Stéttabaráttan á tímum Covid-19

28. maí 2020 — Björgvin Leifsson


Skipting Stétta


Pistilinn skrifar portú-galinn


Inngangur

Til að byrja með skal tvennt rifjað upp, sem líklega skiptir máli fyrir stéttabaráttuna í dag.

Sigur náðist yfir stéttasamvinnuöflunum í forystu ASÍ á þingi sambandsins í október 2018 (sjá https://neistar.is/greinar/sigur-yfir-stettasamvinnuoflunum-a-asi-thingi/). Árangur þessa kom vel í ljós í lífskjarasamningunum svokölluðu vorið 2019, þegar láglaunafólk náði umtalsverðum kjarabótum, a.m.k. langt umfram það, sem náðst hafði í langan tíma undir forystu stéttasamvinnuaflanna, þó að nokkuð hafi verið gefið eftir í lokin m.a. vegna falls Wow Air (sjá https://neistar.is/greinar/lifskjarasamningar/) . Þessi tvö atriði, sigurinn í ASÍ og samningarnir 2019, sýndu verkafólki svo ekki verður um villst að það er hægt að sækja kjarabætur til auðvaldsins með baráttu og sá árangur, sem þarna náðist, bjó til mikilvæga reynslu í því stéttastríði, sem nú geisar.


Áhrif faraldursins á stéttabaráttuna

Áhrif kóvitsins á stéttabaráttuna og þjóðfélagið allt eru nú þegar orðin mjög mikil en samt sem áður engan veginn komin fram að fullu leyti. Þær leiðir, sem stjórnvöld hafa gripið til, eru mjög fyrirtækjamiðaðar svo ekki verði meira sagt og svo sem ekki að undra þegar þrír íhaldsflokkar eru við völd. Afleiðingarnar af aðgerðum og aðgerðaleysi stjórnvalda eru ýmiss konar og verður ekki fjallað um þær allar hér. Það sem er eftirtektarverðast eru aðgerðir og aðferðir auðvaldsins, hvort sem um er að ræða fyrirtæki í einkarekstri eða opinberar samninganefndir, til að halda niðri og jafnvel rýra kjör launafólks í nafni þess að allir þurfi að standa saman í kóvid baráttunni. Með öðrum orðum er gamli stéttasamvinnusöngurinn kyrjaður því nú skal nýta tækifærið til að ná aftur áunnum réttindum af launafólki. Kíkjum á nokkur dæmi.


Hjúkrunarfræðingar og "framvarðarsveitirnar"

Í ágætum hlaðvarpsþætti í apríl ræddu Spaugstofumenn (Móðir menn í kví, kví - má finna á RÚV) um að misjafnt væri hvernig þjóðir bregðast við kóvitinu. Bandaríkjamenn kaupa sér byssur, væntanlega vegna stjórnarskrár varins réttar þeirra að skjóta helvítis veiruna á færi. Hvítrússar reyna að drekkja veirunni í vodka. Á Íslandi lækka menn laun hjúkrunarfræðinga á sama tíma og allir hrósa framvarðarsveitunum fyrir framlag þeirra í kóvit baráttunni, rétt eins og fólk eigi að lifa á hrósinu.

Þegar kóvitið skall á var allt í einu orðið nauðsynlegt að semja við hjúkrunarfræðinga, sem hafa verið samningslausir í árabil. Undir mikilli pressu náðist samningur, sem síðan var kolfelldur í atkvæðagreiðslu. Síðan hefur lítið frést af framgangi kjaraviðræðna hjúkrunarfræðinga við ríkið, enda kóvit álagið að minnka og þá er væntanlega allt í lagi að halda marghrósuðum hjúkrunarfræðingum samningslausum um nokkra hríð í viðbót.


Efling og lægst launaða fólkið

Að loknum "lífskjarasamningunum" var enn þá ósamið við lægst launaða hópinn innan Eflingar, fólkið, sem vinnur umönnunarstörf og liðveislustörf á vistheimilum, dagheimilum og skólum. Með mikilli baráttu náðist fyrst samningur við Reykjavíkurborg en þá var enn ósamið við nokkur sveitarfélög kringum höfuðborgina, sem neituðu að semja um eitthvað meira en hina svokölluðu lífskjarasamninga. Yfirgnæfandi meirihluti þess Eflingarfólks, sem átti hlut að máli, samþykkti verkfallsaðgerðir og svo vildi til að verkfallið byrjaði um svipað leyti og kóvit álagið fór að ágerast. Undir nokkrum þrýstingi ákváðu félagsmenn Eflingar að fresta verkfallinu og heyrðust þá sigri hrósandi íhaldsraddir að Efling hefði gefist upp.

Ekki aldeilis!

Þegar aftur fór að hægjast um var blásið til nýrrar atkvæðagreiðslu og var ný verkfallsboðun Eflingar hjá hlutaðeigandi sveitarfélögum samþykkt með nánast öllum greiddum atkvæðum. Sem betur fer varð ríkisstjórnin ekki við óskum viðsemjenda Eflingar um lög á verkfallið og svo fór að Efling náði nánast öllu fram, sem lagt var upp með. Það er lýsandi og glæsilegt dæmi um hversu stéttabaráttan skilar launafólki svo miklu meira en stéttasamvinnan og má óska Eflingarfólki innilega til hamingju með árangurinn.

