Víetnam-stríðið … aldrei aftur?
—
Fáir atburðir hafa haft eins mikil áhrif á sögu vinstrihreyfingarinnar undanfarna hálfa öld eins og Víetnam-stríðið. Eðlilega … þetta hryllilega stríð eitt og sér hefur hrært við mörgum, en saman við það fór dalandi hagvöxtur á Vesturlöndum, sem hafði annars verið mikill frá lokum seinna stríðs. Þannig að eins og allt var í pottinn búið er ekki skrítið að baráttuhreyfingin gegn stríðinu hafi haft ruðningsáhrif sem náðu langt út í stéttabaráttuna heima fyrir. Og þá er ekki skrítið að minningin um þessa baráttu hafi markað djúp spor í vitund vestrænna vinstrimanna og friðarsinna.
Í dag eru 50 ár síðan Tet-sóknin hófst, en hún hratt af stað atburðarás sem leiddi til endaloka Víetnam-stríðsins. Þrátt fyrir mikla andheimsvaldasinnaða baráttu á Vesturlöndum, þá lauk stríðinu auðvitað aðallega vegna hernaðarlegra sigra Norður-Víetnama. Það er lærdómur sem ber ekki að gera lítið úr; vondu kallarnir voru ekki sigraðir með friðsamlegum aðferðum heldur í stríði. Réttlátu stríði.
Þessi grein er samt ekki um Víetnam-stríðið, nema óbeint. Þið getið lesið um Tet-sóknina hérna eða einhvers staðar annars staðar. Þessi grein er um friðarhreyfinguna.
Það máltæki heyrist oft í umræðum, sérstaklega um hernaðarsögu, að flestir hershöfðingjar undirbúi síðasta stríð en ekki næsta. Það er að segja, þeir miði við hvernig síðasta stríð var, þegar þeir gera ráðstafanir fyrir næsta mögulega stríð, þótt þeir viti augljóslega ekki hvernig það næsta verður. Fyrir utan að þeir ættu að vita að það verði ekki eins og það síðasta. Sígilt dæmi eru Frakkar í fyrri og síðari heimsstyrjöld, þar sem þeir bjuggust við nýrri innrás Þjóðverja yfir Maginot-línuna, víggirtu sig þar, en Þjóðverjar sáu við þeim með því að ráðast í gegn um Holland.
Ég hef á tilfinningunni að í þessu líkist friðarhreyfingin hershöfðingjunum. Flestir dvelja ennþá við síðasta stríð. Sumir við Írak. Aðrir við Víetnam. Þeir elstu kannski við Kóreu. Á meðan renna ný stríð óséð framhjá þeim, óséð — og ómótmælt.
Það var ráðist á Líbýu fyrir nokkrum árum. NATÓ setti á flugbann — sem allir friðarsinnar eiga að vita að þýðir loftárásir á a.m.k. alla flugvelli og loftvarnabyssur, eða m.ö.o. stríð. Landinu, sem hafði haft best lífskjör allra landa Afríku, var breytt í hreiður íslamista. Rumpulýður, oftar en ekki á mála hjá vesturlöndum, berst um völdin eins og soltnir hundar um húðarskækil. Maður þarf að vera heilaþveginn til að sjá ekki að NATÓ leystu þetta úr læðingi.
Vestræna friðarhreyfingin mótmælti þessu samt ekki. Til dæmis var eini mótmælafundurinn sem Stop the War hélt í London hélt … haldinn gegn Jamahirya-stjórn Gaddafís, fyrir utan líbýska sendiráðið í London.
Allir sem tóku þátt í mótmælunum gegn Íraksstríðinu muna kraftinn sem þau báru með sér. Baráttuandann gegn ekki bara þessu stríði, heldur gegn stríði almennt og gegn heimsvaldastefnunni. Og þeir sem mótmælin beindust gegn — þeir muna líka eftir þeim. Ég skal lofa ykkur því.
Ég þori að lofa því, vegna þess að þeir lærðu af þessari reynslu. Það voru ekki allar raddir hreyfingarinnar beinlínis andheimsvaldasinnaðar; margar létu t.a.m. telja sig á að vissulega væri nauðsynlegt að koma Saddam Hussein frá völdum. Vildu bara ekki innrásarher. Sögðu kannski að nær væri að vopna óvini hans innanlands. Eins og Kúrda. Eða trúarminnihlutahópa.
Þannig að í Líbýu var þetta bara gert. Trúarofstækismenn látnir fá vopn og síðan sáu þeir um að tæta niður allt sem Jamahirya-stjórnin hafði byggt upp á áratugum. Þegar ríkið reyndi að verja sig var svo æpt um "skylduna til að vernda", sem er sjaldan notuð til annars en að réttlæta það sem áður fyrr var kallað árásarstríð. Og meðan hermenn Atlantshafsbandalagsins stigu varla á land, en létu staðgengla og málaliða sjá um þetta fyrir sig, var eins og vestræna friðarhreyfingin tæki ekki eftir þessu. Þar á meðal hér á Íslandi, þar sem þó sat ríkisstjórn sem Vinstri-græn báru ábyrgð á, flokkur sem þykist vera á móti stríði.
Heimsvaldasinnum tókst svo vel til með Líbýu-stríðið að þeir endurtóku það að verulegu leyti (að breyttu breytanda) í Úkraínu. Þar voru það nýnastistar sem séu um mesta beina ofbeldið. Og þar tókst enn svo vel til að enn var það endurtekið í Sýrlandi, þar sem al-Kaída-menn voru fóðraðir til að berjast gegn ríkisstjórn Sýrlands, meðan áróðursmyllur vestrænu heimsveldanna möluðu á yfirsnúningi, og gera enn.
Og ekki varla múkk frá friðarhreyfingunni vegna valdaránsins og ofbeldisöldunnar í Úkraínu. Og ég hef ekki heyrt um einn einasta útifund heldur, haldinn til að mótmæla staðgenglahernaðinum í Sýrlandi. Það er meira talað um flóttamenn heldur en um hvað þeir eru að flýja og undan rifjum hverra þessi átök eru runnin.
Vestræna friðarhreyfingin er nefnilega stöðnuð. Hvað er hún að gera, á meðan hershöfðingjarnir eru læra af reynslunni og undirbúa næsta stríð? Eru vestrænir friðarsinnar ennþá að undirbúa síðasta Íraksstríð?