Tölvupóstar Hillary Clinton um Líbýu

20. maí, 2019 Jón Karl Stefánsson


Hillary Clinton með Nicolas Sarkozy

Hillary Rodham Clinton er, ásamt Nicolas Sarkozy fyrrverandi Frakklandsforseta, sá stjórnmálamaður utan Líbýu sem á mestan heiður, eða mestu sök, á því að koma af stað þeirri styrjöld sem geysaði í landinu árið 2011 og því ástandi sem nú ríkir þar. Hún átti frumkvæði að því að láta loka sendiráði Bandaríkjanna í Líbýu 25. febrúar og strax í kjölfarið að þrýsta á stjórnmálamenn á heimsvísu að samþykkja ályktun Öryggisráðs SÞ númer 1970 um refsiaðgerðir gegn Gaddafi og ríkisstjórn Líbýu. Þann 28. febrúar 2011 lýsti hún því yfir í Genf í Sviss fyrir framan hóp evrópskra kollega sinna að ríkisstjórn Líbýu væri ekki lengur viðurkennd sem lögleg stjórn landsins og að Gaddafi skyldi þvingaður til að „stíga frá“ tafarlaust. Um leið tilkynnti hún að Líbýa væri ekki lengur meðlimur í Mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna, þrátt fyrir að landið hefði verið mært í hástert af því ráði í janúar sama ár.

Clinton á ferð og flugi

Í byrjun marsmánaðar var Chris Stevens skipaður fulltrúi Bandaríkjanna í Benghazi. Þann 14. mars átti Hillary fund með fulltrúa uppreisnarmanna, Mahmoud Jibril, ásamt föruneyti hans til að ákveða næstu aðgerðir og vinna að annarri ályktun Öryggisráðs SÞ um Líbýu. Þar minntist hún á að henni þætti ekki loftferðabann nægilega stór áfangi. Næstu daga gerðist hún málsvari í Öryggisráðinu um harðar aðgerðir gegn Líbýustjórn. Henni tókst að tryggja það að Rússar héldu sig frá samningaborðinu og einnig að fá samþykki Portúgals og samtaka Afríkuríkja fyrir ályktun Öryggisráðsins númer 1973. Í ályktuninni var loftferðarbann samþykkt og einnig klausa um að beita „öllum mögulegum leiðum“ í deilunni, en þessi klausa opnaði fyrir möguleikann á stærri hernaðaraðgerðum, auðvitað á grundvelli „mannúðarsjónarmiða“. Þann 19. mars hitti Clinton lykilmenn í ríkisstjórnum þeirra Evrópu- og Arabaríkja sem skyldu taka þátt í árásunum og um kvöldið er fyrstu sprengjunum varpað á hermenn og flugstöðvar Líbýuhers.

Þann 24. mars tókst henni að fá því framgengt að Nató tæki við stjórnartaumunum yfir aðgerðunum gegn Líbýuher og í kjölfarið að tryggja þátttöku Sameinuðu arabísku Furstadæmanna, Katar og Jórdaníu í árásunum. Fimm dögum síðar fer Clinton til Lundúnaborgar á ráðstefnu þar sem hún er formælandi fyrir stofnun fjölþjóðlegs verkhóps sem fær það hlutverk að skipuleggja stjórn ríkisins eftir að Gaddafi hefði verið flæmdur frá. Þessi hópur ákvað síðar að tryggja að fjármagn flæddi framvegis til „bráðabirgðastjórnarinnar“ (Transitional National Council), sýndarstjórnar uppreisnarmanna. Í raun var um þjófnað frá þjóðarbúi Líbýu til ekki-kjörinnar „bráðabirgðastjórnar“ að ræða.

