að okkur og sagan sýnir að ef við stöndum saman og erum nógu reið, þá á engin fámenn valdastétt möguleika gegn okkur.

Baráttan fyrir frelsinu frá launaþrældómi, fyrir að geta haft eðlilega mikil áhrif á það hvernig umhverfi okkar er stjórnað, fyrir framtíð barna okkar, getur verið á ýmsa vegu. Við erum, skiljanlega skeptísk á stjórnmálaflokka og sjálfskipaða byltingaforingja sem þykjast ætla að gera þetta fyrir okkur, bara ef við gefum þeim völdin til þess. Við höfum verið svikin nógu oft af slíku. Við vitum líka að það stoðar lítið að rústa samfélaginu og innviðum þess í einhverri reiðiútrás. Byltingin þarf að vera yfirveguð, og við þurfum að sætta okkur við að vera þolinmóð.

Ein leið til þess að hafa raunverulega áhrif á gang mála er að skoða sjálfan grunninn af þeim völdum og auði sem eignastéttin hefur: Arðránið. Þar sem uppsprettan af auðvaldinu liggur í mismuninum á því vinnuframlagi sem launþegarnir leggja fram og svo söluverðinu á lokaafurðinni, er ekki einmitt eðlilegt að ráðast strax að þessari uppsprettu?

Um starfsmannasamvinnufélög

Land O’Lakes er meðal stærstu starfsmannasamvinnufyrirtækja Norður Ameríku. Það er í eigu rúmlega 1700 bænda. Sjá nánar hér.

Starfsmannasamvinnufélög eru fyrirtæki sem eru bæði í eigu og undir stjórn þeirra sem starfa í þeim. Þetta eru því hvorki einkafyrirtæki, né fyrirtæki á vegum hins opinbera, og reyndar einnig töluvert frábrugðin þeim samvinnufyrirtækjum sem voru algengust á Íslandi á árum áður. Ýmsar útfærslur eru til á skipulagi þessara fyrirtækja. Til dæmis geta helstu ákvarðanir verið teknar beint af starfsmönnunum á skipulagsfundum, eða að starfsmennirnir kjósa fulltrúa úr sínum röðum til að ræða skipulagsmál. Fyrirtækin geta verið stofnuð á þessum forsendum, en einnig eru til dæmi um að fyrirtæki sem áður voru í einkaeigu, eða í eigu hins opinbera, hafi verið yfirtekin af starfsfólkinu. Þetta getur gerst við beina yfirtöku, en einnig í gegnum pólitísk verkfæri á borð við „Employee stock ownership plan“ (ESOP) sem hafa verið tekin upp af fyrirtækjum og ríkisstjórnum síðustu ár einmitt vegna þess að þessi aðferð getur bjargað fyrirtækjum úr erfiðum aðstæðum.

Þessi tegund fyrirtækja hefur verið mikilvægur hluti af hreyfingu verkalýðsins alla tíð og er hornsteinn hugmyndafræði sem kenna má við frjálslyndan sósíalisma, þar sem reynt er að komast hjá hugmyndinni um nauðsyn yfirvalds og misrétti í samfélaginu án þess að reiða sig á skriffinskuveldi ríkis eða sveitarfélaga. Með því að taka beint völdin á vinnustöðunum eru grunnstoðir efnahagskerfisins færð beint yfir til verkalýðsins.

WAGES er starfsmannastýrt fyrirtæki ræstitækna á vesturströnd Bandaríkjanna. Þar tekur starfsfólkið sjálft ákvarðanir um hvað gert er í fyrirtækinu og deilir þeim hagnaði sem erfiði þeirra skapar sjálft.

En tortryggni ríkir um þessa tegund fyrirtækja og er ýmsu fleygt fram um það hvers vegna þau geti aldrei gengið upp. Ein þeirra fullyrðinga sem gjarnan heyrast eru að þessi fyrirtæki geti ekki keppt við hefðbundin fyrirtæki í framleiðni og nýtingu á hráefni. Þá er sagan eitthvað í þessa átt: Séu þessi fyrirtæki svona góð, hvers vegna eru þau ekki algengari en raun ber vitni? En sé árangurinn skoðaður nánar kemur í ljós að ástæðan fyrir því að þessi fyrirtæki eru ekki ráðandi í dag er ekki vegna þess að þau standa sig verr, þvert á móti.

