Upplýsingaóreiða og falsfréttir: Tilfelli Líbíu

2. júlí, 2022 Jón Karl Stefánsson

Bæði Alþingi Íslendinga og Háskóli Íslands hafa skorið upp herör gegn því sem kallað er upplýsingaóreiða og falsfréttir. Meirihluti Íslandsdeildar Norðurlandaráðs kynnti fram þingsályktunartillögu um viðbrögð við upplýsingaóreiðu var sett fram við lok árs 2020 þar sem gerðar eru tillögur um það hvernig ríkið geti spornað við þessari vá. Þar má meðal annars finna hugmyndir um að þróa tæknilausnir til að „finna og uppræta upplýsingaröskun á netinu“ og gerð viðbragðsáætlunar fyrir opinberar stofnanir til að bregðast við röngum upplýsingum. Fræðimenn á vegum Háskóla Íslands hafa í nokkur ár haldið námskeið sem fjalla um falsfréttir og rannsóknir hafa verið gerðar á þeim sem lesa slíkar fréttir. Fræðimenn hafa til dæmis komist að því að sjö af hverjum tíu hafa komist í tæri við falsfréttir á Íslandi, hvorki meira né minna (RÚV, 2021).

Það er frábært að sjá að hið opinbera taki svo alvarlega hættunni við dreifingu falsfrétta, enda geta þær valdið gríðarlegum skaða. Fátt sýnir þetta betur en stórar styrjaldir því, eins og gamalt máltæki segir (stundum vísað til gríska skáldsins Æskýlos), þá er sannleikurinn fyrsta fórnarlambið í hverju stríði. Áróðursstríð er órjúfanlegur og öflugur hluti hvers stríðsrekstur, og því stærri sem stríðsvélin er, þeim mun meiri þunga getur hún lagt í að dreifa falsfréttum. Hér verður tekið dæmi frá stríðinu í Líbíu árið 2011, en þetta á því miður við um fleiri stríðsátök á heimsvísu. Í þessum hildarleik spiluðu falsfréttir mjög stórt hlutverk

Skyggnst inn í gangvirki stríðsáróðursvélarinnar

Hér verður kastljósinu beint á hlutverk falsfrétta í hörmungunum sem dundu á Líbíu árið 2011, en ekki verður kafað djúpt í sögulegar rætur þeirra, enda er sú saga flókin og það væri rangt að setja hana í stutta samantekt.

Það verður þó að minnast á upphaf sjálfrar borgarastyrjaldarinnar. Þann 15. febrúar 2011 voru haldin mótmæli í borginni Benghazi. Um var að ræða fjölskyldur fanga sem voru myrtir af öryggissveitum í líbískum fangelsum árið 1996. Lögfræðingur þessa hóps, Fathi Terbil, var handtekinn. Í kjölfarið söfnuðust um 600 mótmælendur fyrir framan aðallögreglustöðina í Benghazi í Líbíu til að mótmæla handtöku lögfræðingsins Terbils. Lögreglan svaraði með hörku og eftir átök lágu 38 manns særðir, 28 mótmælendur og 10 lögregluþjónar. Mótmæli voru einnig haldin í borgunum Al Bayda, Az Zintan og Darnah vegna handtöku Terbils, en hann var látinn laus daginn eftir.

Tveimur dögum síðar, eða 17. febrúar 2011 átti „dagur bræðinnar“ sér stað. Sá viðburður var allt annars eðlis en þessi fyrri mótmæli og hafði verið skipulagður um langa hríð. Dagsetningin hafði verið valin til að minnast atburða sem áttu sér stað þann 17. febrúar 2006. Þá höfðu mótmælendur safnast saman fyrir utan sendiráð Ítalíu til að sýna reiði sína við birtingu teikninga af Múhameð spámanni í hinu danska Jyllandsposten. Líbíska lögreglan handtók þá fjölda mótmælenda, en margir litu svo á að ríkið væri með því að standa með erlendum öflum gegn innlendum. Að sama tíma að ári, 2007, hugðist hópur stjórnarandstæðinga að halda mótmæli í Trípólí vegna þessara sömu teikninga, en margir þeirra voru handteknir og fengu sumir háa dóma fyrir ýmsar sakir.

Árið 2011 var um meira en einfaldlega mótmæli að ræða og þeir hópar sem stóðu að baki voru engir aukvisar. Þarna unnu saman öflugustu hópar mjög trúaðra manna tengdum múslimska bræðralaginu, auk mjög óhugnanlegra hópa á borð við Al-Jama'a al-Islamiyyah al-Muqatilah bi-Libya, eins forvera ISIS. Þeir voru með stór áform.

Innanbúðarmenn í Bandaríkjunum vissu hvaða hópar stóðu að baki mótmælunum 2011. Í tölvupósti frá helsta fjölmiðlaráðgjafa utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Sidney Blumenthal, til Hillarys Clintons (sem birt var á Wikileaks árið 2016, sjá skjal númer C05780521) kemur fram að „í gegnum tíðina hefur austurhluti Líbíu verið yfirráðasvæði róttækra íslamista, þar með talið Al Kaída hópsins Libyan Islamic Fighting Group. Þar sem stjórn Gaddafis hefur tekist vel til við að halda niðri ógninni sem stafar af Íslamistum í Líbíu, opnar núverandi ástand möguleika á því að jíhadismi nái meiri útbreiðslu“ (Kovalik, 2016). Stjórnkerfi Líbíu var veraldlegt og flestir Líbíumenn voru fremur hófsamir í trúarlegum skilningi. En í ákveðnum jaðarhópum, sérstaklega í austurhluta landsins í borgum eins og Benghazi og sérstaklega Derna, hafði borið á vaxandi ofstæki á sviðum stjórnmála og trúarbragða. Það var þessi hópur sem stóð að baki degi reiðinnar og var burðarbitinn í þeim hópi sem Atlantshafsbandalagið átti eftir að verja með gríðarlegum loftárásum, vopnasendingum, aðstoð sérsveitarmanna og fjárframlögum.

Árásir öfgamanna hefjast

Dag reiðinnar árið 2011 gerðu þessir hópar, gráir fyrir járnum, samhæfðar árásir á vopnabúr ríkisins víða um landið, stálu úr þeim vopnum og hófu stríð gegn ríkisstjórn landsins. Uppreisnarmenn þessir gerðu áhlaup á fangelsi í borgum í austurhlutanum og frelsuðu fanga sem gengu svo til liðs við byltinguna. Í borginni Derna náðu uppreisnarmenn völdum yfir herflugvelli og tóku, að sögn talsmanns mótmælenda, um 50 manns af lífi sem þeir kölluðu „afríska málaliða“. Síðar átti eftir að koma í ljós að um var að ræða saklausa borgara sem höfðu framið þann glæp að vera með dökkt litarhaft. Næsta dag voru fleiri sem sakaðir voru um að vera liðsmenn Gaddafis brenndir til bana í fangelsi í bænum (Black og Bowcott, 2011).

Eftir að hafa barist í eina viku lýstu uppreisnarmennirnir yfir stofnun skuggaríkisstjórnar, „Bráðabirgðaþjóðarráðsins“ (BBÞ) (enska: „Transitional National Council“), og hafði hún aðsetur í Benghaziborg, Al Bayda og Derna. Lögregla og her Líbíu hóf aðgerðir gegn uppreisnarmönnum og mikil átök hófust í borgum í austurhluta Líbíu. Í fyrstu virtist ríkisstjórnin ætla að hafa betur og smám saman náði her og lögregla ríkisins aftur völdum yfir fleiri og fleiri landsvæðum sem uppreisnarmenn höfðu náð haldi á. En uppreisnarmenn og stuðningsaðilar þeirra stunduðu ekki einungis stríð með vopnum og ofbeldi. Þeir tóku strax frumkvæðið í áróðursstríðinu, og því stríði gjör töpuðu stjórnvöld í Líbíu. Uppreisnarmenn náðu, með aðstoð almannatengslasérfræðinga frá Vesturlöndum, að sannfæra sjálft Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna um að lýsa yfir stríði á hendur stjórnvöldum í Líbíu.