Á fundi í Berlín þann 14. apríl tókst henni að fá samþykki fyrir því að helstu markmið Nató í Líbýu yrðu þau að Gaddafi yrði hrakinn frá (eða drepinn), sem og ríkisstjórn- og ríkisher landsins. Hún talaði þar einnig fyrir því markmiði að koma í veg fyrir árásir stjórnarhersins á almenna borgara (en hún skilgreindi í raun alla uppreisnarmenn sem almenna borgara) og bað um óheftan aðgang að mannúðargögnum. Á meðan á stríðinu stóð var hún stöðugt á fundum með leiðtogum uppreisnarmanna og barðist gegn því að fjárveitingar Bandaríkjanna til stríðsrekstrarins yrðu heftar. Hún lýsti um mitt sumar því yfir að hin ekki-kjörna Bráðabirgðastjórn væri réttmæt stjórn landsins. Hún studdi svo Nató til dáða til að jafna við jörðina borgir á borð við Bani Walid, þar sem almennir borgara börðust gegn uppreisnarmönnum, og Sirte sem hélt út skelfilegt umsátur uppreisnarmanna í á annan mánuð, uns uppreisnarmenn náðu loks Gaddafi, nauðguðu honum með hnífi í endaþarm, drógu hann eftir götum heimabæjar síns og myrtu hann svo. Þegar Clinton fékk fregnir af því í sjónvarpsviðtali hló hún upphátt og sagði „við komum, við sáum, hann dó“.

Þessi atburðarrás er ekki frásögn andstæðinga Clintons. Hún kemur fram í eins konar mont-tölvupósti sem birtur var í gegnum Wikileaks; tölvupósti sem hún samþykkti og var tekinn saman af Jake Sullivan og sendur til hennar sjálfrar, auk Cheryl Mills, Victoriu Nuland og fleiri náinna samstarfsfélaga Clintons. Tölvupósturinn er aðgengilegur á eftirfarandi vefslóð Sjá nánar.

Líbýa hefur verið í skelfilegu ástandi síðan. Íslamskir öfgahópar og aðrar ofbeldissveitir hafa nýtt sér það að engin stjórn er í raun í landinu. Mun fleiri hafa látið lífið frá árslokum 2011 en létust í stríðinu sjálfu og alla tíð frá árinu 1969. Fangelsi eru yfirfull og vitað er að þar eiga sér stað skelfilegar pyntingar dag hvern. Þrælamarkaðir eru nú starfandi á götum stærstu borganna og gríðarlegur fjöldi flóttamanna reynir að komast yfir Miðjarðarhafið eða í gegnum Saharaeyðimörkina á hverju ári. Vitað er að þær forsendur sem gefnar voru til að fá samþykki almennings á Vesturlöndum og víðar fyrir árásarstríðinu 2011 voru nær allar rangar. Uppreisnarmenn voru ekki með mikið fylgi í Líbýu, ólíkt stjórn landsins, en bæði ríkisstjórnin og héraðsstjórnirnar í Líbýu höfðu verið valdar á mjög þróaðan hátt m.t.t. til grundvallarhugsjóna lýðræðisins. Staða mannréttinda og efnahags alþýðunnar var hin besta í allri heimsálfunni og landið var áður með því öruggara í heimshlutanum. Jafnvel Gaddafi sjálfur naut mikils fylgis og í einu rannsókninni sem gerð var af hálfu Bandamanna í Trípóli á sumarmánuðunum árið 2011 hafði hann meira en 80% fylgi í höfuðborginni. Gaddafi hafði að mestu dregið sig í hlé eftir að hafa fengið heilablóðfall og umbótasinnar voru með tögl og haldir í stjórn landsins. Hefði landið fengið að vera í friði hefði áframhald orðið á að bæta mannréttindi og lífskjör í landinu. Skuggastríð öfgahópa á borð við Libyan Islamic Fighting Group og Al Kaída með stuðningi Nató og Konungsríkjanna við Persaflóa komu í veg fyrir það. Uppreisnarmennirnir voru margir hverjir harðsvíraðir glæpamenn og jafnvel rasistar sem höfðu það sem yfirlýst markmið að útrýma „þrælum og svertingjum“ úr landinu. Þúsundir almennra borgara, lögregluþjóna og þjóðvarnarliða voru tættir í sundur árið 2011 og margfalt fleiri hafa verið pyntaðir til dauða síðan í því hryllingsríki sem Líbýa er í dag.

