Kratar: Þarfasti þjónn auðvaldsins
—

„Alla þessa daga og nætur stóðu veðurbarðir verkfallsmenn á Torfunefsbryggjunni og gáfu ekki upp varstððuna fyrr en samningar voru undirritaðir. Fæstir af þeim mönnum fengu vinnu við tunnusmíðið en þeir vissu sinn vilja og þekktu sinn vitjunartíma, ef auðborgurunum hefði tekist að lækka kaupið við tunnusmíðið var þeim opnari leið til víðtækara kaupráns, þess vegna var verkfallsstaðan skylda við alþýðuheimilin, skylda við samtök vinnandi manna. Og svo var Nóvudeilan um stærri hluti en laun á litlum stað, hún var deila sem til þess var gerð að láta á það reyna hvort takast mætti að brjóta á bak aftur þá róttæku verkalýðshreyfingu sem risin var upp í landinu með tilurð Kommúnistaflokksins, að sigra verkamenn í þessum átökum var borgurunum valdaöryggi langt fram í tímann. Sú staðreynd, sem veltist fyrir veggjum á þessum átakatímum, var að verkalýðshreyfingin var klofin í tvær fylkingar. Á vinstri kanti vegarins stóðu kommúnistarnir í verkalýðsfélögunum með heitar hugsjónir í brjósti og byltingu á vörum. Hægra megin voru menn þriggja flokka, sammála um það eitt að velta steinum í veg þessa nýja afls meðal alþýðunnar. Þeim tókst að stofna ný verkalýðsfélög þar sem önnur voru fyrir og reka þau gömlu úr Alþýðusambandi Íslands…“ (Tryggvi Emilsson, „Baráttan um brauðið“, bls. 345).
Þegar verkalýðshreyfingin var að stíga sín fyrstu spor á Íslandi stóð fátækt verkafólk frammi fyrir gríðarlega erfiðri baráttu. Leið á því að vera niðurlægð daglega af fyrirtækjaeigendum og embættismönnum, að eiga að vera þakklát fyrir að fá sín lúsarlaun fyrir stritið á meðan fámenn valdaklíka makaði krókinn af því vinnuframlagi sem ekki var greitt fyrir, á því að þurfa að ganga með lotin höfuð og betla um að fá að láta arðræna sig til að lifa af, tóku þau upp sitt sterkasta vopn, samstöðuna, og lögðust til baráttu fyrir betri kjörum og mannlegri reisn.
Þetta krafðist hugrekkis. Svokallaðar „hvítliðasveitir“, kostaðar af atvinnurekendum, höfðu þann eina tilgang að berja á, ógna og angra það verkafólk sem dirfðist að standa í hárinu á valdastéttinni. En með samtakamættinum, aga og hugsjónum að vopni stóðu fyrstu hetjur verkalýðsins þetta af sér. Hægt er að lesa um þessar göngur í góðum bókum (t.d. „kraftaverk einnar kynslóðar“ Einars Olgeirssonar). Þar kemur vel fram að til að standast slík áhlaup ofbeldismanna þurfti bæði að nota kraft, og stillingu, því ef hægt væri að túlka það sem svo að það væru verkfallsmenn sem réðust á þessa hvítliða, þá var komin afsökun fyrir lögregluna að grípa inn í. Verkafólk var lamið, fangelsað og áreitt stanslaust, en þau stóðu þetta af sér og sýndu fádæma styrk og einurð.
Fyrir utan hvítliðasveitir og lögreglu, þá stóðu broddborgarar og þeir sem voru þeim hlýðnir, við kröfugöngur og verkfallsvörslu og hræktu á, hrópuðu ókvæðisorðum að verkafólkinu. Þeir sem létu sjá sig í slíkum göngum voru svo settir á svartan lista hjá atvinnurekendum. Þetta var grimm hætta, enda mátti fátækt verkafólk ekki af því að missa neinar tekjur; hvað þá allar. En þessa áhættu tók fólkið, vitandi um hætturnar, vegna þess að það var dugur í þeim. Á þessum árum voru litlir eða engir verkfallssjóðir; ekki einu sinni lög um verkfallsrétt eða önnur sem við tökum sem sjálfsögðum hlut í dag. Þau stóðu þetta af sér, og fyrir það eigum við að þakka nærri öll þau lífsgæði sem við hreykjum okkur af í dag; Öllu velferðarsamfélaginu, öllum réttindum. Þessu megum við aldrei gleyma.