Sem betur fer hafa farið fram rannsóknir á því hvaða áhrif slíkur fyrirtækjarekstur hefur á bæði starfsfólk sem vinnur í þeim og samfélagið almennt, og einnig hvaða mistök ber að forðast í slíkum rekstri. Hér verður ein slík rannsókn skoðuð.

Samanburðarrannsókn á starfsmannasamvinnufélögum

Virginie Pérotin, hagfræðiprófessor hjá háskólanum í Leeds, er einn helsti sérfræðingur heims í málefnum starfsmannasamvinnufyrirtækja. Pérotin er ein þeirra sem hafa rannsakað ítarlega hvernig þessi fyrirtæki standa sig í hagkerfinu í raun, t.d. hvað framleiðni og hagræðingu varðar. Í samanburðarrannsókn hennar á þessum fyrirtækjum kemur margt athyglisvert í ljós. Meðal þess að á krepputímum eru einmitt þessi fyrirtæki líklegust til að standa af sér storminn og um leið verja þann verkalýð sem að þeim stendur. Þetta sýnir að vilji verkalýðurinn ná varanlegri valdeflingu þrátt fyrir að standa andspænis krepputímum, er leið starfsmannsamvinnufélaga vænlegur kostur. Þessi tegund fyrirtækja eru meiri jafnaðarvinnustaðir en aðrir og launamunur í þeim er einungis brot af því sem jafnan er í einkafyrirtækjum. Starfsfólk er ánægðara í þessum fyrirtækjum en öðrum og getur búist við meira starfsöryggi en starfsmenn annarra fyrirtækja.

Í rannsókninni sem hér verður skoðuð bar Pératin saman starfsmannasamvinnufélög og hefðbundin einka- eða opinber fyrirtæki á tímabilinu 1950 til 2012. Athugun fór fram á fyrirtækjum í Frakklandi, Spáni, Bretlandi, Bandaríkjunum og Ítalíu.

Starfsánægja og aukin framleiðni

Í rannsóknunum sem Pérotin tók saman kemur fram að hvað starfsánægju varðar er mikilvægasti þátturinn sá að hve miklu leyti starfsfólk tekur beinan þátt í ákvörðunarferlinu. Það að starfsfólk taki beinan þátt í skipulagningu og taki sjálft mikilvægustu ákvarðanir leiðir ekki einungis til aukinnar starfsánægju, heldur um leið meiri framleiðni og betri nýtingar á hráefni. Eignarhaldið sjálft, hvort það er í höndum starfsmanna eða hluthafa, hefur ekki jafnmikil áhrif og ákvörðunartökuþátturinn, þó að sá þáttur skipti miklu máli.

Ein helsta ástæða fyrir því að þátttaka starfsfólks í ákvörðunartöku eykur framleiðni, er að upplýsingaflæðið batnar við þetta kerfi. Starfsmenn hafa oft mun beinni og betri aðgang að mikilvægum upplýsingum um rekstur fyrirtækisins og þetta nýtist þegar þeir hafa beinan aðgang að lokaákvörðunum. Þar eð starfsmennirnir ákveða sjálfir hvað á að gera verður meiri eining og sátt um ákvarðanirnar og því vinnur fólk af meira kappi til að ná markmiðunum.

Starfsmaður sem finnur beint að tekið er mark á sjónarmiði hans og að hann sé metinn að verðleikum og sýnd virðing er ómetanlegur þegar kemur að starfsánægju og velvilja gagnvart fyrirtækinu. Þetta skapar auk þess meiri þrautseigju til að takast á við krefjandi verkefni.

