Sigur yfir stéttasamvinnuöflunum á ASÍ þingi.

5. nóvember, 2018



Mikil umskipti urðu í forystu íslenskrar verkalýðshreyfingar þegar Ragnar Þór Ingólfsson var kosinn formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur og Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar nokkru síðar. Fyrir voru á stalli Framsýn, stéttarfélag Þingeyinga og Verkalýðsfélag Akraness með formennina Aðalstein Árna Baldursson og Vilhjálm Birgisson en þessi stéttarfélög höfðu ekki nóg vægi á þessum tíma til að leggja til atlögu við stéttasamvinnuöflin innan ASÍ með sjálfan forsetann, Gylfa Arnbjörnsson, í broddi fylkingar.

Fljótlega eftir glæsilegan sigur baráttuaflanna í VR og Eflingu fóru ofangreind 4 félög að kanna möguleika á að velta hinum kratísku afturhaldsöflum í ASÍ úr sessi. Neistar hafa eftir áreiðanlegum heimildum að þegar Gylfi tilkynnti í vor að hann mundi ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu í forsetastólnum hafi hann í raun séð sína sæng útbreidda. Á þessum tímapunkti höfðu félögin fjögur ekki fundið eða komið sér saman um neinn eftirmann Gylfa úr sínum röðum en þegar baráttukonan Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, tilkynnti um framboð til forseta ASÍ var fljótlega ákveðið að sameinast um hana, enda hinn kosturinn, Sverrir Mar Albertsson, náinn samstarfsmaður Gylfa, ekki góður.

ASÍ þingið sjálft, sem fór fram síðustu helgina í október með tæplega 300 fulltrúum frá aðildarfélögunum, markaði tímamót. Í stuttu máli náðu róttæku öflin nánast öllu fram, sem lagt var upp með og raunar má segja að það hafi verið verulegt ákall um róttækar breytingar: Drífa var kosin forseti ASÍ með talsverðum mun.

Vilhjálmur Birgisson atti kappi við Guðbrand Einarsson, fomann Landssambands Íslenskra Verslunarmanna, náinn samstarfmann Gylfa Arnbjörnssonar og mikinn talsmann stéttasamvinnunnar, um fyrsta varaforseta ASÍ. Til að gera langa sögu stutta sigraði Vilhjálmur í kjörinu um 1. varaforsetann og þar með duttu bæði Sverrir Mar og Guðbrandur út úr miðstjórn. Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir fengu bæði góða kosningu í miðstjórn og athygli vakti að tvær konur, sem setið hafa í miðstjórn náðu ekki kjöri, þær Signý Jóhannesdóttir og Ingibjörg Ósk Birgisdóttir, sem verið hefur annar varaforseti ASÍ, en báðar tilheyra þær stéttasamvinnuöflunum.

Loks má geta þess að Aðalsteinn Árni Baldursson hlaut góða kosningu í varamiðstjórn en fram að þessu ASÍ þingi höfðu þeir félagarnir Vilhjálmur og Aðalsteinn, "órólega" deildin, verið útilokaðir frá trúnaðarstörfum fyrir ASÍ. Reyndar hefur kveðið svo rammt að hatri hinna kratísku afturhaldsafla á þeim félögum að í síðustu kjarabaráttutörn fyrir nokkrum árum, þegar Aðalsteinn náði betri samningum fyrir sitt fólk en lagt var upp með af hálfu stéttasamvinnuaflanna og rauf þar með skarð í samstöðu atvinnurekenda, var hann kallaður svikari af afturhaldsöflunum, sem þá voru í forystu verkalýðshreyfingarinnar.

Ekki var að búast við að allir gengju sáttir frá borði og margir afturhaldskratarnir sleikja nú sár sín. Einn af þeim er Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, sem sat um tíma í miðstjórn ASÍ. Hann lét sér sæma að koma fram í RÚV nokkru fyrir þing með það sjónarmið að því lægri sem launahækkanirnar til handa verkalýðnum séu, því meiri verði kaupmátturinn. Þetta sjónarmið er eins talað út úr munni atvinnurekenda og er bæði óhugnanlegt og vitlaust og raunar siðlaust að forystufólk verkalýðshreyfingarinnar skuli leyfa sér að taka þátt í grátkór atvinnurekenda. Kannski næsta skref hjá stéttasamvinnuöflunum verði að fara fram á launalækkun til rífa nú kaupmáttinn upp úr öllu valdi. Sem betur fer er eftirspurn eftir málpípum atvinnurekenda innan verkalýðshreyfingarinnar nú hríðminnkandi, enda hafa þær engan skilning á kröfum láglaunafólks, sem skrapa botninn þegar kemur að kjörum og velferð.

Neistar og Alþýðufylkingin óska nýrri og framsækinni forystusveit verkalýðshreyfingarinnar í landinu innilega til hamingju með góðakosningu og lýsa yfir fullum stuðningi við kröfur verkalýðsins á Íslandi. Við bendum að lokum á ályktun nýafstaðins landsfundar Alþýðufylkingarinnar um verkalýðsmál: „Stéttabarátta, ekki stéttasamvinna!“ Hún er birt hér neðar á síðu Neista.