Þýskaland og ESB yfirgefa skynsemi – og um Söru Wagenknecht
—
Kosningarnar í tveimur þýskum sambandsríkjum, Saxlandi og Thüringen 1. september, skóku Þýskaland og Evrópu. Höfuðsigurvegari var flokkur hægripopúlista, AfD en stjórnarflokkur jafnaðarmanna, SPD, var hinn mikli tapari. Hitt sætti þó ekki síður tíðindum að aðeins hálfs árs gamall flokkur, Bündnis Sahra Wagenknecht (BSW), kom út sem þriðji stærsti flokkurinn í báðum ríkjum. Flokkurinn er kenndur við flokksformann sinn, áður formann Die Linke.
Flokkur Söru
Um Söru og flokk hennar skrifar Ítalinn Thomas Fazi þetta: „Blanda hennar af gamaldags vinstri efnahagsstefnu, NATO-andstöðu í utanríkismálum og íhaldssömum menningargildum endurskilgreinir hugtakið popúlismi – og snýr þýskum stjórnmálum á haus.“ Sahra tengir sem sagt saman stríðsandstöðu og baráttu fyrir félagslegu réttlæti. Hefur einnig aðhaldssama afstöðu í innflytjendapólitík. Ekkert af þessu hefði þótt æsifrétt til næsta bæjar fyrir tveimur áratugum, en gerir það nú.
The Duran er YouTube rás sem menn ættu að gefa gaum, þar sem m.a. Glenn Diesen og Alexander Mercouris stjórna skarplegum umræðuþáttum. Þann 8/9 ræddu þeir við Michael von der Schulenburg sem lengi hefur verið aðalerindreki Þýskalands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og starfaði 34 ár hjá Sameinuðu þjóðunum (m.a. sem aðstoðar-aðalritari). Umræðuefnið var umskiptin í Þýskalandi að undanförnu og stríðið í Úkraínu. Michael Schulenburg heldur því fram að ESB einfaldlega neyðist til að breyta um stefnu í málefnum Úkraínu, annars sé hætta á að sambandið rífi sig í sundur.
Í Sambandsríkja-kosningunum um daginn var Schulenburg í framboði fyrir BSW-flokkinn og er hann nú sestur sem fulltrúi hans á Evrópuþingið. Glenn Diesen skrifar á vefsíðu sína um viðtalið við hinn gamalreynda diplómata:
Michael von der Schulenburg og Harald Kujat (fyrrverandi yfirmaður þýska hersins, Bundeswehr, og fyrrverandi formaður hermálanefndar NATO) hafa gagnrýnt NATO fyrir að hafa komið af stað stríðsátökum [í Donbass] og síðan spillt friðarsamkomulagi, til að að nota Úkraínumenn til að berjast við og veikja hernaðarlegan keppinaut [um þetta má lesa hér]. Nú er Þýskaland að af-iðnvæðast, stjórnmálaelítan hefur endurvakið stríðsákafa sinn, Bandaríkjamenn og Úkraínumenn réðust á mikilvæg orkumannvirki Þýskalands [haustið 2022], samfélagið verður svartsýnna, málfrelsi er skert, merki eru um pólitískt ofbeldi og nýir pólitískir valkostir eru að koma fram sem stjórnvöld geta ekki sætt sig við. Michael von der Schulenburg heldur því fram að ESB sé ekki lengur skynsamur gerandi í stjórnmálum.
Utanríkisstefna mikil áhrif á fylgi flokka
Stærsti þátturinn í kosningasigri Söru Wagenknecht var afstaðan til Úkraínustríðsins þar sem flokkurinn hafnar algjörlega hinum miklu vopnasendingum til stríðsins. Um þetta segir Schulenburg eftirfarandi í viðtalinu:
Þýskaland hefur umbreytt stefnu sinni gagnvart friðarviðræðum og þeirri stefnu að senda ekki vopn til landa í stríði. Þetta var okkar hefðbundna afstaða. Nú sendum við vopn til landa í stríði. En samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum eru 68% Þjóðverja andvígir því.