Þökk sé Wikileaks vitum við nú einnig að Hillary Clinton vissi að stríðið var byggt á lygi og að hættan á einmitt þeirri niðurstöðu sem varð að veruleika var mikil. Það að hún hélt áfram að ljúga um Líbýu og hló að niðurstöðunni sýnir svo ekki verðum um villst hvaða mann hún hefur að geyma og að hún ætti án efa að vera dregin fyrir stríðsglæpadómstól. Nú þegar sendiboðinn (Assange) hefur verið handtekinn og niðurlægður er ekki úr vegi að líta á nokkur af þeim gögnum sem Wikileaks birti um Hillary Clinton í þeirri von að fjölmiðlar einbeiti sér að innihaldi þeirra, en hunsi tilraunir til að slá ryki í augun á almenningi með því að beina athyglinni að Assange sjálfum.

Clinton vissi að stríðið var ekki háð af mannúðarsjónarmiðum

21. febrúar 2011, þ.e. einungis fjórum dögum eftir að mótmælin sem hafa verið sögð marka upphaf „uppreisnarinnar“ áttu sér stað, fékk Hillary Clinton tölvupóst frá aðstoðarmanni sínum, Huma Abedin, þar sem hann útskýrir fyrir henni að mesta hættan á hefndaraðgerðum frá ríkisstjórninni sé yfirstaðin. Í tölvupóstinum segir:

„Á grundvelli frásagna fjölda sjónarvotta metur sendiráðið ástandið þannig að ríkisstjórnin ráði ekki lengur yfir Benghazi. Líklega er svipaða sögu að segja af Ajdabiyah. Margir heimildarmenn í Benghazi tjá okkur að Innanríkisráðherra Líbýu, Abdul Fattah Younes, hafi „gengið í hitt liðið“ og „sé nú á bandi mótmælenda í Benghazi“. Andrúmsloftið í Benghazi og Ajdabiyah einkennist víst af „fögnuði“ og allar veggmyndir af Gaddafi hafa verið rifnar niður“ (skjal númer C05778494).

Þann 2. mars, nokkrum vikum áður en ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1973, sem gerði bandamönnum Bandaríkjanna kleift að hefja loftárásir undir yfirskyni „loftferðarbanns“, fékk Clinton tölvupóst frá Harriet Spanos, starfsmanni USAID þar sem hún segir Clinton frá því að skýrslur stofnunarinnar sýni „að síðustu daga hafi allt verið með kyrrum kjörum í Benghazi“. Bankar væru opnir, viðskipti verslana gengu eðlilega fyrir sig og að síma- og netsamband væri komið á (skjal númer C05778340).

Þann 30. mars, 11 dögum eftir að loftárásir Nató hófust, sagði helsti ráðgjafi Clintons, Sidney Blumenthal, henni frá því að þegar kæmi að því að réttlæta árásirnar væri „mannúðarsjónarmiðið takmarkað, bundið ákveðnum skilyrðum og vísar til ákveðinna atburða í fortíðinni“ í bréfi sem hefur yfirskriftina „Win this war“. Hann segir þar með öðrum orðum að í raun væru engin mannúðarsjónarmið á bakvið loftárásirnar. Hinar raunverulegu ástæður fyrir því að stríðið yrði að vinnast væru að auka vinsældir Obamas, og einnig að „skapa öryggi í Norður Afríku, tryggja lýðræði í Egyptalandi og Túnis, þróa efnahaginn, hafa áhrif á hinn arabíska heim og Afríku, auka áhrif Bandaríkjanna, ná mótvægi við Íran o.s.frv.“ (skjal númer C05782459).