Vitað er um það vandamál að sumir starfsmenn leyfa sér að fljóta með hinum og láta aðra um erfiðustu verkin og ákvarðanirnar. Þetta fyrirbæri er kallað að vera „free loader“, og því hefur verið haldið fram að þetta sé óyfirstíganlegt vandamál fyrir starfsmannasamvinnufélög. En rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu fyrirbæri benda ekki til þess að þetta sé í heildina meira vandamál í þessum tegundum fyrirtækja en öðrum og reyndar þvert á móti. Það sem gögnin sýna er að því meira sem hagnaði fyrirtækisins er dreift og því meira sem ábyrgð og ákvörðunartöku er dreift, þeim meira eykst framleiðni starfsmannahópsins í heild sinni. Það má því segja að því meira sem fyrirtæki fer í átt að sjálfsstýringu og eignarhaldi starfsmanna, þeim meira leggur starfshópurinn á sig í heild.

Það sem drepur samvinnufélögin

Það sem veldur því að samvinnufyrirtæki hafa ekki tilhneigingu til að vera langlíf er því ekki að þessi fyrirtækjarekstur er óhagkvæmur. Það eru aðrir þættir sem hafa tilhneigingu til að drepa smám saman þessi fyrirtæki og séu þessir þættir ekki teknir strax með í reikninginn er illt í efni; en sem betur fer er um leið hægt að koma í veg fyrir þetta.

Eitt stærsta vandamálið er að starfsmannasamvinnufyrirtæki eiga það til að vera of sparsöm á fjárfestingar. Starfsmenn/eigendur hafa einnig oft minni hvata til að láta fyrirtækið vaxa þegar það fé sem þeir leggja í fyrirtækið verður eftir hjá fyrirtækinu þegar þeir hætta störfum. Fjárfesting þeirra vex ekki fyrir þá persónulega. Þeir hafa því ekki beinan fjárhagslegan hvata til að fjárfesta sjálfir meira í fyrirtækinu. Sú fjárfesting hefur tilhneigingu til að enda hjá öðrum einstaklingum en þeim í framtíðinni. Oft enda fyrirtækin þannig að þau eru seld einkafyrirtækjum, gjarnan á undirverði.

Til eru lausnir á þessu vandamáli, en þeim hefur því miður ekki nógu oft verið komið í verk. Eigi starfsmannasamfélög að eiga möguleika á því að umbreyta efnahagnum í stærra samhengi er nauðsynlegt að skoða þennan þátt frá upphafi og lagfæra þennan veikleika. Þau fyrirtæki sem hafa reynst langlífust og vaxið mest eru einmitt þau sem taka á þessu vandamáli. Hjá Mondragon, stærstu samsteypu starfsmannasamvinnufélaga heims, skiptist eignarhlutur hvers samvinnueiganda í tvennt: Eigin þátt og sameiginlegan þátt og er eiginþátturinn greiddur til baka á nafnvirði, en sameiginlegi þátturinn vex með fyrirtækinu. Þessi lausn hefur ekki einungis komið í veg fyrir undirfjárfestingu, heldur hafa beinlínis gert það að verkum að þau fyrirtæki sem passa upp á þetta verða langlífari og sterkari en nokkur önnur fyrirtæki.

Annar þáttur sem getur drepið samvinnufélagið er fyrirbæri sem lýsir sér þannig að með tímanum myndist bil á milli þeirra starfsmanna sem eiga hlut í fyrirtækinu og þeirra sem hafa verið leigðir, ef ekki eru sterkar reglur gegn því. Ef fyrirtæki notast við slíkt starfsfólk sem þiggur einungis laun getur þetta orðið til þess að fyrirtækið endi smám saman sem hefðbundið einkafyriræki og draumurinn er úti.

Hér eru einnig til lausnir, t.d. lög sem krefjast þess að starfsfólk verði smám saman hluthafar, sem koma í veg fyrir þessa þróun og aftur eru það þau fyrirtæki sem beita þessum lögum sem lifa lengst og dafna mest. Hvati á borð við arðgreiðslur eru einnig mikilvægar til að halda dampinum í fyrirtækinu. Frönsk samvinnufyrirtæki virðast standa sig best í þessu og fyrirtæki þar eru langlífust og sterkust.

