Vinstrið og hægrið sameinast um að verja stríð kapítalsins gegn heiminum

20. júlí, 2024 Andri Sigurðsson

Stærstur hluti vinstrisins (og hægrisins) á vesturlöndum styður stríð á meðan sósíalistar og kommúnistar eru friðarsinnar. Endalausar tilraunir vinstrisins til að bendla sósíalista við Pútín eru ekkert nema áróður til að breiða yfir þessa staðreynd.

Við búum í heimi þar sem kapítalisminn hefur fætt af sér heimsveldið Bandaríkin. Þetta heimsveldi, auk bandalagsþjóða, eyðir margfalt hærri upphæðum til hernaðarmála en öll önnur lönd samanlagt eða allt að 74% allra útgjalda. Engar aðrar þjóðir hafa byggt upp hernaðarmaskínu og bandalag sem þekur alla jörðina með hundruðum herstöðva. Svo ekki sé minnst á njósnamaskínu Vesturlanda sem notuð er til að njósna um allt og alla líkt og Wikileaks og Edward Snowden upplýstu okkur um.

En þegar sósíalistar benda á þetta og rétt annara landa eins og Venesúela, Írans, Kína, og Rússlands til þess að iðka fullveldi sitt og sjálfstæði án afskipta Vesturlanda erum við sakaðir um að styðja einræðisherra. 

Á sama tíma styður vinstrið hernaðarbandalagið NATO sem hefur undanfarna áratugi tekið þátt í árásarstríðum í slagtogi við Bandaríkin sem eru leiðandi innan bandalagsins. NATO spilar sífelt stærra hlutverk innan heimsvaldastefnu Bandaríkjanna sem hefur það að markmiði að ná valdi yfir öllum heiminum. Þetta er ekki mín skoðun, þetta eru opinber markmið sem vestrænir leiðtogar og Bandaríski nýíhaldsmenn (Neocons) eru ekkert að fela það. 

Þið megið kalla mig Pútínista og hvað sem ykkur dettur í hug. Það skiptir mig engu máli því ég veit að réttlætið og sagan er með okkur sósíalistum í liði. 

Að styðja sjálfsákvörðunarrétt þjóða er ekki það sama og styðja allar skoðanir eða leiðtoga þessara sömu þjóða. Ég styð ekki klerkaveldið í Íran og öll þeirra stjórnmál en ég styð rétt Írans til að verja sig og fjármagna frelsisbaráttu Palestínu. Ég styð ekki íhaldssöm stjórnmál Pútíns þó ég styðji rétt Rússa til að ákveða sína eigin framtíð og rétt þeirra til verja sig fyrir útþenslustefnu NATO. Ég styð sjálfsákvörðunarrétt Kína en það þýðir ekki að ég styðji stefnu Kínverska kommúnistaflokksins gagnrýnislaust.

Vinstrið vill hins vegar þvinga okkur og hræða til að hafna öllum stuðningi við hið hnattræna suður og þau fáu lönd sem þó hefur tekist að byggja upp sósíalisma, þrátt fyrir endalaus stríð og árásir heimsveldisins. Stríð gegn ekki aðeins sósíalískum löndum heldur öllum sem vilja nýta fullveldi sitt og auðlindir til uppbyggingar eigin samfélags en ekki afhenda þær erlendum stórfyrirtækjum og kapítalistum.

Gagnrýnislaus stuðningur við Vesturlönd og NATO er eina skoðunin sem má hafa samkvæmt þessu fólki sem kallar alla aðra Pútínisti og saka okkur um að styðja einræðisherra á sama tíma og þau sjálf styðja heimsvaldastefnuna og þar af leiðandi öll stríðin sem þarf til að viðhalda henni.