BadBanki-málið: Þöggun, eftirlit og baráttan fyrir réttlátu stafrænu samfélagi

7. apríl, 2025

Við lifum á tímum þar sem tjáningarfrelsið er æ meira í hættu. Að tjá skoðun getur haft í för með sér ekki einungis árásir á samfélagsmiðlum heldur raunverulegt fjárhagslegt tjón. Í þessari stöðu er brýn þörf á siðferðilegum hugbúnaðarlausnum sem virða notendur sem einstaklinga – ekki vörur.

META, X og önnur stórfyrirtæki samfélagsmiðla eru orðin táknrænt dæmi um hvernig einstaklingar eru nú flokkaðir og raktir í gróðaskyni. Í heimi þar sem gervigreind, eftirlitsmyndavélar og jafnvel taugatengingar á borð við Neuralink eru orðnar að raunveruleika, hefur friðhelgi einkalífs vikið fyrir gagnavinnslu – verðmiðanum fyrir að vera til staðar á netinu.

Til að bregðast við þessari þróun tók árið 2021 hópur sjálfstæðra hugbúnaðarsmiða og fyrrverandi aðgerðarsinna höndum saman með það að markmiði að byggja upp siðferðilega betra og öruggara stafrænt samfélag. Úr varð hugmyndin Panquake – samfélagsmiðill þar sem notendur eru ekki varningur og samskipti fara fram án gagnasöfnunar- og rakningar, og án auglýsingaþrýstings og afskipta stórra tæknifyrirtækja. Panquake hafnaði rakningu, stóreftirliti og þeim „fangelsum“ sem hefðbundnir samfélagsmiðlar hafa reist. Þessi hugsjón fékk mikinn hljómgrunn hjá fjölda fólks innan grasrótarinnar – einstaklingum sem lögðu fram tíma, orku og fjármuni til að hrinda verkefninu í framkvæmd. Úr varð þróunin á Talk Liberation – alþjóðlegu hugbúnaðarhúsi sem byggir á friðhelgi einkalífs. En þegar verkefnið tók að vaxa mætti það kerfisbundinni andstöðu, ekki síst frá fjármálakerfinu.

Árið 2022 frysti Íslandsbanki (eða „BadBanki“, eins og aðstandendur verkefnisins kalla hann) sjóði Panquake án fyrirvara. Bankinn vísaði til peningaþvættis- og hryðjuverkalöggjafar. Þetta gerðist þrátt fyrir traust fjárhagslegt orðspor Talk Liberation og ítrekaðar tilraunir þeirra til samskipta og gagnsæis. Bankinn hafnaði öllum útskýringum og lokaði að lokum reikningum félagsins. Þrátt fyrir að sjóðirnir hafi síðar verið endurgreiddir – og félagið þar með hreinsað af öllum ásökunum – fékk Talk Liberation hvorki afsökunarbeiðni né bætur fyrir það tjón sem varð.

Í mars 2023 réð Talk Liberation til sín lögmenn til að höfða mál gegn bankanum. Málið er rekið hér á landi af sama lögmannateymi og vann fræga sigur fyrir WikiLeaks gegn greiðslumiðlara Visa og Mastercard. Málið snýst um óréttmæta höfnun á bankaviðskiptum og langvarandi hald á fræjum verkefnisins – fjármagni sem átti að byggja framtíðina á.

Þrátt fyrir þessa hindrun náði Talk Liberation fljótt viðsnúningi í rekstri og tókst halda áfram þróun afleiddra lausna úr Panquake verkefninu, eða „bitum úr Panquake-bökunni“. Þó að Panquake sé enn í fullu fjöri, þá fældi skaðinn sem bankinn olli viðskiptavini og stuðningsmenn frá og hafði slæm áhrif á traustið. Hvort sem ásetningur bankans var pólitískur eða ekki, er ljóst að verklag hans var bæði ranglátt og ólýðræðislegt. Ef í ljós kemur að pólitískur þrýstingur liggi þar að baki – líkt og í máli WikiLeaks – getur það haft víðtækar afleiðingar.

