Þjóðernishreinsanir í Sýrlandi: Við deilum ábyrgð
—
Það er víðar en í Palestínu sem útrýmingarherferð á sér stað, hér og nú, fyrir augum heimsbyggðarinnar, fyrir augum aðgerðarlauss „Alþjóðasamfélags“. Í Sýrlandi á sér nú stað raunveruleg og einbeitt tilraun til að útrýma heilum þjóðum frá yfirborði jarðar. Bæði í Palestínu og í Sýrlandi eru fingraför Ísraels og Bandaríkjanna. Ný stjórnvöld í Sýrlandi, sem enginn kaus en var fagnað á Vesturlöndum sem einhvers konar boðberar frelsis í Sýrlandi, taka virkan þátt í þessum útrýmingarherferðum.
Eftir fall Assads í Sýrlandi hafa trúarlegir minnihlutahópar; þá sérstaklega Alavítar, Kristnir og Drúzar, staðið frammi fyrir skipulögðum útrýmingarherferðum. Þeir sem áður bjuggu í veraldlegu samfélagi þar sem trúfrelsi var tryggt, standa nú andspænis kerfisbundnum fjöldamorðum, mannránum, nauðungarflutningum og kynferðisofbeldi. Heimildir benda ótvírætt til þess að þetta sé ekki tilviljun heldur afleiðing stefnu sem stríðshaukar í Bandaríkjum og bandamenn þeirra hafa stutt og ýtt undir í áratugi.
Dennis Kucinich (2025) bendir á að rótin að þessum hryllingi liggi í bandarískri utanríkisstefnu sem rekja má aftur til svokallaðrar Clean Break áætlunar frá 1996. Þar var lagt til að veikja Sýrland kerfisbundið. Meðal annars í gegnum CIA-aðgerðina Timber Sycamore, sem dældi milljörðum dollara í vopn og þjálfun svokallaðra „milliliða“. Í reynd var verið að vopna öfgahópa eins og Al-Nusra, Al-Qaeda og ISIS.
Á meðan við fengum daglega áróðursboð um „frelsisbaráttu“ var sannleikurinn sá að skattfé Vesturlandabúa fór í að styrkja hópa sem nú raða Alavítum og Kristnum upp við veggi og skjóta þá í fjöldamorðum (Kucinich, 2025).
Eva Karene Bartlett (2025) dregur upp skelfilega mynd af því sem nú á sér stað í Alavítahéruðum. Þar hafa liðsveitir Abu Mohammad al-Joolani (HTS), hins nýja en ó-kosna forseta og fyrrverandi leiðtoga í Al-Nusra, kveikt vísvitandi elda í skógum og görðum til að gera svæðin óbyggileg. Þetta er hluti af stefnu sem miðar að því að neyða fólk á flótta og taka frá því möguleikann á að lifa af. Samhliða eru ungar Alavítakonur teknar á almannafæri, nauðgað, seldar sem kynlífsþrælar eða myrtar. Tilvik eins og morðin á barnshafandi konunum Hazar Nezha og Nagham Issa eru aðeins toppurinn á ísjakanum.
Bartlett bendir einnig á að Bandaríkin hafi nýlega fjarlægt HTS af hryðjuverkaskrá sinni, að sögn til að gera bandamönnum sínum kleift að styðja hópinn opinberlega. Hún segir þetta ekki aðeins vera pólitískt brögð heldur vísvitandi vopnun hryðjuverka sem hluta af bandalagi Bandaríkjanna, Tyrklands og Ísraels.
Drúzar hafa ekki farið varhluta af þessari stefnu. Skjöl sem The Druze Documentation Project (2025) hefur safnað sýna fram á markvissar ofsóknir: morð, pyntingar, mannrán og efnahagslega eyðingu. Alþjóðlegir sérfræðingar telja að þessi brot falli undir skilgreiningu á stríðsglæpum og jafnvel þjóðarmorði.
Allt bendir til þess sama: Bandaríkin og bandamenn þeirra hafa áratugum saman notað stjórnarskiptaaðgerðir („regime change“) sem vopn, með því að styðja öfgahópa og kynda undir trúar- og þjóðernishatur til að ná fram markmiðum sínum. Í Sýrlandi hefur þessi stefna leitt til þess að elstu kristnu samfélög heims eru í rústum, að Alavítar eru drepnir í hópum og að Drúzar búa við stöðuga ógn útrýmingar.
Það sem kynnt var sem barátta fyrir frelsi og lýðræði er í raun eitt mesta siðferðilega gjaldþrot vestrænnar utanríkisstefnu á þessari öld.
Heimildir:
Bartlett, E. K. (2025, July 8). Syria is being burned: Terrorist Joolani’s henchmen set fires, ensuring Alawite regions become unlivable, part of US-Israeli-Turkish & co destruction of Syria. Frá Substacksíðu höfunar.
Kucinich, D. (2025, March 12). The Genesis of Sectarian Death Squads in Syria: The Fall of Assad to US Supported Extremists and the Massacre of Christians and Alawites. The Kucinich Report.
The Druze Documentation Project. (2025). Documentation of War Crimes Against Druze in Syria.