Tvístrunaraflið
En það var enn önnur hætta sem frumkvöðlar verkalýðshreyfingarinnar stóðu frammi fyrir, og stendur enn frammi fyrir í dag, sem reyndist sú skæðastsa. Það var hættan af svikum hinna svokölluðu „jafnaðarmanna“ eða krata; hægriöflunum innan verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar. Allt frá upphafi komu þeir fram sem úlfar í sauðagæru, sem sögðust á orði standa með hinu kúguðu, en réðust síðan heiftarlega gegn þeim sem töluðu fyrir samtakamætti alþýðunnar, tóku undir hverja áróðursherferð auðvaldsins gegn þeim, og gerði allt sem í valdi þeirra var að tvístra samtakamætti alþýðunnar, verkalýðsfélögunum, og beittu fyrir sig orðfæri „skynseminnar“; þ.e. þeirri skynsemi sem atvinnurekendur töluðu fyrir. Það yrði að sýna hinum háu herrum skilning, og ekki sýna of mikla óbilgirni. Þetta var fólkið sem atvinnurekendur vildu tala við, og vildu að töluðu fyrir hönd alþýðunnar. Fyrir það fengu þeir ýmsar dúsur; ekki síst klapp í bakið og jafnvel góða vinnu frá auðvaldinu.
Frá upphafi rökkuðu kratarnir niður „kommúnista“, „sósíalista“, „rauðliða“, „bolsara“ og „róttæklinga“ og sögðu þann skríl ekki kunna mannasiði. Gjarnan voru þessir kratar úr efri stéttum; millistéttum, meðan hin „róttæku“ úr sótsvartri verkamannastétt. Bæði táknrænt og í raun urðu kratarnir að púða milli alþýðunnar og auðvaldsins; tróðu sér á milli, notuðu stuðning auðvaldsins til að ná völdum í þeim hreyfingum sem þeir gátu, og bakvið tjöldin við að bola út óþjóðalýðnum. Þannig náðist að hreinsa Verkamannaflokkana á Norðurlöndunum af „róttæklingum“.
Að eigna sér heiðurinn
Kratar titluðu sig ætíð sem talsmenn „alþýðunnar“, sögðust vera til vinstri við íhaldið. En nánast alltaf, þegar á hólminn var komið, þá tóku þau ákvarðanir fyrir hönd þessarar alþýðu sem gagnaðist auðvaldinu. Ef þeim fannst stéttafélag undir stjórn of „róttæks“ fólks, þá stofnuðu þeir sitt eigið því til höfuðs, ef einhver var of dónalegur við auðvaldið, þá var þeim hið sama úthýst. Þeir tóku beinan þátt í því að vísa of rauðum verkalýðsfélögum úr Alþýðusambandinu. Þeir töluðu gegn verkföllum sem var þeim ekki að skapi. Tvístruðu, og kenndu svo kommúnistum um að vera með niðurrif fyrir að hlýða ekki forystu þeirra.
Þannig náðu þeir trekk í trekk að draga tennurnar úr samtökum alþýðunnar og baráttu hennar. Verkföll hafa eyðilagst, framtíðarmarkmið um þjóðfélag án stéttskiptingar voru drepin, flokkar rakkaðir niður, lögreglu sigað á raunverulega verkalýðssinna.
Þannig hefur þetta verið allt frá upphafi, og af þessu er öll alþýðubaráttan mörkuð. Nærri allir ósigrar verkalýðsins hafa komið eftir rýtingsstungur Kratanna. Þeir eiga í samræðum við auðvaldið, gera samninga um „þjóðarsáttir“ og „koma til móts við hófsamar kröfur“ atvinnurekenda. Þeir hafa svo eignað sér árangur verkalýðsins þegar vel tekst til; hreykt sér fyrir að vera hinir raunverulegir arkítektar velferðarsamfélagsins.
Úr tengslum
Það er eins og kratar annað hvort skilji ekki eða vilji ekki skilja hverjir hagsmunir alþýðunnar eru, hvers vegna samtakamátturinn er svona öflugt vopn, eða nokkuð í því hvers vegna stéttskipting ríkir í samfélaginu.