Hér þarf að taka það fram að ályktun Öryggisráðsins númer 1970 byggðist á sögum um það að flugher Líbýu hefði gert loftárásir á mótmælendur í höfuðborginni Trípólí. Þegar þessar sögur voru skoðaðar nánar kom í ljós að þær voru hreinn uppspuni; þær loftárásir áttu sér aldrei stað. Öll ályktunin var því byggð á lygi. Það sem meira er, þá ályktun virti Frakklandsstjórn að vettugi og braut gegn henni. Þann 16. apríl greindi Abdul Fatah Younis, einn helsti foringi uppreisnarmanna, frá því í viðtali við sjónvarpsstöðina Al-Arababiya, að hersveitir hans fengju vopn frá Frakklandsstjórn (Nordland, 2011). Svo alvarlega tóku „bandamenn“ eigin ályktunum í raun.

Clinton vissi að íslamistar myndu sigra

Tölvupóstar Clintons sýna að hún vissi vel að með því að steypa stjórninni af stóli gætu öfgafullir íslamistar náð völdum í landinu. Í öðrum tölvupósti frá Blumenthal til Clintons (skjal númer C05780521) kemur skýrt fram að „í gegnum söguna hefur austurhluti Líbýu verið yfirráðasvæði róttækra íslamista, þar með talið Al Kaída hópsins Libyan Islamic Fighting Group. Þar sem stjórn Gaddafis hefur tekist vel til við að halda niðri ógninni sem stafar af íslamistum í Líbýu, opnar núverandi ástand möguleika á því að jíhadismi nái meiri útbreiðslu“ (Kovalik, 2016). Hún kaus að líta framhjá þessum hlutum, eða að minnsta kosti að láta engan vita af þeim.

Horft framhjá mannréttindabrotum uppreisnarmanna

Þann 27. mars 2011 sendi Blumenthal Clinton tölvupóst þar sem hann greindi frá því að „leiðtogi uppreisnarmanna segði frá því að hersveitir hans tækju enn af lífi alla útlenda málaliða í stríðinu“ (skjal númer C057824501). Hafa verður í huga að í ljós kom að fullyrðingar um að Gaddafi notaðist við erlenda málaliða frá sunnanverðri Afríku voru byggðar á uppspuna (Seymour, 2011). Í raun var um að ræða erlenda verkamenn og Líbýumenn með dökkt litarhaft; í stuttu máli voru uppreisnarmennirnir að taka af lífi alla svarta Afríkumenn sem þeir gátu. Þetta var í orðsins fyllstu merkingu þjóðarmorð með vitneskju og stuðningi Nató. Eitt dæmi um þetta þjóðarmorð var bærinn Tawergha, sem áður var nánast einungis búsettur svörtum Líbýumönnum sem margir voru afkomendur fyrrverandi þræla. Hann var algerlega tæmdur eftir gríðarleg fjöldamorð og árásir (Kafala, 2011). Eftirlifendur berjast enn fyrir því að fá að snúa aftur til heimkynna sinna, en fjölmiðlar hafa hunsað ákall þeirra.

Clinton vissi að útlenskir málaliðar voru í raun með uppreisnarmönnum

Í tölvupóstum frá fyrrnefndum Blumenthal kemur einnig skýrt fram að sérþjálfaðir breskir, franskir og egypskir málaliðar voru í herbúðum „uppreisnarmanna“ allt frá upphafi óreiðanna 17. febrúar 2011. Þessir sérsveitarmenn unnu við að þjálfa vígamenn sem vitað var að voru með sterk tengsl við öfgasamtök á borð við Al Kaída í Líbýu (Hoff, 2016). Í tölvupósti frá síðari hluta marsmánaðar 2011 kom skýrt fram að Vesturveldin voru þá þegar að vopna hryðjuverkahópa þessa í stórum stíl meðal annars með „að því er virðist endalausum birgðum af AK47 árásarrifflum og skotfærum“. Í sama tölvupósti er það útskýrt að óttast sé að öfgaöfl frá Libyan Islamic Fighting Group og Al Kaída væru að ná yfirtökum á bráðabirgðastjórninni og herafla hennar. Þetta þýðir þrennt. Í fyrsta lagi að Clinton og hennar fólk brutu sjálf gegn ályktun 1970 með því að vopna vígahópa í landinu. Í öðru lagi að sú saga að um væri að ræða uppreisn friðsamra almennra borgara var þvæla frá upphafi og að Clinton vissi mætavel að þetta var vopnað valdarán. Síðast en ekki síst sýnir þetta ótrúlega hræsni þeirra sem notuðu óspart ósannar sögur um notkun Líbýustjórnar á málaliðum til að selja sína eigin glæpi.