Það er leitt til þess að vita að innan verkalýðshreyfingarinnar eru raddir, sem telja Eflingu hafa rofið samstöðuna með því að hafa náð meiru fram fyrir lægst launaða hópinn sinn en um er kveðið í "lífskjarasamningunum". Í því sambandi má rifja upp þegar Framsýn á Húsavík náði betri samningum fyrir sitt fólk en lagt var upp með af hálfu stéttasamvinnuaflanna og rauf þar með skarð í samstöðu atvinnurekenda. Þetta voru mikil svik að áliti stéttasamvinnuaflanna, sem þá voru í forystu verkalýðshreyfingarinnar.

Nei. Nái einhver hópur meira fram í kjarabaráttunni en einhverjir aðrir hópar ber að gleðjast yfir því. Með því er ekki verið að höggva skörð í samstöðu launafólks. Þvert á móti er verið að rjúfa skarð í samstöðu atvinnurekenda.


Icelandair

Neistar birtu um daginn ágæta grein um siðlausa framkomu þessa "lífsnauðsynlega" flugfélags í garð starfsmanna sinna og sérstaklega flugfreyja (sjá https://neistar.is/greinar/a-ad-reyna-union-busting/) og er óþarfi að fjalla mikið meira um þetta mál hér. Tvennt skal þó nefnt:

Ef Icelandair er svo mikilvægt fyrir Ísland og íslenskt efnahagslíf að það má alls ekki fara á hausinn er leiðin EKKI að leyfa forystu félagsins að komast upp með lögbrot. Ríkið á einfaldlega að yfirtaka félagið og reka það á félagslegum grunni til hagsbóta fyrir land og þjóð.

Það er umhugsunarefni að forstjóri Icelandair hafi ekki verið tekinn til yfirheyrslu vegna meintra lögbrota hans, bæði í orðum og gerðum. Það sýnir að lögreglunni er ekki kappsmál að stöðva siðlausa og ólöglega framkomu atvinnurekenda í garð launafólks.


Ferðaþjónustan

Samkvæmt talsmönnum ferðaþjónustunnar skilar þessi atvinnugrein meiri gjaldeyristekjum en sjávarútvegurinn og stóriðjan samanlagt. Það hlýtur því að hafa verið umtalsverður hagnaður á undanförnum árum. Hvar er hann? Kannski í offjárfestingum? Allavega hefur lítið verið lagt fyrir til mögru áranna.

Eftir hrunið 2008 var virðisaukaskattur á ferðaþjónustu lækkaður tímabundið. Bjarni Benediktsson talaði um það fyrir nokkrum árum að nú væri kominn tími til að hækka skattinn aftur, enda væri þetta blómstrandi atvinnugrein með mikinn hagnað. Talsmenn ferðaþjónustunnar ráku upp þvílíkt ramakvein að bergmálar enn og Bjarni neyddist til að hætta við málið.

Ekki verður með nokkru móti séð að atvinnugrein, sem heldur starfsfólki sínu á smánarlaunum, býður þjónustu á okurverði og ekki tímir að greiða sanngjarna skatta til þjóðfélagsins, eigi rétt á að fá fulla endurgreiðslu frá skattgreiðendum þegar á bjátar.


Ágreiningur innan ASÍ

Þegar kóvitið skall á af fullum þunga þóttust atvinnurekendur þurfa að fá ýmsar tilslakanir hjá launafólki. Eitt af því sem var farið fram á var að frysta launahækkanir, sem áttu að koma til framkvæmda 1. maí skv. "lífskjarasamingnum", nú eða fella tímabundið niður mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð svo þeir gætu greitt umsamdar launahækkanir.

Nú er lífeyrissjóðakerfið á Íslandi meira eða minna handónýtt og miðað við hvað ellilíeyrir meirihluta landsmanna er lágur kann að virðast lítil fórn að fella timabundið niður mótframlag atvinnurekenda. Það er samt sem áður alltaf mjög varhugavert að rétta atvinnurekendum litlafingur því þeir eiga það til að halda fingrinum og jafnvel stærri hluta handarinnar líka. Niðurstaða ASÍ með fulltrúum allra landssambanda þess var að þau yrðu að verja laun og réttindi allra eins og kostur væri gegnum þetta kóvit tímabil því að nóg yrði samt um kjaraskerðingar í þjóðfélaginu. Greinarhöfundur tekur heils hugar undir þetta sjónarmið.

Það er leitt að tveir fulltrúar í stjórn ASÍ, sem báðir voru kjörnir á hinu sögufræga þingi 2018, skyldu sjá sig knúna til að segja sig úr stjórninni vegna þessa máls. Látið var liggja að því í fjölmiðlum að einnig væri ágreiningur um afnám verðtryggingarinnar en afnám hennar var ein af forsendum "lífskjarasamningsins". Skv. Drífu Snædal, forseta ASÍ er ágreiningurinn þó ekki meiri en svo að "ASÍ vill koma hömlum á verðtrygginguna og reyna að koma í veg fyrir að reikningnum verði velt yfir á heimilin í nokkru formi, hvort sem það er í gegnum verðtryggð lán, hækkun komugjalda eða skólagjalda eða með öðrum hætti."

Fulltrúarnir, Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur, sáu reyndar eftir úrsögninni og báðu um að fá að fara inn aftur en var hafnað. Reyndar herma áreiðanlegar heimildir að Ragnar hefði etv getað átt afturkvæmt en Vilhjálmur ekki, hvernig svo sem á því stendur.

Það var röng ákvörðun þeirra félaga að segja sig úr stjórninni. Það var alveg jafnröng ákvörðun að taka þá ekki inn aftur. Svona klofningur er engum til góðs og þeim mun verri að hann skuli koma eftir hinn glæsilega sigur 2018. Það er alger óþarfi að efna til óvinafagnaðar meðal stéttasamvinnuaflanna á tímum sem þessum, þar sem ríður á órofa samstöðu launafólks.