Sú tegund alþýðubaráttu sem verkalýðsfélögin eiga að standa fyrir er í raun einungis hluti af mun eldri sögu þar sem fólk sem er kúgað reynir að bera hönd fyrir höfði sér. Þrælar Rómarríkis börðust, m.a. í Spartakus-uppreisninni, fyrir því að þeir fengju frelsi; að kúgarar þeirra hættu að nota þá til að gera sitt eigið líf ríkulegra af heimsins gæðum. Þrælar risu reglulega upp, og voru barðir niður í sögu heimsins; en á endanum var þrælahald nú afnumið. Þegar Rússar risu upp og gerðu byltingu ríkti enn lénskerfi í landinu. Hinir kúguðu voru hálf-eign búgarða; „sálir“ sem skráðar voru í bókhaldið sem eign þessa og þessa landeiganda. Þá mátti lemja að vild. Í nútíma kapítalisma eru það launþegar sem eru í þessum sporum. Kerfið er eilítið flóknara, og það gerir það kannski erfiðara um vik fyrir þá sem geta ekki, eða nenna ekki, að kynna sér eðli þessa kerfis. Hér er það eignarhald yfir framleiðslutækjunum, fyrirtækjum, landi og öðrum eignum sem er undirstaða valdanna, í stað guðlegra loforða. Í stað þess að vera eign einhvers, þá leigja þeir okkur í þrældóminn.
Markmið alþýðubaráttunnar eru enn þau sömu: Frelsi frá því að vera nýttur í þágu annarra, mótmæli gegn þeirri hugmynd að einn hópur fólks líti á sig sem æðri og rétthærri en annar, lausn frá þvingun og niðurlægingu. „Vopnin“ sem alþýðan hefur eru í rauninni þau að neita að veita kúgurunum það sem gerir þá ríka og valdamikla: Vinnuaflið. Án þess er engin arðsöfnun, ekkert arðrán. Við erum fjöldinn, þau eru fá; og það sem mestu máli skiptir, vinnuaflið er uppspretta allra auðæfa. Það er því sem er stolið, og kallað arðrán.
Ef við stöndum saman, þá getum við sigrað, þó ekki sé nema bara fyrir vel skilgreindum undirmarkmiðum. Þetta er þó hægara sagt en gert; lagaumhverfið hefur mótast í heimi þar sem auðvaldsstéttin hefur völdin, og lögin vernda þennan hóp. Eignarrétturinn er heilagur og valdastjórnin; lögreglan, dómstólarnir og fangelsin, koma þeim til aðstoðar ef þeim er ógnað. Í dagstritinu þá eru það eigendurnir sem hafa vald um hverjir eru ráðnir og hverjir ekki. Það þýðir því ekkert að þjóta af stað einn síns liðs í baráttunni. Við verðum að gera þetta saman, öll sem eitt; meðvituð um að andstæðingurinn deilir ekki okkar hagsmunum, nema hann gangi í lið með okkur. Okkar dauði er hans brauð.
Verkfæri atvinnurekenda
Í þessari baráttu er ekkert betra fyrir kúgarana; auðvaldið, en það að fá tvístrun og sundrungu innan frá í alþýðubaráttunni; ekkert betra en að hafa fólk sem í raun samþykkir þeirra sjónarmið og hagsmuni innan raða alþýðunnar. Þetta hefur meir að segja verið sett áætlanir um hvernig megi sundra alþýðubaráttu. Eitt dæmi er aðferðarfræði sem Paul H. Nitze útskýrði í bók sinni Tension Between Opposites: Reflections on the Practices and Theory of Politics sem gefin var út árið 1993. Nitze þessi stjórnar stofnuninni Paul H. Nitze School of Advanced International Studies (SAIS) við Johns Hopkins-háskólann, en skólinn er tengdur skuggasamtökunum Council of Foreign Relations. Nitze hefur verið kallaður „maðurinn sem færði okkur kalda stríðið“ enda var það hann, ásamt Dean Acheson, sem áttu mestan heiður að því að lobbía fyrir því að auka kerfisbundið fjárstreymi til hersins og í þróun vopna, á meðan hann starfaði í stjórn Trumans forseta. Með því hófst í raun vígbúnaðarkapphlaupið mikla.
Ein aðferðin sem Nitze mælti með til að brjóta niður fjöldahreyfingar var einmitt
„Að semja beint við hófsama aðila í hópnum sem á að skaða, með tillögum sem hinir róttækari í hópnum geta ekki fellt sig við. Hugmyndin er að styðja miðjuna og einangra púristana frá. Ef enn fremur er hægt að draga hina róttækari um leið inn í gervihóp, óhæfan hóp eða öfgahóp, helst marga slíka, þá er hægt að kvísla úr heilli fjöldahreyfingu og eyðileggja hana. Með þessu má knésetja jafnvel sterkustu grasrótarhreyfingar.“
Kratarnir spila þarna lykilrullu, líklega ómeðvitað. Það er svo engin tilviljun að einmitt slíkir „vinstrisinnar“ enda oft í þægilegum embættum eftir störf sín.