Stríðið fjallaði meðal annars um andstöðu við efnahagslegt frelsi Líbýu og annarra Afríkuríkja

Tölvupóstur með yfirskriftinni „France‘s client and Quaddafis gold“ barst til Hillary Clinton í apríl 2011. Í honum er skýrt frá því að þáverandi Frakklandsforseti, Nicholas Sarkozy, væri leiðandi í árásunum gegn Líbýu og að fimm meginástæður lægju að baki: Að tryggja Frakklandi líbýska olíu, að tryggja yfirráð Frakka í heimshlutanum, að auka hróður Sarkozys á landsvísu, að sýna hernaðarmátt Frakklands og að koma í veg fyrir að Gaddafi næði áhrifum í „frönsku Afríku“ (Hoff, 2016). Langur kafli í bréfinu útskýrir að Líbýa hefði safnað miklu magni af gulli og að nota ætti það til að koma á fót gjaldmiðli í Afríku sem gæti minnkað áhrif franska frankans í Afríku. Þetta væri gríðarlega alvarlegt fyrir efnahag Frakklands. Ekkert er minnst á mannúðarsjónarmið í bréfinu.

Clinton dreifði viljandi fjarstæðukenndum áróðri

Alls kyns ótrúlegar sögur voru birtar í fjölmiðlum um Gaddafi og Líbýustjórn á meðan á árásunum 2011 stóð. Þær hafa verið hraktar smátt og smátt, og tölvupóstar til Clintons sanna að hún vissi sannleikann allan tímann. Ein sagan fólst í því að Gaddafi hefði fyrirskipað að lík hermanna yrðu færð í íbúðahverfi til að láta líta út fyrir því að loftárásir Nató hefðu hæft almenna borgara. Sannleikurinn var auðvitað að Nató og uppreisnarmenn myrtu almenna borgara í stórum stíl og engin brögð voru í tafli með það. Hillary Clinton tók svo virkan þátt í því að dreifa þeirri sögu að hermenn Líbýuhers notuðu fjöldanauðganir sem viljandi stríðstæki að beinni fyrirskipan Gaddafis. Þessu hélt hún opinberlega fram á ræðupöllum. Alþjóðlegar eftirlitsstofnanir afsönnuðu fljótlega þessar kenningar (Cockburn, 2011). Enn villtari útgáfa af þessari sögu var sú að hermenn fengju sendingar af Viagra til að geta hægar stundað þessa stríðsglæpi. Robert Gates hélt þessu opinberlega fram í fréttum CBS og sendiherra Bandaríkjanna, Susan Rice, hélt svipuðu fram í hinu háa Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Það er athyglisvert að Hillary Clinton hafi tekið þátt í að dreifa þessum sögum, ekki síst í ljósi þess að seint í marsmánuði 2011 barst hennibréf frá Blumenthal þar sem hann segir:

„Fyrir um viku greindi ég frá því að þessi saga – að Gaddafi hefði fært lík til í áróðursskyni um mannfall meðal almennra borgara vegna Natóárása – en tilgreindi þó að um sögusagnir væri að ræða. En nú, eins og þú veist, er Robert Gates að gefa þessari sögu trúverðugleika… Heimildarmenn mínir greina nú frá því, og aftur er um sögusagnir að ræða (þ.e.a.s., þessar upplýsingar koma einungis frá uppreisnarmönnum og hafa ekki verið sannreyndar af vestrænum rannsóknum), að Gaddafi hafi tekið upp nauðgunarstefnu og hafi jafnvel dreift Viagra til hermanna. Atburðurinn á blaðamannafundinum í Trípólí þar sem kona hélt því fram að henni hefði verið nauðgað sé hluti af stærra hneykslismáli. Ég skal leita frekari upplýsinga“.