Sé vilji fyrir hendi að þessi fyrirtæki dafni og leiði til varanlegrar valdeflingar verkalýðsins er algjörlega nauðsynlegt að gæta þessara þátta frá upphafi. Þessir veikleikar starfsmannastýrðra samvinnufélaga munu drepa fyrirtækin ef þeirra er ekki gætt.

Sjá nánar í: Perotin, V. 2012. „The performance of workers’ cooperatives“ (úr bókinni The cooperative business movement, 1950 to the present). UK: Cambridge University Press. Sótt af slóðinni https://www.researchgate.net/publication/285356456_The_Performance_of_Workers’_Cooperatives

Vel skal vanda…

Í stuttu máli er niðurstaðan þessi: Starfsmannasamvinnufélög eru frábær leið til að koma völdum og eignum í hendur almennings, en ef þau eiga að lifa af verður að skipuleggja þau rétt frá upphafi. Það er því nauðsynlegt að notfæra sér alla þá þekkingu sem safnast hefur um þessa tegund fyrirtækja og áður en lagt er af stað í þetta ferli. Þannig er hægt að koma í veg fyrir algengustu mistök og hámarka líkurnar á því að fyrirtækin geri það sem þau eiga að gera og endist.

Margt smátt gerir eitt stórt

Að leggja áherslu á að launþegarnir sjálfir eigi og stjórni þeim fyrirtækjum sem þau vinna hjá slær margar flugur í einu höggi, í „byltingarlegum“ skilningi. Þetta ræðst beint á uppsprettu valdaójafnvægisins í samfélaginu, arðráninu, þar sem arðurinn rennur nú til launþeganna sjálfra. Launþeginn er ekki lengur rændur þessum virðisauka. Í þessari tegund fyrirækja verður síður til sívaxandi gjá milli þeirra sem eiga og stjórna og svo þeirra sem vinna og kaupa. Því fleiri sem slík fyrirtæki verða, þeim minni verða samfélagsleg völd eignastéttarinnar. Þessi barátta yrði um leið minna háð, jafnvel óháð, sjálfskipuðum foringjum byltingarinnar frá einhverjum stjórnmálaflokkum. Þannig kæmumst við frekar hjá því að einhver flokkselíta hreiðraði um sig á toppnum og tæki einfaldlega yfir stöðu eignastéttarinnar, en héldi okkur vesalingunum frá ákvörðunartökunni með forræðishyggju og hroka.

En þetta er ekki auðveld leið og hún er full af hættum. Við vitum öll hvernig fór þegar gömlu samvinnufélögin tóku að tengjast í gegnum spillt net Sambandsins. Kaupfélagsstjórar sem sátu áratugum saman á valdastól tóku að rotta sig saman og fundu leið til að hafa af almenningi allar þær eignir sem hún skapaði í gegnum áratuga vinnu. Það má aldrei gerast aftur og því er lykilatriði að hvert fyrirtæki sé ætíð algerlega sjálfstætt. Koma þarf í veg fyrir þann möguleika að einhver staða innan fyrirtækisins sé valdameiri en önnur, hvað þá að búa til stöðu smákónga sem öruggt er að ofmetnist.

Innri hætturnar eru einnig til staðar. Við þurfum að læra að bæði vinna saman, og um leið að taka ábyrgð án þess að vera of stjórnsöm. Við verðum að vera meðvituð um okkar eigin breyskleika. Þess vegna er algjört lykilatriði að stunda rannsóknir eins og þær sem hér hafa verið skoðaðar. Vel skal vanda ef lengi á að standa. Ef við gerum þetta rétt, þá getum við náð völdum alþýðunnar, án þess að skapa nýja elítu. Það gerir erfiðið þess virði.

Nokkur sókn er komin í þróun starfsmannasamvinnufélaga. Hægt er að fá fræðslu og komast í tengslanet hjá félagsskap á borð við Democracy at Work Institute, og svo alþjóðasambandi starfsmannasamvinnufélaga, CICOPA, auk ótal fyrirtækja um allan heim sem hafa komið milljónum úr fátækt. Fræðsla er fyrsta skrefið.