Falsfréttir í þágu skæruliða

Meðal fyrstu verka uppreisnarmanna var að fá til liðs við sig Luca M. Venturi, svissneskan sérfræðing í almannatengslum, til að sjá um áróðurshluta stríðs síns. Venturi hafði langa reynslu í málefnum sem þessum. Hann var til dæmis sérstakur ráðgjafi Kuwait-stjórnar á meðan hernaðaraðgerðin Operation Desert Storm varði árin 1990 til 1991 og fékk hann það hlutverk að tala máli Kuwaits á Vesturlöndum. Það ævintýri hans var einstaklega vel heppnað eins og frægt er orðið.

Þeir sem réðu Venturi formlega til að sjá um upplýsingastríðið var stofnunin „Democratic Libya Information Bureau“ (DLIB), sem var áróðursarmur samtakanna „Citizens for a Democratic Libya“. DLIB var strax með gríðarlega öfluga starfsemi og rak hún skrifstofur í Trípolí og Benghazi, en einnig víða um heim, s.s. í Genf, Lugano, Mílanó, Róm, London, Sao Paolo, Doha og Dubai. Í umfjöllun Herberts A. Friedmans ofursta og sérfræðings í sálfræðihernaði fyrir Bandaríkjaher sagði: „Ég vissi að Gaddafi var nú í vondum málum“ vitandi að Venturi var kominn í málið. Venturi tjáði Friedman að fyrirtæki hans sendi efni sitt til alls 1289 einstakra blaðamanna, meðal annars starfandi á stórum dagblöðum á borð við Wall Street Journal, New York Times og Drudge Report (Friedman, 2011).

Meðal fyrstu aðgerða Venturi var að senda fjölmiðlum myndir af uppreisnarmönnum í hversdagslegum önnum til þess að gefa þá mynd að þeir væru ekki íslamskir öfgamenn heldur fólk eins og ég og þú. Hann lét einnig hanna mótmælaskilti á ensku og öðrum vestrænum tungumálum, en myndir af þeim fóru svo í heimspressuna. Fljótlega fór svo af stað orðrómur þess efnis að Gaddafi notaðist við leiguliða sunnar úr Afríku sem beittu nauðgunum sem vopni. Þær sögur, þrátt fyrir að vera haugalygi, áttu eftir að draga dilk á eftir sér. Um þessar sögur verður rætt síðar í greininni.

Þann 20. mars opnuðu skæruliðasveitirnar í Líbíu sjónvarpsstöð í Katar sem bar nafnið „Libya“ (Burke, 2011). Þeir leituðu að „góðum Líbíumönnum“ sem hægt væri að taka viðtöl við og jafnvel senda erlendis í spjallþætti. Sjónvarpsstöðin fékk rífleg fjárframlög frá bönkum í Dubai og Abu Dhabi. Ritstjórnarstefna var ákveðin með ýmsum reglum. Til dæmis var samþykkt að kalla Gaddafi aldrei sínu rétta nafni, heldur fjalla um hann sem „einræðisherrann“.

Twitterstríðið

Líbíustríðið var meðal fyrstu stríðsátaka þar sem samfélagsmiðlar spiluðu lykilhlutverk í áróðursstríðinu. Í gegnum þessa miðla dreifðu uppreisnarmenn og stuðningsmenn þeirra falsfréttum sem höfðu gríðarmikil áhrif. Þann 23. febrúar sendi maður sem kallaði sig Sayed al Shanuka Twitter-skilaboð sem birtust á fréttasíðunni Al Arabia. Shanuka þessi, sem sagðist vera talsmaður alþjóðlega glæpadómstólsins í Haag, hélt því fram að 10 þúsund mótmælendur hefðu verið drepnir af stjórnvöldum en 50 þúsund særst. Þessar tölur breiddust út eins og eldur í sinu um fréttastofur heimsins og talan 10 þúsund festist sem einhverskonar sannleikur í hugum margra. Hún var samt tóm della.

Alþjóðaglæpadómstóllinn (International Criminal Court) sendi umsvifalaust frá sér aðvörun til ríkisstjórnarinnar og Gaddafis um að hún hefði mögulega framið glæpi gegn mannkyni. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti um leið ályktun um að frysta eignir Gaddafis og tíu ráðgjafa hans, í raun án þess að kanna hvort ásakanir sem voru að berast í gegnum samfélagsmiðla væru á rökum reistar. Í mars var gengið lengra og samþykktar ályktanir nr. 1970, sem bönnuðu vopnaflutning, og ályktun nr. 1973, sem áttu að gilda um flugferðabann (No-fly zone), en urðu skálkaskjól fyrir gríðarlegar loftárásir 17 erlendra herja ásamt stuðningi við hryðjuverkasamtök í landinu.

Þetta er reyndar með ólíkindum, því daginn eftir að Twitter skilaboðin voru send út gaf Alþjóðlegi glæpadómstóllinn sjálfur út yfirlýsingu þess efnis að þessi maður, Sayed al Shanuka, hefði ekkert með dómstólinn að gera. Enginn kannaðist við hann. Fréttin var hreinn uppspuni (ICC, 24.02).

Önnur Twitter skilaboð voru birt tveim vikum síðan. Höfundur þeirra var uppreisnarleiðtoginn Ali Zaidan. Samkvæmt honum höfðu 6.000 mótmælendur verið drepnir og 10 þúsund særðir af „Gaddafi hermönnum“. Þessar upplýsingar voru birtar, án athugasemda, í nokkrum helstu fjölmiðlum heims. Engin gögn styðja fullyrðingu mannsins.

Á fyrstu dögum uppreisnarinnar birtu fjölmiðlar víða um heim einnig fregnir af því að lofther Líbíu hefði skotið á óvopnaða mótmælendur í Benghazi. Erfitt er að segja hvaðan þessar fregnir komu, enda eru, enn og aftur, engin gögn til sem styðja þessa fullyrðingu. Jafnvel háttsettir embættismenn innan bandaríska hersins fundu „yfir höfuð engin gögn“ um það að þessar loftárásir hafi átt sér stað (IBTimes, 02.03.2011). Rússneski herinn gaf síðar út yfirlýsingu þess efnis að rússneskir gervihnettir fylgdust með Líbíu allan sólarhringinn. Ekkert benti til þess að þessi meinta flugárás hefði átt sér stað, enda hefði engin flugumferð verið yfir Benghazi á þessum degi (RTNews. 01.03.2011). Samt sem áður birtust fréttir í heimspressunni um þennan atburð sem aldrei átti sér stað.

Þrátt fyrir að ásakanirnar um meint voðaverk Líbískra stjórnvalda á fyrstu dögum stríðsátaka hafi verið afsannaðar á nokkuð skömmum tíma notuðu Alain Juppé og Nicolas Sarkozy, frummælendur ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1970 og 1973 sem opnuðu fyrir beinan hernað Bandaríkjanna og bandamanna þeirra á Líbíu, þær til að afla ályktununum fylgis. Þær voru einnig forsendurnar fyrir ummælum Dennis Ross, aðalráðgjafa utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, um að „[þ]etta [væri] Srebrenica á sterum… um 100.000 manns gætu verið myrt og allir munu ásaka okkur ef við aðhöfumst ekkert” (Paris, 28.03.2011). Allar þessar fullyrðingar voru byggðar á falsfréttum.

Clinton dreifði viljandi fjarstæðukenndum áróðri

Alls kyns ótrúlegar, og falskar, sögur voru birtar í fjölmiðlum um Gaddafi og Líbíustjórn á meðan árásunum 2011 stóð. Ein sagan fólst í því að Gaddafi hefði fyrirskipað að lík hermanna yrðu færð í íbúðahverfi til að láta líta út fyrir því að loftárásir NATO hefðu hæft almenna borgara. Það reyndist einfaldlega laukrétt að NATO og uppreisnarmenn myrtu almenna borgara í stórum stíl og lík þeirra lágu oft stráð á götunum.