Hugsið hnattrænt
Kratarnir haga sér eins á alþjóðavettvangi. Það er lykilatriði í samstöðu alþýðunnar að hún gildir um allan heim: Verkamenn allra landa sameinist, heitir það. Allar tilraunir til að setja verkafólk upp á móti hvert öðru á grundvelli húðlitar, kyns, trúarbragða, tungumáls eða hvað eina, verður að kæfa í fæðingu. Allar manneskjur hafa nákvæmlega sama rétt. Og um leið þá styðjum við hvert annað í sömu baráttu. Við vitum að auðvaldið bregst ókvæða við þegar verkafólk í einu landi rís upp, og dreifir óhróðri um þá byltingu. Það er skylda að staldra við og sjá í gegnum slíkan áróður.
En aftur koma Kratar með rýtinginn. Verði bylting einhvers staðar á jarðkringlunni, þar sem hinir fátæku rísa upp, má reiða sig á það að Kratar taka undir málstað reiðra kapítalista. Þeir virka sem gjallarhorn fyrir hinar fyrirsjáanlegu fordæmingar: Að leiðtoginn, meintur eða raunverulegur, sé í raun einræðisherra; að stuðningsmennirnir (fátækt verkafólk) sé öfgafólk sem er ósanngjarnt við vesalings ríka fólkið, að þetta sé hættulegt fólk sem þarf að stöðva, og að nú sé þetta land „ólýðræðislegt“ og þurfi stjórnarskiptaaðgerð. Engar útskýringar leyfðar. Venesúela, Kúba, Líbýa, Júgóslavía, Víetnam, Chile, Rússland, Níkaragva, Mexíkó… Listinn er langur og sorglegur, og ætíð eru það Kratar sem fordæma hæst.
Barist gegn alþýðunni á alþjóðavettvangi
Þegar kemur að því að bregðast við aðgerðum ríkja sem eru undir hreinni stjórn auðvaldsins, þá gilda aðrar reglur. Þá er ástandið „flókið“, þá þarf að sýna skilning, kannski umla eitthvað um samninga. Það þarf því engum að koma á óvart að Kratar gera ekkert raunverulegt til að stöðva þjóðarmorðið í Palestínu, leyfa Bandaríkjunum að komast upp með hvert ólöglega stríðið á fætur öðrum, leyfa gömlu evrópsku nýlenduherrunum að skipuleggja sínar skuggahersveitir í ríkum fátækra til að sjúga frá þeim auðlindir og vinnuafl. Þetta er allt fyrirsjáanlegt.
Hverjar, nákvæmlega, eru hugsjónirnar?
Þegar kemur að því að spyrja hvað nákvæmlega er „vinstri“ við þessa hópa, þá bera kratarnir ætíð fyrir sér nýjustu tískumálstöðunum. Þetta eru baráttumál sem eiga það sameiginlegt að hljóma framsækin, „vinstri-leg“, en þegar betur er að gáð, þá virka þau sem sundrungarafl við einföldum, en mikilvægum grundvallarreglum alþýðubaráttunnar. Einmitt slík „baráttumál“ hafa stofnanir á borð við Leyniþjónustu Bandaríkjanna einmitt hannað allt frá því að þeir stofnuðu „Council of Cultural Freedom“ á sjötta áratug síðustu aldar. Í stað þess að sýna fram á hversu mengandi starfsemi auðvaldsins er, þá er skuldinni skellt á alþýðuna með kolefnasköttum í nafni loftslagsbreytinga; í stað þess að vinna að samvinnu og bræðralagi fólks óháð þjóðernis eða „kynþáttar“, þá á að berjast gegn ákveðnum hópi verkafólks á grundvelli hvíts húðlitar þeirra (þarna er snúið á haus eldri aðferðum þar sem ráðist var á verkafólk með hreim og helst dekkri húðlit). Reynt er að koma af stað átökum milli kynja, þjóðernis, hvað sem er, til að sundra einingu verkafólks. Þarna eru Kratar í essinu sínu, óvitandi að þjóna auðvaldinu.
En fyrir utan slík einstaka málefni, þá er kominn tími til að spyrja, hvað nákvæmlega er „vinstri“ við Kratana? Hvað vakir fyrir þeim? Eru þeir meðvitaðir um að þeir eru að valda fátæku fólki skaða með framferði sínu?
Ef Kratar fara ekki að koma undir réttum merkjum; sem auðvaldssinnar sem vilja hafa stjórn á alþýðunni innan frá, þá verður að útmá þá. Það þarf að spyrja þá, hverjar eru raunverulegar hugsjónir þeirra. Vita þeir það sjálfir?