Sveinn And­ri Sveinsson, hæsta­rétt­ar­lögmaður og talsmaður málsins, sagði á þingfestingu þann 5. mars: „Talk Liberation tilkynnti bankanum um fjármunina og gerði allt eftir bókinni. En svo virðist sem bankinn hafi litið á aðalhluthafa, Suzie Dawson, og dæmt hana sem óvelkomna – vegna þess að hún hefur talað fyrir tjáningarfrelsi og mannréttindum. Þetta er sama aðferð og beitt var gegn WikiLeaks.“

Suzie Dawson er stofnandi Panquake og fyrrverandi leiðtogi Internetflokksins í Nýja-Sjálandi. Hún hefur unnið ötullega að málefnum friðhelgi, gagnsæis og mannréttinda, meðal annars í gegnum stuðning við Julian Assange og greiningu á Snowden-gögnum. Hún segir að þessi réttarsókn snúist um réttlæti fyrir stuðningsmenn Panquake: „Aðferðir bankans voru ósanngjarnar og byggðar á órökstuddum ásökunum. Ef um var að ræða hulið pólitískt ofbeldi, þá ætlum við að afhjúpa það – fyrir hönd alls samfélagsins.“

Mál Talk Liberation er ekki einstakt. Það er hluti af stærra mynstri, þar sem fjármálastofnanir beita valdi sínu til að þagga niður í röddum sem gagnrýna valdakerfið. Meðal annars í Þýskalandi, Kanada eða Bandaríkjunum hafa fjármálastofnanir lokað reikningum fólks og samtaka vegna stjórnmálaskoðana þeirra. Þessi svokallaða „afbankavæðing“ (e. de-banking) er orðin vaxandi ógn, þar sem aðgangur að nauðsynlegri fjármálaþjónustu er takmarkaður vegna pólitískra viðhorfa.

Frá því að PayPal lokaði reikningum BDS-samtaka í Frakklandi árið 2016 til þess að kanadísk stjórnvöld frystu eignir mótmælenda árið 2020 – og til nýlegra aðgerða þýska bankans Berliner Sparkasse gegn gyðingasamtökum sem gagnrýna Ísrael – birtist sama mynstrið: fjármálakerfið beitir valdi sínu til að þagga niður í röddum sem gagnrýna ríkjandi stefnu.

Þingnefndir í Bandaríkjunum hafa tekið þetta til umræðu, en bankarnir neita sök og vísa í óskýrar reglur. En spurningin stendur eftir: Hver hefur vald til að útiloka fólk úr fjármálakerfinu – og á hvaða forsendum?

Íslenska BadBanki-málið sýnir að baráttan gegn slíku misrétti er löng og þyrnum stráð. En hún er nauðsynleg. Því án þeirra sem þora að standa gegn þessu valdi verða slík mál áfram falin í skugganum.

Talk Liberation hvetur alla þá sem hafa upplifað svipað óréttlæti frá fjármálafyrirtækjum til að stíga fram – nafnlaust ef þeir vilja – og segja sína sögu. Því þessar raddir skipta máli. Þær varpa ljósi á ójafnvægi valdsins og gefa möguleika á því að réttlætið nái fram að ganga.

Að lokum má rifja upp hin gömlu sannindi: Réttlæti sem dregst er réttlæti sem tapast.

Meira um þetta mál má lesa á sérstakri vefsíðu, BadBanki.is

Höfundurinn, Fiorella Isobel er verðlaunaður blaðamaður og fjölmiðlastjóri (Media Director) fyrir Talk Liberation. Hægt er að nálgast fleiri greinar hennar á, m.a., Substack síðu hennar, og meira efni frá Talk Liberation hér.

Þýðing: Jón Karl Stefánsson