Hillary Clinton tók virkan þátt í því að dreifa þessum lygasögum og öðrum, eins og þeim að hermenn Líbíuhers notuðu fjöldanauðganir sem viljandi stríðstæki að beinni fyrirskipun Gaddafis. Þessu hélt hún opinberlega fram á ræðupöllum. Alþjóðlegar eftirlitsstofnanir afsönnuðu fljótlega þessar kenningar (Cockburn, 2011). Enn villtari útgáfa af þessari sögu var sú að hermenn fengju sendingar af Viagra til að geta hægar stundað þessa stríðsglæpi. Robert Gates hélt þessu opinberlega fram í fréttum CBS og sendiherra Bandaríkjanna, Susan Rice, hélt svipuðu fram í hinu háa Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það er athyglisvert að Hillary Clinton hafi tekið þátt í að dreifa þessum sögum, ekki síst í ljósi þess að seint í marsmánuði 2011 barst henni bréf frá Blumenthal þar sem hann segir:

„Fyrir um viku greindi ég frá því að þessi saga – að Gaddafi hefði fært til lík til í áróðursskyni um fall meðal almennra borgara vegna NATO-árása – en tilgreindi þó að um sögusagnir væri að ræða. En nú, eins og þú veist, er Robert Gates að gefa þessari sögu trúverðugleika… Heimildarmenn mínir greina nú frá því, og aftur er um sögusagnir að ræða (þ.e.a.s., þessar upplýsingar koma einungis frá uppreisnarmönnum og hafa ekki verið sannreyndar af vestrænum rannsóknum), að Gaddafi hafi tekið upp nauðgunarstefnu og hafi jafnvel dreift Viagra til hermanna. Atburðurinn á blaðamannafundinum í Trípólí þar sem kona hélt því fram að henni hefði verið nauðgað sé hluti af stærra hneykslismáli. Ég skal leita frekari upplýsinga.“

– Blumenthal (þ. Jón Karl)

Engar sannanir fundust nokkurn tímann fyrir þessum sögum um Viagra og skipulagðar nauðganir, en aldrei lét Hillary Clinton, né heldur Robert Gates eða aðrir sem dreifðu þeim um heimsbyggðina, vita af því.

Fullyrðingar um yfirvofandi „þjóðarmorð“

Þann 21. febrúar fullyrti þáverandi varasendiherra Líbíu hjá Sameinuðu þjóðunum og liðhlaupi úr ríkisstjórninni að Gaddafi hefði í hyggju að stunda þjóðarmorð í Líbíu og krafðist þess að komið yrði á flugbannsvæði (No-fly zone) svo hægt væri að koma í veg fyrir vopnaflutninga til meintra málaliða Gaddafis og stöðva sókn stjórnarhersins. Þetta hugtak, no-fly-zone, á rætur sínar að rekja til Bosníustríðsins og var á pappírnum aðgerð samþykkt af Sameinuðu þjóðunum sem átti að koma í veg fyrir loftárásir á átakasvæði, en var strax þá notað sem tylliástæða fyrir loftárásum Atlantshafsbandalagsins á hersveitir Bosníu-Serba, fyrstu loftárásum í sögu NATO.

Þáverandi forseti Frakklands, Nicolas Sarkozy, kom fram með þá kröfu að Evrópusambandið setti af stað refsiaðgerðir gagnvart Gaddafi. Þann 28. febrúar tók David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, undir með því að komið yrði á flugbannsvæði í þeim tilgangi að hindra Gaddafi í því að flytja leiguhermenn („airlifting mercenaries“) og að nota flugvélar „sínar“ og þyrlur til að ráðast á saklausa borgara. Síðar átti eftir að koma í ljós að sú ástæða var byggð á fölskum sögum um að Gaddafi notaðist við leiguliða úr sunnanverðri Afríku. Sú falsfrétt átti eftir að leiða til hryllings.

Sagan um yfirvofandi þjóðarmorð var lygi

Nefnd á vegum neðri deildar breska þingsins lét árin 2015-16 framkvæma rannsókn á þætti Bretlands í stríðinu í Líbíu 2011 og eftirmála þess. Skýrsla nefndarinnar gagnrýndi bresk stjórnvöld harðlega, sérstaklega fyrir það að hættan af völdum aðgerða þáverandi ríkisstjórnar í Líbíu var stórlega ýkt, en um leið var hættan af róttækum íslamistum meðal uppreisnarmanna hunsuð. Í skýrslunni var tekið fram að það hefði verið rangt að Gaddafi hefði haft fjöldamorð á almenningi og uppreisnarmönnum í bígerð hina örlagaríku mánuði febrúar og mars 2011 og að slíkar fullyrðingar væru runnar undan rifjum vestrænna ríkisstofnanna og uppreisnarmanna. Engin efnisleg gögn styddu þær fullyrðingar. Þvert á móti hefðu líbísk stjórnvöld gefið eftir völd í Benghazi-borg til uppreisnarmanna á friðsamlegan hátt, og í þeim bæjum sem stjórnvöld hefðu aftur tekið völd yfir hefði almenningur verið látinn í friði. Engin fjöldamorð áttu sér þar stað af hálfu líbíska stjórnarhersins á þessum tíma. Þar er samþykki fyrir flugumferðarbanni (No-fly zone) hefði verið byggt á fullyrðingum um yfirvofandi fjöldamorð, jafnvel þjóðarmorð, var þetta samþykki byggt á lygi (HC, 2016).

Stutt við ömurlegan rasisma

Áðurnefnd saga um svarta málaliða og skipulagðar nauðganir var ein allra ógeðslegasta falsfréttin sem fór í dreifingu um Líbíu. Snemma í ferlinu dreifðu óprúttnir aðilar þeirri sögusögn að Gaddafi borgaði málaliðum frá sunnanverðri Afríku til að berjast gegn uppreisnarmönnum. Eftir að þessi orðrómur hafði mallað um hríð og dreifst í gegnum fjölmiðla um alla heimsbyggðina ákvað Amnesty International, undir handleiðslu Donatellu Rivera, að rannsaka hvort fótur væri fyrir honum og komust að því að þetta var helber lygi. Fyrir þessum sögum var enginn fótur. Svipaða niðurstöður komu úr rannsóknum Human Rights Watch, undir stjórn Peter Bouckaert (Seymour, 2012). Raunveruleikinn var sá að Líbíumenn og farandverkafólk með dekkra litarhaft höfðu tilhneigingu til að styðja Gaddafi og stjórnvöld af meiri tilfinningahita en flestir aðrir, enda hafði stjórnin sýnt í verki að þeir umbáru engan kynþáttaníð. Kjör verkafólks í Líbíu voru líklega þau bestu í allri álfunni, Líbíustjórn hafði yfirlýst markmið um að tengjast öðrum Afríkuríkjum sterkari böndum (m.a. með áformum um að mynda sameiginlegan gjaldmiðil, sameiginlegan þróunarbanka og styrktarsjóð fyrir Afríkuríki). Rasistar í Líbíu voru hins vegar ekki ánægðir með þessa stefnu.

Afleiðingarnar af falsfréttunum um dökku málaliðana voru vægast sagt hræðilegar. Því miður voru margir uppreisnarmenn gegnsýrðir af kynþáttafordómum gegn dökkum Afríkumönnum og gripu þeir því tækifærið og beinlínis eltu uppi alla þá dökku Líbíumenn sem þeir fundu. Hræðileg fjöldamorð voru framin í nafni þessara falsfrétta. Þetta var í orðsins fyllstu merkingu þjóðarmorð með vitneskju og stuðningi NATO. Eitt dæmi um þetta þjóðarmorð var til dæmis það að bærinn Tawergha, sem áður var nánast einungis búsettur svörtu Líbíumönnum sem margir voru afkomendur fyrrverandi þræla, var algjörlega tæmdur (rúmlega 40 þúsund íbúar voru í þessum bæ) eftir gríðarleg fjöldamorð og árásir (Kafala, 2011). Eftirlifendur berjast enn fyrir því að fá að snúa aftur til heimkynna sinna, en fjölmiðlar hafa hunsað ákall þeirra. Þau eru enn þann dag í dag, ellefu árum síðar, á vergangi og eiga í hættu á að vera myrt af rasískum vígasveitum ef þau snúa aftur (NRC, 2022). Wikileaks birti árið 2016 tölvupóstsamskipti til og frá þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton. Þau sýna að Clinton vissi vel hættuna sem Líbíumönnum með dekkra litarhaft stafaði vegna þessa rasisma, en gerði ekkert til að koma þeim til aðstoðar. Þann 27. mars 2011 sendi helsti fjölmiðlaráðgjafi Clintons, Sidney Blumenthal, henni tölvupóst þar sem hann greindi frá því að „leiðtogi uppreisnarmanna sagði frá því að hersveitir hans taka enn af lífi alla útlenda málaliða í stríðinu“ (skjal númer C057824501). Fjölmiðlar sem dreifðu þeim hafa aldrei beðist afsökunar né dregið rangindum opinberlega til baka.

