Vantrauststillaga á Sigríði felld; Katrín afhjúpuð.

6. mars, 2018 Bjarmi Dýrfjörð

Sigríður Á. Andersen hangir enn sem dómsmálaráðherra, en viðbrögð hinna ýmsu aðila við vantraustinu segja margt.


Sigríður Á. Andersen
mynd: RÚV

Í dag var skorið úr um hvort Sigríður Á. Andersen yrði áfram dómsmálaráðherra, og hvort VG ætti einhver prinsipp eftir í sinni núverandi mynd. Að sjálfsögðu kusu Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn gegn frumvarpinu, en það var aldrei neitt einasta vafamál. Hins vegar kom í ljós að Katrín og VG eru tilbúin að fórna hugmyndum eins og pólitískri ábyrgð, trausti á dómstóla og raunar hugmyndum um að Alþingi sé lýðræðisstofnun fyrir það að halda áfram völdum.

Síðasta ríkisstjórn hraktist frá vegna ákvarðana dómsmálaráðherra og leiddi einnig til þess að stofnun nýs millistigs í dómskerfinu er sveipuð vafa. Hún hefur þurft að sæta endurteknum rannsóknum og hæstiréttur hefur úrskurðað að hún hafi brotið lög um skipan dómara, dómur sem hún hefur sjálf sagst vera „ósammála". Hún gerir eins og aðrir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og starfar eftir eigin háttsemi, og skipta þar engu máli hagsmunir eða skoðanir almennings, né raunar lögin sjálf eins og þetta mál allt saman sýnir ágætlega.

Ekkert af ofantöldu hefur víst neina merkingu af því hún situr enn, í óvilja þjóðarinnar skv. könnunum vel á minnst. Með því að styðja Sigríði eru Katrín og hennar ríkisstjórn að staðfesta að þau muni slá skjaldborg um spillinguna á meðan þau fá að sitja valdastólum. Spilling er bara slæm þegar aðrar ríkisstjórnir verja hana.


Skrautlegum rökum var beitt til að verja ráðherra:

Stjórnarmeðlimir í xB og xD bentu á að dómsmálaráðherra hafi haft heimild til að víkja frá ráðleggingum hæfnisnefndar, og sumir höfðu orð á því að ráðherra ætti að vera allsráður í þeim málum. Þá er náttúrlega horft framhjá því hvernig hún vék frá ráðleggingum nefndar til að hagnast eigin flokki.

Sigurður Ingi vísaði í það að sekt Sigríðar hafi legið í augum uppi fyrir kosningar, og að hvorki forseti þingsins né viðeigandi nefndir hefðu mælt með því að Sigríður viki. Aðrir þingmenn voru sama sinnis og sögðu að þessi atkvæðagreiðsla þýddi ekkert því sektin hefði löngu legið fyrir. Eiga þingmenn þá að horfa framhjá slíkum málum og halda trausti við vanhæfa ráðherra, bara af því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi ekki farið sérstaklega fram á að þeir þurfi að víkja?

Margir sögðu að vantrauststillaga núna myndi draga úr trausti á Alþingi. Halda þau þá að það muni auka traust á Alþingi að halda dómsmálaráðherra sem sætir sífelldum rannsóknum og kannanir sýna að flestir vilja ekki?


Okkar góðu verkefni.

Tveir þingmenn Vinstri-Grænna studdu vantrauststillöguna, Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, en þau hafa að minnsta kosti þá pólitísku festu að trúa að flokkur eins og Vinstri-Græn geti ekki átt samleið með Sjálfstæðisflokknum, flokki sem á að heita á öndverðu meiði og er það lofsvert. Raunin er náttúrulega sú að trúin á áframhaldandi kapítalisma er það sem sameinar krata og frjálshyggjumenn, og er löng saga um að kratar hörfi til að þóknast þeim sem fara með auðvaldið.

Þau Vinstri-Grænu sem felldu vantrauststillöguna sögðu að það hafi þurft að verja ráðherra til að verja ríkisstjórnina, ríkisstjórn sem þeir héldu fram að gæti enn haldið áfram með sín „góðu verkefni".

Hvaða góðu verkefni á þessi ríkisstjórn að geta framkvæmt? Ríkisstjórn sem byggist á að VG leyfi spillingaröflum að tuska sig til af því Katrín er svo fínt stafnlíkneski. Ríkisstjórn þar sem VG gengur á bak öllu sem þau þóttust standa fyrir, rýja sjálf sig öllu trausti, snúa baki við eigin ungliðahreyfingu og sökkva sér í forarvilpu af realpolitik svo djúpri að þau komist aldrei upp úr. Allt þetta til þess eins að njóta þeirra forréttinda að framfylgja efnahagsstefnu Bjarna Ben og Engeyinga?

Nei, það eru ekki góð verkefni. Örvæntingin hefur keyrt flokkana í alls konar skrautlegar stellingar, en staðreyndin er sú að bresturinn á Alþingi hefur ekki verið lagaður, sárin hafa ekki gróið, og við erum enn í sömu ógöngum.