Um kolranga forgangsröðun Borgaryfirvalda

10. mars, 2023 Jón Karl Stefánsson

Þann 6. desember s.l. var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Helsta tilefni fundarins var að fara yfir tillögur Borgarfulltrúa um sparnað og hagræðingu, en komið hafði í ljós að skuldir borgarinnar voru orðnar gríðarháar. Reykjavík var rekin með miklum halla.

Margar tillögur, alls 92, voru settar fram á fundinum, en efni hans má kynna sér hér. Þegar skoðað er hvaða tillögur voru samþykktar og hverjum var hafnað kemur fram skýrt mynstur sem lýsa má sem svo: Það var mjög auðvelt að fá samþykktar tillögur um skerðingu á þjónustu til fátækra hópa, en þegar kom að því að spara í yfirstjórninni sjálfri, hjá þeim sem Borgarstjórn sjálf hefur mest samskipti við, varð tregðan mikil. Þetta gilti jafnvel þó að fjárhæðirnar sem um var að ræða voru oft mun hærri í tillögum um sparnað í yfirbyggingunni, sem oftast var hafnað, en þær í samþykktum tillögum um skerðingu á þjónustu til bágstaddra og grunnþjónustu, sem gjarnari voru á að vera samþykktar. Sláandi var að sjá atkvæði flokka sem auglýsa sig til vinstri, Samfylkinguna og Vinstri-Græna, sem og Pírata, í þessum atkvæðagreiðslum.

Listi um tillögur sem kemur hér er ekki tæmandi, og það var ekki svo að einungis skerðing á grunnþjónustu og þjónustu til viðkvæmra hópa varð fyrir valinu. En þessi dæmi tal samt sínu máli.

Meðal tillagna sem Borgarfulltrúar samþykktu voru eftirfarandi:

  • Að rekstur 20 hjúkrunarrýma í Seljahlíð verði lagður niður. Sparnaður 50 milljónir.
  • Að viðræður verði hafnar um að segja upp eða breyta til lækkunar þjónustusamningi vegna rekstrar þjónustumiðstöðvar fyrir eldri borgara við Sléttuveg 25-27 í hagræðingarskyni ásamt leigusamningi um þjónustumiðstöð DAS við Sléttuveg í Reykjavík. Sparnaður 136,5 m.kr.
  • Að starfsemi unglingasmiðjanna Stígs og Traðar leggist af og markhópi úrræðanna verði sinnt í samstarfi fagfólks félagsmiðstöðva og Keðjunnar sem hluti af Betri borg fyrir börn. Sparnaður 63 milljónir.
  • Að Vin dagsetur verði lagt af. Vin er notendastýrð starfsemi sem allt að hundrað manneskjur sem glíma við félagslega einangrun og erfiða geðsjúkdóma nýta sér dag hvern. Þar eru starfræktar listasmiðjur, ferðafélag, sjálfsstyrkingarhópar og mörg önnur starfsemi, auk hádegisverðar og kaffi fyrir þennan viðkvæma hóp. Sparnaður 47 milljónir.
  • Að fella niður regllur Reykjavíkurborgar um styrki til áfangaheimila. Sparnaður, ótilgreindur.
  • Að fækka félagsmiðstöðvum, samfélags- og menningarhúsum í borginni úr 17 í 12. Sparnaður ótilgreindur.
  • Að lækka fjárheimildir til Klettaskóla og Brúarskóla um 50 milljónir.
  • Að lækka fjárheimildar til sundkennslu 10. bekkinga um 10 milljónir.
  • Að minnka launakostnað hjá sumarstarfsfólki um 60 milljónir.
  • Að segja upp samningi við skólabúðir á Úlfljótsvatni. Sparnaður 8 milljónir.
  • Að lækka fjárframlög til tónlistarkennslu fyrir fullorðna, 70 milljónir.
  • Að skera niður matarinnkaup í leikskólum um 100 milljónir.


Meðal tillagna sem Borgarfulltrúar felldu voru þessar:

  • Að fjárfesting í áhöldum, tækjum og hugbúnaði þjónustu- og nýsköpunarsviðs yrðu lækkuð úr 3.080 milljónum króna niður í 1.580 milljónir króna.
  • Að fella niður Hverfissjóð.
  • Að fara í 100 milljón króna hagræðingu á miðlægri stjórnsýslu tengdri skrifstofu borgarstjóra.
  • Að lækka rekstrargjöld borgarinnar með minnkun yfirbyggingar.
  • Að mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa yrði sameinuð velferðarsviði. Áætlað er að breytingin muni fela í sér hagræðingu sem nemur 200 milljónum króna árlega,
  • Að hagræða í miðlægri stjórnsýslu borgarinnar sem nemur 50 milljónum króna í upplýsinga- og vefdeild.
  • Að hagræða við skipulag borgarstjórnarfunda.
  • Að fækka borgarfulltrúum.
  • Að laun borgar- og 1. varaborgarfulltrúa taki ekki hækkunum árið 2023. Sparnaðurinn fyrir árið 2023 er áætlaður 29 m.kr.
  • Að skora á ríkið vegna útsvars á fjármagnstekjur. Ef útsvar hefði verið lagt á fjármagnstekjur má áætla að um 9 milljarðar hefðu farið til borgarinnar árið 2021.
  • Að hækka fjárhagsaðstoð til fátækra og koma á desemberuppbót til allra á fjárhagsaðstoð.
  • Að senda rukkun á ríkið vegna greiðslu NPA samninga.
  • Að Félagsbústaðir byggi a.m.k. 3.000 íbúðir.
  • Að hagræða og forgangsraða í lögbundna þjónustu.
  • Að fara í kerfisbundinn niðurskurð á skrifstofu borgarstjóra og í annarri stjórnsýslu borgarinnar þar sem flestar ráðningar hafa átt sér stað og mesta þenslan.
  • Að koma á ráðningarbanni í eitt ár í miðlægri stjórnsýslu.
  • Að fara í tilfærslu starfsfólks innan leikskóla í stað þess að segja fólki upp.
  • Að laun formanna íbúaráða yrðu lækkuð til jafns við laun annarra í ráðum.
  • Að ráðast í lækkun útgjalda vegna leigubílaferða.
  • Að lækka kostnað vegna utanlandsferða.
  • Að fella niður stafrænt ráð.
  • Að fella niður starfskostnað borgarfulltrúa um 30,6 milljónir
  • Að afnema síma- og internetstyrki.
  • Að fella niður fundarkostnaðar/launakostnaðar varamanna.
  • Að lækka fjárframlög til stjórnmálaflokka um 23 m.kr.