Raunverulegir erlendir málaliðar

Stór hluti af „líbískum“ uppreisnarmönnum voru í raun erlendir hermenn. Þannig sendi Katar hundruð hermanna til Líbíu til að berjast með innlendum vígasveitum (Black, 2011). Í tölvupóstum frá Sidney Blumenthal til Clintons kemur fram að sérþjálfaðir breskir, franskir og egypskir málaliðar voru í herbúðum „uppreisnarmanna“ allt frá upphafi óreiðanna 17. febrúar 2011. Þessir sérsveitarmenn unnu við að þjálfa vígamenn sem vitað var að voru með sterk tengsl við öfgasamtök á borð við Al Kaída í Líbíu (Hoff, 2016). Í tölvupósti frá síðari hluta marsmánaðar 2011 kom fram að Vesturveldin voru þá þegar að vopna hryðjuverkahópa þessa í stórum stíl meðal annars með „að því er virðist endalausum birgðum af AK47 árásarrifflum og skotfærum“. Í sama tölvupósti er það útskýrt að óttast sé að öfgaöfl frá Libyan Islamic Fighting Group og Al Kaída væru að ná tökum yfir bráðabirgðastjórninni og herafla hennar. Þetta þýðir þrennt. Í fyrsta lagi að Clinton og hennar fólk braut sjálft ályktun 1970 með því að vopna vígahópa í landinu. Í öðru lagi að sú saga að um væri að ræða uppreisn almennra borgara á sem friðsamastan máta var þvæla frá upphafi og að Clinton vissi mætavel að þetta var vopnað valdarán. Síðast en ekki síst sýnir þetta ótrúlega hræsni þeirra sem notuðu óspart ósannar sögur um notkun Líbíustjórnar á málaliðum til að selja sína eigin glæpi.

Loftárásir í nafni mannréttinda

Þann fyrsta mars 2011, samþykkti Bandaríkjaþing einróma ályktun um að hvetja Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að koma á flugbannsvæði og að krefjast afsagnar Gaddafis. Þann 10. mars viðurkenndi Frakkland hið svokallaða Bráðabirgðaþjóðarráð sem löglega stjórn Líbíu. Tveimur dögum síðar kröfðust níu af tuttugu og tveimur aðildarríkjum Arabaríkjaráðsins Sameinuðu þjóðirnar um að koma á flugbannsvæði yfir Líbíu til að vernda almenning frá flugárásum. Strax þann 19. mars hófu nokkur ríki sínar eigin flugárásir á Líbíu í krafti ályktunar Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1973. Sú ályktun var samþykkt að því er virðist á grundvelli fréttatilkynningar frá „Citizens for a Democratic Libya“, þeirri sömu og Venturi stóð á bakvið. Sú tilkynning var svo hljóðandi:

„Bráðabirgðaþjóðarráð Líbíu hafði samband við okkur frá Benghazi úr farsíma: „Venjulegar símalínur í Benghazi hafa verið rofnar. Hersveitir Gaddafis hafa komist inn til Ijdabiya og eru innan við 50 kílómetra frá Benghazi með skriðdreka og þungavopn.“ Við höfum fengið staðfestingu á því að stór hluti hersveita Gaddafis sé nú um 43 kílómetra frá Benghazi, á svæði sem ber nafnið Al-Maqroon. Við áköllum alþjóðasamfélagið til að grípa TAFARLAUST inn í áður en fjöldamorð eiga sér stað í Benghazi, eftir það sem gerst hefur í Ijdabya (Agedabia) og Misurata, þar sem fjöldi látinna hleypur á þúsundum. Dagurinn í dag er sá blóðugasti síðan byltingin hófst! Yfirlýsing einræðisherrans um vopnahlé er helber lygi og fjöldamorð á saklausum borgurum í Líbíu eiga sér stað einmitt núna.“

– Citizens for a Democratic Libya, 2011

Eins og áður sagði var enginn fótur fyrir þessum yfirlýsingum. Þær voru hannaðar af almannatengslateymi Luca M. Vittori.

Líbía sprengd sundur og saman

Nú hófst hernaður Natoríkja gegn Líbíu fyrir alvöru. Flugherir 17 ríkja, þar á meðal Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands, Noregs, Kanada, auk Katar og Sádi Arabíu, gerðu fjölda loftárása á Líbíu og sjóher Bretlands sá um hafnbann um landið. NATO tók formlega við stjórn yfir árásunum þann 24. mars.

Þá þegar hafði ályktunin um „flugbannsvæði“ verið útvíkkuð yfir í algjört árásarstríð, án þess að þing ríkjanna sem komu að hernaðinum tækju þá ákvörðun upp á nokkurn hátt. Ráðist var á Líbíuher alls staðar, bæði á landi, í lofti og á sjó. Þannig stærði NATO sig af því þann 19. apríl að hafa sprengt 11 skriðdreka eða brynvarða bíla og sama dag var ráðist að heimili Gaddafis í Trípólí. Þetta var ekki einungis brot á samþykkt Öryggisráðsins, heldur beinn stríðsglæpur, enda engin heimild fyrir því að taka opinberlega af lífi þjóðarleiðtoga án dóms og laga.

Árásirnar jukust dag frá degi. Á einum degi, 26. apríl voru gerðar 133 flugárásir víðs vegar um landið. Reynt var að eyða kerfisbundið öllum hervörnum landsins og um leið aðstoða skæruliða við að ná fótfestu um landið. Aldrei var minnst á að þessir skæruliðar nutu lítils stuðnings í landinu.

Áróðursapparat skæruliða sendi stöðugt frá sér nýjar fréttatilkynningar og réðst á þá sem sagðir voru ekki styðja loftárásir NATO nægilega. Þannig var send út fréttatilkynning þann 6. apríl þar sem tyrknesk stjórnvöld voru sökuð um að hindra NATO-árásirnar þrátt fyrir það sem áróðursvélin kallaði fjöldamorð á almennum borgurum í Misrata og fleiri borgum. Vestrænir fjölmiðlar birtu efni fréttatilkynninganna möglunarlaust, að því er virðist án þess að athuga hvort þær ættu við rök að styðjast.

Þann 25. maí gerði bandaríski olíurisinn Tesoro samning við hina svokölluðu bráðabirgðastjórn skæruliða um kaup á 1,2 milljónum tunna af hráolíu. Nú hafði hið 17 ríkja „alþjóðasamfélag“ (orðið alþjóðasamfélag gilti t.d. ekki um Afríkuríki, Kína, Indland, Suður Ameríkuríki o.s.frv., heldur um aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og bandamenn þeirra) valið ríkisstjórn á eins ólýðræðislegan máta og mögulegt er.

Blóðbaðið framlengt

Þann 1. júní voru 90 dagarnir sem samþykktir voru í Öryggisráðinu að flugumferðarbannið mætti vara liðnir. Á þeim degi ákvað forysta NATO upp á eigið frumkvæði að framlengja herferðina um aðra 90 daga. Við tilefnið sagði þáverandi aðalritari NATO, Anders Fogh-Rasmussen, „Þessi ákvörðun sendir skýr skilaboð til harðstjórnar Gaddafi [Gaddafi regime]: Við erum staðföst að halda áfram aðgerðum sem miða að því að vernda íbúa Líbíu“. Vond var þeirra vernd.

Nú hófust gegndarlausar loftárásir á skotmörk víða um þetta fámenna land (Í Líbíu búa einungis um 6 milljónir manna). En þrátt fyrir sprengiregnið tókst enn ekki að brjóta hinn smáa her Líbíu á bak aftur. Því kallaði Robert Gates varnarmálaráðherra Bandaríkjanna eftir því að þær Natóþjóðir sem höfðu neitað að taka þátt í árásunum, t.d. Þýskaland, Spánn, Tyrkland, Pólland og Holland, sendu sínar orustuflugvélar á vettvang. Hann kvartaði sáran undan því hversu illa gengi. Í ræðu sem hann hélt þann 10. júní sagði hann: „Öflugasta hernaðarbandalag sögunnar hefur verið í 11 vikna hernaði gegn illa vopnaðri stjórn í fámennu landi. Þrátt fyrir það eru margir samherjar við það að hafa tæmt vopnabirgðir sínar og reiða sig enn og aftur á Bandaríkin í þeim efnum“ (Traynor, 10. Júní 2018).

