Vinnuhjúaskildagi

14. maí, 2018 Vésteinn Valgarðsson
Vésteinn Valgarðsson

Á tímum vistarbandsins var öllum, sem ekki réðu eigin búi, skylt að eiga heimilisfesti á búi einhvers bónda, annað hvort sem vinnuhjú eða þá sem niðursetningar. Fjórtánda maí á ári hverju var vinnuhjúaskildagi, en þá máttu vinnuhjúin skipta um vist.

Spólum áfram til dagsins í dag. Allt vinnandi fólk, sem ekki á sinn eigin vinnustað, þarf að vera í vinnu hjá öðrum og allt fólk sem ekki getur unnið þarf að þiggja bætur frá hinu opinbera. Við erum ekki í vistarbandi lengur, heldur eigum við með okkur sjálf, að nafninu til. Í raun erum við háð stétt atvinnurekenda, ef við viljum búa við þjóðfélag húsbænda og hjúa að eilífu, en ef við viljum að vinnandi fólk verði húsbændur á heimilinu erum við hins vegar háð hvert öðru. Hvað þýðir það? Gagnvart sterkri og vel skipulagðri stétt auðvaldsins erum við sem einstaklingar máttvana og finnum okkur best í því að reyna að bjarga okkur sjálfum og horfa á sjónvarpið þess á milli. En sem stétt – sem stétt vinnandi fólks – erum við stærri og sterkari en nokkur annar í þessu þjóðfélagi, og getum gert það sem við viljum – ef við skiljum máttinn í samstöðunni.

Samstaða í baráttu fyrir betri kjörum getur tekið á sig margar myndir. Ein þeirra auðveldari er að styðja þau öfl í kosningum, sem boða raunsæjar lausnir byggðar á félagshyggju, og boða um leið raunsæjar leiðir til að ná þeim: mikla baráttu og vinnu, en ekki ódýrar eða einfaldar lausnir, snjallræði eða andfélagshyggju.

Alþýðufylkingin boðar að jöfnuður og velferð allra eigi að vera meginmarkmið í stefnu þjóðfélagsins. Leiðin þangað heitir félagsvæðing. Hún felur í sér að innviðirnir, sem þjóna okkar sameiginlegu þörfum, séu félagslega reknir en ekki speni fyrir auðvaldið – hér erum við m.a. að tala um fjármálakerfið. Að fólk sem vinnur við að sinna fólki sé metið að verðleikum (handahófskennd dæmi: ljósmæður, kennarar, ýmislegt starfsfólk í umönnun). Að velferðin sé fyrir alla: ekki dýr viðbrögð við því að fólk sé orðið fátækt, heldur hagkvæm leið til þess að fyrirbyggja að fólk verði fátækt til að byrja með. Það er ekki dýrt að útrýma fátækt, heldur er dýrt að fólk sé fátækt.

Það ætti aldrei að trúa þeim sem þykjast ætla að laga allt, bara ef þeir fá 51% atkvæða. Og það ætti aldrei að trúa þeim heldur, sem boða auðveldar lausnir á römmum vandamálum. Alþýðan hefur alltaf þurft að berjast fyrir hverri tommu af rými sem hún hefur fengið í þjóðfélaginu. Aldrei fengið neitt gefins. Það mun ekki breytast á meðan við erum hjú hjá húsbændum sem eru aðallega að hugsa um sig sjálfa. Við munum áfram þurfa að berjast fyrir kjörum okkar. Það hljómar kannski nöturlega, en það er stundum barátta upp á líf og dauða. Barátta sem varðar okkur öll.

Í dag er fjórtándi maí. Það er aldalöng hefð fyrir því að fara vistaskiptum á þessum degi. Þótt margt hafi breyst síðan vistarbandinu var aflétt, er þessi dagur ennþá ágætur dagur til að segja upp hollustunni við kapítalísk stjórnmálaöfl, kapítalískan hugsunarhátt eða almenna meðvirkni með arðráni og þjóðfélagslegu óréttlæti, sóun eða spillingu.

Gleðilegan vinnuhjúaskildaga. Fyrir alla muni, setjið ekki traust ykkar á þá sem bera hagsmuni ykkar ekki fyrir brjósti. Sóið ekki atkvæðum ykkar í borgaralega stjórnmálaflokka. Við þörfnumst hvers annars í baráttunni.


Höfundur er stuðningsfulltrúi og í 3. sæti á lista Alþýðufylkingarinnar í borgarstjórnarkosningunum