Þú ættir að vinna 26 tíma á viku, ekki 40
—

Ef laun hefðu fylgt framleiðni frá árinu 1970, gætir þú lifað við sambærileg lífskjör og nú með a.m.k. 14 tímum færri vinnustundum á viku. En einhver annar hirti ávinninginn.
Full vinna var árið 1970 40 klukkustundir, eins og í dag. En síðan þá hefur framleiðni aukist ár frá ári með tækniframförum; vinnuaflið hefur sum sé orðið afkastameira með hverju árinu. Samkvæmt gögnum frá TheGlobalEconomy.com hefur framleiðni á Íslandi aukist um 53,6% frá árinu 1970 til 2022.
Ef launin hefðu fylgt þessari þróun, þá ættir þú að getað lifað sambærilegu lífi og meðal verkamaður gerði árið 1970 með aðeins 26 vinnustundum á viku. En þess í stað þarftu að vinna jafnmikið, jafnvel meira, til að ná endum saman. Um leið lifir þú við meiri streitu, hærri húsaleigu, og verri kjör.
Framleiðniaukningin fór ekki í vasa verkafólks. Hún fór ekki einu sinni í sameignina; við höfum misst nærri öll fyrirtæki sem áður voru í almannaeigu (sjá nánar hér og hér). Nei, aukningin rann óskipt til eigenda fyrirtækjanna, hluthafa og stjórnenda; hún breyttist í arð sem þú átt ekki tilkall í. Þeir sem áttu þegar, tóku meira, á meðan þú heldur áfram að vinna 40 tíma, eða meira, fyrir minna.
Þú ert ekki að vinna svona mikið vegna þess að þér finnst það svo gaman. Þú ert ekki „vinnualki“. Þú ert að vinna svona mikið því einhver annar græðir á því.
Kapítalisminn stelur af þér 14 klukkustundum í hverri einustu viku. Klukkustundum sem þú hefðir getað notað til að sinna fjölskyldunni, skrifa greinar, semja tónlist, í stuttu máli, lifa lífinu þínu. Þau sem stálu þessum tímum af lífi þínu, þau unnu ekki meira, þau unnu minna. En þau nutu ávaxta erfiðis þíns. Þau tóku þessa hluta lífs þíns.
Það er ekki leti sem veldur því að þú kemur ekki í verk því sem þig dreymir um. Þú ert ekki að vinna meira af því að samfélagið þurfti á því að halda. Þú ert að tapa þessu lífi, og vinna meira, af því að einhver annar græðir á því.