Fáir virtust spyrja sig þeirrar spurningar, hvers vegna gengi svo illa að brjóta á bak aftur þessa litlu þjóð ef ríkisstjórn Líbíu væri eins óvinsæl heima fyrir og af er látið. Ef þeirri spurningu hefði verið varpað fram af alvöru hefði líklega mörgum komið á óvart hvernig almannaálitið var í raun.

Ýkjur um vinsældir uppreisnarmanna

Það er erfitt að meta með fullri vissu hverjir almennir Líbíumenn vildu hafa við stjórnvölinn sumarið 2011. Þeirri spurningu var sjaldan varpað í fjölmiðlum okkar, en svo virðist sem að gert hafi verið ráð fyrir því að almenningur í Líbíu styddi uppreisnarmenn. Sagan var jú sú að almenningur hefði risið upp gegn ógnarstjórninni og það sem væri að gerast í Líbíu væri alþýðuuppreisn. En í einu skoðanakönnuninni sem gerð var af erlendum aðilum í höfuðborginni Trípólí kom annað á daginn. Þann 16. ágúst 2011 birtist grein eftir Scott Taylor í Halifax Chronicle Herald sem bar heitið „Gadhafi support soars amid Nato bombings“ (Taylor, 2011). Í greininni segir:

„Alþjóðlegir erindrekar sem eru enn í Trípólí greindu frá því að frá því að NATO hóf loftárásir sínar hefur stuðningur við Gaddafi í raun stóraukist, upp í um 85 prósent. Af 2335 ættbálkum Líbíu heita enn um 2000 þeirra hollustu við hinn umdeilda leiðtoga. Sem stendur er það eldsneytisskortur sem er kominn vegna viðskiptaþvingananna og rafmagnsleysi vegna NATO-árása sem veldur Líbíumönnum mestum óþægindum á svæðum sem eru undir stjórn Gaddafis. Hins vegar kennir fólk enn NATO um þetta – ekki Gaddafi. Til að sporna við þessu og til að hvetja til uppreisnar alþýðunnar hafa NATO flugvélar nú tekið til við að varpa dreifibréfum yfir götur Trípólí.“

– Taylor, 2016

Hægt væri að færa þau rök að þessi stuðningur, 85%, við Gaddafi væri ekki eðlilegur, fólkið væri hrætt við hann og þyrði ekki að segja annað, eða að stuðningurinn væri auðvitað mestur í vesturhluta landsins o.s.frv. En hvers vegna ekki að taka af allan vafa? Það er ljóst að hvorki NATO, né bandamenn þeirra hjá Sádi Arabíu, Katar og öðrum konungsríkjum við Persaflóa, höfðu ekki áhuga á að kynna sér hver sannleikurinn væri. Stjórn Líbíu bauð vopnahlé og kosningar undir alþjóðlegu eftirliti strax í byrjun mars 2011, svo aftur 16. maí, í júní og loks ágúst. Í hvert skipti voru þau tilboð einfaldlega hundsuð. Þegar vígasveitir uppreisnarmanna og leiguhermanna frá alþjóðasamfélaginu höfðu loks náð völdum og myrt svo gott sem alla meðlimi ríkisstjórnarinnar voru haldnar það sem kallað var á vesturlöndum „fyrstu frjálsu kosningar“ Líbíu, með þá takmörkun að enginn sem styddi „grænu byltingu fjöldans“ (Jamahiriya) mættu bjóða sig fram. Það hefði hvort eð er verið erfitt, því búið var að myrða nærri alla pólitíska forystu þeirrar stjórnmálastefnu. Þessar kosningar voru sannarlega ekki frjálsar, og almenningur hafði þá virkilega ástæðu til að óttast að velja rangt, enda gengu þá morðsveitir um götur borganna.

Það er margt fleira sem sýnir að stuðningur við uppreisnaröfl var í raun lítill í landinu. Frá upphafi uppreisnarinnar höfðu ótal kröfugöngur átt sér stað í öllum bæjum þar sem lýst er yfir stuðningi við Jamahiriya stjórnina í Líbíu og andstyggð við aðgerðum NATO og uppreisnarmanna. Sú stærsta af þeim var ganga meira en einni milljón manna í miðborg Trípólíborgar sem átti sér stað þann 1. júlí 2011 (Bukowski, 04.07.2011). Slíkar kröfugöngur voru haldnar vikulega í allri Líbíu allt fram til síðustu daga hernámsins í Trípolí. Fréttastofur vesturlanda greindu nánast ekkert frá þeim.

Í tvígang, fyrst 20. mars (Xinhua, 20.03.2011) og svo þann 22. ágúst, dreifðu Líbísk stjórnvöld meira en milljón vopna til almennings í Líbíu. Fyrir stjórnvöld sem stæðu fram fyrir uppreisn almennings hefði sá gjörningur að sjálfsögðu verið sjálfsmorð. En sú einfalda staðreynd fór einnig fram hjá fréttaskýringum hérlendis. Þess í stað voru allir þeir sem voru á móti uppreisnaröflunum einfaldlega stimplaðir sem „liðsmenn Gaddafis“.

Illvirki uppreisnarmanna hunsuð

Enginn virtist spyrja hverjir þessir skæruliðar sem NATO var að vernda voru, enda hefðu fáir haldið áfram stuðningi sínum ef þeir hefðu gert sér grein fyrir því hverjir fóru þar fremst í flokki. Stærstu uppreisnarhóparnir voru meðlimir samtaka á borð við Libyan Islamic Fighting Group sem má líta á sem forvera ISIS. Þetta voru harðsvíraðir vígamenn sem börðust fyrir innleiðingu íslamsks ríkis í Líbíu, en þessir hópar áttu einmitt eftir að stjórna landinu í raun. Þetta voru öfgahópar sem nutu ekki sérstaklega mikils fylgis í landinu. Nú átti að gefa þessum hópum full völd í þessu fjölmenningarlega ríki sem hafði státað af bestu lífsgæðum í allri Afríkuálfu.

Strax 18. febrúar hengdu, eins og áður sagði, uppreisnarmenn 50 hörundsdökka menn í ljósastaura í bænum Bayda og brenndu uppreisnarmenn svo lögreglustöðina í borginni Derna, sem var full af fólki. Amnesty International í Líbíu lýsti því að herferð uppreisnarmannanna hafi einkennst af illri meðferð, pyntingum og drápum á svörtu fólki og innflytjendum (8). Það mátti því frá upphafi vera ljóst að margir uppreisnarmanna voru ekki menn sem okkur bæri að styðja.

Sögurnar um stríðsglæpi eru margar. Simon Deneyer, blaðamaður hjá the Post, komst á snoðir um fjöldagrafir óbreyttra borgara með dökkt litarhaft sem höfðu verið bundnir og drepnir af uppreisnarmönnunum. 19. júlí fundu blaðamenn frá Telegraph fjöldagrafir í Nafusa-fjöllum sem innihéldu lík hermanna stjórnvalda. Einn mannanna var hálshöggvinn og aðrir menn báru þess merkis að hafa verið pyntaðir. Eftir að blaðamenn fóru að spyrja um afdrif mannanna var svæðið fyllt með jarðvegi, að því er virðist til að hylja verknaðinn (9). Alex Crawford hjá Sky News sá nokkur tilvik þar sem uppreisnarmenn náðu saman stríðsföngum og drápu án laga og réttar. Þann 26. ágúst 2011 fengu blaðamenn frá the Independent myndir af uppreisnarmönnum sem stóðu sigri hrósandi yfir líkum um 30 svartra manna sem þeir höfðu myrt. Margir mannanna voru með hendur bundnar fyrir aftan bak en aðrir lágu á sjúkrabörum. Þetta voru fórnarlömb fjöldamorða sem framin voru af uppreisnarmönnum innan neyðarviðbragðssvæðis Rauða hálfmánans. Leiðtogi uppreisnarmanna, Ahmed Bin Shabri, hrópaði á blaðamennina: „Komið og sjáið. Þetta eru svertingjar, Afríkubúar, ráðnir af Gaddafi sem málaliðar“. Þegar blaðamenn spurðu af hverju menn, sem fengu læknisaðstoð frá hjálparsamtökum, voru drepnir með þessum hætti, yppti hann öxlum. „Það virtist honum óskiljanlegt að einhverjum þætti að þetta væri rangt,“ sagði blaðamaðurinn (10).

Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við slíkum árásum voru takmörkuð við veikar kröfur um að hið svokallaða Bráðabirgðarráð (National Transition Council, NTC – stofnun sem notuð var sem pólitísk afsökun fyrir hinni uppreisninni í Líbíu) yrði að tryggja sanngjarna meðferð fanga. En þar sem það voru einmitt hermenn sem tengdust þessu bráðabirgðaráði sem stóðu að baki árásunum voru slíkar kröfur markalausar. Atlantshafsbandalagið sveik loforð sín um að vernda óbreytta borgara sem, þegar allt kemur til alls, var yfirlýst ástæða þess að ályktanir 1970 og 1973 sem leiddu til loftárásanna á Líbíu voru samþykktar af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Líbía lögð í rúst

Í júní hófust árásir með herþyrlum. NATO hafði ekki viljað nota þyrlur fyrr því óttast var að ef Líbíuher næði að skjóta niður þyrlu og handsama flugmennina væri hægt að nota þann gjörning í áróðursskyni. Flugher Atlantshafsbandalagsins hafði þá sallað niður hermenn og loftvarnir Líbíu í þrjá mánuði og nú þótti óhætt að taka þessa áhættu. Stjórnmálamenn á borð við William Hague frá Bretlandi og John McCain frá Bandaríkjunum ferðuðust nú til Líbíu til að stappa stálinu í skæruliða.

Um leið og alls kyns gróusögur um stjórnvöld og Gaddafi fengu byr undir báða vængi á síðum dagblaðanna þurfti að grafa með skeið eftir fréttum um stórfellda og hrikalega glæpi skæruliða og Natóflugvéla gegn almenningi í landinu. Tilefnislausar sprengiárásir NATO á íbúðahverfi, spítala og opinberar stofnanir, auk mikilvægra innviða samfélagsins á borð við vatnsveitukerfið (en Natóflugvéla eyðilögðu til dæmis hið mikla manngerða fljót sem tengdi vatnsból landsins við afskekktustu sveitir í eyðimörkinni), pyntingar og fjöldamorð skæruliða á saklausum borgurum, stórfelldar þjóðernishreinsanir gegn hörundsdökku fólki og opinberar aftökur voru einfaldlega ekki með í fréttaumfjölluninni.

Eftir 6 vikna umsátur um Sirte, heimabæ Gaddafis, þar sem bærinn var lagður algjörlega í rúst af skæruliðum auk 418 loftárása NATO, náðist loks fréttaskotið sem virðist hafa verið beðið eftir. Franskar flugvélar löskuðu bílalest Gaddafis er hann reyndi að flýja í eyðimörkina frá bænum þar sem íbúar sem höfðu reynt að vernda hann lágu dauðir í vatnsfylltum götum borgarinnar svo að skæruliðar næðu honum. Fjölmiðlar víluðu ekki fyrir sér að sýna frá því er Gaddafi var nauðgað í endaþarmsop með hnífi áður en hann var pyntaður og smáður og loks dreginn eftir götum heimabæjar síns. Al Kaída, og síðar ISIS, fékk yfirráð yfir bænum og lík Gaddafis var haft til sýnis í frystigeymslu í bænum Misrata.

Eins og áður sagði fengu þeir Líbíumenn sem höfðu dekkra litarhaft verri meðferð en flestir. Samkvæmt blaðamanninum Patrick Cockburn (2011) voru uppreisnarmenn í Líbíu upp til hópa einfaldlega fjandsamlegir svörtum Afríkubúum. Þegar hann varð vitni að því að þeir söfnuðu saman stórum hópi svartra manna og settu fangelsi og spurði hvers vegna þetta væri gert sagði leiðtogi uppreisnarmanna að „Líbíumönnum líkar ekki fólk með dökka húð, jafnvel þó að sumir þeirra séu saklausir“. Diana Eltahawy, rannsóknarmaður Amnesty International í Líbíu, fullyrti að margt af hörundsdökku fólki sem myrt var í Líbíu í uppreisninni hafi verið flutt nauðugt frá heimilum sínum, vinnustöðum og á götum úti, einfaldlega vegna húðlitar þess. Byggingarstarfsmaður frá Tyrklandi sagði við BBC, til dæmis: „Við vorum með 70 til 80 starfsmenn frá Chad með okkur. Þeir voru drepnir með sveðjum og spjótum. Árásarmennirnir hrópuðu á okkur: Þú gefur Gaddafi herlið! Súdönum var einnig slátrað. Við sáum það með eigin augum “(BBC, 25.02.2011). Mushab Abdullah, uppreisnarmaður frá Misrata, talaði um morð hans á svörtum Líbíumönnum og bætti við að „þeir vita að þegar Gaddafi getur ekki lengur verndað þá eru þeir í miklum vandræðum“ (ibid).

Glæpir NATO

Hinn 9. maí 2011 reyndu um 600 flóttamenn að komast undan borgarastyrjöldinni í Líbíu með bát sem sökk. Þrátt fyrir að herskip NATÓ væru nálægt voru engar tilraunir gerðar til að bjarga bátnum og allir flóttamennirnir létust (Stewart, 2011). Þetta var þriðji báturinn fullur af flóttamönnum sem sökk í sjónum eftir að borgarastyrjöldin hófst. NATÓ kom engu af þessu fólki til hjálpar, þrátt fyrir að hafa mikinn fjölda herskipa í næsta nágrenni sem hljóta að hafa fengið SOS um að bátarnir væru í hættu.

Þann 22. október hafði bandalagið framkvæmt 26.281 herverkefni í Líbíu, þar af 9646 sprengjuárásir (20), á land með jafn marga íbúa og Noregur. Þessar árásir eyddu flestum vörnum Líbíu, borgaralegum varnarhópum og lögreglu. Bandalagið gerði einnig fjölda árása á borgaraleg skotmörk, þar á meðal á fjölmiðla, sjúkrahús, skóla og svo vatnskerfi Líbíu, íbúðablokkir og verksmiðjur. Allt þetta var gert til að styðja uppreisnarhópa sem margir hverjir voru yfirlýstir trúarofstækismenn og rasistar.

Erlendar hersveitir fengu að veita uppreisnarmönnum herstuðning og færa þeim vopn og vistir. Bandarískir embættismenn og leiðtogar uppreisnarmanna viðurkenndu strax í marsmánuði að vopn hefðu verið flutt frá Egyptalandi til uppreisnarmanna í Líbíu (Levinson og Rosenberg, 2011). Þetta var samkvæmt Wall Street Journal og The Independent í kjölfar tilskipunar frá Washington (Fisk, 2011). Smygl á vopnum til Líbíu voru samt brot á ályktunum Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um vopnasölubann í Líbíu. Ályktanir 1970 og 1973 gáfu í raun heldur ekki leyfi fyrir hernaðarárásum NATÓ og bandamanna þess í konungsríkjum Persaflóa. Aðgerðir þeirra voru því að öllu leyti skýlausir stríðsglæpir.

Gömlu nýlenduveldin hertu tökin

Ísraelska fréttastöðin Debka greindi frá því í ágústmánuði 2011 að Bretland, Frakkland, Katar og Jórdanía hefðu sent sérsveitir og þungavopn til Líbíu til að styðja baráttu uppreisnarmanna (Black, 2011). Bandaríkjamenn sóttu einnig inn málaliða frá öðrum löndum. Pakistanska dagblaðið, The Nation, greindi frá því að bandaríska leyniþjónustan hefði ráðið 1.500 bardagamenn Íslamista frá Mazar-e-Sharif í Afganistan til að berjast við uppreisnarmennina í Líbíu (Masood, 2011). Þessir erlendu hermenn virðast hafa tekið meira eða minna leyti þátt í pyntingum og morðum á saklausu fólki í Líbíu. Hvað varðar þjóðernishreinsun Tawergha, fullyrða sumar skýrslur (Al Jazeera, 2011) að árásirnar hafi verið samræmdar af NATÓ.