Engar sannanir fundust nokkurn tímann fyrir þessum sögum, en aldrei lét Hillary Clinton, né heldur Robert Gates eða aðrir sem dreifðu þeim um heimsbyggðina, vita af því.

Lengi lifir í gömlum glæðum

Þeir eru líklega margir sem enn hugsa sem svo að Líbýustríðið 2011 hafi verið óþægileg nauðsyn. Þeir trúa enn grunnsögunni um tilurð átakanna, hinni klassísku sögu um vonda einræðisherrann sem gekk of langt þar til almenningur reis upp og steypti honum af stóli. Loftárásir Nató voru, samkvæmt þessum hópi, ill nauðsyn; aldrei þessu vant reyndi Nató, með fólk eins og Hillary Clinton í broddi fylkingar, að gera rétt með því að hjálpa fólki sem lá undir árásum morðsveita einræðisherra. Menn trúa því enn að Gaddafi hafi reynt að bjarga sér með því að borga málaliðum til að berjast gegn almenningi í landi sínu, en ekki notið neins fylgis sjálfur. Að einungis hann hafi stjórnað landinu, en engin önnur stjórn hafi verið í raun.

Ef menn vilja og nenna geta menn komist að hinu sanna. Hin svokallaða bylting í Líbýu var ekki studd af meirihluta almennings í landinu, þvert á móti. Uppreisnarmenn voru að miklu leyti skipaðir rasistum, trúarofstækismönnum, konungssinnum og einmitt útlenskum málaliðum. Uppreisnarmennirnir stóðu fyrir nánast óhugsanlega skelfilegum voðaverkum allt frá upphafi. Á sama tíma voru frásagnir um mögulegt „þjóðarmorð“ á almennum borgurum af hendi stjórnarinnar þvæla. Hefði Nató haldið sér langt frá Líbýu og ekkert verið aðhafst hefði útkoman verið ólýsanlega betri fyrir landið en raunveruleikinn er í dag. Ef raunverulega hefði þótt ástæða til að blanda sér í innanríkismál Líbýu (sem er almennt ólöglegt samkvæmt alþjóðalögum) hefðu aðrir möguleikar verið diplómatísk og stjórnmálaleg vinna með alþýðu Líbýu í átt til einhverra umbóta, en slík vinna var þegar komin vel af stað í landinu. Umbótasinnar í Líbýu voru að sigra þegar hin meinta uppreisn hófst í hjarta Al Kaída landsvæðisins í Líbýu. Öll morðin og hin hrikalega eyðilegging í Líbýu var ekki einungis óþörf, heldur meiriháttar glæpur gegn mannkyninu. Ekkert hefur svo verið gert til að aðstoða Líbýumenn við að byggja landið upp á nýtt eftir hina miklu eyðilegginu sumarið 2011. Fórnarlömb stríðsins hafa enga afsökunarbeiðni fengið og stuðningsmenn stríðsins hafa höfuðin enn kyrfilega föst í sandinum.

Eitt er samt að hafa stutt þetta stríð með mis-hljóðu samþykki. Annað er framganga Hillary Clinton eða Nicholas Sarkozy, sem unnu markvisst að því að koma þessum hildarleik af stað og héldu honum gangandi.

Þökk sé Wikileaks að við vitum að Hillary Clinton getur ekki skýlt sér á bak við þá afsökun að hún hafi ekki vitað betur. Hún vissi mætavel hvað raunverulega átti sér stað. Eyðilegging Líbýu var glæpur að yfirlögðu ráði, gerður í þeim tilgangi að skapa ímynd sigurvegarans og tryggja efnahagslegan og pólitískan mátt síns fólks í heiminum. Hendur Hillary Clintons eru blóðugar upp að öxlum. En enginn þeirra sem stóðu á bak við árásirnar á Líbýu hefur verið dreginn fyrir rétt, hvorki Hillary, Gates, Sarkozy, né nokkur annar. Fáir blaðamenn hafa fjallað um þessi mál og þrýst á að réttlætinu verði fullnægt. Eftir að árinu 2011 lauk þögnuðu básúnur blaðamanna að mestu, nema þegar ofbeldi hinna nýju leppherra í Líbýu var svo yfirgengilegt að ekki var hægt að halda hljóðu. Sá eini sem hefur hlotið refsingu er Julian Assange, andlit vefmiðilsins sem kom upplýsingunum á framfæri. Svokallaðir „frjálslyndir“ stjórnmálaáhugamenn í Vestri kenna honum um að hafa eyðilagt fyrir Hillary Clinton með birtingu gagnanna og þannig komið Trump í forsetastólinn. Hvað sem Trump líður er slík röksemdafærsla hreinlega ótrúleg.

