Þriðju-persónuáhrif og áróður
—
Félagsfræðingurinn W. Philips Davison var fyrstur til að rannsaka fyrirbæri sem hann kallaði „þriðju-persónu áhrifin“ í samskiptum („third person effect“, Davison, 1983) sem leiddu af sér margar síðari rannsóknir (sjá t.d. Perloff, 1999). Þriðju-persónu áhrifin felast í þeirri trú manneskjunnar að aðrir séu móttækilegri fyrir misvísandi upplýsingum og láti freka glepjast af áróðri en hún sjálf. Þetta stangast auðvitað á við eðlilega tölfræði, en svo sjálfhverf erum við nú.
Það er auðvelt að sjá þessa tilhneigingu hjá öðrum. Við þurfum ekki annað en að lesa athugasemdir á fjölmiðlum og spjallborðum, og auðvitað fréttir ef út í það er farið, til að sjá fólk falla í þessa gryfju. Stjórnvöld og stórfyrirtæki hafa meir að segja tekið höndum saman og stofnað ýmis skrípafyrirtæki sem eiga að vernda sauðheimskan almúgann fyrir hættulegum upplýsingum, falsfréttum og Rússatröllum sem afvegaleiða hina saklausu og geta hleypt öllu í bál og brand. Þau þurfa að hugsa fyrir „hina“, þau sjálf eru auðvitað yfir þetta hafin og trúa bara réttum upplýsingum, frá réttu fólki.
Það er gott að vera meðvitaður um þessa tilhneigingu hjá sjálfum sér. Við erum öll móttækileg fyrir áróðri og erum „hlutlæg“ á máta sem við gerum okkur ekki endilega grein fyrir. Við trúum sumu og sumu ekki, og það eru ekki einungis gæði upplýsinga sem stýra því. Við skoðum alls kyns vísbendingar, mis-gáfulegar, eftir merkjum um það hvort eitthvað sé trúanlegt eða ekki. Við skoðum hver segir það (kennivald), hversu flott umgerð er í kringum frásögnina, hversu margir virðast vera á þessari eða hinni skoðuninni (skrúðgöngulestin), hvort einhver ógeðfelld persóna sé á öndverðum meiði o.s.frv. Til eru sérfræðingar sem kunna að spila með þessa tilhneigingu okkar. Almannatengslaiðnaðurinn er sérstaklega hannaður til að skapa „réttar“ tilfinningar um málefni í hugum fólks. Ríkisstjórnir og herir stóru ríkjanna hafa gríðarlega sterkt áróðursbatterí að störfum allan sólarhringinn og öflugar skuggastofnanir sömuleiðis. Við förum ekki í gegnum einn dag án þess að hafa verið ómeðvitaðir þátttakendur í styrjöld um hugi okkar og hjörtu. Í þessu stríði eru það hin ríku og valdamiklu í okkar eigin samfélagi sem hafa yfirhöndina þó að þeir bendi á veikburða óvini sem helstu gerendur í upplýsingaóreiðu.
Þau sem deila ekki skoðunum okkar eru auðvitað þau sem eru mestu fórnarlömb áróðurs frá okkar sjónarhorni. Þau hafa látið spila með sig og eru nú að dreifa lygunum út frá sér sem nytsamlegir sakleysingjar á snærum illmenna. Þau vekja reiði hjá okkur, og þau verður að stoppa, ritskoða, og smána ef með þarf.
Við þurfum að vera meðvituð um þessa tilhneigingu okkar, og einnig það að áróðursmenn nota hana einmitt grimmt í sína þágu. Á tímum stríðsátaka er þetta sérstaklega mikilvægt að hafa í huga. Fólk sem kemur með upplýsingar eða sjónarhorn sem stangast á við það sem við teljum sjálfsögð sannindi – hvort sem það tengist stríði, sóttvarnaraðgerðum, stefnumótun í verkalýðsmálum eða eðlileika stigveldisstjórnkerfis – mun verða sakað um að hafa látið glepjast af áróðri. Þumalfingursreglur hugans vinna hraðar en lestrarstöðvarnar.
Heimildir:
Davison, W. P. 1983. The third person effect in communication. Public Opinion Quarterly, 47, bls. 1-15. https://academic.oup.com/poq/article-abstract/47/1/1/1906961
Perloff, R. M. 1999. The third person effect: A critical review and synthesis. Media Psychology, 1, bls. 353-378. Sótt frá https://www.tandfonline.com/doi/abs/10.1207/s1532785xmep0104_4