Hver tilgangurinn var með þessu öllu saman hvað Vesturveldin varðar er erfitt að vita. En það sem við vitum þó, þökk sé Wikileaks, er að tölvupóstur með yfirskriftinni „France‘s client and Quaddafis gold“ barst til Hillary Clinton í apríl 2011. Í honum er skýrt frá því að þáverandi Frakklandsforseti, Nicholas Sarkozy, væri leiðandi í árásunum gegn Líbíu og að fimm meginástæður lægju að baki: Að tryggja Frakklandi líbíska olíu, að tryggja yfirráð Frakka í heimshlutanum, að auka hróður Sarkozys á landsvísu, að sýna hernaðarmátt Frakklands og að koma í veg fyrir að Gaddafi næði áhrifum í „frönsku Afríku“ (Hoff, 2016). Langur kafli í bréfinu útskýrir að Líbía hefði safnað miklu magni af gulli og að nota ætti það til að koma á fót gjaldmiðli í Afríku sem gæti minnkað áhrif franska Frankans í Afríku. Þetta væri gríðarlega alvarlegt fyrir efnahag Frakklands. Ekkert er minnst á mannúðarsjónarmið í bréfinu.

Fyrstu eftir stríðið

Fangelsi Líbíu hafa verið yfirfull síðan stríðinu lauk og í þeim er vitað að skelfilegar pyntingar eru daglegt brauð (26). Bráðabirgðaráðið (NTC) í Líbíu byggði aldrei upp það sem kalla má starfandi dómskerfi. „Í raun og veru er ekki til almennilegt réttarkerfi. Fangar mega ekki koma fram í réttarsalnum. Þeir fá ekki lögfræðinga, ekki núna, “sagði Abdul Busin, yfirmaður herlögreglunnar árið 2011. Við getum því ekki treyst því að fangarnir í yfirfullum fangelsum hafi tækifæri til að verja sig í dómssölum. Það eru ekki bara hörundsdökkir Líbíumenn sem eru í hættu á þjóðarmorði sem ný ríkisstjórn Sharia hefur framið. Skýrslur benda til þess að ættbálkarnir Gaddafa og al-Meshashyas væru í sérstakri hættu á þjóðernishreinsun (27).

Næstu árin, 2012 til dagsins í dag, hefur Líbía logað í borgarastyrjöldum, ættbálkaerjum og vargöld. Enginn endir virðist á þjáningum þessarar þjóðar. Líbía er nú eitt hættulegasta ríki heims og engum er ráðlagt að ferðast þangað. Þetta er mikið hrap frá þeim árum þar sem Líbía taldist með bestu lífskjör í allri Afríku, þar sem verkafólk streymdi að til að fá betri kjör og aðbúnað og þar sem mannréttindi voru í stöðugum betrumbótum. Við tókum þátt í því að leggja þetta land í rúst, en gleymdum landinu svo. Nú er látið eins og þetta hafi aldrei gerst. Hin mikla ábyrgðatilfinning sem sögð var liggja að baki loftárásunum á Jamahiryia stjórnina árið 2011 var blöff.

Fjölmiðlar þagna

Eftir dauða Gaddafis hættu fjölmiðlar að mestu að fjalla um Líbíu, einnig þegar skæruliðar og NATO krömdu síðasta stóra bæinn til hlýðni, Bani Walid, en íbúar þar héldu uppi andspyrnu við skæruliðana löngu eftir að Gaddafi var allur. Fjölmiðlar höfðu ekki áhuga á Líbíu meir. Botn Miðjarðarhafsins er nú þakinn líkum fólks sem hefur reynt að flýja hina hryllilegu ógnarstjórn sem ríkt hefur frá 2011 í Líbíu. Fleiri hafa verið myrtir frá lokum ársins 2011 heldur en öll árin frá árinu 1969 samanlagt, þar með talið á meðan á stríðinu stóð.

Það var ekki fyrr en árið 2015 að bandarískir leyniþjónustumenn viðurkenndu í ítarlegri greiningu Washington Times að allar forsendur fyrir stríðinu gegn Líbíu hefðu verið rangar. Leyniþjónustur hersins og ríkisins í Bandaríkjunum höfðu engar sannanir fyrir því að forsendur ályktana Öryggisráðsins nr. 1970 og 1973 væru sannar, enda voru þær það ekki. „Ég fékk aldrei nokkrar sannanir fyrir því að nokkrar aðgerðir væru yfirvofandi sem gætu kallast blóðbað… ég sá ekkert varðandi herflutninga, ekkert varðandi hótanir frá ríkisstjórn [Líbíu] eða neinar aðgerðir“, sagði Alan Kuperman, prófessor í opinberri stefnumótun hjá háskólanum í Texas, en hann framkvæmdi ítarlega rannsókn á tilurð árásarstríðsins gegn Líbíu. Rannsóknir hans sýndu í raun að yfirlýsingar um að fjöldamorð eða jafnvel þjóðarmorð væru í aðsigi í byrjun mars 2011 voru ekki studdar með nokkrum raunverulegum gögnum. Yfirlýsingar Gaddafis voru teknar úr samhengi og ósannaðar, og reyndar upplognar, yfirlýsingar ónafngreindra manna voru tekin góð og gild án athugunar (Riddel og Shapiro, 2015).

Sama niðurstaða fékkst í sérstakri þingrannsókn á ákvörðunartöku ríkisstjórnar Noregs gagnvart Líbíu, en Norðmenn stærðu sig af því að hafa gert rúmlega 600 loftárásir á landið árið 2011. Rannsóknin sýndi ekki einungis að forsendur þeirrar ákvörðunar hefðu verið rangar og byggðar á blekkingum, heldur kom í ljós að þeir ráðamenn sem tóku þessar örlagaríku ákvarðanir vissu ekkert um Líbíu og sýndu engin merki um að þeir hefðu gert það. Jens Stoltenberg, þáverandi forsætisráðherra og núverandi yfirmaður NATO, virðist hafa haft það í huga að koma sér í mjúkinn hjá Bandaríkjaforseta og ná frekari pólitískum frama. Utanríkisráðherrann þáverandi, Jonas Gahr Støre, fyrirskipaði þátttöku Noregs í gegnum síma án þess að taka sér svo mikið sem dagsstund til íhugunar. Rannsóknarskýrslan er sláandi lesning þar sem meðal annars er greint frá stríðsglæpum norska flughersins og brotum á alþjóðalögum í krafti villandi upplýsinga (Petersen, 2018). En vegna lítils áhuga fjölmiðla hefur almenningur ekki fengið að vita um skýrslur sem þessar.

Heiðarlegir fjölmiðlamenn myndu ekki einungis biðjast afsökunar, heldur reyna að breyta rétt og segja rétt frá eftir allt sem í ljós hefur komið. En það hefur ekki gerst.

Þegar rætt er um upplýsingaóreiðu og falsfréttir, þá ætti dæmi Líbíu að koma fram í fyrstu málsgrein. Afleiðingar falsfrétta í þessu tilfelli var algjört hrun heils ríkis, dauði og limlestingar og ógnaröld sem ekki sér fyrir endann á. Vonandi verður átak gegn falsfréttum til þess að svona lagað endurtaki sig ekki aftur og aftur. Ég treysti því að slík mál verði í brennidepli hjá þeim nefndum sem berjast nú gegn falsfréttum og upplýsingaóreiðu.