Afstaðan til Úkraínustríðsins hafði líka mikil áhrif á sigur AfD. Utanríkisstefna skiptir sem sagt vaxandi máli í kosningum. Og Schulenburg heldur áfram:
Það eru tveir flokkar andvígir vopnaaðstoðinni til Úkraínu, flokkar sem eru í grundvallaratriðum mjög ólíkir: AfD sem eru á friðarlínu í því máli, og við hjá BSW. Við erum á móti AfD af ýmsum öðrum ástæðum og munum ekki fara í samstarf við þá, en í þessu máli vilja báðir frið. Það gefur fólki valkost. Í öðrum löndum þar sem ég þekki til verður fólk að kjósa til hægri ef það er á móti stríðinu [í Úkraínu]. Svo þið sjáið að hér er eitthvað nýtt að gerast, sem ég held að muni gerast líka í öðrum löndum.
Evrópa má nú eiga stríðið – og þiggur það
Spyrjendurnir og viðmælandinn eru sammála um að sósíaldemókratar hafi í mörgum löndum búið til tómarúm með eigin pólitísku þróun, ekki síst með sinni herskáu afstöðu, svo ekki sé talað um flokk Græningja sem er nú herskáastur allra flokka. Schulenburg er sem sagt nýsestur á Evrópuþingið og honum bregður við að mæta þar:
Þetta er ekki bara mikilvægt í Þýskalandi heldur afar mikilvægt fyrir Evrópu. Ég sit á Evrópuþinginu, er alveg nýr þar. Ég er skekinn inn að beini, þingið er svo hernaðarsinnað. Það er á tunglinu, því að í Evrópulöndum vill fólk þetta ekki lengur… Staðan verður bara verri fyrir Þýskaland. Efnahagurinn fer niður á við. Menn láta eins og það hafi ekkert með stríðið að gera en auðvitað hefur það allt með stríðið að gera. Refsiagerðirnar skaða okkur meira en þær skaða Rússa. Að aftengja okkur frá hráefnum, aftengja okkur frá versluninni við Asíu. Það er brjálsemi.
Schulenberg segir að Úkraínustríði, tapað stríð, velti nú bersýnilega í fang Evrópubúa:
Bandaríkin hafa í meginatriðum kvatt Úkraínustríðið. Ég þekki Bandaríkjamenn, ég veit hvernig þetta gekk fyrir sig í Afganistan og Írak. Þeir sögðu bless. Við megum nú eiga stríðið [í Úkraínu]. Trump gæti orðið forseti, og hann gæti samið eitthvað við Pútín, yfir höfðum okkar.
Það sem Evrópa gerir núna er ekki að velja samninga um frið í Evrópu. Nei, við kjósum stríð. Á fyrsta allsherjarfundi sínum í sumar, 16. júlí, samþykkti Evrópuþingið ályktun um stuðning við Úkraínu. Það var afgreitt á einum degi. Þar segir: Við verðum að standa með Úkraínu þar til hún sigrar Rússa hernaðarlega. Og við ætlum að gefa Úkraínu 27 milljarða dollara í hergögnum á ári – jafn mikið og við höfum lagt fram samanlagt í stríðinu hingað til. Og Úkraína á varla neina hermenn eftir! Öllum vopnunum má hins vegar beita á rússnesku landi – og þeir [Evrópuþingið] bæta því við að Úkraína eigi að verða aðili að NATO og ESB. Ekki eitt orð um samningaviðræður. Ekkert af þessu getum við staðið við. Þetta eru einungis hættulegar ögranir… ESB fær bráðum Kaju Kallas sem utnaríkismálastjóra sinn. Hún vill brjóta Rússland upp í parta. Maður er hérna vitni að samstilltri brjálsemi. Þeir tvöfalda bara hernaðarútgjöldin – vígvæða ESB. Ég gat varla trúað því að við hefðum í Evrópu slíkt hernaðartungutak. Ég heyrði aldrei slíkt, ekki einu sinni í stríðinu milli Írak og Íran þar sem ég tók þátt í mörgum smningaviðræðum milli aðila, við gátum talað við þá. En hér er það ekki möguleiki.
Það er mjög þess virði að hlusta á allan þáttinn með Michael von der Schulenburg á The Duran.