Það ætti að sækja Hillary Clinton til saka fyrir alþjóðadómstólum fyrir glæpi sína gagnvart Líbýu og grannríkjum; alls ekki sitja í forsetastóli í öflugasta hernaðarríki heims. Assange hefur einnig verið gagnrýndur fyrir að fjalla ekki nóg um Rússa og Kínverja; eins og það bæti það böl sem Wikileaks hefur sannað að hafi átt sér stað. Blaðamennska virkar ekki þannig að greina þurfi frá öllu alltaf til að geta átt rétt á sér. En með slíkri röksemdafærslu hefur blaðamönnum tekist að líta algjörlega fram hjá hinum gríðarlegu glæpum sem opinberaðir voru í gegnum Wikileaks. Kannski er þetta vegna þess að það er sárt að hafa rangt fyrir sér og erfitt að horfast í augu við það að eigin stuðningur hafi sett lóð á vogarskálar svo hræðilegra atburða. Kannski er þetta hrein leti.

Hver svo sem ástæðan er þá er nú tækifæri til að gera hið rétta: Að fordæma það þegar sá sem ber skilaboðinn er hengdur á kostnað glæpamannanna sjálfra. Við eigum að snúa við blaðinu og vera málefnaleg: Málefnin eru í innihaldi skjalanna sem birtust á Wikileaks. Ef áróðursmönnum stríðsherranna tekst í raun og veru að blása ryki í augun á fólki með því að beina athyglinni að einhverju persónulegum málum sendiboðans þýðir það að blaðamennska meginstraumsfjölmiðla er í raun dauð. Þeir blaðamenn sem taka þátt í því án þess að skoða upplýsingarnar sem komu fram hjá Wikileaks og mikilvægi þeirra ættu að vera skikkaðir til að leita sér annarra starfa.


Heimildir

Cockburn, P. (24. Júní 2011). Amnesty questions claim that Gaddafi ordered rape as weapons of war. London: The Independent. Sótt afhttps://www.independent.co.uk/news/world/africa/amnesty-questions-claim-that-gaddafi-ordered-rape-as-weapon-of-war-2302037.html

Hoff, B. (6. Janúar 2016). Hillary emails reveal true motive for Libya intervention. Foreign Policy Journal. Sótt afhttps://www.foreignpolicyjournal.com/2016/01/06/new-hillary-emails-reveal-true-motive-for-libya-intervention/

Kafala, T. (12. Desember 2011). ´Cleansed´ Libyan town spills its terrible secrets. Libya: BBC News. Sótt afhttps://www.bbc.com/news/magazine-16051349

Kovalik, D. (22. Janúar 2016). Clinton emails on Libya expose the lie of ´humanitarian intervention´. Huffington Post. Sótt afhttps://www.huffpost.com/entry/clinton-emails-on-libya-e_b_9054182

Nordland, R. (16. Apríl 2011). Libyan rebels say they‘re being sent weapons. New York: The Times. Sótt afhttps://www.nytimes.com/2011/04/17/world/africa/17libya.html?_r=1

Seymour, R. (30. Ágúst 2011). Libyas spectacular revolution has been disgraced by racism. London: The Guardian. Sótt af https://www.theguardian.com/commentisfree/2011/aug/30/libya-spectacular-revolution-disgraced-racism