Heimildir

 1. AFP. 04.02.2010. Watchdog urges Libya to stop blocking websites. New York: Agence France Presse.
 2. Al Jazeera. 13.08.2011. Libya rebels capture Tawurgha town. http://www.aljazeera.com/news/africa/2011/08/20118131635565144.html.
 3. Al Jazeera. 13.08.2011. Libya rebels capture Tawurgha town. http://www.aljazeera.com/news/africa/2011/08/20118131635565144.html.
 4. Amnesty International. 07.09.2011. Tawarghas must be protected from reprisals and arbitrary arrest in Libya. Libya: Amnesty International
 5. Amnesty International. 31.08.2011. Libya: Fears for detainees held by anti-Gaddafi forces. http://amnesty.org.uk/news_details.asp?NewsID=19660
 6. BBC. 25.02.2011. African viewpoint: Colonel’s continent. http://www.bbc.co.uk/news/world-africa-12585395
 7. Black, I. (26. október 2011). Qatar admits sending hundreds of troops to support Libya rebels. The Guardian. Sótt af https://www.theguardian.com/world/2011/oct/26/qatar-troops-libya-rebels-support
 8. Black, I. 14.04.2011. Libyan rebels receiving anti-tank weapons from Qatar.
 9. Black, I. og Bowcott, O. 18.02.2011. Libya protests: Massacres reported as Gaddafi imposes news blackout. London: The Guardian.
 10. Bukowski, D. 04.07.2011. Huge Pro-Gaddafi, anti-war rally in Tripoli juli 1. Detroit: Voice of Detroit. Sjá http://voiceofdetroit.net/2011/07/04/huge-pro-gaddafi-anti-war-rally-in-tripoli-july-1-video/
 11. Burke, J. (30. mars 2011). Libyan opposition set to launch TV channel from Qatar. The Guardian. Sótt af https://www.theguardian.com/world/2011/mar/30/libya-opposition-television-channel-qatar
 12. Cockburn, P. (24. Júní 2011). Amnesty questions claim that Gaddafi ordered rape as weapons of war. London: The Independent. Sótt af https://www.independent.co.uk/news/world/africa/amnesty-questions-claim-that-gaddafi-ordered-rape-as-weapon-of-war-2302037.html
 13. Cockburn, P. 30.08.2011. ’Libyans don’t like people with dark skin, but some are innocent’. London: The Independent.
 14. Cockburn, P. 30.08.2011. ’Libyans don’t like people with dark skin, but some are innocent’.
 15. Dagher, S. 21.06.2011. Libya city torn by tribal feud. The Wall Street Journal.
 16. Dagsavisen. 16.06.2011. Gaddafis sønn ønsker internasjonalt overvåket valg.
 17. DARPA. 14.07.2011. Social Media in Stratetic Communication (SMISC). US departement of Defence. Sjá https://www.fbo.gov/index?s=opportunity&mode=form&id=6ef12558b44258382452fcf02942396a&tab=core&_cview=0
 18. Fisk, R. 07.03.2011. America’s secret plan to arm Libya’s rebels. London: The Independent
 19. Friedman, H. A. (2011). Libya psyop – 2011. Psywarrior. Aðgengilegt á http://www.psywarrior.com/LibyaPsyop.html.
 20. HC [House of Commons]. 2016. Libya: Examination of intervention and collapse and the UK's future policy options. Skýrsla sérstakrar rannsóknarnefndar um þátttöku Bretlands í borgarastyrjöldinni í Líbíu 2011. Skýrsluna má nálgast á pdf formi á vefslóðinni https://publications.parliament.uk/pa/cm201617/cmselect/cmfaff/119/119.pdf
 21. Hill, E. 05.09.2011. Libyas NTC shackled by prisoner overload.
 22. Hoff, B. (6. Janúar 2016). Hillary emails reveal true motive for Libya intervention. Foreign Policy Journal. Sótt af https://www.foreignpolicyjournal.com/2016/01/06/new-hillary-emails-reveal-true-motive-for-libya-intervention/
 23. Human Rights Investigations. 26.09.2011. Ethnic cleansing, genocide and the Tawergha.
 24. IBTimes. 02.03.2011. U.S. says no evidence of Libya air attacks on protesters. International Business Times. Sjá: http://www.ibtimes.com/articles/117709/20110302/libya-air-attacks-unconfirmed-robert-gates-mike-mullen-no-fly-zone-hillary-clinton.htm
 25. ICC, 24.02.2011 Clarification on media information regarding the ICC position on the Libyan situation. Haag: International Criminal Court. Sjá http://www.icc-cpi.int/NR/exeres/8974AA77-8CFD-4148-8FFC-FF3742BB6ECB.htm
 26. Kafala, T. (12. Desember 2011). ´Cleansed´ Libyan town spills its terrible secrets. Libya: BBC News. Sótt af https://www.bbc.com/news/magazine-16051349
 27. Kovalik, D. (22. Janúar 2016). Clinton emails on Libya expose the lie of ´humanitarian intervention´. Huffington Post. Sótt af https://www.huffpost.com/entry/clinton-emails-on-libya-e_b_9054182
 28. Levinson, C. og Rosenberg, M. 17.03.2011. Egypt said to arm Libyan rebels. New York: The Wall Street Journal.
 29. Masood, A. 31.08.2011. CIA recruits 1.500 from Mazar-e-Sharif to fight in Libya.
 30. NATO. 23.10.2011. Nato and Libya: Operational media updater for 22 october. Napoli: Naples media and information centre. Hentet den 26.10.2011 fra http://www.nato.int/nato_static/assets/pdf/pdf_2011_10/20111023_111023-oup-update.pdf
 31. NCHR. 08.12.2009. Nominal commitment to human rights: A global survey. London: UCL department of political sciense. Sótt þann 10.07.2011 frá slóðinni http://www.ucl.ac.uk/spp/research/research-projects/nchr/nchr_index
 32. NCHR. 08.12.2009. Nominal commitment to human rights: A global survey. London: UCL department of political sciense. Hetet den 10.07.2011 av http://www.ucl.ac.uk/spp/research/research-projects/nchr/nchr_index
 33. Nordland, R. (16. Apríl 2011). Libyan rebels say they‘re being sent weapons. New York: The Times. Sótt af https://www.nytimes.com/2011/04/17/world/africa/17libya.html?_r=1
 34. Paris, R. 28.03.2011. Flawed, perhaps, but better than inaction. Ottawa: The University of Ottawa. Sjá http://aix1.uottawa.ca/~rparis/Globe_28March2011.html
 35. Petersen, J. [stjórnandi „Libya-utvalget“]. Evaluering av norsk deltakelse i Libya-operasjonene i 2011: Rapport fra Libya-utvalget. Statsministerens Kontor, Noregi. Sótt af https://www.regjeringen.no/globalassets/departementene/fd/dokumenter/rapporter-og-regelverk/libya-rapporten.pdf
 36. Rawnsley, A. 15.07.2011. Pentagon wants social media propaganda machine. Wired. http://www.wired.com/dangerroom/2011/07/darpa-wants-social-media-sensor-for-propaganda-ops/
 37. Riddel, K. og Shapiro, J. (29. janúar 2015). Hillary Clinton‘s WMD moments: U.S. intelligence saw false narrative in Libya. Washington: The Times. Sótt af https://www.washingtontimes.com/news/2015/jan/29/hillary-clinton-libya-war-genocide-narrative-rejec/
 38. Riley-Smith, B. 15.08.2011. First reaction: With rebels on the verge of taking crucial towns, is it too early to celebrate? London: The First Post
 39. RTnews. 01.03.2011. ”Airstrikes in Libya did not take place” – Russian Military. Sjá http://rt.com/news/airstrikes-libya-russian-military/
 40. Sengupta, K. 27.08.2011. Rebels settle scores in Libyan capital. London: The Independent.
 41. Seymour, R. (30. Ágúst 2011). Libyas spectacular revolution has been disgraced by racism. London: The Guardian. Sótt af https://www.theguardian.com/commentisfree/2011/aug/30/libya-spectacular-revolution-disgraced-racism
 42. Sherlock, R. 20.07.2011. The headless corpse, the mass grave and worrying questions about Libyas rebel army. London: The Telegraph.
 43. Stewart, C. 10.05.2011. Ship with 600 people aboard sinks as refugees flee from Libya. London: The Independent.
 44. Taylor, S. (16. ágúst 2011). Gadhafi support soars amid Nato bombing. Halifax Chronicle Herald.
 45. Traynor, I. (10. Júní 2011). US defence chief blasts Europe over NATO. The Guardian.
 46. UN, Human Rights Council. 04.01.2011. Report of the Working Group on the Universal Periodic Review. Sótt þann 27.06.2011 frá http://www2.ohchr.org/english/bodies/hrcouncil/docs/16session/A-HRC-16-15.pdf
 47. UN, Human Rights Council. 04.01.2011. Report of the Working Group on the Universal Periodic Review. Hentet den 27.06.2011 av http://www2.ohchr.org/english/bodies/hrcouncil/docs/16session/A-HRC-16-15.pdf
 48. United Nations Environment Program. 2005. Mediterranean action plan. Libya: UNEP.
 49. United States Department of State, 2009. 2009 Country Reports on Human Rights Practices – Libya. Sótt þann 16.júlí 2011 frá http://www.unhcr.org/refworld/docid/4b9e52e05f.html
 50. United States Department of State, 2009. 2009 Country Reports on Human Rights Practices – Libya. Hentet den 16.juli 2011 av http://www.unhcr.org/refworld/docid/4b9e52e05f.html
 51. Xinhua, 20.03.2011. Libyan government distributes weapons to people. Tripoli: China Daily.

Merki