Stríðslok og endurreisn í Sýrlandi – eða ekki?
—
Sýrlandsstríðið varð að nýju dálítið fréttaefni í íslenskum fjölmiðlum um daginn þegar Bandaríski herinn kastaði sprengjum á landamærasvæðið milli Sýrlands og Írak 25. febrúar að skipun Joe Bidens. Heima fyrir fékk forsetinn reyndar dálitla gagnrýni fyrir að hefja loftárásir án þess að bera undir þingið. Einn forsetaframbjóðandi Demókrata gekk þó mun lengra í gagnrýni og fordæmdi þá stefnu sem málefni Sýrlands ætla að taka hjá nýjum húsbændum í Hvíta húsinu. Þetta er Tulsi Gabbard sem nú er nýhætt á þingi. Hún lýsir yfir:
„Það gleður mig að heyra að nokkur fyrrum starfssystkini mín í Þinginu tala gegn nýlegum loftárásum í Sýrlandi sem stríða gegn stjórnarskrá okkar. En þau horfa samt framhjá stóra málinu. Valdaskiptastríðið sem Bandaríkin heyja áfram í Sýrlandi – og nota al Kaída, Al Nusra og HTS-hryðjuverkamenn sem staðgengils-landher, og sem hernema nú og stjórna Idlib-héraði, setja sjaríalög og hreinsa landið af flestum kristnum og trúarlegum minnihlutahópum. Bidenstjórnin heldur áfram að nota her okkar til að hertaka ólöglega Norðaustur-Sýrland, til að „taka olíuna“ eins og Trump svo groddalega en hreinskilnislega sagði, Sem þverbrýtur þjóðréttarreglur. Nútímalegt umsátur með grimmilegu verslunarbanni og refsiaðgerðum, líkum þeim sem bandalag Sáda notaði gegn Jemen, veldur dauða og þjáningu milljóna saklausra Sýrlendinga, sviptir þá nauðsymjum eins og mat, lyfjum, hreinu vatni, hita – og gera sýrlensku þjóðinni ómögulegt að reyna að endurreisa sitt stríðshrjáða land.“
Það var þegar orðið ljóst í lok Obamatímans að leiguherir Bandaríkjanna og Persaflóaríkja myndu ekki steypa Assasdstjórninni með sigrum sínum á vígvellinum – sérstaklega ekki aftir að Rússar komu þar að málum að beiðni Sýrlandsstjórnar. Þetta leiddi af sér áherslubreytingar í Washington. Eins og lesa mátti nýlega hér á Neistum: „Gagnvart Íran og Sýrlandi er stefnan nú að veikja þessi ríki og brjóta þau niður innan frá frekar en sigra þau hernaðarlega.“ https://neistar.is/greinar/heimsvaldastefnan-og-bandarisku-kosningarnar/
Blaðamaðurinn Aaron Maté hjá mótstraumsmiðlinum The Grayzone fer í fréttaskýringu á 23 mínútum yfir horfurnar varðandi stríðsreksturinn í Sýrlandi undir Biden-stjórn. Hann fer yfir ummæli og yfirlýsingar fólks úr báðum herbúðum bandaríska tvíflokksins, einkum þó fyrri ummæli frá nokkrum helstu nýju embættismönnum Biden-stjórnarinnar í utanríkismálum, ummæli sem segja þá sitt um hvers má nú vænta. Og Maté vekur athygli á ummælum frá þessu fólki sem viðurkenna algjörlega réttmæti lýsingar Gabbard hér að ofan, en ekkert þeirra sér þó ástæðu til að gagnrýna bandarísk stjórnvöld fyrir það. Hér er þessi yfirferð Matés.
Eitt dæmi: Í tölvupósti frá Jake Sullivan til Hillaray Clinton árið 2012, sem Wikileaks birti, má lesa: „AQ is on our side in Syria”, þ.e.a.s. Al-Qaeda er með okkur í liði í Sýrlandi. Og nú er sami Jake Sullivan kominn í það valdamikla embætti að vera öryggisráðgjafi forsetans Joe Bidens.
Annað dæmi: Þegar Tulsi Gabbard í forsetaframboði sínu fordæmdi valdaskiptastríðið gegn Sýrlandi og efnahagslegu refsiaðgerðirnar sömuleiðis afgreiddi Kamila Harris núverandi varaforseti hana einfaldlega sem „forsvarsmann Assads“.
Af mörgu ljótu tali sem Maté vitnar til eru hvað mest sláandi ræður Dana Stroul sem er nú staðgengill aðstoðarutanríkisráðherra Bidenstjórnar í málefnum Miðausturlanda. Dana Stroul fór áður fyrir hópnum The Syria Study Group sem skipaður var af Þinginu til að kanna Sýrlandsstríðið. Sem talsmaður hópsins lýsti hún stöðunni fyrir Þinginu og lagði áherslu á að ekki mætti draga úr hernaðarlegri viðveru Bandaríkjanna í Sýrlandi né efnahagslegum þvingunaraðgerðum. Alveg sérstaklega lagði hún áherslu á nauðsyn þess að hindra aðgengi Sýrlandsstjórnar að hinum efnahagslega mikilvægu norðausturhéruðum landsins. Álit hennar er að tíminn vinni með Bandaríkjunum og að þessi taktík, í meginatriðum óbreytt, muni duga til að koma Assadstjórninni á kné efnahagslega og þar með pólitískt. Stroul mælir svo:
„Ástæða þess að Syria Study Group talaði um þörfina á að viðhalda hernaðarlegri viðveru í Sýrlandi snérist ekki bara um það að ljúka stríðinu við ISIS. Það snérist um breiðari áhrifamátt okkar í þessum þriðjungi Sýrlands sem er hinn auðlindaríki hluti landsins sem gaf okkur aðstöðu til að hafa áhrif á pólitísk úrslit í Sýrlandi.“ [Stroul segir ennfremur] „Þessi hluti landsins er efnahagsleg aflstöð Sýrlands. Það er þar sem kolvetnin eru [olía og jarðgas] – sem auðvitað er mjög um rætt hér í Washington – sem og aflstöð landbúnaðarins…“ „Það sem Rússarnir vilja og Assad vill er efnahagsleg endurreisn. En það er nokkuð sem Bandaríkin geta í raun stöðvað, gegnum alþjóðlegar fjármálastofnanir og samvinnu okkar við Evrópulönd… Svo við ættum að halda áfram stefnunni að hindra að endurreisnaraðstoð og tæknileg sérfræðiaðstoð komist aftur inn í Sýrland.“
Lífsbarátta sýrlensku þjóðarinnar verður bersýnilega ekkert auðveldari með þetta fólk í lykilstöðum vestan hafs. Bandaríkin munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hindra enduruppbyggingu, og það er ennþá margt. En tíminn vinnur samt ekki með heimsvaldasinnum.