Kafbátaeftirlitsæfing við Ísland. Verður annað hvert ár.
—
Tveggja vikna kafbátaeftirlitsæfing á vegum NATO verður haldin við strendur Íslands frá 29. júní nk. Herskip frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Kanada, Noregi og Þýskalandi taka þátt. Samkvæmt frétt RÚV á þetta að verða regla: „Kafbátaeftirlitsæfingar Atlantshafsbandalagsins, Dynamic Mongoose, verða framvegis haldnar á Íslandi annað hvert ár. Æfingarnar verða haldnar til skiptis á Íslandi og í Noregi.“ https://www.ruv.is/frett/2020/06/25/kafbataeftirlitsaefingar-nato-a-islandi-annad-hvert-ar?fbclid=IwAR1GNd7f70UHg16IdHv5Bs202qZQjsX9RNLFQ4Oxm81hFJ02UVsot5DaWps
Samkvæmt sænsku SIPRI-stofnuninni standa NATO-ríki fyrir 60% af herútgjöldum heims (BNA ein með 35%). En Rússland, sem NATO útnefnir sem hina miklu „ógn“, stendur fyrir 3,8% herútgjalda (1/15 af útgjöldum NATO-ríkja). Eftir að Varsjárbandalagið var aflagt þandi NATO sig austur að landamærum Rússlands (gegn gefnum loforðum frá 1990) og NATO og BNA iðka heræfingar í bakgörðum Rússlands að vestan og sunnan, en það telur NATO ekki vera neina „ógn“. Á hinn bóginn eru ekki neinir rússneskir herir sjáanlegir við landamæri BNA eða helstu NATO-velda. Það er NATO sem drífur áfram vígvæðinguna.
Ísland tekur fullan og fumlausan þátt í liðssafnaðinum gegn Rússlandi (sem einnig beinist gegn Kína). Nú orðið skiptir engu máli í því efni hvaða flokkar sitja í ríkisstjórn á Íslandi (VG ber sér stundum á brjóst og segist vera á móti NATO-aðild en styður hins vegar allar aðgerðir NATO).
NATO-flotaæfing hér annað hvert ár? Þá spyr sá sem ekki veit: Hvar og hvenær var þetta samþykkt af íslenskum stjórnvöldum og íslenskri löggjafarsamkundu? Ég man ekki eftir umræðum á Alþingi um það. Skiptir það ekki máli?
En jú, eitthvert samráð var haft við Íslendinga: „Samkvæmt tilkynningunni voru komur skipanna skipulagðar í samráði við íslensk heilbrigðisyfirvöld og viðeigandi sóttvarnaráðstafanir gerðar.“ Sem sagt engar heræfingar á Íslandi nema sótthreinsaðar!
Og jú, kannski hafði Ísland eitthvað um þetta að segja. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sagði í fyrra í samtali við RÚV. „Frá því að ég tók við sem utanríkisráðherra hef ég verið að vekja athygli kollega minna, bæði í Norður-Ameríku og sömuleiðis í Evrópu, á mikilvægi norðurskautssvæðisins vegna þess að við erum að sjá miklar breytingar á næstu árum.“ Til áréttingar sagði hann ennfremur um umferð rússneskra kafbáta í grennd við Ísland: „Það er fullyrt af þeim sem þekkja til og hefur komið fram í opinberri umræðu að þetta eru jafnvel meiri umsvif en voru á dögum Kalda stríðsins.“ https://www.ruv.is/frett/storaukin-vidvera-hermanna-vid-island Svo kannski er NATO að bregðst við neyðarhrópum frá Íslandi, hrópum um brýna þörf á virkara eftirlit með Rússum. Ísland er þá kannski með í ráðum. En málið hefur hins vegar ekki verið rætt við íslensku þjóðina.